Ég verð að viðurkenna að ég hálfpartinn kvíði fyrir því að horfa á leikinn gegn Crystal Palace á morgun. Ég var nokkuð bjartsýnn síðasta vor þegar Moyes var ráðinn knattspyrnustjóri Man Utd. Vissulega bjóst ég við stærra nafni í stólinn en ráðningin olli mér samt engum áhyggjum því stjórn United virtist, loksins, vera tilbúið að henda alvöru fjármunum í leikmannakaup. Moyes hafði sýnt að hann væri nokkuð klókur á þeim markaði og ef hann fengi úr svipuðum fjármunum að moða eins og keppinautar United, þá væri nú spennandi tímar framundan!
Sumarið reyndist þó mikil vonbrigði þegar kom að leikmannakaupum. United var orðað við marga spennandi leikmenn en þegar tímabilið fór í gang var ekkert nýtt andlit á æfingasvæðinu. Vissulega ber Moyes ákveðna ábyrgð á þessu, en það voru margir aðrir þættir sem spiluðu líka þarna inn í eins og nýr stjórnarformaður, klúbbar að pressa upp verð, of svo framvegis. Þrátt fyrir þetta var byrjunin á tímabilinu ekki svo galin. Vissulega sýndi liðið strax þau merki að Sir Alex Ferguson væri ekki lengur í brúnni, en það var svo viðbúið og hreinlega bara allt í lagi. United eru vanir því að hiksta aðeins í byrjun tímabils, til dæmis á síðasta tímabili (12/13) lenti liðið undir í hverjum leiknum á fætur öðrum en náðu þó oftast að vinna sig til baka. Þannig að þegar liðið tapaði 1-0 fyrir Liverpool á Anfield (viðureign sem getur alltaf dottið 1-0 sitthvoru meginn) og fékk slæman skell gegn Man City á Etihad (eitthvað sem stuðningsmenn liðsins höfðu séð áður), þá var ég einn af þeim andaði með nefinu og vildi sýna Moyes stuðning. Hann þyrfti jú að fá smá tíma til að slípa liðið saman, fá inn leikmenn sem pössuðu inn hans leikkerfi og svo framvegis.
Síðan lokaði glugginn og eini maðurinn sem kom inn var Marouane Fellaini. Kannski ekki sá sem menn höfðu vonast eftir, en þó ekkert vitlaust kaup að mínu mati. Það hefur þó reynst erfitt að leggja mat á þessi kaup þar sem Fellaini hefur varla spilað neitt í vetur vegna meiðsla. Allavega, tímabilið gekk sæmilega (sérstaklega í Meistaradeildinni) þó svo liðið lenti í ógöngum af og til, til dæmis með jafntefli gegn Southampton, sem voru óvenjulega heitir á þeim tíma, og gegn Cardiff sem skoruðu jöfnunarmark á síðustu sekúndum leiksins. „Ohh, óheppni maður!“ Svo kom svo smá rothögg í byrjun desember þegar tveir leikir í röð töpuðust á heimavelli, gegn Everton og Newcastle, en það var í fyrsta skipti sem slíkt gerðist í 12 ár. Á þessum tímapunkti fór smá efasemdir að læðast að manni, liðið var enn að spila „óslípaðan bolta“ og andstæðingarnir mættu á Old Trafford bara eins og það væri gervigrasið í Breiðholti, algjörlega óhræddir. Þessum áhyggjum var þó fljótlega útrýmt þar sem United tók 6 sigurleiki í röð og trukkaði sig í gegnum jólatörnina með stæl. Var kannski ekki að spila fallegasta bolta sem maður hafi séð, en það voru þó batamerki á liðinu. Það fór að birta yfir á Old Trafford, maður steytti hnefann í átt að stuðningsmönnum annarra liða og kallaði, „Hey, við erum að koma!!“
Þar með lauk tímabilinu, að því virðist, því það hefur gjörsamlega allt hrunið á árinu 2014. United byrjar árið á því að tapa fyrir Tottenham og síðan var sama upp á teningnum gegn Swansea, já og Sunderland, Chelsea og Stoke. Spilamennskan hefur verið algjörlega hörmuleg frá A til Ö, ekki ósvipuð og maður sér einmitt á gervigrasinu í Breiðholti. Moyes hefur engin svör við neinu og ekki virðist Steven Round né Phil Neville hafa neinar lausnir líka. Það lifnaði aðeins yfir manni þegar Juan Mata var keyptur, maður hélt að það myndi nú dýpka sóknarleikinn aðeins, en í staðinn hefur hann meira og minna verið áhorfandi í þeim leikjum þar sem Ashley Young, Rafael og Patrice Evra sjá um að „skapa“ færin.
