Á morgun fer fram síðasti heimaleikurinn á Old Trafford í bili. Steve Bruce kemur með lærisveina sína í Hull í heimsókn. Það þurfti að færa þennan leik vegna þess að Hull hefur komið öllum að óvörum og sett saman ótrúlega atlögu að FA-bikarnum þar sem liðið er komið í úrslit. Í deildinni hefur það lengst af siglt lygnan sjó um miðbil deildarinnar en hefur verið að sogast neðar og neðar að undanförnu, leikmennirnir eru kannski að láta drauminn um bikarinn trufla sig. Eftir úrslit helgarinnar er þó ljóst að liðið getur ekki fallið og því mun Hull spila í Úrvalsdeildinni að ári.
Maður veltir því fyrir sér hvort að nú þegar liðið hefur endanlega tryggt veru sína í deildinni hvort að einbeiting leikmanna verði ekki algjörlega á úrslitin í FA-bikarnum sem fram fara í lok mánaðarins? Steve Bruce er þó líklegur til þess að berja allt svoleiðis út úr mannskapnum enda eflaust æstur í að ná í sinn fyrsta sigur gegn United. Ef David Moyes væri ennþá við stjórnvölinn væri hægt að treysta á það að Bruce myndi brjóta taphrinu sína gegn United á morgun en blessunarlega er Moyes orðinn hluti af fortíð Manchester United.
Sannleikurinn er þó að ef til vill fær Steve Bruce ekki betra tækifæri til þess að ná í eitthvað gegn Manchester United en á morgun.
Frammistaða liðsins í tapleiknum gegn Sunderland um helgina bar öll þess merki um að leikmennirnir væru komnir í sumarfrí. Liðið átti 17 skot að marki en aðeins 2 á markið sjálft. Sunderland skoraði markið sitt eftir að hver einasti leikmaður í vörninni ákvað að slökkva á sjálfum sér á sama tíma. Sóknarleikurinn var dapur og einhæfur. Menn voru hreinlega ekki að nenna þessu.
Ryan Giggs var með yfirlýsingar fyrir þann leik og sagði í raun allt það sem við stuðningsmennirnir viljum heyra:
Giggs on OT: "We want to ensure it's a place where away teams find it difficult to cope with the intensity and pressure we put them under."
— Manchester United (@ManUtd) May 3, 2014
Hann virðist geta talað talið en getur hann labbað labbið?
Það skiptir kannski engu máli, ef blaðamenn Daily Mirror hafa rétt fyrir sér verður Louis van Gaal kynntur til leiks sem næsti knattspyrnustjóri Manchester United eftir leikinn á morgun. Við gætum því verið að sjá Ryan Giggs mæta til leiks sem starfsmaður United á Old Trafford í síðasta skipti á morgun enda hefur hann sagst vera opinn fyrir möguleikanum á því að reyna fyrir sér sem knattspyrnustjóri einhverstaðar annarsstaðar.
Jafnframt gæti þetta verið síðasti heimaleikur ansi margra leikmanna United ef maður trúir öllu því sem sagt hefur verið um leikmannahreinsanir í sumar. Nemanja Vidic er að fara til Inter og því mun fyrirliðinn okkar kveðja Old Trafford á morgun. Patrice Evra, Rio Ferdinand, Javier Hernandez, Ashley Young, Nani og Tom Cleverley hafa allir verið orðaðir burt frá liðinu og því er möguleiki á því að einhver þeirra muni spila í síðasta sinn á Old Trafford. Vonandi virkar það sem amfetatín-stera sprauta á milli tánna fyrir þá.
Wayne Rooney og Robin van Persie virðast vera orðnir nógu góðir af sínum meiðslum til þess að spila leikinn og það er gott, það vantaði þennan neista sem Rooney kemur oft með í leikjum. Þetta hefur verið tímabil vonbrigða fyrir Robin van Persie og hann er líklega æstur í að enda það á háa c-inu. Fyrir utan Rafael eru allir aðrir leikmenn í góðum gír og tilbúnir í þennan leik.
Ég vil sjá eftirfarandi lið hefja leikinn:
De Gea
Jones Rio Vidic Evra
Carrick Fellaini
Mata Rooney Welbeck
RvP
Og ég vil sjá eftirfarandi lið ljúka leiknum:
De Gea
Jones Rio Vidic Evra
Carrick GIGGS
Kagawa Mata Welbeck
Wilson
Leikurinn er á morgun, klukkan 18.45.
Karl Garðars says
Góður pistill og sammála með byrjunar- og endaliðið.
Þessi sprauta… átti hún nokkuð að fara á milli stóru tánna??