Liðið sem byrjaði leikinn var áhugavert. Fletcher inni á þriggja manna miðju, Rooney fyrir aftan Hernandez og Van Persie og engir kantmenn. Ákveðin tilraunastarfsemi þar í gangi. Vörnin var aðalvörnin og David de Gea kom inn í markinu þar sem greinilega á enginn að fá að halda að hann sé aðalmarkvörður
De Gea
Rafael Ferdinand Evans Evra
Anderson Fletcher Cleverley
Rooney
Hernandez Van Persie
Á bekknum voru Lindegaard, Wootton, Welbeck, Nani, Büttner, Kagawa og Powell
Lið Cluj var svona:
Mário Felgueiras
Sepsi Cadú Rada Ivo Pinto
Sougou Aguirregaray Mureşan Camora
Rafael Bastos Kapetanos
Frá fyrstu mínútu val ljóst hvernig Cluj ætlaði að spila þetta. Stíf vörn og skyndisóknir. Um leið og United fékk boltann bakkaði vörnin upp að teig og lét miðjuna gegna miklu varnarhlutverki. Spila síðan boltanum hratt fram og enda á Kapetanos sem átti að skora. United komst ekki áfram gegn þessari fyrsta kortérið og þegar 13 mínútur voru á klukkunni skoraði Cluj úr skyndisókn, alveg eftir þeirra bók. Boltinn kom upp á Sougou á hægri kantinum, hann lék áfram án þess að Evra kæmi í hann eða lokaði nógu vel þannig að fyrirgjöfin var auðvelt. Það leit út fyrir Jonny Evans hefði getað gert betur til að stoppa hana, en boltinn fór fyrir aftan hann þar sem Kapetanos lúrði og smellti boltanum viðstöðulaust í netið. Verulega slök byrjun hjá vörninni okkar.
Þetta dró ekkert úr vilja Cluj til að halda sig við sína leikaðferð þannig að United fékk að vera með boltann liggur við eins og þá lysti. United komst lítið áfram gegn tvöföldum varnarveggnum, Chicharito sást varla og Van Persie lá úti á hægri kantinum. Það þurfti svo fast leikatriði á 29. mínútu til að United jafnaði. Rooney tók aukaspyrnu frá vinstri, boltinn datt inn á miðjan teiginn, fór yfir óvaldaðan Chicharito, og síðan í öxlina á Van Persie og í stórum hægum boga yfir markmanninn. Van Persie var þarna alveg frír og tæpur að vera rangstæður, en varnarmennirnir fjær í teignum höfðu dottið tilbaka og gert hann réttstæðan. Hrikaleg varnarvinna þarna sem við máttum þakka fyrir.
Áfram hélt United pressan. Robin van Persie fékk fínt færi eftir sendingu frá Hernandez, ekki ósvipað færinu sem hann klúðraði á laugardaginn og í etta sinn fór boltinn beint á markmanninn. Annars var varla að United næði færi þrátt fyrir að halda boltanum nær allan tímann. Það vantaði breidd í leikinn, helst að Rafael og Evra væru að koma upp á köntunum, síðan duttu Cleverley og Van Persie aðeins út á kantana við teiginn en ekki þannig að að væri að opna neitt. Sendingar frá Rooney eða Anderson komu upp að teig og þó að þær hittu menn þar komst það ekkert lengra.
En það voru varla liðnar 3 mínútur af seinni hálfleik þegar United komst yfir. Rooney kom út á hægri kantinn og sendi frábæra sendingu inn á teiginn þar sem Van Persie hafði stungið sér inn á milli tveggja varnarmanna, var á undan markverðinum í boltann og nikkaði boltanum fram hjá markverðinum með utanverðum fætinum. Gríðarmikilvægt mark.
Eftir þetta tóku Clujarar við sér miðað við fyrri hálfleikinn og fóru að sækja á United. Þeir fengu m.a. þrjú horn í röð, eftir eitt þurfi de Gea að verja vel skalla sem þó var beint á hann. Þessi rispa Cluj entist þó ekki lengi og leikurinn fór aftur í sama mynstrið, United hélt boltanum, Cluj varðist mjög aftarlega og United komst ekki gegnum vegginn.
Annars er það fréttnæmt að Jonny Evans þurfti að fara útaf þegar rúmar 10 mínútur voru eftir, hafði greinlega fundið fyrir högginu sem hann fékk á lærið i Tottenham leiknum og á endanum þótti Fergie greinlega þetta ekki áhættunnar virði þar sem United virtist ekki líklegt til að bæta við. Wootton kom inná.
En það var ekkert að gerast í þessum leik lengst af seinni hálfleiksins, Cluj reyndi að sækja undir lokin og David de Gea þurfti að taka á honum stóra sínum til að verja skalla Rafael Bastos undir lokin. Vörnin náði þó á endanum að hrinda þessar sókn og sigurinn var okar.
