Erik ten Hag gaf Úrúgvæanum Manuel Ugarte ekki tækifæri í byrjunarliðinu en í stað Casemiro kom Christian Eriksen. Þá var ekkert pláss fyrir Garnacho en þeir báðir höfðu ferðast til Suður-Ameríku í landsliðsverkefni og eflaust einhver þreyta sem því fylgdi.
Varamenn: Bayındır, Evans, Maguire, Casemiro, Collyer, Ugarte, Antony, Garnacho, Wheatley
Fyrri hálfleikur
Fyrstu mínúturnar voru tíðindalitlar en fyrsta skotið kom þegar ungstirnið Tyler Dibling átti skot frá vítateigshorninu sem Onana þurfti að nota alla sína sentimetra í að blaka frá markinu. Eftir þetta færi óx sjálfstraust heimamanna og stuðningsmennirnir tóku enn betur við sér.
Loksins á 15. mínútu komust gestirnir upp völlinn þegar Bruno elti bolta inn fyrir vörnina og framlengdi hann á Amad Diallo sem lúrði út við vítateigslínuna hægra megin. Sá stutti tók góða gagnhreyfingu og kom boltanum fyrir markið. Þar var að finna Joshua nokkurn Zirkzee sem náði rétt að pota í tuðruna með stóru tánni en beint á Ramsdale í markinu.
Aftur kom álitleg sókn hjá United strax í kjölfarið þegar Rashford stakk boltanum inn fyrir á Dalot sem kom askvaðandi og enginn heimamaður virtist átta sig á því að elta Dalot. En fyrirgjöfin var hreinsuð út fyrir teig og hættunni komið hjá.
Eftir þetta breyttist leikurinn í svolítinn körfuboltaleik, Southampton komust í álitlega sókn þegar Kyle Walker-Pieters fór illa með Mazraoui og de Ligt upp við endalínuna en Eriksen tókst að komast inn í sendinguna út í teiginn og hófst þá skyndisókn í hina áttina. Amad Diallo fékk boltann á hægri kantinum og átti laglega sendingu á Bruno sem virtist vera að sleppa inn fyrir en heimamenn náðu að skila sér í vörnina og trufla hann í skotinu.
Leikurinn róaðist örlítið en heimamenn virtust vera að ná betri tökum á leiknum á sama tíma og vörn United virkaði ryðguð og ósamræmd. Þegar hálftími datt á klukkuna ákvað Diogo Dalot að skella sér í glórulausa tæklingu á Dibling á vítateigslínunni og mistókst að ná boltanum og réttilega dæmt víti.
Cameron Archer steig þá á punktinn og hamraði boltann í vinstra hornið en Onana gerði sér lítið fyrir og varði frá honum en boltinn kastaðist upp í loftið af handleggnum á Onana og Archer var fyrstur upp og skallaði í átt að markinu. En Kamerúninn var fljótur upp og greip lausan skallann auðveldlega.
United brunaði í sókn og eftir laglegt spil milli Rashford og Zirkzee sem endði með því að Hollendingurinn átti skot með hægri fæti alveg út við stöngina en Ramsdale náði að slengja löngu tönginni í tuðruna og bjarga í horn.
Úr horninu kom stutt sending á Bruno við vítateigshornið sem kom með gullfallega fyrirgjöf þar sem þrír United menn risu upp en Matthjis de Ligt skallaði boltann í fjær hornið framhjá Englendingnum í hönskunum. 0-1 og tilfinningarússíbaninn á fleygiferð eftir svona fram og til baka bolta. Ekki beint verðskuldað en kærkomið engu að síður.
Eitthvað virtist leikkerfi og skipulag Southampton hökkta við þetta og ekki leið á löngu áður en United fékk skyndisókn þar sem Amad renndi boltanum inn fyrir vörnina á Rashford sem brunaði upp hægri vænginn en skot hans úr þröngu færi var varið vel. En United fékk aðra hornspyrnu út frá því oen að þessu sinni frá hinum hornfánanum.
Boltinn fór yfir allan pakkann á Amad sem renndi boltanum á Rashford sem ákvað að skjóta. Skot hans sveif í fallegan boga út fyrir de Ligt sem byrgði Ramsdale sýn og small að lokum í innanverðri stönginni og söng í netinu. 0-2 og kærkomið að Rashford sé kominn á blað.
Höfundur var ekki búinn að skrifa þessa síðustu málsgrein áður en Dalot fékk stungusendingu sem hann framsendi áfram á de Ligt sem tókst að koma boltanum fyrir sig og virtist auðveldara að skora en Ramsdale var snöggur út úr rammanum og lokaði vel á Hollendinginn.
Fjórum mínútum var bætt við fyrri hálfleikinn en hvorugu liðinu tókst að nýta sér það sem eftir lifði hálfleiksins til að gera nokkuð markvert og virtust okkar menn bara sáttir við að fara inn í hálfleikinn með þessa forystu.
Síðari hálfleikur
Noussair Mazraoui átti fyrsta alvöru tækifæri síðari hálfleiks þegar Bruno átti góða skiptingu yfir völlinn á Diallo sem fékk utan á hlaup frá Marokkómanninum. En í stað þess að koma með fyrirgjöf ákvað hann að reyna að lauma boltanum á nærstöngina en skotið ónákvæmt og fór í hliðarnetið.
