Þá er komið að því að enski boltinn byrjar að rúlla aftur eftir landsleikjahlé. Það er að því er virðist ár og öld frá því United spilaði síðast keppnisleik en sá leikur kom á Villa Park í markalausu og bragðdaufu jafntefli við strákana hans Emery.
Þar á undan sáum við 3-3 jafntefli við FC Twente Enschede og 0-3 tap fyrir Tottenham í hreint út sagt ömurlegri viku fyrir okkar menn. Staðan á liðinu er ekkert sérstök, liðið situr í neðri hluta deildarinnar með 8 stig eftir 7 leiki og -3 í markatölu. Gjörsamlega óviðunandi með öllu og funheitt undir stjóranum.
Í Evrópukeppninni er svipaða sögu að segja en liðið hefur gert tvö jafntefli og er í 21. sæti af 36 liðum. Það þarf því eitthvað að fara að gerast og það fljótt ef við eigum ekki að sjá nýjan mann í brúnni fyrir jól. Markaskorun, færasköpun og barátta leikmanna er hvergi nærri ásættanleg fyrir lið af þessu kaliberi og ekki nóg að fela sig bakvið meiðslavandræði eða aðrar afsakanir.
Brentford
Gestirnir hafa ekki riðið feitum hest frá Old Trafford og síðustu þrír leikir þar hafa endað með sigri United. Hins vegar hafa Brentford farið mjög geyst af stað í deildinni í ár og eru með 10 stig eftir 7 leiki en hafa leikið við þrjú topplið á útivelli, Tottenham, Manchester City og Liverpool og tapað þeim öllum. Hins vegar hefur heimavallarárangur þeirra verið með besta móti, þrír sigrar og eitt jafntefli. Þá hafa þeir líka byrjað leikina með krafti og skorað mark á fyrstu eða annarri mínútu í síðustu fjórum leikjum!
Yoane Wissa skoraði gegn Manchester City eftir 22 sekúndur, Bryan Mbeumo skoraði gegn Tottenham eftir 22 sekúndur og gegn West Ham eftir 38 sekúndur og nú síðast skoraði Nathan Collins eftir að 77 sekúndur voru liðnar af leiknum gegn Úlfunum.
Það lítur því út fyrir það að United þurfi að leggja áherslu á að verja markið sitt fyrstu tvær mínúturnar ef við eigum að fá eitthvað úr þessum leik. Hér mætast þó tvö ólík lið, United hefur ekki unnið í síðustu fimm tilraunum sínum og einungis skorað 4 mörk í þessum leikjum á meðan Brentford hefur 11 mörk í síðustu fimm þrátt fyrir að hafa þurft að heimsækja City og Tottenham á þessum tíma. United hefur aftur á móti haldið hreinu í fjórum deildarleikjum á tímabilinu á meðan Brentford hafa ekki haldið hreinu síðan á síðasta tímabili.
Rétt eins og Manchester United þá glíma gestirnir við töluverð meiðsli en Wissa, Henry, Hickey, Jensen, Gomes, Dasilva og Rodrigues eru allir frá og taka ekki þátt á morgun. Af þeim sökum spái ég liðinu svona:
Í markinu verður Mark Flekken og fyrir framan hann verður fjögurra manna varnarlína með þá Ajer, Pinnock, Collins og van den Berg. Á miðjunni verða Janelt og Norgaard með þá Lewis-Potter og Bryan Mbeumo á vængjunum. Framlínuna leiðir Þjóðverjinn Kevin Schade og Mikkels Damsgaard líklega í holunni fyrir aftan hann.
Það er þó hugsanlegt að Wissa nái leiknum og verði búinn að jafna sig en þá væri líklegra að byrji á bekknum
Manchester United
Hvar á að byrja? Liðið er í ræsinu ef við skoðum einungis stöðutöflurnar í deildinni og Evrópu. Það er langt og bratt að klifra upp þessar töflur og miðað við spilamennsku og úrslit síðustu leikja þá er erfitt að vera vongóður. En þrátt fyrir að liðið hafi bætt margt frá síðustu leiktíð, t.a.m. varnarlega, er himinn og haf á milli væntinga og uppskeru.
Í vikunni bárust fréttir þess efnis að Kobbie Mainoo yrði frá vegna meiðsla í einhverjar vikur og þá er síðasti markaskorari United það einnig, miðvörðurinn Harry Maguire. Vinstri bakvarðar meiðsladúóið okkar, Luke Shaw og Tyrell Malacia eru báðir að koma til baka eftir meiðsli en eru ólíklegri til að koma við sögu um helgina.
