Við erum komin vel á veg með seinni hluta tímabilsins. Það eru tíu deildarleikir eftir, þrjátíu stig í boði og stjóralausa liðið Reading að koma í heimsókn á Old Trafford. Þetta verður síðasti leikurinn fyrir landsleikjafrí og spilar United ekki næst fyrr en þrítugasta mars, gegn Sunderland á útivelli.
Reading rak stjórann sinn, Brian McDermott, á dögunum og leitar að eftirmanni hans sem þýðir að Eamonn Dolan mun sjá um stjórn liðsins á morgun. Reading deilir neðsta sæti deildarinnar með QPR, bæði lið með tuttugu og þrjú stig og markahlutfallið -21. Reading hafa nú tapað 5 leikjum í röð í öllum keppnum (deildin + FA bikarinn) en síðustu 6 deildarleikir Reading hafa endað með einu jafntefli, einum sigri og svo fjóra tapleiki í röð. Svo til að bæta gráu ofan á svart fyrir Reading, þá hafa síðustu sex útileikir liðsins endað með 5 töpum og einum sigri. En þrátt fyrir slæma frammistöðu í síðustu fimm leikjum þá var Reading búið að vinna 6 af síðustu átta leikjum í öllum keppnum fyrir það. Varla þarf ég að minna ykkur á leik liðanna á Madejski Stadium 1. desember, sem endaði 4-3 fyrir United þar sem öll mörkin voru skoruð á fyrstu 35 mínútunum? Reading eru semsagt sýnd veiði en alls ekki gefin!
United er hins vegar í mun betri málum þrátt fyrir frekar ömurlega tvo leiki í röð, þar sem liðið datt út úr meistaradeildinni og neyðist til að spila aftur gegn Chelsea eftir jafntefli í FA bikarnum. Í deildinni er United búið að vinna fimm leiki í röð og á Old Trafford er liðið búið að sigra í sex í röð. Ef þið eruð eitthvað niðurdregin eftir síðustu viku, hafið þetta í huga:
- Í síðustu 19 deildarleikjum hefur United unnið 16, gert 2 jafntefli og tapað einu sinni
- Í síðustu 19 heimaleikjum í deildinni hefur United sigrað 17, gert eitt jafntefli og tapað einum (Helv. Spurs!)
Líkurnar benda því sterklega til þess að United sigri á morgun og virðast verðmálasíðurnar vera á sama máli. Besti stuðulinn sem ég gat fundið á United sigur, var 1.18 og á Reading sigur er settur stuðullinn 20.0.
En burtséð frá allri tölfræði og stuðlum þá vonast ég einfaldlega til að sjá United koma sterkt til baka, spila vel, skora mörk og nýta leikinn til að gleyma vonbrigðum síðustu viku. Liðið þarf á því að halda. Í gegnum árin hefur United oft refsað liðum sem þeir mæta eftir vonbrigði Evrópukeppna. Á síðasta tímabili voru það vesalings Wolves sem urðu tvisvar fyrir barðinu á brjáluðu United liði. Töpuðu 4-1 á Old Trafford eftir að United tapaði gegn Basel í meistaradeildinni og svo var það 0-5 burst þegar United datt út úr UEFA Cup eftir tap gegn Athletic Bilbao.
City mætir Everton í hádeginu á Goodison Park þann sama dag sem þýðir að þegar United mætir Reading, fáum við að vita hvort Manchester City hafi minnkað muninn niður í níu stig eða hvort United fær tækifæri til að auka muninn. Mín spá er sú að United komi ferskt til leiks og að við fáum að sjá markatölu í svipuðum gír og gegn Norwich. Ég segi því 4-0 fyrir United.
Meiðsli/Veikindi/Leikbönn:
Það var lítið fréttnæmt sem kom fram á blaðamannafundinum í dag en það merkilegasta var að Phil Jones og Nani munu báðir missa af leiknum á morgun. Ferguson sagði að Phil Jones muni byrja að æfa með liðinu í næstu viku og sem þýðir vonandi að hann verði tilbúinn fyrir næsta leik. Meiðslin á Nani eru sem betur fer ekki eins slæm, eins og fyrst var talið, og er talið að hann verði orðinn leikfær eftir leikinn gegn Sunderland.
