1. Hvað viljið þið sjá gerast í leikmannamálum núna í sumar?
Bjössi:
Vann sex bjóra í fyrra af samritstjórum fyrir að spá því að enginn topp-ekta-miðjumaður yrði keyptur (holumenn töldu ekki). Hefði unnið samskonar veðmál á hverju ári síðan 2009. Það væri rosa gaman að sjá eitt sterkt tröll koma inn á miðjuna. Væri ekki slæmt að sjá vinstrikantmannbakvörð, en býst frekar við að sjá Evra, Büttner og Fabio berjast um þá stöðu næsta vetur.Nú eru trúverðugasti orðrómurinn að orða okkur við Cesc og Thiago frá Barca. Væri ekkert óánægður með það, en sér einhver miðju-ás með Carrick, Cesc og Shinji vera að gera eitthvað á móti líkamlega sterku liði? Á rigningarkvöldi í Stoke? Gæti hins vegar virkað vel í leik þar sem markmiðið er að halda boltanum 60+% af leiknum og láta boltann ganga vel.
Hvað kantmenn varðar erum við auðvitað að fá Zaha. Ef Nani eða Valencia verða seldir þurfum við nýjan slíkan, en annars er bara að vona að þeir tveir girði sig í brók. Annars verða bara Shinji og Welbeck að halda áfram að sjá um þetta
Sigurjón:
Eins og flest allir þá vil ég sjá sterkan miðjumann keyptan í sumar. Núna er Scholes hættur, Fletcher er algjört spurningarmerki, Anderson er hálfgert jójó. Það er ekki nóg að treysta bara á að Carrick spili alla leiki á 120% tempói þannig að það þarf klárlega að kaupa einn heimsklassa miðjumann sem hægt er að stilla upp með Carrick. Fyrir utan miðjuna tel ég hópinn nægilega góðan til að gera aðra atlögu að titli. Þau atriði sem ég tel vera mikilvægast fyrir næsta tímabil er að sjá til þess að Rooney fari hvergi, að Phil Jones og Vidic verði heilir, fá kantmennina aftur í gang og að lokum spila Kagawa í sinni stöðu. Ef þetta fellur fyrir okkur þá hef ég litlar áhyggjur af hópnum!Elvar:
Eins og Bjössi nefndi fyrir ofan, þá fór ég illa út úr því að veðja við hann um miðjumannskaup síðasta sumar. En mikið djöf væri ég til í að sjá nýjan topp miðjumann mæta á svæðið og skrifa undir samning við United. En eins og Bearded Genius nefndi fyrir stuttu, þá þarf líka pæla í hvað verður þá um Cleverley, Anderson, Powell og jafnvel Phil Jones (Carrick verður að sjálfsögðu á sínum stað).Minn draumur væri að fá leikmann eins og Fabregas á miðjuna. Ef við erum ekki að fara að missa leikmenn og bætum leikmanni í hans kaliberi, þá er Moyes búinn að styrkja liðið allsvakalega fyrir næsta tímabil og gera ellioman mjög ánægðan. Kagawa verður öflugri á næsta tímabili, býst við því sama hjá Phil Jones og svo er Zaha að vonandi að fara hrella varnarmenn úrvalsdeildarinnar. Sounds gúd tú mí!