Þetta var afskaplega dræmur leikur. United náði engan veginn að brjóta niður varnarmúr Cluj nema í mörkunum tveimur og þó sigurinn væri sanngjarn var þetta mesta streð. Það sárvantaði almennilega breidd í liðið, Hernandez var vonlaus í að vinna gegn svona þéttri vörn á teignum, þó hann næði nú að verða rangstæður tvisvar eða þrisvar. Vörnin var ekki alveg nógu sannfærandi í markinu, og spurning hvort að meiðslin hafi ekki háð Evans eitthvað þar. Evra hefur samt örugglega orðið ánægður þegar Sougou sem fór svo illa með hann í markinu þurfti að fara útaf meiddur strax á 25. mínútu.
United eyddi svo mestöllum leiknum í að senda sín á milli, voru með boltann 68% leiksins og náðu einhverjum hundruðum fleiri sendinga, en á endanum unnum við á því að vera með tvo heimsklassa leikmenn innanborðs.
Ég vel Robin van Persie sem mann leiksins, fyrir ekki annað en að skora þessi mörk, í leik sem við hefðum ekki unnið í fyrra.
Tryggvi Páll says
Sá ekki leikinn í þetta skiptið en í fyrsta sinn á ævinni giskaði ég á rétt úrslit fyrir leik eins og sjá má í athugasemdum við upphitunarpóstinn.
siggi United maður says
díses hvað þetta var leiðinlegur leikur. góð 3 stig samt. De Gea á að spila númer 1 alltaf. Hann er alltof efnilegur til að hanga á bekknum. Annað er rugl. Hann er búinn að gera ein mistök á leiktíðinni, sem Vidic átti ekkert minna í. Evans og sérstaklega Rio mega gera endalaus mistök og samt eru þeir alltaf í liðinu. Gamli er farinn að kalka ef hann fattar ekki að miðjan þarf styrkingu. Við þurfum líka alvöru miðvörð nýjan. og vinstri bak, ég er ekki búinn að sjá nógu mikið af Buttner til að dæma hann úr leik, en hann virðist ekkert sérstaklega sterkur varnarlega. Og hvar er pressan? það er engin hápressa, og það er engin lágpressa í gangi hjá United. Og hvað er málið með hægt spil á vellinum, það þurfa allir að snerta boltann 5-6 sinnum og lítil hreyfing í gangi. Vonandi er þetta enn eitt dæmið um að byrja tímabilið hægt og fara svo í gang eftir áramót, því annars erum við ekki að fara að vinna neitt. Ég er venjulega ekki með neitt svartsýnisraus, en mér finnst bara ekkert skemmtilegt að horfa á eina liðið sem ég styð spila boltann sem er í gangi núna. Hvar er drápseðlið? Hvar er greddan? Og hvar er þessi beinskeytti United bolti sem maður sá fyrir 2000 og svo tímabilið 2008? Ég ber endalausa virðingu fyrir Ferguson, en annaðhvort þarf hann að fara að stokka upp í þjálfarateyminu (Pheelan<Queiroz) eða að fara að hleypa öðrum í brúnna. Við erum taktístkt vitlausir, hægir og bara ekki nógu góðir. Framlínan er perfect, en ef karlinn ætlar ekki að leyfa Cleverley og Anderson að spila sig inn í liðið þá vantar hann að kaupa nýja miðjumenn. Carrick er fínn en enginn "game changer", og Giggs og Scholes eiga ekki að þurfa að byrja leiki, þeir eru búnir að vinna sér inn frítíma.
McNissi says
@siggi United maður
Djöfull er ég sammála þér með De Gea, höfum OFT (á þessum stutta tíma) séð hann eiga meistara markvörslur í lok leikja sem bjarga stigi/stigum fyrir liðið. Hann er líka greinilega orðinn mikið ákveðnari í að fara í háu boltana og átti hann teiginn í gær!
Veit ekki með þessa styrkingu á miðju sem þú vilt fá…. erum með marga of marga miðjumenn ef við teljum efnilegu ungu mennina með. Er heldur ekki sammála þér með varnarmennina, eigum þar stóran hóp þegar þorrinn er ekki meiddur.
Meiðsli eru hjá öllum liðum, ekki vælir Barcelona mikið yfir því að spila með Song og Mascherano í miðverði, þeir eiga bara Puyol og Pique sem eru báðir meiddir núna. Þeir sækja bara í staðinn fyrir að verjast, skora fleiri mörk en andstæðingurinn!
Sir-inn er líka búinn að finna arftaka Scholes, hann heitir Wayne Rooney. Sendingarnar hjá honum eru klipptar úr reynslubók Scholes! Svo getur hann líka skotið sem gefur okkur X-factorinn þegar við erum ekki að ná að brjóta niður varnir og hann getur einnig varist. Ég veit að hann er í top2 strikerum liðsins en í 4-3-3 gætum við haft hann í miðri miðju. Menn eru alltaf að tala um að nauðsynlegt sé að hafa sterkan hrygg í liðum. Þá yrði bein lína upp miðjan völlinn svona: De Gea, Vidic, Rooney, Kagawa, Persie…..segiði að það líti ekki vel út….!
siggi United maður says
@McNizzi: Þá er líka um að gera að spila þessum ungu efnilegu miðjumönnum í staðinn fyrir að láta Scholes og Giggs vera að byrja leikina.
