Manchester United leikur gegn Manchester City á borgarleikvanginum í Manchester á morgun. Hvorugu liðinu hefur gengið vel að undanförnu – sem að minnsta kosti ekki United í óhag. Meiðslalisti City er töluvert lengri en hjá United um þessar mundir.
City er með þriðja lakasta árangurinn í síðustu fimm leikjum í ensku úrvalsdeildinni, hefur tapað þremur, unnið einn og gert eitt jafntefli. Liðið er þar með í hóp með liðum sem almennt er ekki eftirsóknarvert að vera innan um, eins og Southampton, Leicester, Wolves og Tottenham. Árangur United er illskárri, tveir sigrar, tvö töp og jafntefli. Til að bæta gráu ofan á svart er City aðeins með einn sigur í síðustu tíu leikjum.
City stendur þó mun betur í deildinni, er í 5. sæti með 27 stig og myndi með sigri á morgun ná Arsenal, sem er þriðja, að stigum. United er á móti í 13. sæti með 19 stig. Sigur kæmi liðinu ekki nema upp um eitt sæti, það yrðu sætaskipti við Tottenham.
United tapaði með klaufagangi fyrir Nottingham Forest á Old Trafford fyrir viku. Liðið vann síðan Viktoria Plzen í Evrópudeildinni í Tékklandi í vikunni. Þar var engin flugeldasýnin, þótt seinni hálfleikurinn væri virkilega fínn.
Af þeim sem meiddir hafa verið hjá United er það helst að frétta að Johnny Evans hefur verið við æfingar í vikunni. Luke Shaw er meiddur.
Ruben Amorim hefur fiktað með byrjunarliðið í hverjum leik síðan hann tók við í lok nóvember, enda þörf á að halda mönnum ferskum í gegnum mikið leikjaálag því tveir leikir viku eftir viku geta sagt til sín. Rasmus Höjlund gerir trúlega tilkall til byrjunarliðssætis eftir að hafa leikið lykilhlutverk í Tékklandi.
Meiðsli hafa haft sitt að segja um vandamál City. Mestu munar um Rodri, sem er frá út tímabilið. Rico Lewis verður ekki með á morgun og Manuel Akanji, John Stones og Nathan Ake eru allir tæpir svo varnarlínan er brothætt. Ederson og Stefan Ortega hafa skipt með sér markvarðastöðunni í síðustu leikjum. Mateo Kovacic og Phil Foden eru heilir.
Leikurinn hefst klukkan 16:30.
Helgi P says
Þetta er bara leikur sem verður að vinnast