Nýtt tímabil en gamlir draugar ganga enn lausir. Tap fyrir Brighton í byrjun tímabils og Mason Mount er meiddur. En Erik ten Hag hefur áður mætt Liverpool með bakið upp að veggnum og haft betur. Vonandi verður þannig líka um helgina.
Ljóst er að ten Hag verður að gera breytingu á byrjunarliði Manchester United vegna meiðsla Mount. Staðan er þó sú að maðurinn sem hefði trúlega tekið sæti hans fyrir viku er farinn. Jafnvel næsti maður þar fyrir aftan líka. Slíkt gæti kallað á breytingu á leikkerfi.
United hefur byrjað síðustu tvo leiki í 4-2-2-2 með Bruno Fernandes og Mount fremsta sem falskar níur. Ef United hefði haldið í það kerfi hefði Scott McTominay líklegast komið inn fyrir Mount. Hann er hins vegar farinn til Napoli fyrir 30 milljónir punda og varð þar með fjórði dýrasti leikmaðurinn í sögu United og sá dýrasti sem alist hefur upp hjá félaginu. Hans verður saknað fyrir það eitt að leggja sig alltaf fram.
Jadon Sancho verður síður saknað því hann sást ekki leggja sama hjartað í leik sinn. Engu að síður hefði hann vel getað leyst þá stöðu sem nú er laus í meiðslum Mount.
Hver kemur inn fyrir Mason Mount?
Í síðustu tveimur leikjum hefur United í, eða upp úr hálfleik, breytt um kerfi, farið í 4-3-2-1 þar sem Joshua Zirkzee hefur komið inn fyrir Mount. Fyrir viku taldi ten Hag sig vera að skipta Mount út þannig hann meiddist ekki meira en nú er ljóst að hann verður ekki með í september. Zirkzee hefur átt ágætar innkomur, þótt hann eyðilegði mark fyrir United á slysalegan hátt gegn Brighton. Rasmus Höjlund er bara nýkominn til æfinga og ekkert varð af því að United keypti þriðja framherjann.
Miklar framfarir Amad Diallo eiga sinn þátt í að óhætt er að láta Sancho fara, jafnvel þótt sá síðarnefndi gæti eflaust keppt um stöðu við Marcus Rashford sem enn er skugginn af sjálfum sér. Á móti má vera ljóst að Amad hefur verið í byrjunarliðinu að hluta til vegna þess að Alejandro Garnacho er enn að komast í leikform eftir að hafa komið seint til æfinga eftir sigur Argentínu í Ameríkukeppninni. Hvort Garnacho taki stöðu annars hvors þeirra í byrjunarliðinu á morgun á eftir að koma í ljós.
Ugarte ekki með leikheimild
United gekk frá kaupunum á Manuel Ugarte, varnartengillið frá PSG, í gærkvöldi. Kaupin voru ekki staðfest fyrr en seint, jafnvel þótt þau hafi verið yfirvofandi síðustu daga. Enskir miðlar hafa ekki tekið af tvímæli um hvort leikheimild fáist fyrir Ugarte fyrir leikinn á sunnudag en svo virðist ekki vera. En hvort sem hann fær leikheimildina er ólíklegt að hann fari beint inn í byrjunarliðið. Hann hefði hins vegar fengið sæti McTominay á bekknum. Eitt af því áhugaverða á morgun verður hver fái það.
Í vörninni er stærsta spurningin hvenær Mathis de Ligt tekur stöðuna af Harry Maguire. De Ligt hefur til þessa komið inn á. Noussair Mazraoui hefur komið sterkur inn í hægri bakvarðastöðuna og heldur henni væntanlega meðan Luke Shaw er meiddur því Diego Dalot er þá vinstra megin. Þetta mun þá líta svona út
Hvað er að frétta af Liverpool?
Stemmingin er enn góð í Liverpool með tvo sigra undir stjórn Arne Slot, arftaka Jürgen Klopp. Eitt af því áhugaverða á morgun verður slagur hollensku þjálfaranna, ten Hag og Slot. Liverpool skartar nýjum leikmanni, ítalska vængmanninum Federico Chiesa, sem miðað við orðsporið fékkst á gjafvirði frá Juventus. Liverpool náði hins vegar ekki að sækja varnartengillið.
Chiesa er komin með leikheimild en Slot sagði hann það nýkominn að hann yrði vart í hópnum nema upp kæmu meiðsli. Curtis Jones mun einn vera meiddur í Liverpool hópnum. Augu einhverra verða þó á Trent Alexander-Arnold, sem gat ekki dulið óánægju sína með að vera skipt út af í síðasta leik.
Spáð uppstilling Liverpool er þessi
Besta leiðin til að lífga upp á móralinn
Ósigur Manchester United gegn Brighton um síðustu helgi dró úr bjartsýninni fyrir komandi tímabil, eftir það sem virst hefur gott fyrsta sumar á leikmannamarkaðinum hjá nýjum stjórnendum. Enginn veit samt betur en ten Hag að ekkert bætir stemminguna í kringum United betur heldur en sigur á Liverpool.
Hann tapaði fyrstu tveimur leikjunum sem stjóri United þegar hann var nýkominn árið 2022, en barði liðið saman í frábæran 2-0 sigur á Liverpool í þriðju umferð á Old Trafford, líkt og nú. Eins átti 4-3 sigurinn í bikarnum í vor sinn þátt að hann er enn í starfi og vitaskuld kom United ferli Amads í gang af alvöru.
Leikurinn hefst klukkan 15:00 á Old Trafford á morgun, sunnudag.
Skildu eftir svar