Ruben Amorim hefði ekki getað óskað sér betri byrjunar – eftir 81 sekúndu hafði Marcus Rashford komið Manchester United yfir. En eftir sem á leið sáust gamlir taktar – það er hugmyndasnauður sóknarleikur og óheppnir andstæðingar.
Amorim hafði fyrir leikinn gefið til kynna að hann myndi láta vaða í 3-4-2-1 kerfi sitt. Í liðinu yrðu gamalkunnug nöfn mögulega á nýjum slóðum. Niðurstaðan var að Amorim hneigðist til leikmanna sem hann hafði haft meiri tíma til að vinna með, það er þeirra sem ekki tóku þátt í landsleikjum vikunnar.
Vart þarf að taka fram að Andre Onana byrjaði í markinu. Þriggja manna vörnina mynduðu, frá vinstri til hægri, Johnny Evans, Mathijs de Ligt og Noussair Mazraoui. Diego Dalot var vinstri kantbakvörður en Amad hægra megin. Ruud van Nistelrooy hafði spilað Casemiro og Manuel Ugarte á miðjunni með góðum árangri en Amorim valdi Christian Eriksen í stað Ugarte. Bruno Ferndandes og Alejandro Garnacho voru fyrir aftan Rashford, sem fékk traustið fremstur.
Eftir rúma mínútu geystist Amad upp hægri kantinn, skildi tæklandi varnarmenn Ipswich eftir í reiknum, gaf fyrir og Rashford stakk tánni inn meðan markvörður Ipswich hikaði. Samlíkingar byrjuðu strax, Rashford skoraði eftir þrjár mínútur í fyrsta leik Ole Gunnar Solskjær þegar Cardiff var gersigrað.
En lengra náðu samlíkingarnar ekki. Ipswich náði vel saman sem lið og náði heilt yfir í leiknum að loka á sendingar United upp í framlínuna, svo að segja þar til í blálokin. Amorim reyndi að hrista upp í hlutunum í seinni hálfleik, þannig kom Rasmus Höjlund inn fyrir Rashford. Heldur betur gekk að finna Danann en það skilaði engu frekar. Joshua Zirksee kom inn um leið. Þjálfarar United sáust gefa honum skýrar leiðbeiningar um að vera tilbúinn í baráttu, börðu krepptum hnefanum í flatan lófa, en Zirksee var jafn týndur á vellinum og karlmaður í Kringlunni á Þorláksmessu.
Færin Ipswich í hag
Tvisvar í leiknum varði Onana algjör dauðafæri frá Ipswich, enda var það svo að í lok leiks stóð Ipswich betur að vígi með 1,6 vænt mörk á móti 0,8 hjá United. Vart er hægt að segja að United hafi fengið annað skotfæri sem eitthvað kvað að en það sem Rashford skoraði úr. Ipswich jafnaði rétt fyrir leikhlé, Omar Hutchinson með glæsilegt skot utan teigs upp í vinkilinn fjær. Það var langt í frá flóknasta færi Ipswich, en sannarlega verðskuldað.
United var mun meira með boltann, átti alls 650 sendingar gegn 424 og hærra hlutfall sem rataði á samherja. Ipswich virkaði hins vegar vel sem lið, færslurnar innan þess voru góðar og pressan oft ágætlega útfærð, meðan United var áfram sundurlaus her með hlaupum eða sendingum á röngum tíma.
Samdómur um að Onana hafi verið bestur
Ekki er hægt að dæma þjálfara af fyrsta leiknum. Amorim ræðst í að breyta leikstíl á miðju tímabili, sem er ærið verk. Það sem er bjart fyrir honum er að meiðslunum er að fækka. Luke Shaw kom inn fyrir Evans á 56. mínútu í gær, sem eru hans fyrstu mínútur síðan gegn Luton um miðjan febrúar. Tyrrell Malacia var í hóp, í fyrsta sinn í eitt og hálft ár. Á móti sást ekkert til Lisandro Martinez. Með hann og Harry Maguire meidda er úrvalið af miðvörðum takmarkað, en á móti er Leny Yoro loks mættur til æfinga.
Onana hefur verið útnefndur maður leiksins hjá United víðast hvar, enda bjargaði hann liðinu frá tapi. Amad leysti nýja stöðu vel, í honum sást vilji og barátta, líkt og þegar hann rændi boltanum áður en hann skoraði seinna mark sitt gegn PAOK um daginn. Mazraoui var nokkuð traustur, en hann sýndi líka boltameðferð og sendingagetu umfram flesta aðra varnarmenn.
United á heimaleik gegn Bodo/Glimt í Evrópudeildinni á fimmtudagskvöld. Væntanlega heldur Amorim áfram að breyta liðinu eftir því sem hann fær fleiri æfingar. Væntanlega reynir hann fyrr en síðar að velja örvfættan leikmann í vinstri vængbakvörðinn. Rashford skoraði vissulega en gerði annars lítið umfram Höjlund til að réttlæta byrjunarliðssætið. Eftir ágætar vikur Casemiro og Ugarte var furðulegt að stía þeim í sundur. Ugarte hlýtur að verða byrjunarliðsmaður, en spurningin er meiri með Brasilíumanninn.
Helgi P says
Það þarf að losa svona 80% af þessum leikmönnum þvílíkt drasl sem er búið að kaupa inn