Eins og við Íslendingar vitum manna best þá var spilað í gærkvöldi í undankeppninni fyrir heimsmeistaramótið. Nokkrir leikmenn Man Utd voru í eldlínunni og því við hæfi að minnast á gengi þeirra.
Tom Cleverley, Michael Carrick og Danny Welbeck spiluðu allir í 5-0 stórsigri Englands á Moldavíu. Carrick kom inn á í hálfleik fyrir Gerrard og Welbeck komu svo inn á þegar um 20 mínútur voru eftir af leiknum. Báðir stóðu sig ágætlega en bestur United manna var klárlega Cleverley sem átti afskaplega góðan dag á miðjunni. Hann spilaði allan leikinn fyrir framan Lampard og Gerrard/Carrick, var mjög sprækur og fiskaði vítaspyrnu sem skóp fyrsta mark Englendinga. Frábær opnun hjá stráknum en þetta var fyrsti alvöru landsleikur hans fyrir England.
Robin van Persie spilaði allan leikinn fyrir Holland í 2-0 sigri liðsins á Tyrkjum. Drengurinn hélt uppteknum hætti og skoraði fyrsta mark liðsins, ekki ósvipað og mark hans gegn Southampton þar sem hann stýrði knettinum með skall beint úr hornspyrnu. Frábærlega gert hjá Persie og greinilegt að hann er sjóðandi heitur þessa dagana!
Nani spilaði 81 mínútur í 2-1 sigri Portúgal á Lúxemborg, ekki mikið annað að frétta af honum í þeim leik.
Jonny Evans spilaði allan leikinn fyrir Norður-Íra gegn Rússlandi. Írarnir töpuðu reyndar 2-0 en 90 mínútna endurkoma Evans eru frábærar fréttir fyrir klúbbinn. Ef allt gengur að óskum þá verðum við með þrjá heila miðverði klára í leikinn gegn Wigan.
Patrice Evra spilaði allan leikinn fyrir Frakka í 1-0 sigri gegn Finnlandi.
Joshua King þarf varla að kynna til leiks. Spilaði um 25 mínútur fyrir Noreg gegn Íslandi og hleypti töluverðu lífi í leik Norðmanna. Byrjaði á því að setja boltann í netið framhjá Hannesi, en var dæmdur rangstæður. Síðan komst hann einn inn fyrir vörnina en Hannes lokaði vel á hann og svo rétt fyrir leikslok skallaði hann í þverslána. Góð innkoma hjá stráksa, en ekki nóg!
Antonio Valencia spilaði allan leikinn fyrir Ekvador gegn Bólivíu. Kallinn var víst nokkur ferskur í leiknum en Bólivía spilaði sterka vörn allan leikinn. Það var ekki fyrr en á 71 mínútu að Ekvador skoraði úr umdeildri vítaspyrnu og þar við sat.
Javier Hernandez spilaði í 2-0 sigri Mexíkó gegn Kosta Ríka en setti ekki mark sitt á leikinn að þessu sinni.
Laddi says
Skemmtileg samantekt. Til hamingju með fína síðu, endilega haldið þessu áfram, kominn tími til að við United menn og konur fáum almennilegan vettvang fyrir fréttir, greinar og skoðanaskipti. :)
úlli says
Flott síða.
En geta menn bent mér á einhver skemmtileg fótbolta-podcöst? Ég hlusta eiginlega bara á Football Weekly sem er auðvitað snilld.