Brúnin hefur lyfst heldur á stuðningsmönnum Manchester United eftir fyrstu leiki nýs árs þótt afrekin séu ekki stærri en tvö jafntefli. En það sem raunverulega skilur milli feigs og ófeigs í enska boltanum er hvort viðkomandi spili vel á köldu kvöldi í Stoke. Á morgun verður prófraunin á janúarkvöldi í Manchester gegn Southampton.
Stuðningsmenn United hafa glaðst yfir jafntefli gegn Liverpool og sigri í vítaspyrnukeppni gegn Arsenal í bikarnum. Báðir leikirnir voru á útivelli en sannarlega úrslit sem United þáði eftir þrjú töp í deildinni í röð, þar af tvö á Old Trafford.
Það er samt rétt að hafa fæturna á jörðinni, samanlagt var xG-gildi leikjanna um það bil 6-2. United átti það kannski inni eftir að hafa farið illa út úr Bournemouth leiknum fyrir jól. En mörkin eru það sem telja og kannski hefur það jákvæðasta verið að sjá hjarta í liðinu, eins og eftir að það lenti manni undir gegn Arsenal.
En jafntefli eru lítils virði og verða fljótt gleymd ef United tekst ekki að vinna Southamtpton sem er rígbundið við botninn með sex stig, sem er með því verra sem deildin hefur séð.
Janúarglugginn
Það er umrót á United miðað við fréttir. Marcus Rashford hefur ekki sést í mánuð og ferill hans hjá félaginu virðist einfaldlega búinn. Líklegast virðist að hann fari til AC Milan. Napoli er klárlega að míga utan í Alejandro Garnacho. Í það minnsta umboðsmenn hans og mögulega hann sjálfur virðast ekki afhuga ítalska liðinu, trúlega í von um feitar greiðslur og United hefur í það minnsta ekki skellt á þá dyrunum en virðist gera kröfur sem eru langt umfram það sem Napoli virðist tilbúið að borga. Þá verður ekki mikið um að vera.
Anthony er áfram orðaður við önnur lið en ekkert hefur enn hreyfst þar. Það sama gildir um Casemiro. Í kringum Christian Eriksen og Victor Lindelöf er allt hljótt. Samningar þeirra tveggja síðasttöldu renna út í sumar og eru því væntanlega falir ef tilboð berst. Toby Collyer var tekinn fram yfir miðjumennina þegar fríska fætur þurfti gegn Arsenal og átti frábæra innkomu. Til dæmis var ánægjulegt að sjá hann spretta fram í þeim fáu skyndisóknum sem United fékk undir lokin og skapa pláss fyrir samherjana með hlaupalínum sínum.
Sem stendur er ekkert sem hönd á festir um þá sem orðaðir eru við félagið. Trúlegustu sögurnar eru Ruben Amorim vilji fá vinstri kantbakvörð en þar eru engin nöfn. Ef Rashford fer gæti verið þörf á sóknarmanni en þar er einnig fátt um sögur. Randal Kolo Muani, sem helst var orðaður við liðið, virðist vera farinn annað. Frumskilyrði virðist að leikmenni verði seldir eða lánaðir til að fjármagna þá sem gætu komið inn.
Dalot í leikbanni
En fyrst er það Southampton á morgun. Diogo Dalot er í banni eftir brottvísunina gegn Arsenal. Hann hefur verið fastamaður á vinstri kantinum. Tyrrell Malacia kom inn í þá stöðu seint í leiknum á sunnudag, hefur nokkrum sinnum spilað hana og virðist því líklegasti kosturinn.
Altay Bayindir átti stórleik þegar á leið sunnudaginn en varla nóg til að Andre Onana verði ekki áfram í byrjunarliðinu í úrvalsdeildinni, eins og öllum leikjum tímabilsins. Harry Maguire var veikur í aðdraganda bikarleiksins en lagði sig allan fram í 90 mínútur og er vonandi búinn að ná sér alveg.
Southampton vann sinn fyrsta leik undir stjórn Ivan Juric um helgina, gegn Swansea úr B-deildinni í bikarnum. Jack Stephens er meiddur og því verður Southampton án fyrirliða síns. Ross Stewart og Flynn Downes eru einnig á meiðslalistanum.
Leikið er á Old Trafford og hefst leikurinn klukkan 20:00
Einar says
Þvílík martröð. Hvernig erum við var svona opnir? Heppnir að vera ekki nokkrum mörkum undir? Taktísk snilld áfram hjá Amorim
Tómas says
Haha hvað gerði Amorim þér? Vissulega lengi vel ekki góður leikur en Southampton pressaði vel.