Maggi:
Eins og síðustu ár vil ég sjá miðjumann keyptan til liðsins. Tel það mjög líklegt að Anderson yfirgefi okkur í sumar og fari aftur til Portúgal. Paul Scholes er náttúrulega (endanlega) hættur. Það verður að teljast ólíklegt að Darren Fletcher muni snúa aftur. Sem þýðir að einu miðjumenn liðsins eru Michael Carrick og Tom Cleverley. Það er verið að orða okkur við leikmenn eins og Marouane Fellaini og Thiago Alcantara, ef við fáum þá báða er liðið ágætlega statt. Önnur saga er vængmanna ástandið á liðinu. Það er ótrúlegt að vinna deildina svona örugglega án almennilegs vængspils sem hefur einkennt liðið undir stjórn Ferguson. Nani og Valencia verða alveg örugglega áfram en ég held og vona að Young verði látinn fara. Væri þá fínt að fá einhvern á vinstri vænginn (ekki Kagawa). Að lokum held ég að það verði nauðsynlegt að fá 1-2 varnarmenn, miðvörð og mögulega Leighton Baines (ef nýi stjórinn notar sín sambönd).Tryggvi:
Miðjumenn, miðjumenn, miðjumenn. Vörnin er í góðum málum. Ég myndi ekki gráta það ef Büttner færi og alvöru vinstri bakvörður kæmi til að keppa við Evra en aðalatriðið hlýtur að vera að fá alvöru miðjumenn. Framlínan er góð, varnarlínan er góð en okkur vantar kraft á miðjunni þannig að ég vil sjá Moyes kaupa 1-2 miðjumenn. Einn kraftmikinn nagla og einn léttleikandi spilara.
2. Hvað verður um Rooney? Mun Moyes selja eða halda honum?
Bjössi:
Selja hann fyrir eins mikið og hægt er og vonast til að fá þá peninga til að nota í leikmannakaup. Þá skuldar Ellioman mér líka þrjá bjóra en ekki bara einn.Sigurjón:
Ég er hættur að skila hvað er í gangi í hausnum á Rooney, þar af leiðandi get ég ekki spáð fyrir um hvað mun gerast en auðvitað vonast maður til þess að sjá Rooney í United búning á næsta tímabili. Þetta er orðið svolítið þreytandi samt, þessir „stælar“ í honum, hann er að haga sér svolítið eins og táningur. Ég vona allavega að Moyes tali hann á það að vera áfram og færi svo Rooney aftur í fremstu víglínu með RVP. Ég hef enn fulla trú á því að þeir tveir geti myndað besta framherjaparið í sögu United.Elvar:
Ég fór nokkuð vel yfir þetta í fyrri hluta uppgjörsins þegar ég valdi Rooney sem mín helstu vonbrigði á síðasta tímabili. Það er alveg ótrúlegt að sjá drenginn mæta tvisvar til Ferguson og biðja um að vera seldur. Ég á sérstaklega erfitt með þetta þar sem hann er búinn að vera uppáhalds leikmaður minn í næstum 10 ár!Ég held Moyes muni halda honum (Já það er Moyes sem er með öll spil á hendi, ekki Rooney) en mikið djöfull getur maður orðið fúll út í drenginn og ruglið sem fylgir honum. Hvert ætti hann annars að fara? Sé ekki fyrir mér að hann yrði seldur til annars liðs í úrvalsdeildinni. Núna er hann svo að fara núna í gegnum toppárin á sínum ferli og eigum við von á góðu ef hann nær að halda hausnum í lagi sem maður vonar að það gerist. Og for þe rekord, ef Rooney verður seldur þá skulda ég Bjössa fjóra bjóra annars núll!
Maggi:
Veit það hreinlega ekki. Það er hægt að færa rök fyrir því að halda honum og fyrir að selja hann. Persónulega myndi ég vilja að hann myndi bara „suck it up“ og spila eins og maður. Held alveg að Moyes sé maður sem láti ekki vaða yfir sig. Þetta verður áhugavert sumar.Tryggvi:
Það er spurningin. Mér finnst líklegra að Moyes haldi honum en þetta er samt win-win situation fyrir Moyes. Ef hann sannfærir kappann um að halda áfram er hægt að tala um sigur fyrir Moyes og styrkleikamerki að toppleikmenn á borð við Rooney vilji spila fyrir hann. Ef hann selur Rooney er það líka styrkleikamerki. Það sendir þau skilaboð að hann líði ekert kjaftæði auk þess sem að peningur fæst til þess að styrkja liðið. Ef hann verður áfram verður hann hinsvegar að hætta í hamborgurunum á sumrin.