Amad Diallo var allt í öllu fram á við og var viðriðinn flestar sóknir okkar. Hann fékk svo ágætisfæri á 57. mínútu þegar honum tókst að þræða sig í gegnum varnarpakka heimamanna en tókst því miður ekki að koma skotinu á rammann. Þetta var svolítið saga leiksins á þessum tímapunkti, mikill darraðadans inn í teignum hjá Southampton en ekki nægilega mikil hætta sem skapaðist út frá því.
En Rashford fékk annað skotfæri eftir klukkutímaleik þegar vítateigsdansinn endaði hjá honum við horn teigsins og mátti Ramsdale hafa sig allan við að verja skotið frá honum yfir slánna.
Russell Martin virtist vera búinn að fá sig fullsaddan af þessari pressu gestanna og gerði fjórfalda skiptingu, inn á komu Lallana, Fraser, Stewart og Cornet fyrir þá Uguchukwo, Dibling, Brereton Dias og Archer. Skýr skilaboð, blása til sóknar síðasta hálftímann.
Sem betur fer tókst það ekki næstu tíu mínúturnar og þá ákvað Erik ten Hag að gera breytingar, inná komu þeir Garnacho, Ugarte og Maguire inn fyrir þá Rashford, Eriksen og Mazraoui. Martinez færði sig þá yfir í vinstri bakvörðinn og Dalot yfir á hægri hlutann. Maguire tókst svo að krækja sér í gult spjald á mettíma fyrir að sparka boltanum í burtu eftir að búið var að flauta.
Það leið svo ekki á löngu áður en Martinez var kippt af velli fyrir Jonny Evans og virtist takturinn í leiknum alveg dottinn úr báðum liðum eftir þessar átta breytingar.
En það næsta markverða átti sér stað á 80. mínútu þegar Ugarte kom boltanum úr vörninni á Garnacho sem brunaði upp meðfram hliðarlínunni en var straujaður af Jack Stephens sem stoppaði mjög álitlega sókn. Stuart Atwell var ekki lengi að rífa upp spjald en það kom sjálfsagt flestum á óvart að hann lyfti rauða spjaldinu upp. En í endursýningu sást mjög greinilega að það var vel réttlætanlegt enda fór Stephens hátt með takkana og hefði hæglega geta farið mun verr fyrir Garnacho.
Síðasta skipting kom svo þegar þrjár mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma þegar Casemiro kom inn á fyrir de Ligt sem virtist stífna upp og fá krampa. Bæði lið virtust vera að spara orkuna síðustu mínúturnar og lítið sem þau buðu upp á það sem eftir lifði af þessum 90 mínútum. Dómarinn hafði hins vegar ekki fengið nóg af þessari skemmtun og bætti við sex mínútum.
Fyrsta færið í langan tíma kom á fyrstu mínútu uppbótartómans þegar Amad komst upp að endalínu og renndi boltanum fyrir markið þar sem Zirkzee komst í skotfæri en boltanum bjargað nánast á línunni. En United tókst þó að lokum að geirnegla sigurinn þegar Casemiro stakk boltanum inn fyrir í hlaup fyrir Dalot sem renndi boltanum frá endalínunni fyrir framan markmannsteiginn og þar kom Garnacho á siglingunni og smurði knöttinn upp í þaknetið. 0-3 og stigin þrjú gulltryggð og leikurinn flautaður af eftir miðju heimamanna.
Pælingar eftir leikinn
Þriggja marka sigur en engin stórveisla þó. Leikurinn hefði geta farið á annan veg ef Onana hefði ekki varið vítið og liðið hefði verið 0-1 undir en iðnaðarsigur og í raun virtust heimamenn aldrei líklegir til afreka í síðari hálfleik. Amad Diallo skein skært í dag og var hættulegasti leikmaðurinn okkar frá fyrstu mínútu.
Vörnin var frekar óörugg framan af leiknum en óx ásmegin og að lokum var nánast öruggt að liðið væri að fara halda hreinu. Ef við rýnum í tölfræðina þá var United 56% með boltann og með 20 skot og þar af helmingur þeirra á rammann. Ramsdale var langbesti leikmaður heimamanna í dag og það var honum að þakka að Southampton endaði ekki með 5 eða 6 mörk á sig.
Á sama tíma takmarkaði United skottilraunir heimamanna en þeir áttu 6 skot yfir allan leikinn. Auðvitað þarf að taka mið af því að við vorum að spila við nýliða í deildinni en eins og við þekkjum mjög vel þá eru engir leikir í deildinni auðveldir og hvað þá útileikir.
Þá var einnig mjög ljúft að halda hreinu og vera nú komnir með tvö hrein lök í fyrstu fjórum umferðunum. Næsti leikur er svo gegn Barnsley í deildarbikarnum á þriðjudaginn. Góðar stundir!
Helgi P says
Bara tímaspursmál hvenar við fáum á okkur mark í þessum leik
Björn Friðgeir says
Betra svona samt Helgi, ekki satt?
Helgi P says
Fín sigur en við verðum að fara spila betri fótbolta
Egill says
Skelfileg spilamennska þangað til Onana varði vítið, þá einhvernvegin tókum við völdin og mér fannst þetta eiginlega aldrei spurning eftir fyrsta markið. Reyndar varð ég ekki rólegur fyrr en þriðja markið kom því við erum vanir að fá á okkur mörk undir lok leikja og fara í panikk, en ekki í dag. En mikið rosalega eru Southampton samt lélegir.
Flott þejú stig sem við þurfum að byggja ofaná, við þurfum að vinna alla leiki fram að næsta landsleikjahléi að minnsta kosti.
Nb. Er ég einn um að finnast brotið hjá Dalot vera fyrir utan teig?