Það er undarlegt að skrifa sum orðin – en Manchester United vann í kvöld mikilvægan sigur á Ipswich í fallbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar. Vel útfærð föst leikatriði og viljastyrkur Bruno Fernandes gerðu gæfumuninn.
Misskilningur milli Patrick Dorgu og Andre Onana strax á fjórðu mínútu varð til þess að Jadon Philogene skoraði í autt markið. United svaraði þessu vel og tók völdin á leiknum, hélt uppi ágætum hraða og sótti á Ipswich.
Það skilaði marki á 22. mínútu þegar Sam Morsy, fyrirliði Ipswich, skallaði aukaspyrnu Bruno Fernandes í eigið mark. Fjórum mínútum síðar komst United yfir með marki Mathijs de Ligt, sem fylgdi eftir þegar markvörður Ipswich hélt ekki skoti Diego Dalot. Skot de Ligt var þriðja marktilraun United eftir hornspyrnu Bruno.
Brottrekstur Dorgu snýr leiknum
Eftir þetta var United með tök á leiknum og virtist í sjálfu sér í fínum málum þegar Dorgu fór í tæklingu á Omari Hutchinson niður við varamannabekkina skömmu fyrir hálfleik. Þótt báðir þjálfararnir stæðu við þá sýndu þeir lítil viðbrögð. Endursýningar sýndu hins vegar fljótt að Dorgu hafði farið með takkana af afli í sköflunginn á Hutchinson. Eftir drjúga stund varð rautt spjald því niðurstaðan.
Ruben Amorim ákvað strax að skipta Noussari Mazraoui inn fyrir Alejando Garnacho, þótt Argentínumaðurinn hefði verið líflegur. Garnacho virtist ekki taka skiptingunni vel og fór beint inn í klefa.
Reyndar fór liðið allt í rugl og á þeim fáu mínútum sem eftir voru tókst Ipswich að jafna. Þar var Philogene aftur á ferðinni, hann sendi boltann frá hægri inn að markinu, Liam Delap hljóp að sendingunni, náði henni ekki, en ógnaði nóg þannig að Onana þurfti að bíða og þegar hann gat brugðist við var það orðið of seint.
Fengnum hlut haldið með baráttu
Það var því nákvæmlega engin ástæða til bjartsýni í seinni hálfleik, en ekki var nema rétt rúm mínúta liðin af honum þegar Bruno Fernandes tók fasta hornspyrnu sem Harry Maguire skallaði inn.
Það sem eftir var leiks hafði Ipswich boltann. United varðist hins vegar vel, de Ligt og Maguire lokuðu aðgengi að teignum, auk þess sem leikmenn Ipswich tóku vondar ákvarðanir, einkum undir lokin. United menn fögnuðu öllum unnum návígum, Casemiro, til að mynda innkasti sem hann vann af harðfylgi. En hvert er liðið komið þegar unnið innkast er orðið sérstakt fagnaðarefni?
Miðað við hvert stefndi þegar Dorgu var rekinn út af má ætla að United hefði haldið áfram og bætt við mörkum. Það var þó ekkert gefið, liðið nýtti þau færi sem gáfust einkar vel í kvöld. Mest um vert var að ná í þrjú stig. United er þar með væntanlega úr mestu fallbaráttunni, hefur 33 stig en Ipswich og Leicester í fallsætunum eru með 17 þegar 11 umferðir eru eftir.
Fátt í leiknum vekur vonir um stig gegn betri liðum – en það verður að viðurkennast að barátta liðsins í seinni hálfleik, mann færri, var virkilega góð. Kannski þetta sé leiðin, að pakka liðinu saman við teiginn og halda hreinu. Það væri framför á því sviði.
Tíu djarfir djöflar – einn heimskur drengur?