3. Paddy Crerand sagði fyrir stuttu að knattspyrnuferli Darren Fletcher væri lokið. Eru þið sammála Paddy?
Bjössi:
Paddy Crerand er ekki læknir þannig að það er ekkert sérstakt mark á honum takandi. Búið er að gefa út að Fletcher ætli að koma til baka í haust. Það verður gríðarlega erfitt jafnvel þó að hann nái sér eftir aðgerðina enda hann varla spilað leik í tvö ár. Ég vona bara það besta enda myndi það gefa Moyes tækifæri til að nota uppáhaldssetninguna hans Sir Alex „Það er eins og að kaupa nýjan leikmann að fá leikmanninn til baka úr meiðslum“Sigurjón:
Ég held að það sé vonlaust fyrir okkur að ræða líkurnar hjá Fletcher, efast um að hann viti hvernig þetta mun allt saman fara. Það er eitt að koma aftur inn á völlinn og annað að spila á fyrri styrk. Ég bara vona samt svo innilega að hann nái sínum fyrri styrk því hann er akkúrat leikmaðurinn sem við þurfum á að halda.Elvar:
Erfitt að segja en ég hallast að því að Paddy hafi rétt fyrir sér. Alveg ömurlegt fyrir Fletcher sem er alveg frábær fótboltamaður. Hann hefði til dæmis verið velkominn á miðjuna nokkrum leikjum síðasta vetur.Maggi:
Ég er sammála, því miður. Hef mikið dálæti á þessum leikmanni. Það væri frábært ef það væri hægt að gera eitthvað prógram til að hann gæti spilað einhverja leiki en efast um að svo verði. Svo ég vitni í Alphaville „hoping for the best but expecting the worst.“Tryggvi:
Það er mjög erfitt að segja þar sem maður veit lítið um framgöngu þessa sjúkdóms hans en það kæmi mér á óvart ef við sæjum Fletcher spila lykilhlutverk á miðjunni í framtíðinni.
4. Nú er ljóst að David Moyes verður næsti stjóri United. Hvert er ykkar álit á þeirri ráðningu?
Bjössi:
Ég er ánægður. Traustur maður sem mun ekki valda of miklu uppnámi í leikmannahóp og spilar til framtíðar. Er ekki að hafa of miklar áhyggjur af því að hann sé að skipta um þjálfarateymi, þar kemur maður í manns stað og það er mikilvægt að stjórinn sé með menn í kringum sig sem hann þekkir og treystir 100%.Þetta eru erfiðustu framkvæmdastjóraskipti í sögu fótboltans ætla ég hreinlega að segja og það getur svo margt klikkað jafnvel þó allt sé gert rétt. Ég verð bara rólegur og ætla ekki að æsa mig þó við vinnum ekki neitt næsta ár. Það er ekki eins og City og Chelsea ætli ekki að styrkja sig gríðarlega. Það sem skiptir máli fyrir mig er að kaupa skynsamlega í sumar, og að spila góðan fótbolta. Líka að halda góðri stemmingu í hópnum.
Sigurjón:
Ég gæti skrifað margar blaðsíður um þetta mál, stutta svarið við þessari spurningu er já, ég er sáttur við þessa ráðningu því ég tel hún vera best fyrir framtíð United. Auðvitað var mað að gæla við þær hugmyndir að sjá kannski Guardiola eða Mourinho taka við af gamla, en þó svo þær ráðningar hefðu eflaust skilað einhverjum titlum á næstu 3-4 árum þá er ómögulegt að segja til hvaða langtímaáhrif þær hefðu haft á klúbbinn. Með því að ráða Moyes held ég að sem minnsta mögulega röskun hafi átt sér stað á þeirri uppbyggingu sem Ferguson stóð fyrir.Elvar:
Verð að játa að ég var ekkert sérstaklega kátur með þessa ráðningu þegar ég fyrst heyrði af henni. Moyes var svo sannarlega ekki efstur á mínum óskalista, það var herra Jürgen Klopp (stjóri Dortmund).Nú er maður búinn að fá tækifæri til að melta þetta og er ég satt að segja orðinn frekar sáttur með ráðninguna. Tryggvi kom með flotta grein um herra Moyes fyrir mánuði síðan og er ég búinn að sannfæra sjálfan mig að hann hafi verið rétt val. United vill stöðuleika, eins og lengd samnings hans við United gefur til kynna og held ég að Moyes muni standast pressuna og halda liðinu í toppbaráttunni. Satt að segja hlakkar mig ótrúlega mikið að sjá kallinn við stjórnvölinn á næsta tímabili.
