Í gærmorgun mætti David Moyes ferskur til vinnu á Carringt… fyrirgefið AON Training Complex æfingavöllinn sem framkvæmdastjóri Manchester United. Það fyrsta sem gert var, var að staðfesta ráðningu Steve Round sem aðstoðarframkvæmdastjóra, Jimmy Lumsden sem þjálfara og Chris Woods sem markmannsþjálfara.
Við þessu hafði verið búist eins og við fórum yfir í lok maí, nema þá var ekki minnst á Lumsden. Hann er 65 ára gamall Skoti sem þjálfað hefur víða. Hann uppgötvaði Moyes sem leikmann hjá Celtic en varð síðar þjálfari hjá Moyes þegar Moyes tók við Preston North End og hefur fylgt honum síðan. Hann virðist samt ekki nógu hátt skrifaður til að fá stafina sína á treyjuna á myndinni hér að neðan. Kannske það lagist.
Það skal alveg viðurkennast að 65 ára Skoti sem þjálfari hljómar ólíklega til að vera jafn framúrskarandi, og framúrstefnulegur, og René Meulensteen. En þá komum við líka að máli sem svolítið hefur verið að vefjast fyrir fólki. Við skiptum um framkvæmdastjóra. Nú eins og fyrir aðra Unitedmenn þá eru framkvæmdastjóraskipti fyrir mér hulin dulúð, eitthvað sem önnur lið gera. Að ekki sé talað um framkvæmdastjóraskipti þar sem stjórinn hættir að eigin ósk. Það gerist varla hjá öðrum liðum. En það er alger staðreynd að í langflestum tilfellum þá fylgja stjóraskiptum þjálfaraskipti. Nýr maður kemur með nýtt þjálfaralið og notar það til að innleiða sínar aðferðir í klúbbinn. Það hefði aldrei verið vænlegt til árangurs ef Moyes hefði komið inn og þurft að byrja á því að vinna Phelan, Meulensteen og Steele á sitt band, kenna þeim sínar aðferðir, áður en hann gæti tekið við að móta liðið eftir sínu höfði. Því það er það sem við verðum bara að sætta okkur við. David Moyes er framkvæmdastjóri Manchester United og mun móta liðið eftir sínu höfði. Til samanburðar má taka að Josep nokkur, „Pep“, Guardiola var að taka við bæverska smáklúbbnum Bayern München og tekur með sér fjóra Spánverja. Reyndar verður aðstoðarstjórinn gamall Bayern hundur, en ég græt ekkert sérstaklega brottför Mike Phelan. Það eru nógir í kringum Moyes til að kenna honum þær United reglur sem þó þarf þó að Phelan sé ekki. Auðvitað er missir að Meulensteen, sem nú er orðinn aðstoðarþjálfari vinar síns Guus Hiddink hjá Anzhi Makhachkala, en einhver orðrómur var um að Moyes hefði boðið honum aðstoðarþjálfarastöðu. Hvort sem það er rétt eða ekki, þá er þetta orðinn hlutur og þýðir ekki að gráta það.
Í síðustu viku kom fram að við hefðum boðið í Leighton Baines, vinstri bakvörð Everton og þótti sumum við vera að stefna í einhvers konar Everton United. Ég veit ekki hvort það þýðir að benda á að United hefur verið að skoða Baines í lengri tíma, slúðrið vill meina að það hafi næstum náðst samkomulag um kaup á honum í fyrrasumar og það er alveg augljóst að hann myndi taka stöðuna af Evra ef hann kæmi enda er talað um að Evra fari ef Baines kemur. Sama má segja um það ef við skyldum, sem virðist nú vera dautt slúður, kaupa Fellaini. Það eru fáir sem halda því fram að hann myndi ekki styrkja miðjuna hjá okkur.
Þess vegna skulum við bara vera róleg og anda með nefinu og dæma Moyes þegar reynslan af honum er svona 1-2 ár, ekki dagar.
Það róar kannske engan að við erum komnir í bláa æfingabúninga, en þá líður Moyes og félögum samt betur svona fyrstu dagana á Carr… fyrirgefið AON Training Complex. AON er nú komið á æfingatreyjurnar í stað DHL, og verður þar áfram eftir að Chevrolet tekur við keppnisbúningunum á næsta ári, smbr samninginn sem gerður var í vetur.
En að öðrum meira spennandi málum. Félagaskiptaglugginn hefur verið opnaður, Moyes er kominn með lyklavöld og nú má alveg fara að búast við fréttum.
Slúðurstaðan er í skjótu bragði sú að Thiago er annað hvort að fara að skrifa undir samning hjá Barcelona með þreföldum launum eða hann er búinn að tilkynna Barcelona að hann sé farinn til okkar. Nú eða hvorugt. Garay slúður var frekar sterkt síðustu viku en Benfica vill góða upphæð fyrir þennan miðvörð. Af Kevin Strootman hefur ekki heyrst slúður í mánuð og virðist sem það sé alveg svæft. Spurning hvort að Sir Alex hafi skilið eftir miða í skrifborðsskúffunni: „Ef þú kaupir miðjumann muntu vakna með hrosshaus í rúminu einn daginn“. Síðast en ekki síst sló eitt blað í Englandi (Mirror held ég? sá bara mynd af baksíðu) því upp í gær að United sæi fram á að Messi kæmist ekki í Barcelona liðið og væri því á höttunum eftir honum. Ólíklegasta slúður áratugsins þar.
