Manchester United heimsækir Tottenham í fjórðungsúrslitum ensku deildarbikarkeppninnar í kvöld. Bæði lið fögnuðu frábærum en ólíkum sigrum í deildinni á sunnudag. Umræðan hjá United hefur í vikunni þó mest snúist um framtíð Marcus Rashford.
Eftir mánuð í starfi hefur Ruben Amorim ákveðið að taka sinn fyrsta stórslag. Marcus Rashford og Alejandro Garnacho voru báðir settir út úr hópnum gegn Manchester City á sunnudag. Báðir geta státað af mörkum og stoðsendingum á tímabilinu, en ekki endilega liðsframlagi en milli línanna mátti lesa gagnrýni á áhrif þeirra inni í hópnum og frammistöðu á æfingum.
Garnacho var í hópnum sem fór til Lundúna í gær og hefur borið harm sinn, enn sem komið er, í hljóði. En þar var enginn Rashford. Veikindi eru sögð hafa átt sinn þátt í að hann var ekki með gegn City, hann æfði ekki daginn fyrir leik en gerði það hins vegar á leikdegi.
Hvað er að gerast með Marcus Rashford?
En það eru vísbendingar um að vík hafi myndast milli vina. Áreiðanlegir miðlar hafa sagt frá því að United sé tilbúið að selja Rashford strax í janúar. Undanfarin misseri hafa þeir sagt frá því undir rós að ekki væri allt eins og það ætti að vera hjá Rashford. Markaþurrðin í fyrra gaf það líka til kynna.
Opinberu voru fréttirnar af djammi, sem hann var bekkjaður fyrir. En á móti var bent á að leikmenn áður fyrr hefðu gert verri hluti án þess að það væri á allra vörum en gat líka bent til að hann væri uppteknari af öðrum hlutum en brauðstritinu. Í öðrum fréttum var tekið fram að Rashford bæri mjög á sér tapleiki á æfingum. Það má túlka sem metnaðargirni eða að hann væri fúllyndur. Eins kom fram að Rashford hefði oftar en einu sinni skipt um talsmann.
Í það minnsta er á hreinu að Rashford hefur ekkert gert til að réttlæta risasamninginn sem hann fékk sumarið 2023. Þegar leið á síðasta vetur myndaðist sú tilfinning að nýtt félag og umhverfi gæti gert bæði honum og United gott.
Hvaða kosti á Rashford?
Það hefði verið hægt að sópa ýmsu undir teppið eftir síðustu helgi ef Rashford sjálfur hefði ekki drifið sig í viðtal hjá Henry Winter. Winter var áður yfirmaður knattspyrnuskrifa hjá einu stórblaðanna, Daily Telegraph, en lenti í niðurskurði í fyrravor. Hann hefur síðan starfað sjálfstætt. Það endurspeglar furðulega stöðu, jafnvel örvæntingu, að Rashford hafi farið beint í viðtal hjá honum, þar sem hann sagðist vera tilbúinn að skoða ný verkefni. Viðtal sem félagið vissi ekki af fyrr en stuttu áður en það birtist, sem er ekki venjan. Það segir líka beint út að Rashford hafi tekið því virkilega illa að vera settur út úr hóp og hringt strax í umboðsmanninn með skipun um að finna honum nýtt lið.
Það væri ekkert mál ef hann hefði spilað vel undanfarið ár. En það er alls ekki staðan. Evrópsku stórliðin hafa ýmist ekki áhuga eða ekki efni á honum, hvorki laununum eða líklegu kaupverði. Lausnirnar gætu verið Sádi-Arabía eða Bandaríkin, sem væri stórt skref niður fyrir 27 ára gamla enska stjörnu. Til að bæta gráu ofan á svart sagði The Athletic í gær að Sádunum þætti Rashford ekki nógu góður. En það eru til fleiri lið til dæmis Chelsea.
Það virðist því fokið í flest skjól. Í fljótu bragði virðist Rashford ekki eiga leið en bíta í það súra, að reyna að hlýða Amorim og leggja sig fram á vellinum – fái hann á annað borð tækifæri til þess. Hinn kosturinn er að vera áfram í fýlu með mögulega stigvaxandi refsingum, á borð við að vera látinn æfa einn úti í horni. Stuðningsmenn United eru tilbúnir að elska hann sem Manchester-strákinn, en þeir álíta hann ekki stærri en liðið eða nýja þjálfarann eftir frammistöðu síðustu 18 mánaða.
Hvað er að frétta af öðrum?
Í öðrum fréttum þá er Mason Mount meiddur. Hann átti að fara í skoðun í gær til að meta alvarleikann þannig í kvöld gæti verið opinberað hve lengi hann verði frá. Noussair Mazroui meiddist líka gegn City og er tæpur. Luke Shaw er áfram frá.
United vann City á borgarleikvanginum á sunnudag 1-2, með mörkum sem Amad Diallo skóp. Aðrar fréttir vikunnar hafa snúist um miklar framfarir Amads og hvernig Rashford og Garnacho geti tekið hann sér til fyrirmyndar.
Deildarbikarinn hefur oft verið nýttur til að hvíla leikmenn og gefa öðrum tækifæri. Amorim hefur verið duglegur við að hreyfa liðið til þessa og spurningin er hvað hann gerir í kvöld. Þannig hefur Altay Bayindir verið í markinu í báðum deildarbikarleikjunum í haust. En Amorim gæti líka lagt allt í deildarbikarinn í von um titilinn, eins og forverar hans gerðu.
Eftir erfiðar vikur snérist gæfan Tottenham í hag á sunnudag þegar liðið burstaði Southampton 5-0. Það kostaði stjóra Southampton vinnuna. Bakvörðurinn Destiny Udogie meiddist í leiknum og er tæpur. Spurs hefur verið í vandræðum með vörnina því þeir Ben David, Cristian Romero, Micky van de Ven eru meiddir, sem og markvörðurinn Guglielmo Vicario. Sóknarmennirnir Mikey Moore, Wilson Odobert og Richarlson eru líka frá. Yves Bissouma hefur afplánað leikbann en Rodrigo Betancur er í banni.
Skildu eftir svar