Barcelona spilar líka hápressu, um leið og þeir tapa boltanum, eru þeir gríðarlega fljótir að vinna hann aftur. United gerir það ekki, þeir hleypa liðum langt inn á sinn vallarhelming áður en þeir byrja að verjast. Hvers vegna veit ég ekki. Það gæti verið vegna þess að miðjan okkar er of hæg og ekki nógu kraftmikil til að pressa, eða það gæti verið vegna þess að miðverðirnir okkar, sér í lagi Rio og Vidic, eru ekki nógu fljótir til að geta leyft sér að spila hátt uppi með línuna. Og útaf þessu, virðist alltof auðvelt fyrir lið andstæðinganna að koma sér langt inn á vallarhelming United og skapa góðar sóknir.
DMS says
Ég fagna endurkomu Fletcher, vonandi mun hann hægt og bítandi ná upp fyrri styrk. Við þurfum á defensive midfielder að halda, varnarlínan er veik og þarf meiri hjálp frá miðjunni.
Ég er sammála því með að Rooney gæti alveg endað sem miðjumaður. Hann vill vera í boltanum og er duglegur, gæti hentað honum vel og hann er þannig leikmaður að hann getur nánast púllað hvaða stöðu sem er. Hann er að auki sterkur og er flottur í návígin og baráttuna inn á miðjunni.
Hvað De Gea varðar þá vil ég sjá hann númer eitt. Þó þú gerir ein og ein mistök á ekki að henda þér úr liðinu, sérstaklega ekki þegar þú ert 21 árs og vilt byggja upp sjálfstraust og reynslu. Liðið þarf á stöðugleika að halda í öftustu víglínu, sérstaklega í ljósi allra meiðslanna. Að hringla svona með markmennina er ekki rétt. Hvað fékk Barthez að hanga lengi í liðinu þrátt fyrir mistök eftir mistök? Ef við leyfum De Gea að taka út sín mistök þá munum við eignast framtíðarmarkvörð sem mun ekki lengur óttast háu boltana í teignum – það er að mínu mati hans eini og stærsti veikleiki. Hann er hrikalega góður shot-stopper og flottur einn á einn. Spurning hvort við getum ekki fengið Edwin van der Sar og látið hann standa fyrir aftan markið í öllum leikjum og öskra inn á völlinn til að stýra vörninni meðan De Gea öðlast reynslu og lærir tungumálið betur :)
Ferguson mætti líka alveg nota Kagawa meira úti vinstra megin núna þegar A.Young og Valencia eru meiddir. Mér finnst við alveg geta stillt upp í 4-4-2 með Rooney og Persie frammi, Nani hægra megin, Carrick og Cleverley/Scholes á miðjunni og Kagawa vinstra megin. Mér finnst við bara ekki ná upp neinum takti í þessu 4-3-1-2 kerfi eða öðrum kerfum sem Ferguson hefur verið að reyna að prófa til að stilla upp nýju mönnunum í þeirra stöðum. Við þurfum að nýta breidd vallarins og auka tempóið til að teygja á liðum sem falla aftarlega og verjast.
úlli says
Þessi sóknar/markmannsvandamál eru lúxusvandamál. Ég er hins vegar hræddur um að Shearer hafi rétt fyrir sér með að meiðsli Vidic muni kosta okkur titilinn. Hann er okkar langbesti varnarmaður og hvað áttu liðin okkar sem unnu meistaradeildina sameiginlegt? Voru solid í miðvarðastöðunum. Við sem styðjum liðið erum auðvitað ekki hlutlaus, en t.d. Johnny Evans er ekkert í þeim klassa að vera miðvörður númer eitt.
Það sem ég persónulega vildi fá í United er maður á borð við Yaya Toure eða Essien þegar hann var upp á sitt besta. Mér finnst það vera púslið sem vantar í þetta.
siggi United maður says
annað læk á Úlla.
unitedd maður says
vidic verdur bara fra i 2 manuði tetta e-reddast vonandi a meðan
Egill Óskarsson says
Mér finnst það ekki skipta neinu máli hvað við erum með marga miðjumenn í hópnum. Sá eini sem treyst er til að spila 35+ leiki á tímabili er Carrick. Aðrir eru annaðhvort of gamlir, of meiddir eða of ekki nógu góðir til þess að spila svo gott sem alla leiki.
Það vantar gæði inn á miðjuna, þau skipta meira máli en fjöldi leikmanna í hóp. Alltof oft er miðjan einfaldlega yfirkeyrð og nær engan vegin að tengja á milli varnar og sóknar, hvað þá að vörnin fái nægjanlega hjálp frá miðjumönnum.
Og ég verð að viðurkenna að ég gúddera engan vegin þessar hugmyndir um Rooney sem miðjumann. Það að hann hlaupi mikið, berjist og kunni af gefa hollívúddsendingar er bara ekki nóg fyrir mig. Hann hefur spilað á miðjunni í neyð og það er alveg ástæða fyrir því að hann er bara settur þangað í þeirri stöðu. Hann hvorki vill spila þar sjálfur né er hann betri þar en eiginlegir miðjumenn.