Amorim notar bekkinn vel eins og oft áður og bíður ekki of lengi með skiptingar. Flestir sem komu inn höfðu áhrif.
Yoro átti hörmulegan dag. Deligt solid eins og í síðustu leikjum.
Einar says
Hefur þú ekki séð frammistöðurnar okkar síðan hann tók við? Heppnir i gær að hafa verið að spila við Southampton. Hefðu flest önnur lið verið komin í þrjú fjögur-núll. Yoro var skelfilegur. Það er ekki hægt að taka það af stráknum en miðjan var eins og gatasigti. Það voru meiðslin hjá Dibling sem breyttu svo leiknum og gunguskapur í þjálfara southampton. Sem betur fer.
Tómas says
Já hef gert það og verið ánægður með margt sem ég hef séð. 3 – 4 núll er bara bull í þér. Því þú greinilega kýst að taka bara eftir því sem styður viðhorf þitt sem virðist hafa verið í gangi frá upphafi. Við fengum líka fjölmörg færi til að skora úr áður en mörkin komu. Og undir lokin er þetta ekkert nema sanngjarn sigur.
Held að það hafi verið talsverð þreytta í liðinu sérstaklega á miðjunni í liðinu og það hafi átt stóran þátt í að við náðum ekki betri tökum á leiknum framan af. Þú mannst liðið erfiðaði einum færi og vann síðan á útivelli í seinasta leik.
Séð frammistöðurnar? Ertu að líta fram hjá seinustu tveimur kæmi mér svo sem ekkert á óvart. Gunguskapur í þjálfaranum í Southampton!? þú ert greinilega mikill stjóri veist líka betur en stjóri Southampton. Einmitt þetta snerist bara um það og ekkert hvað United gerði enda er það ómögulegt hjá þessum skítastjóra sem dettur í hug að hafa 3 vörn í uppspilinu bara svona eins og mjög mörg lið í deildinni. Hvernig dettur honum líka í hug að nota bekkinn það skilaði náttúrulega engu.
Einar says
Rólegur á strámönnunum.
Ég veit ekki hvað þú ert að horfa á þegar þeir spila. Ekki finnst mér það glæsilegt. Þeir náðu sterkum jafnteflum í síðustu 2 leikjum. Rosa flott. Hann verður farinn innan 3-4 ára sem betur fer.
Helgi P says
Þurfum við ekki leyfa Amorim að fá inn leikmenn sem hentar hans leikstíl hann er að taka við skíta liði sem þetta united lið er orðið
Spekingurinn says
Minni á að við sigruðum ekki Liverpool og þrátt fyrir fína frammistöðu þá töpuðust 2 stig þar.
Á 90 mín komst liðið yfir gegn Southampton sem hefðu auðveldlega getað aukið forskot sitt fyrr í leiknum. Var of mikið að biðja um þægilegan heimasigur gegn liði sem hefur afrekað 6 stig í 20 leikjum? Gegn hinum 18 liðunum hefði þessi frammistaða skilað tapi.
Eða hvað? Hafi einhver efasemdir um það þá var liðið núna að tapa sannfærandi á heimavelli gegn Brighton sem eru jú um miðja deild.
Góðu fréttirnar eru þó hagstæð úrslit í öðrum leikjum (West Ham og Spurs töpuðu) gera það að verkum að liðið situr þó í 13. sætinu með hagstæðara markahlutfall en West Ham.
Komið svo og haldið uppi vörn fyrir Amorim.
Sir Roy Keane says
Slökkti á sjónvarpinu við að horfa á leikinn á móti Brighton í stöðunni 1-2. Þeir voru miklu betri.
Amorim var svo að henda öllum leikmönnum hressilega undir strætóinn fræga eftir leikinn. Man ekki eftir að sú taktík hafi virkað hjá nokkrum þjálfara í sögu ensku úrvaldsdeildarinnar. Finnst þetta mjög döpur skilaboð til leikmanna.
Að mínu mati er hann þegar byrjaður að grafa eigin gröf og liðið með. Í fyrsta lagi með að breyta of snemma um leikkerfi þegar lítill tími er til þess að kenna það og í öðru lagi með að henda leikmönnum undir vagninn.
Þjálfarar þurfa að aðlaga sinn stíl að þeim leikmönnum sem þeir eru með hverju sinni, þó svo að þeir séu með skýr plön um að spila á annan hátt í nánustu framtíð. Honum ætti að vera það morgunljóst frá byrjun að hann þarf að versla leikmenn sem passa í hans kerfi og það er í fyrsta lagi hægt í sumar.
Við erum með hóp í dag sem getur spilað í 4-3-3 eða 4-2-3-1, sem vantar sárlega alvöru framherja og markmann.