Come on David Moyes, Play like Fergie’s boys, We’ll go wild, wild, wild!
Maggi:
Ég er sáttari núna eftir að hann var ráðinn en ég var áður en hann var staðfestur. Ég hefði ráðið Jürgen Klopp frá Dortmund ef ég átt að ráða. Þetta verður rosaleg breyting fyrir Moyes að fara frá Goodison Park til Old Trafford þar sem væntingin fyrir hvern leik er að vinna hann, sama gegn hverjum er leikið.Tryggvi:
Maður hefur alltaf talað fyrir því að eitthvað stærra nafn en Moyes myndi taka við vegna þess að enginn stjóri mun hafa þurft að glíma við þá gríðarlegu pressu sem er á arftaka Sir Alex. Hinsvegar eftir að kom í ljós að Moyes var fyrstur á blaði hjá stjórninni tók maður þetta í sátt og núna er maður bara spenntur fyrir næsta tímabili. Moyes er augljóslega hæfileikaríkur knattspyrnustjóri og verðskuldar tækifærið á því að spreyta sig á leiksviði draumanna. Hann er greinilega ekki hræddur við þetta starf sbr. nýjustu fregnir af þjálfaramálum og er augljóslega með bein í nefinu.Að því sögðu verður hann að fá tækifæri og tíma til þess að setja sitt mark á liðið. Svo lengi sem hann skilar liðinu í Meistaradeildina fyrstu tvo tímabilin ætti hann að fá þann tíma sem hann þarf.
Að lokum
Þá er hér kominn inn seinni hluti uppgjörsins. Ef þið hafið einhverjar spurningar sem þið viljið sjá okkur svara þá megið þið endilega koma með þær hér í athugasemdunum.
Sindri Sigurjónsson says
skemmtileg samantekt, sammála því að það vanti miðjumann í þetta lið
Magnús says
Ekki vanur að commenta en verð að segja að þessi síða hjá ykkur er aldeilis frábær og alltaf gaman að lesa þó maður sé kannski ekki alltaf sammála öllu eða öllum. Vildi bara segja ykkur þetta . Keep up yhe good work. :)
McNissi says
Ég var einu sinni spurður að því hvort að ég myndi enn halda með Manchester United ef að Chelsea og United myndu skipta algjörlega um leikmannahóp. Þó að spurningin sé í raun fáránleg og muni auðvitað aldrei verða að veruleika þá var svar mitt samt það að ég myndi enn halda með United en ekki byrja að halda með Chelsea útaf því að allir United mennirnir væru komnir þangað…
Það er nefnilega þannig að það er enginn stærri en liðið, það er enginn ómissandi og þá tel ég Sir. Alex með! Leikmenn og þjálfarar eru og verða alltaf partur af sögu United en þegar upp er staðið erum við stuðningsmenn United en ekki stuðningsmenn Rooney eða Rio.
Ég persónulega er farinn að vera mjög spenntur fyrir undirbúningstímabilinu! Það þýðir ekkert annað en að taka þessum breytingum með opnum hug og styðja þá sem eru að koma inn.
Ingi Rúnar says
Vill fá Ronaldo tilbaka, núna eða aldrei. Efast samt um adð tadð gerist. Solid sóknarsinnaðann miðjumann, Fabregas eða Fellaini, tel adð tadð séu meiri líkur á Fellaini.