United
- Phil Jones => Meiðsli (ökkli)
- Nani => Meiðsli (Aftanlæris tognun)
- Paul Scholes => Meiðsli (hné)
- Darren Fletcher => Veikindi (sáraristilbólga)
Reading
- Pavel Pogrebnyak => Leikbann
- Jason Roberts => Meiðsli (mjöðm)
- Adam Federici => Meiðsli (ökkli)
- Jimmy Kebe => Meiðsli(nári)
Lykilmaður Reading
Líklegt byrjunarlið
De Gea
Rafael Smalling Ferdinand Evra
Carrick Anderson
Welbeck Rooney Young
Van Persie
Helstu keppinautar…
- Lau 16.03 – Manchester City mætir Everton á Goodison Park
- Sun 17.03 – Tottenham mætir Fulham á White Hart Lane
- Sun 17.03 – Chelsea mætir West Ham á Stamford Bridge
- Lau 16.03 – Arsenal mætir Swansea á Liberty Stadium
Skemmtilegar staðreyndir
- Samkvæmt whoscored.com, þá er United með næstbesta sendingarhlutfall allra liða í deildinni, 85.7%. Í efsta sæti sitja Arsenal með 86.2%. Reading eru lægstir á þessum lista með 69% sendingarhlutfall.
- Af öllum liðum í deildinni þá er Reading minnst með boltann, eða 39.7%. United er í fjórða sæti með 56.5%.
- United hefur skorað 19 mörk úr föstum leikatriðum sem er sex fleiri en næstu lið, Norwich/Stoke
- Á þessu ári hefur Reading náð að skora í ellefu af tólf leikjum sínum.
Í öðrum fréttum
ROM tók skemmtilegt viðtal við Reading stuðningsmann.
De Gea var í fyrsta skipti valinn í spænska landsliðið sem mætir Finnum og Frökkum.
Roy Hodgson valdi Rio aftur í landsliðshóp Englands, sem mætir San Marinó og Serbíu í undankeppni HM, eftir að hafa verið hent út vegna „Footballing reasons“ á sínum tíma. Ferguson sagði á fréttamannafundinum að valið hefði komið honum mjög á óvart og að hann sé ekki viss um að það væri best fyrir Ferdinand.
Að lokum
Verið dugleg að koma með athugasemdir hér og á Twitter. Muna að nota #Djöflarnir á Twitter og elta Rauðu Djöflana. Þessar leikskýrslur skrifa sig ekki sjálfar og þykir mér bæði gaman og gagnlegt að sjá hvað ykkur þykir eftirtektarvert á meðan leiknum stendur.
Sveinbjorn says
Ætla ad yta undir ykkur og vona ad thid gerid oftar svona massivar upphitunanir og skyrslur med thvi ad hrosa ykkur fyrir thetta. Er ykkur ævinlega thakklatur fyrir thessa sidu.
Hros.
Einar j says
Sammála síðasta ræðumanni, bíð alltaf spenntur eftir upphitununum fyrir leiki og hef ekki ennþá orðið fyrir vonbrigðum :)
Elvar Már says
Glæsileg upphitun,einsog áður á þessari frábæru síðu. Sammála líklegu byrjunarliði,og treysti á skyldusigur á morgun. 5-0! Glory Glory!
Tony says
snilldar upphitun hja þér! vonandi að við sjáum liðið flengja reading væri ekki leiðinlegt að sjá van persie setjann og stoppa þessa eyðimörk
Verðum að fá young inn í þetta á lokakaflanum
Egill Guðjohnsen says
Er nokkuð viss um að Rafael og Evra hvíla á mrg. Væri til í að sjá Kagawa í holunni og Rooney fremstan. RVP þarf sko hvíld!
DMS says
Er þetta ekki flottur leikur fyrir RvP til að finna markaskóna aftur? Ég trúi ekki öðru en að Ferguson sé búinn að gíra alla sína leikmenn fyrir þennan leik, fara inn í landsleikjahléið með öflugan sigur að baki eftir vonbrigðaviku.
Björn Friðgeir says
Everton!
Nú verður sko ekkert hvílt á móti Reading. Tvær vikur í næsta leik, skítt með þessa landsleiki. Vinna og vinna sannfærandi!
Pétur says
Djöfull elska ég Moyes!