Nú er þessu blessaða landsleikjahléi lokið (nánast) og voru leikmenn félagsins að spila á fjölmörgum vígstöðum.
Byrjum á ensku leikmönnunum okkar. Á föstudaginn spilaði Manchester Unite…afsakið, England, við San Marinó á Wembley og það voru okkar menn sem sáu alfarið um þann sigur. Þetta var góður leikur fyrir okkar menn því þeir voru allt í öllu. Wayne Rooney, í sínum fyrsta leik sem fyrirliði Englands, skoraði tvo mörk auk þess sem að Danny Welbeck skoraði tvö og lagði upp eitt. Tom Cleverley stjórnaði miðjunni algjörlega ásamt Michael Carrick. Cleverley var með sendingarhlutfall upp á 141/146 og lagði upp tvö af mörkum Englands, ekki amalegt það. Lokatölur 5-0 og áttu okkar menn þátt í öllum mörkunum. England átti svo að spila við Pólland í gær en leiknum var frestað vegna gríðarlegar bleytu á vellinum og fer leikurinn fram á eftir kl 15.00. Fastlega má búast við því að okkar menn spili þar stórt hlutverk en vonum að frestun leiksins hafi ekki þau áhrif að þeir verði þreyttir fyrir átök helgarinnar
Uppfært kl 16.50: Leik Póllands og Englands var að ljúka og endaði hann 1-1. Wayne Rooney kom Englendingum yfir en spilamennska Englendinga var víst afar döpur og eru leikmenn United ekki undanskildir.
Robin van Persie sat á bekknum allan leikinn gegn Andorra á föstudaginn en spilaði allan leikinn í gær gegn Rúmeníu þar sem hann skoraði síðasta markið í 4-1 sigri Hollendinga.
Shinji Kagawa skoraði sigurmark Japana á 90. mínútu í vináttuleik gegn Frökkum á föstudaginn en mátti þola 4-0 tap gegn Brasilíu í gær þar sem hann spilaði allan leikinn.
Patrice Evra sat á bekknum allan leikinn í leiknum gegn Japan en var í byrjunarliðinu gegn Spánverjum í gær. Leikar enduðu 1-1 og fékk Evra mikið hrós í frönskum fjölmiðlum fyrir frammistöðu sína. Evra var frábær í síðasta leik sínum fyrir United og er þess óskandi að nú sé hann búinn að finna sína fjöl eftir afar dapra mánuði.
Portúgal reið ekki feitum hesti frá landsleikjum sínum. Liðið tapaði gegn Rússum á útivelli, 1-0 og gerði svo afar óvænt 1-1 jafntefli við N-Íra á heimavelli. Nani spilaði báða leikina og Jonny Evans spilaði fyrir N-Íra.
Javier Hernandez kom inná af bekknum gegn El Salvador í gær og skoraði seinna mark Mexíkóa.
Antonio Valencia lék allan leikinn í 1-1 jafnteflisleik Ecuador og Venezuela.
Darren Fletcher sneri aftur til leiks með Skotlandi en vill væntanlega gleyma þessum leikjum sem fyrst. Hann leiddi lið Skotlands út á völlinn gegn Wales á föstudaginn og Belgíu í gær en liðið tapaði báðum þessum leikjum. 2-1 gegn Wales og 2-0 gegn Belgíu. Það er þó jákvætt að hann spilaði báða leikina til fulls.
Robbie Brady spilaði sinn fyrsta landsleik fyrir Írland þegar liðið lagði Færeyinga 4-1
Joshua King heldur áfram að standa sig vel með Noregi. Hann kom inná í leiknum gegn Sviss á föstudaginn og skoraði svo sitt fyrsta mark fyrir A-landslið Noregs í 3-1 sigri Norðmanna á Kýpur í gær. Hann var einnig valinn maður leiksins. Hann hefur verið að segja í fjölmiðlum að Sir Alex hafi hrósað honum mikið að undanförnu og að hann búist við því að fá tækifæri með aðalliðinu bráðlega.
Heilt yfir ágæt frammistaða hjá okkar mönnum og jákvætt að enginn hafi meiðst en við krossum fingur og vonum að ensku leikmennirnir sleppi heilir í gegnum leikinn á móti Pólverjum.
Skildu eftir svar