Dorgu hefur litið vel út sóknarlega í fyrstu leikjunum en það eru miklar gloppur í varnarleik hans. Hann slapp við athygli fyrir fyrsta mark Everton á laugardag, þegar hann fór upp í skallabolta og þvældist fyrir de Ligt. Hann kostaði fyrsta markið í dag og næstum leikinn með rauða spjaldinu. Hann er ungur og því fylgir óstöðugleiki og mistök. En það verður að sætta sig við það ef trúin er að leikmenn verði á endanum góðir. Fyrst leikurinn vannst þá skulum við ætla að Dorgu læri af mistökunum og við erfum þau því ekki við hann.
Bruno, Bruno, Bruno
Sex síðustu mörk United hafa komið upp úr föstum leikatriðum frá Bruno. Hann bar liðið á herðum sér þegar því tókst að jafna gegn Everton um helgina og í kvöld var það hann sem virkilega sýndi viljann. Það er að minnsta kosti eitthvað rétt í gangi á æfingasvæðinu þegar föst leikatriði skila mörkum, en þess á milli var Bruno virkilega að reka leikmenn áfram og skila sínu.
Seint í leiknum komst hann í skyndisókn, hljóp eina 70 metra upp boltann með kantinn. Fyrirgjöf hans fór rétt framhjá Mazraoui og því miður til Ipswich sem fór í skyndisókn sem þýddi að Bruno þurfti að spretta aftur. Sú sókn var stöðvuð niður undir teig og sjónvarpsvélarnar sýndu Bruno halla sér fram til að ná andanum.
Rasmus Höjlund
Danski framherjinn er gjörsamlega heillum horfinn. Hann tapaði öllum sex einvígum sínum í leiknum, United heldur ekki boltanum með slíkan framherja. En hér verður athyglinni beint að tveimur atvikum með stuttu millibili sem trúlega urðu til þess að honum var skipt út af um miðjan seinni hálfleik.
Fyrst var það sending frá Yoro, sem hafði snúið varnarmann glæsilega af sér, uppi í vinstra horninu og sent boltann út í teiginn á Höjlund. Daninn valdi að láta boltann fara milli fóta sér, í von um að samherji væri fyrir aftan hann, í stað þess að reyna að koma honum á rammann eins og sérhver framherji með sjálfstraust hefði gert.
Augnabliki síðar brjálaðist de Ligt út í hann. Þrátt fyrir skipanir miðvarðarins elti Höjlund ekki leikmann Ipswich sem kom hlaupandi af miðjunni inn á teiginn. De Ligt sat þar með uppi með tvo leikmenn og rétt tókst að stöðva hlauparann á teignum. Augnabliki síðar var Höjlund skipt út.
Gulu spjöldin
United sótti sér þrjú þarflaus gul spjöld í kvöld. Joshua Zirksee og Leny Yoro spörkuðu boltanum í burtu eftir að búið var að flauta. Masraoui hrinti Liam Delap, löngu eftir að búið var að dæma á Ipswich-manninn fyrir þrenn brot á Manuel Ugarte, sem gerði virkilega vel í að standa þau af sér. United hefur ekki efni á leikbönnum.
Egill says
Áhugavert hvernig skýrsluhöfundur nær að komast hjá allri gagnrýni á ruslið í markinu. Hann fór í skógarhlaup í fyrra markinu og virtist ekki láta vita af sér (enn eina ferðina) og þess vegna átti Dorgu ekki von á honum þarna.
Íbseinna markinu hreyfði hann sig ekki, en loksins þegar þessi hægi heili sem hann hefur sá að boltinn var á leiðinni til hans, þá gerði hann sig ekkert breiðari. Hendurnar á honum náðu ekki útfyrir svæðið sem hann stóð í upprunalega. Maðurinn er er hræðilegur markmaðue og eru verstu kaup sem Man Utd hafa gert síðan… Weighorst og Hoijlund fyrir Ronaldo?
Ég man ekki eftir meira downgrade en úr De Gea (með öllum hans göllum) og í þetta sirkúsdýr sem spriklar þarna í markinu.