Eins og alþjóð veit var í dag dregið í riðla Meistaradeildar Evrópu. Að venju var riðillinn okkar í léttari kantinum. Við drógumst gegn Braga frá Portúgal, Galatasaray frá Tyrklandi og CFR Cluj frá Rúmeníu. Þetta eru allt lið sem við ættum að fara í gegnum.
Þó er best að hafa allan vara á eftir reynslu síðasta tímabils þar sem við fengum mjög áþekkan riðil en guldum algjört afhroð. Það eina slæma við þennan riðil er okkar menn þurfa að fara í helst til of löng ferðalög til Tyrklands og Rúmeníu. Þetta hefði þó getað verið verra, eins og andstæðingar okkar í City fengu að kenna á.
Riðilinn lítur þá svona út:
H-riðill
- Manchester United
- Braga
- Galatasaray
- CFR Cluj
Braga
Lið Braga er nokkuð lítið lið en er þó líklega með einn flottasta heimavöll Evrópu sem var byggður fyrir EM 2004 sem fór fram í Portúgal. Heitir hann Estádio Municipal de Braga og tekur 30.154 í sæti. Liðið endaði í 3.sæti portúgölsku deildarinnar, 13 stigum frá meisturum Porto. Braga var í potti 2 ásamt liðum eins og City, Valencia og Benfica þrátt fyrir að vera ekki með mikla reynslu í Meistaradeildinni. Ástæðan fyrir því að liðið var svo ofarlega í pottaröðinni er sú að liðið hefur náð góðum árangri í Evrópudeildinni undanfarin ár og komst m.a. í úrslit árið 2011 en tapaði þar fyrir löndum sínum í Porto.
Galatasaray
Lið Galatasaray þekkja flestir enda fornfrægt félag. Liðið er með bækistöðvar í Istanbúl og því gaman fyrir liðsmenn United að fá að kynnast þessari sögulegu borg aðeins betur. Liðið er eitt af stóru liðunum í Tyrklandi og eina liðið sem hefur unnið UEFA-bikarinn, UEFA Super-cup, tyrknesku deildina og tyrkneska bikarinn á sama ári en það gerðist árið 2000. Liðið spilar á flunkunýjum heimavelli, hinum glæsilega Turk Telecom Arena sem tekur alls 52.695 manns í sæti. Ekki amalegt það. Lið í Tyrklandi hafa undanfarin ár verið helst þekkt fyrir að sanka að sér nokkuð þekktum nöfnum sem ekki náðu að meika það í bestu deildum Evrópu. Af núverandi spilurum í röðum Galatasaray af því taginu má nefna leikmenn eins og ruslakarlinn sjálfan Felipe Melo, Liverpool-manninn Alberto Riera og skemmtikraftinn Emanuel Eboue.
CFR Cluj
Fyrir tiltölulega skömmu var CFR Cluj lið sem enginn hafði hugmynd um að væri til. Það er svosem ekki skrýtið enda hafa lið frá höfuðborginni í Bucharest eignað sér rúmensku deildina í gegnum tíðina. Árið 2008 varð CFR Cluj fyrsta liðið í 17 ár utan höfuðborgarinnar til þess að vinna deildartitilinn en sex árum áður hafði liðið verið í rúmensku þriðju deildinni en vísir menn segja reyndar að hún sé ógnarsterk. Árið 2002 komu nýjir eigendur að liðinu og síðan hefur leiðin bara verið upp og hefur liðið unnið alls 8 titla síðan þá, þar af deildina þrisvar. Liðið leikur á heimavelli sem tekur 23.500 manns í sæti og heitir því athyglisverða og þjála nafni Dr. Constantin Radulescu stadium. Það er nú ekki mikið um þekkt nöfn sem spila með liðinu. Ég kannaðist aðeins við nafn Ádám Vass sem spilaði eitt sinn um skamma hríð með Stoke.
Uppfært (BFrB): Leikdagar komnir: 19. sep. Galatasaray (h); 2. okt. Cluj (ú); 23. okt. Braga (h); 7. nóv. Braga (ú); 20. nóv. Galatasaray (ú); 5. des. Cluj (h). Smá fjúkk hér, Leikirnir á eftir heimaleikjunum eru Liverpool (ú), Chelsea (ú) og City (ú). Þannig að sleppa við ferðalög á undan þeim er snilld.
Björn Friðgeir says
Það er ekki ástæða til að unglingurinn í hópnum muni eftir hinum, fyrir okkur gömlu karlana, ógleymanlegu leikjum við Galatasaray haustið 1993.
United var í fyrsta sinn í 24 ár að keppa í Evrópukeppni meistaraliða og keppti við Galatasaray í 2. umferð. Hér er fyrri leikurinn á Old Trafford sem fór 3-3. Heimsóknin til Istanbul þar sem tekið var á móti United með ‘Welcome to Hell’ borðum er ógleymanleg. Andrúmsloftið baneitrað, dómarinn á móti okkur, 0-0 jafntefli sló okkur út, Eric Cantona rekinn útaf eftir leik og sleginn af lögreglumanni.
Árið eftir lékum við svo við þá í fyrstu riðlakeppni Meistardeildarinnar, gerðum aftur jafntefli við þá úti, en unnum 4-0 heima.
Það er auðvitað alveg fjarstæðukennt, en af þessum fjórum leikjum fyrir 18 og 19 árum síðan lék Ryan Giggs þrjá leiki, og er því vel kunnugur Istambul, en ekki þó þessum nýja velli. Vonum að hann reynist minni gryfja en Ali Sami Yen í þá daga