Við höfum bryddað upp á því fyrir stórleiki að ræða aðeins við stuðningsmenn liðsins sem United á að mæta. Við höldum áfram með það hér og þar sem við spilum við Arsenal á laugardaginn fékk ég Jan Eric Jessen, Arsenal-mann, líffræðing og knattspyrnudómara með meiru til þess að svara nokkrum laufléttum spurningum:
Það er eiginlega ekki hægt að byrja þetta á öðru en Robin van Persie. Hann hefur byrjað frábærlega hjá United, hversu sárt var að missa hann?
Ef ég segði að það væri ekki þyngra en tárum taki, þá væri ég að segja ósatt.
Wenger hefur verið gagnrýndur undanfarin ár fyrir að selja sína bestu leikmenn án þess að fá nægilega góða leikmenn í staðinn. Fyrir tímabilið fóru van Persie og Song, hvernig finnst þér Wenger hafa brugðist við brottför þeirra?
Arsenal hefur auðvitað ákveðin prinsipp sem klúbbur hvað fjármál varðar og það verður að segjast alveg eins og er að á sínum stjóraferli hjá félaginu hefur Wenger spilað mjög vel úr þeirri stöðu sem hann hefur verið í. Það er að mínu viti full snemmt að segja til um það núna hversu vel nýju leikmennirnir fylla í skarð þeirra sem fóru fyrir tímabilið. Mér hefur þó þótt bæði Cazorla og Podolski verið að gera fína hluti, meðan Giroud á enn eftir að finna fjölina. Við skulum bara bíða og sjá – og standa í þeirri trú að Wenger hafi gert það sem þurfi til að Arsenal endi enn einu sinni í topp fjórum þegar feita konan hefur sungið.
Þú nefnir að Wenger hafi spilað mjög vel úr þeirri stöðu sem hann hefur verið í. Nú eru 7 ár liðin frá því að Arsenal vann síðast titil og bestu leikmennirnir virðast alltaf vilja fara frá liðinu. Er tími Wengers að líða undir lok? Er kominn tími á nýja tíma ef svo má á að orði komast?
Ég er settur í mjög erfiða stöðu að eiga að svara þessari spurningu fyrir hönd allra stuðningsmanna Arsenal, enda veit ég að þar eru skiptar skoðanir um nákvæmlega þetta mál.
Svo ég svari þessu bara fyrir sjálfan mig, þá tel ég ekki að tími Wengers sé að líða undir lok. Ég leyfi mér að efast um að nýr stjóri með sömu aðstöðu fjárhagslega eigi eftir að færra liðið uppá hærri stall.
Auðvitað geta andstæðingar Arsenal brosað og hlegið yfir því að félagið hafi ekki unnið titil í allmörg ár. Menn verða hins vegar að passa sig á því að taka titlum ekki sem sjálfsögðum hlut – þeir eru viðurkenning fyrir það lið sem hefur staðið sig best allra í einhverri tiltekinni keppni. Sýnum þessu smá þolinmæði, ég óttast að fljótfærnislegar ákvarðanir um þjálfaraskipti væru líklegri til að kippa fótunum undan þeim stöðugleika sem Wenger hefur þó sýnt undanfarin ár.
Sá stöðugleiki er nefnilega heldur ekki sjálfsagður hlutur.
Já, hann er auðvitað búinn að færa Arsenal upp á stall sem félagið mun vera um ókomin ár. Færum okkur yfir í leikinn um helgina. Hvernig líst þér á hann, United er með gott tak á Arsenal, ertu bjartsýnn eða svartsýnn fyrir leikinn?
United er einhvern veginn alltaf líklegt til þess að vinna hvern einasta leik sem það fer í. Bæði Chelsea og Liverpool eru búin að tapa á heimavelli fyrir United á þessu tímabili – og jafnvel þótt sumir vilji halda því fram að liðið hafi bara haft heppnina með sér í báðum þessum leikjum, þá er það einkenni allra bestu liðanna að geta klárað leiki án þess að vera endilega að spila sinn besta leik.
Auðvitað viðurkenni ég að það eru talsvert meiri líkur á því að United vinni heldur en Arsenal. Ég hef aftur á móti fulla trú á mínu liði. Ef maður hefur hefur misst trúna á sjálfan sig hefur maður ekkert frekar að missa.
Auðvitað þekkjum við stuðningsmenn þessara liða leikmenn andstæðingana vel en er einhver sérstakur leikmaður Arsenal sem við United-menn ættum að óttast og að sama skapi, er einhver leikmaður í liðinu sem mætti flokka sem veika hlekkinn?
Ég hef alltaf verið mjög hrifinn af Alex Oxalade Chamberlain. Hann hefur að vísu ekki verið að fá að spila jafn mikið á þessari leiktíð og ég hafði gert mér vonir um, en hann er einn af þessum leikmönnum sem getur gert ótrúlegustu hluti þegar enginn á einhvern veginn von á því. Eins ætti Ferguson að passa sig sérstaklega á Cazorla.
Okkar veikasti hlekkur er að mínu mati Santos, mér hefur alltaf þótt hann einkar „shaky“ varnarlega.