Aðrir á meiðslalistanum eru Alejandro Garnacho, Mason Mount, Leny Yoro og nýjasti meðlimur listans Manuel Ugarte. Það er því ekki beint úr miklu að moða þegar kemur að liðsvali fyrir morgundaginn. Því spái ég að Erik Ten Hag hendi í þessa uppsetningu:
Það verður ánægjulegt að sjá Amad Diallo byrja en hann hefur skapað fleiri færi en nokkur annar leikmaður liðsins þrátt fyrir að hafa einungis spilað um 54% af mínútum sem í boði voru. Rashford hefur líka verið að ná upp fyrra formi, þó átt misjafna leiki en mestu mun muna um framherjana okkar, Zirkzee og Hojlund.
Sá hollenski hefur ekki verið nógu lunkinn við að koma knettinum í netið í fjarveru þess danska en sá hefur einmitt verið frá vegna meiðsla. Eigi liðið að rétta úr kútnum er algjörlega nauðsynlegt að þessir leikmenn reimi á sig markaskóna og farið að klára færin sem þeir fá.
United hefur einungis skorað fimm mörk í deildinni en hafa xG upp á rúmlega 11 svo færanýting er langt frá því að vera boðleg. Það mun því mikið vera undir í leiknum á morgun og gífurlega mikilvægt fyrir okkar menn að tryggja örugg þrjú stig en langt er síðan sú varð raunin. Það er ekki lengur hægt að tala um skyldusigur en má segja að hver leikur sé í raun bikarleikur núna fyrir Erik ten Hag þar sem þolimæði stuðningsmanna virðist hanga á bláþræði.
Eftir þennan leik tekur ferðalag til Tyrklands við þar sem liðið heimsækir Fenerbache í Evrópudeildinni. Svo liggur leiðin í heimsókn til Lundúna á heimavöll Hamranna í West Ham en eftir það taka fjórir heimaleikir í röð við. Leicester City (í bikar), Chelsea, PAOK Thessaloniki (frá Grikklandi) og Leicester aftur (í deild). Það kemur í ljós hvort þessi röð leikja verði banabiti Erik ten Hag eða hvort liðið ákveður að girða sig í brók og brjóta upp vanann og fara vinna einhverja leiki.
Leikurinn hefst klukkan 14 á morgun og að þessu sinni heldur Samuel Barrott utan um vafamálin og dómaraflautuna.
Helgi P says
Vá hvað þetta liðsval hjá Ten Hag er orðið þreytt þetta er alltaf það sama leik eftir leik
Red says
Hvað eru sjúkraþjálfarar liðsins að pæla, af hverju er De Light ekki vafinn um hausinn.
Tómas says
Fínn leikur. Var hrifinn af frammistöðu Højlunds. Fyrir utan markið þá hélt hann boltanum oft vel upp og var flott spil í honum. Fleiri með góða frammistöðu bara jákvætt.
Fannst þetta sanngjarn sigur, vantar einna helst að gera betur framm á við í lofandi stöðum.
Einar says
Lokið síðunni eða fáið einhverja til að gera þetta fyrir ykkur.
Einar says
Takk samt fyrir ykkar þrotlausu vinnu hingað til en það er kannski kominn tími á vaktaskipti.
birgir says
Kannski eðlilegt að menn séu hættir að nenna þessu. Flestir hoppuðu á gullvagminn á sínum tíma vegna þess að liðinu gekk vel.
Áhuginn fjarar svo út í takt við gengi liðsins emda sjá menn heldur ekki fram á betri tíð mæstu árin.
Helgi P says
Hvaða afsökun kemur Ten Hag með í dag
Snjómaðurinn ógurlegi says
Er þessi síða hætt?
Vantar alveg umjöllun um að þið eruð að tapa fyrir West Ham 😆
Rasshaus says
Ha ha ha eru þið hættir að tala um Man Utd hér inni…….
Oddy says
Óþarfi að skjóta á þá ágætu menn sem hafa séð um siðuna.
Ef maður á að vera sanngjarn þá var fyrri hálfleikur í dag frábær. En nýtum engin færi og því for sem for.
Vitið var djók. Aldrei víti
Ten Haag má fara – það er bara þannig.
Helgi P says
Það væri fínt að fá að vita hvort þessi síða sé hætt
Liverbird says
“If you can’t support us when lose or draw, don’t support us when we win.”
Bill Shankly
Sindri Guðjónsson says
Nú er nýbúið að reka Erik ten Hag og þessi síða ætti að vera logandi.
Helgi P says
Þessi síða er bara dauð og búinn að vera það lengi því miður en það er flott að það sé loksins búið að reka Ten Hag
Sindri Guðjónsson says
Smá samkvæmisleikur. Af þeim stjórum sem Utd hefur haft síðan Ferguson hætti… hver var frambærilegastur eða skástur eða minnst afleitur?
Snorkur says
Held að reka ETH hafi verið nauðsynlegt.. því miður var lengi á vagninum.
Einhverjir óskastjórar til að taka við ?