Það hefur mikið verið rætt og ritað í fjölmiðlum um ástandið og Old Trafford, ég ætla ekki að fara í það núna að skeggræða hvert og eitt einasta atriði, hvar voru gerð mistök, hver ber ábyrgð á þeim og hvort ástandið mun batna undir forrustu Moyes. Hver veit, kannski að ritsjórnin hendi í stóra grein í lok tímabils um þau mál. Eitt er víst að þetta tímabil er sama sem búið. Ekki bara er 4 sætið gjörsamlega út úr myndinni, heldur er 5 sætið varla raunhæfur möguleiki heldur. Sumarið getur ekki komið nægilega fljótt (kannski er ég líka orðinn þreyttur á snjónum hér í New York) og þar mun öll spjót beinast að stjóranum og hvað hann gerir í leikmannamálum. Eitt er þó ljóst, það eru farnar að renna á mig tvær grímur þegar kemur að David Moyes sem stjóra Manchester United, ég skal fyrstur ritstjóra hér viðurkenna það opinberlega. Mér er sama þó svo hann hafi aldrei unnið neitt og aðeins stýrt Preston og Everton. Það skiptir mig engu máli, það skiptir mig hinsvegar máli að fótboltinn sem liðið er að spila undir hans stjórn er líklega sá hugmyndasnauðasti sem ég hef nokkurn tímann séð og það er ekkert í kortunum sem virðist ætla að breyta því. ÞAÐ veldur mér áhyggjum.
Mér er gjörsamlega sama hvaða leikmenn byrja þennan leik á morgun, ég vil bara sjá Manchester United sigra leikinn, það er allt og sumt sem ég bið um.
Sigurjón Arthur says
Nafni, það lýsir hugrekki að þora að vera fyrstur og eitt er ALGJÖRLEGA á hreinu….það eru miljónir stuðningsmanna um allan heim sammála þér og þar á meðal undirritaður.
kv,
SAF
Bjarni says
Sammála er ég flestu sem sagt hefur verið og skrifað um gengi okkar manna en við þessu er ekkert hægt að gera því við stjórnum ekki þessum klúbbi hvort á Moyes að fara eða ekki, á að selja hina og þessa, er Rooney á of háum launum og vo framvegis. Samt má alveg ræða um hlutina og vera argur og brjálaður yfir lélegu gengi en eina leiðin til að losna við þá tilfinningu er að skipta um lið en það gera náttúrulega ekki alvöru stuðningsmenn. Ég hef fylgst mér UTD frá þeim tímum þegar ekkert internet var og þurft að hafa fyrir því að fylgjast með liðinu í gegnum BBC eða þriðjudags Mogganum því einn leikur var sýndur í sjónvarpi á þeim tíma og var hann valinn af handahófi, ekki einu sinni í beinni. Hef sem sagt séð tímana tvenna og argast ekki yfir því þó liðið nái sér ekki á strik eitt season, við komum oftast sterkari til baka. Tökum einn leik í einu og vinnum næsta leik sama hvernig við spilum. Áfram United.
Sigurjón says
Ég vil taka það skýrt fram að ég er ennþá á Moyes vagninum, hangi þar á annarri hendinni. En það verður eitthvað að fara að gerast fljótlega því annars gæti þetta orðið vítahringur fyrir leikmenn.
Kannski er eina lausnina fyrir Moyes að henda út 4-6 leikmönnum í sumar og fái annað eins inn. Ég nefnilega þróaði samsæriskenningu þess efnis að hörðustu „Ferguson leikmennirnir“ í hópnum væri að taka leikskipulagið svo bókstafslega (skipulag sem þeir eru ósammála) að þeir hreinlega reyndu ekkert annað. Í stað þess að senda á opinn leikmann á miðjum vellinum, þá sendu þeir boltann í vonlausa stöðu út á kanti, bara til þess að sanna mál sitt. En eins og ég sagði þá er þetta samsæriskenning, þær eiga að vera heimskulegar :)
Ingvar says
Frábær upphitun, algjör óþarfi að skeggræða andstæðinginn því nú til dags vitum við ekkert útí hvað við erum að fara. Óska eftir betri fótbolta hjá okkar mönnum og nokkrum stigum í leiðinni.
DMS says
Við verðum meira með boltann, sendum hann á milli á vallarhelmingi Crystal Palace mest allan leikinn án þess að skapa opin færi. Dritum boltanum út á kant og reynum fyrirgjafir. Þeir skalla hann í sífellu frá og keyra svo hratt á okkur í skyndisóknir þegar færi gefst. Slysa inn marki rétt fyrir leikhlé eftir eina slíka sókn. Í síðari hálfleik heldur þetta áfram, Crystal Palace nær svo öðru marki eftir hornspyrnu sem þeir fengu eftir eina skyndisóknina. United gerir smá breytingar á leikskipulagi í kjölfarið og innáskiptingar. Það skilar sér á endanum á 87. mínútu þegar United potar inn marki eftir þunga sókn. Þá er allt hinsvegar orðið of seint, Palace ná að loka markinu og þrjú stigin fara með þeim heim.
Kunnugleg uppskrift?
Karl Gardars says
Til hamingju med nyja leikmanninn, Rooney…
Keane says
@ DMS:
Og Moyes talar um óheppni eftir leik..
siggi utd maður says
Ég varð allt í einu hrikalega peppaður í góðan sigur þegar ég sá byrjunarliðið. Koma svo Rauðir!