Engu að síður mjög skemmtilegur leikmaður. Þar sem þú ert starfandi dómari er eiginlega ekki hægt að sleppa þér án þess að spyrja þig út í hver sé þín skoðun á því að dómarar geti nýtt sér aðstoð tækninnar í dómgæslu? Marklínutækni, endursýningar etc.
Hversu margar blaðsíður fæ ég til að svara þessu?
Í hnotskurn?
Ein af ástæðum þess að knattspyrna er stórfenglegasta íþrótt veraldar er sú hversu rosalega einföld hún er. Í grundvallaratriðum eru reglurnar bara þannig að tvö lið spila á tilteknum velli og eiga að koma boltanum í mark andstæðinganna án þess að taka boltann með höndum eða brjóta á andstæðingunum. Þetta veldur því að íþróttina er hægt að spila um allan heim og hún fer víðast hvar svo gott sem nákvæmlega eins fram. Ég held að fólk gleymi því oft hversu gríðarlega mikilvægt þetta er fyrir framgang íþróttarinnar.
Ég myndi segja að almennt séð er ég á móti meiriháttar breytingum á íþróttinni, enda tel ég einfaldlega að það þurfi ekki endilega að laga hluti sem eru frábærir nákvæmlega eins og þeir eru.
Fólk gleymir því líka að allir þeir aðilar sem koma að fótboltaleik eru mannlegir og gera mistök. Leikmenn gera mistök, þjálfarar gera mistök. Og dómarar eru ekkert síður mannlegir, þeir gera mistök í hverjum einasta leik. Það er ekkert til sem heitir fullkomin dómgæsla. Mistök dómara eru einfaldlega hluti af leiknum, og eru ein af ástæðum þess að fólk hefur eitthvað um að ræða á kaffistofunum í vinnunni daginn eftir leik. Um hvað skyldi fólk ræða á kaffistofum daginn eftir að hafa horft á keppni í sundi eða tennis? Varla um það að einhver sundkappi hafi komist upp með leikaraskap eða að annar tenniskappinn hafi fengið að brjóta full mikið á andstæðingi sínum.
Ég vil alls ekki að menn fari að stoppa leikinn til þess að komast að því með myndavélum hvers eðlis eitthvert brot var eða hvort leikmaður hafi verið rangstæður þegar hann fékk sendingu. Ég myndi frekar styðja marklínutækni, en tel hana samt sem áður ekki eiga eftir að gera íþróttina betri heldur en hún er fyrir.
Vel mælt. Segjum þetta gott. Viltu spá fyrir úrslitum leiksins?
Ég ætla að vera bjartsýnn og segja að Arsenal vinni leikinn, 1-0.
Við vonum auðvitað að það gangi ekki eftir en þökkum Jan Eric kærlega fyrir spjallið og sérstaklega fyrir þetta upplýsta svar hans um dómaramál.
Ásgeir says
frábær pistill og greinilega maður með eitthvað vit í kollinu. halda þessu áfram :)
Kalli says
Besta stuðningsmanna viðtal hingað til!
Baldur Seljan says
Flott viðtal við Jan Eric. Fannst hann svara þessu bara mjög vel flest öllu, skemmtilegur liður líka að gera þetta fyrir stóru leikina. Kl hvað á laugardag er þessi leikur sýndur?
Tryggvi Páll says
Eins og sést efst í hægra horninu á síðunni er þetta hádegisleikurinn á laugardaginn, kl 12.45.
Auðunn says
Flott viðtal við heiðursmann.
Ég er 100% sammála honum að Wenger sé rétti maðurinn fyrir Arsenal við núverandi aðstæður.
Ef það er einhver sem getur náð árangri með þetta lið þá er það Wenger enda algjör topp þjálfari þar á ferð.
Er líka 100% sammála honum í þessari umræðu um breytingar á dómgæslu.
Vill ekki sjá neina myndavélatækni í þessari íþrótt. Hún mun ekki gera neitt annað en að skemma fyrir.
Kannski okei að taka upp einhverja marklínutækni en hún verður þá að vera mjög einföld í útfærslu. Ekki fara út í einhverskonar myndtækni, aðeins ljós sem kveiknar á einhverjum stað sem gefur það þá til kynna að boltinn sé allur kominn inn fyrir línuna.
Þegar ljósið kviknar þá er mark og málið dautt.
ellioman says
Flottur viðmælandi. Ég er alveg innilega sammála með að halda sportinu hreinu og ekki missa sig í vídeótækninni. Þó ég geti alveg sætt mig við að marklínutæknin komi inn.
Djöfull vona ég að Rooney og RVP rústi Arsenal, getum við fengið sömu vörn og þeir notuðu gegn Reading, plís? :)
DMS says
Þetta er alltaf skemmtilegur liður hér á síðunni og mjög góð svör hjá Jan Eric. Þið eigið hrós skilið strákar.
Siggi says
Flott viðtal, endilega halda áfram á þessari braut. Sammála þessu með myndavélarnar, það er fátt meira óþolandi en að stoppa leikinn svo dómarinn geti kíkt aðeins á sjónvarpið. Spurning hvort Arsenal ræður ekki bara David Moyes ef þeir ætla að skipta um stjóra.