Einn besti PR brandari síðari tíma kom sumarið 2009 þegar kynningarbæklingur sem umboðsmenn Michael Owen settu saman lak í fjölmiðla. Knattspyrnuáhugamenn hlógu dátt að þessari tilraun til að reyna að búa til markaðshæfa vöru úr útbrunnum leikmanni, en það voru stuðningsmenn Manchester United sem þurftu að kyngja hlátrinum þega Sir Alex ákvað að Owen væri einmitt maðurinn til að koma með reynslu inn í framlínu United.
Um það bil það eina sem stuðningsmennirnir gátu kætt sig við voru heiftarleg vonbrigði Liverpool manna sem fannst þessi svik við uppeldisfélagið verstu svik allra tíma. Owen byrjaði þokkalega og í september skoraði hann sigurmarkið í eftirminnilegum 4-3 sigri á Manchester City.
Næstu þrjú tímabilin er ekki hægt að segja að Owen hafi stimplað sig inn í sögubækur United, það eina sem kom á óvart var að hann fékk 1 ár í aukasamning í fyrra sem hann nýtti til að bæta einum deildarleik í safnið… sem varamaður. Í allt byrjaði hann sex deildarleiki á þrem árum, kom 25 sinnum inn á og skoraði 5 mörk. Í allt skoraði hann 17 mörk á þrem árum.
Michael Owen er Pottaskefill, hann stalst inn í United eldhúsið, skóf úr launapottinum, og snautaði svo burtu án þess að skilja eftir sig nema eitt eftirminnilegt sigurmark.
Skildu eftir svar