Þó fæstir stuðningsmenn United hér á landi þekki vel sögu United árin eftir seinna stríð vita flestir meginatriðið: Sir Matt Busby tók við liðinu eftir stríð með Old Trafford í rústum og 10 árum síðar voru piltarnir hans Busby flottasta unga liðið í Evrópu.
En í millitíðinni hafði Busby tekið við United mönnunum sem snúið höfðu til baka úr striðinu, og gert þá að bikarmeisturum 1948 og meisturum 1952.
Henry Cockburn er Stúfur dagsins, 165 sm hár primus motor þessa liðs. Grjótharður í tæklingunni, frábær skallamaður þrátt fyrir hæðina og sendingameistari. Hann skrifaði undir sem áhugamaður 1944, vann í verksmiðju í stríðinu og kom beint í liðið eftir það. Hann hafði þá verið færður úr framlínunni aftur í vinstri haff-bakk eins og það hét þá og væri líklega afturliggjandi miðjumaður í dag. Þó að einn eftirminnilegasti hluti þessa ’48-’52 liðs væri framlínan sem elstu menn geta enn talið upp án vandkvæða, var Cockburn einn besti leikmaður liðsins og fastamaður í landsliði Englendinga.
Hann var í liði United sem vann fyrsta bikar liðsins í 37 ár þegar þeir urðu bikarmeistarar og einn af sex leikmönnum þess liðs sem bætti Englandsmeistaratitli í safnið. Lið þetta gleymist oft í hópi meistaraliða United, en á heiður skilinn sem liðið sem kom United aftur á stall með bestu liðum Englands með flottri sóknarknattspyrnu sem hefur ætið verið aðall United.
Lok ferils Cockburn hjá United komu í raun í leik sem mörkuðu ein mestu kaflaskipti í sögu United, vináttuleik gegn Kilmarnock haustið 1953. Liðinu hafði ekki gengið sem skyldi og í leiknum gaf Busby nokkrum ungum leikmönnum séns. Cockburn meiddist í leiknum og inná kom ungur maður að nafni Duncan Edwards. Í kjölfarið fylgdi glæstasta tíð United, og mesta sorgin.
Gunnar Þórir says
Gaman af þessum jólasveinafærslum og sérstaklega Stúf því þetta er ekki leikmaður sem maður kannaðist við.