Fjögur af Glazer-systkinunum sex heimsóttu Vopnafjörð í sumar í boði Jim Ratcliffe sem styður þar við uppvöxt villta Atlantshafslaxsins í gegnum félagið Six Rivers.
Austurfrétt greinir frá því að bræðurnir þrír: Joe, Avram og Bryan, sem hafa verið virkastir fjölskyldunnar í stjórnun United, hafi komið austur ásamt systur þeirra Darcie. Þau hafi reynt fyrir sér í veiði og notið náttúrufegurðar í Vopnafirði í nokkra daga.
Heimsókn þeirra var um miðjan júlí en sex einkaþotur voru um stund á flugvellinum á Egilsstöðum. Ein þeirra er skráð í Flórdía þar sem fjölskyldan hefur bækistöðvar sínar. Jim Ratcliffe var sjálfur á svæðinu sömu helgi en hann sendi enska landsliðinu kveðju úr veiðihúsinu við Selá.
Ratcliffe hefur í tæp 10 ár keypt jarðir í Vopnafirði og víðar á Norðausturlandi. Landakaupin eru hluti af vinnu hans við að vernda villta Atlantshafslaxinn. Stofninn hefur minnkað verulega undanfarna áratugi en vísindamenn hafa ekki náð að festa fingur á hvers vegna. Rannsóknir þeirra hafa verið kynntar á nær árlegum ráðstefnum hérlendis og var sú síðasta haldin á Vopnafirði í vor. Ratcliffe hefur setið nokkrar þeirra, þó ekki þá síðustu.
Ratcliffe er fastagestur eystra á hverju sumri. Einkaflugvélar hans lenda á Egilsstöðum áður en hann flýgur til Vopnafjarðar með þyrlu. Hefð er til dæmis fyrir því að hann komi um Jónsmessurnar þegar veiði í ánum hefst.
Skildu eftir svar