Eftir 0-3 skellinn síðastliðinn sunnudag gegn Tottenham á Old Trafford er komið að næsta verkefni. Manchester United sækir Porto heim á Drekavelli í Evrópudeildinni annað kvöld. Framundan eru afar þýðingarmiklir dagar eftir slæmt gengi undanfarið og þá sérstaklega fyrir stjórann, Erik ten Hag. Enskir fjölmiðlar virðast vera nokkuð sammála um það að starf hans sé ekki í hættu að svo stöddu en segja að sama skapi að leikirnir tveir sem eftir eru fram að landsleikjahléi gætu skipt sköpum varðandi framtíð Hollendingsins í starfi.
Viðureign Porto og Manchester United á morgun verður sú níunda í sögunni. Sú fyrsta var árið 1977 en leita þarf nokkuð mörg ár aftur í tímann til að finna síðustu viðureign þessara liða. Það var í Meistaradeildinni árið 2009 þar sem Cristano nokkur Ronaldo skoraði eftirminnilega með alvöru þrumufleyg langt utan af velli á Drekavöllum. Mark sem skaut Manchester United þar með í undanúrslit Meistaradeildarinnar.
Líklegt byrjunarlið Manchester United
Það bárust nokkuð góð tíðindi í morgun þegar staðfest var að meiðsli Kobbie Mainoo væru ekki alvarleg. En hann fór meiddur af velli í tapinu gegn Spurs. Harry Maguire æfði einnig í morgun en hann var fjarverandi vegna meiðsla á sunnudaginn. Viðbúið er að Mason Mount verði fjarverandi á morgun vegna meiðsla sem hann hlaut í síðasta leik, ætti þó að vera klár í deildarleikinn gegn Aston Villa á sunnudaginn. Ég leyfi mér að spá því að varnarlínan verði óbreytt en það verði breytingar inn á miðjunni sem og framar á vellinum.
Porto
Porto fékk sæti í Evrópudeildinni eftir að hafa lent í 3. sæti á síðustu leiktíð í portúgölsku deildinni á eftir Sporting og Benfica. Á sama tíma og United missteig sig á heimavelli gegn Twente í síðustu viku þá lentu Porto menn í miklu basli í Noregi. Þar mættu þeir Bodo/Glimt og þurftu að sætta sig við 3-2 tap. Þrátt fyrir þetta tap ættu þeir að koma nokkuð brattir inni í leikinn annað kvöld. Þeir hafa farið afar vel af stað í deildinni heima fyrir í haust, eru þar í 2. sæti með 18 stig úr 7 leikjum. 4-0 heimasigur á Arocua var niðurstaðan um helgina svo stemmningin ætti að vera nokkuð góð í herbúðum Porto.
*Á myndina vantar Zé Pedro sem spilar í hjarta varnarinnar hjá Porto ásamt Nehuen Perez.
Flautað verður til leiks á Drekavöllum kl. 20:00 að staðartíma, kl. 19:00 að íslenskum tíma. Dómari leiksins kemur frá Þýskalandi og heitir Tobias Stieler. Ten Hag hefur tekist í sinni stjóratíð hjá Manchester United að ná í góð úrslit þegar hann er kominn með bakið upp við vegg. Hann er svo sannarlega í þeirri stöðu núna og er vonandi að við fáum að sjá alvöru frammistöðu annað kvöld.
Helgi P says
Ætli þetta verður ekki en eitt tapið hjá okkar mönnum í kvöld