Semsé fátt slúðurvænt en líklega fer Thiago sagan að taka endi af eða á.
Í ekki slúðurfréttum er ljóst að Moyes mun hitta Rooney í vikunni og ræða framtíð þess síðarnefnda hjá klúbbnum. Þá ættu mál þar að skýrast fljótlega. Leikmenn eru nú að týnast til baka eftir sumarfrí, Ashley Young var á svæðinu í gær og heilsaði Moyes á hraðferð og aðrir sem ekki voru í landsliðsverkefnum í júní koma til baka í dag og á morgun í ástandsskoðanir og dekkjaskipti áður en æfingar byrja á fullu á fimmtudag.
Á föstudaginn í næstu viku leggur svo allur hópurinn upp í tæpra þriggja vikna ferðalag um Tæland, Ástralíu, Japan og Hong Kong. Við förum yfir þann túr rækilega áður en að honum kemur en annars er orðið laust hér fyrir neðan.
Audunn says
Það er svo sem skiljanlegt að Moyes vilja fà menn sér við hlið sem hann þekkir.
Hinsvegar hafa þessir menn enga reynslu í Evrópkeppnum og það eitt svíður manni.
Ég hefði persónulega viljað sjá einhvern evrópskan reyndan mann í þjàlfarateymið, einhvern með aðra sýn og hugsun.
Er hræddur um að þetta teymi sé of gamaldags og of Breskt.
Persónulega líst mér ekkert of vel á þetta allt saman en vonandi verður mín tilfinning ekki að veruleika.
úlli says
Ég svo sem veit auðvitað ekkert um það, en ég held það sé algjört aukaatriði hverjir þessir „þjálfarar“ séu. Það er altalað að Mike Phelan hafi ekki haft neitt fram að færa, og 99% stuðningsmanna liðsins höfðu aldrei heyrst á þennan Hollending minnst sem er allt í einu orðin einhver goðsagnavera núna!
Ég er orðinn svo gamall að ég horfi aðallega á United-leiki, hina kannski með öðru auganu, svo ég hef ekki séð mjög marga leiki með Baines og Fellaini. En mér þætti það ekkert svakaleg Everton-væðing þó þeir kæmu jafnvel báðir. Baines verið orðaður við félagið talsvert lengi eins og í pistlinum segir, og svo virðast flestir sammála um að Fellaini sé ‘the real deal’ og verði kominn til stærra félags fljótlega.
Hins vegar er það deginum ljósara að Chelsea og City verða vægast sagt illviðráðanleg næsta vetur. Veðbankar munu aldrei setja okkur ofar en í þriðja sætið. Arsenal verður einnig með sterkt lið ef það er rétt að þeir hafi 75 milljónir til umráða eins og talað er um (og fá jafnvel Rooney þó ég trúi ekki að það sé inni í myndinni að selja hann til annars liðs í ensku deildinni)
Tommi says
Það verður spennandi að sjá upphaf ferils Moyes hjá félaginu. Það er gott að Moyes er að fá fólk í kringum sig sem honum þykir gott að vinna með.
Það eru kynslóðarskipti hjá liðiðnu Paul Scholes er hættur og Giggs leikur líklega nú sitt seinasta tímabil, Anderson er búinn með sína sénsa fyrir mitt leyti og greyið Fletcher er enþá veikur, Carrick verður 32 ára á árinu. Því verður að fjárfesta í helst tvem miðjumönnum. Thiago er mjög spennandi kostur, vonandi gengur það eftir. Ekki veit ég hver á að vera hinn.
Við eigum unga og spennandi miðjumenn eins og Januzaj og Powell, verður gaman að sjá hvort þeir fá sénsinn í ár.
Ég tel það ekkert nema jákvætt að við séum að reyna kaupa Baines, hann er sá leikmaður í Evrópu sem skapaði flest klár marktækifæri. Það er virkilega vel gert hjá vinstri bakverði og er hann með rosalegan vinstri fót.
Rosalega spennandi tímabil framundan. Vonandi upphafið á the Moyes era
Spector says
„Ég tel það ekkert nema jákvætt að við séum að reyna kaupa Baines, hann er sá leikmaður í Evrópu sem skapaði flest klár marktækifæri. Það er virkilega vel gert hjá vinstri bakverði og er hann með rosalegan vinstri fót.“
Hann tekur flestar ef ekki allar horn- og aukaspyrnur fyrir Everton svo það er ekkert skrítið að hann skapi fleiri marktilraunir heldur en aðrir bakverðir. Svo veit ég ekki með Fellaini, hvað hefur hann spilað marga leiki fyrir Everton á miðjunni? Hefur yfirleitt verið frammi eða í holunni.
Væri glæsilegt ef að liðið nær að klófesta Thiago og öflugan vinstri kantmann.
Runólfur says
Síðasta tímabil var fyrsta tímabilið hans Fellaini í holunni af einhverju ráði. Ef menn hafa aðeins meira en 1 tímabil í skammtíma minni þá vita þeir að Tim Cahill átti þessa stöðu hjá Everton í mörg ár – á þeim tíma sem Fellaini og Cahill spiluðu saman þá var Fellaini í svokallaðri „dirty“ midfielder stöðu. Hann sá um skítavinnuna ásamt því að vera ógn í föstum leikatriðum. Það er í raun gott dæmi um útsjónarsemi Moyes að færa Fellaini ofar þegar Cahill fór. Ef Fellaini kæmi til United þá yrði hann líklega í því hlutverki með smá box2box ívafi. En það er bara mín skoðun.