September er rétt hálfnaður og eftir helgina verður United búið að spila þrjá af stærstu leikjum vetrarins. Chelsea og Liverpool gengu ekki alveg sem skyldi en á morgun förum við á Etihad og ræðst þá stemmingin í borginni á mánudag.
Öll vitum við að hér uppfrá skiptir Liverpool leikurinn okkur meira máli svona upp á að mæta í vinnuna eftir helgi, og jafnvel þó það sé nú alltaf mál í Manchester eru menn þar líka skiptir í skoðunum. Wayne Rooney finnst Liverpool leikurinn stærri og það var líka raunin þegar Ron Atkinson var við stjórnvölinn. Þá var öldin aðeins önnur eins og BBC rifjar upp. Frekari upprifjun á góðum borgarslögum fyrri ára má finna í þessari grein Guardian frá 2008.
Í fyrra skiptust liðin á sigrum í útileikjum og hinn frábæri 2-3 sigur á Etihad var líklega lykillinn að meistaratitlinum. Þó City ynni á Old Trafford var það um seinan fyrir þá og titillinn var í öruggum höndum. Eigendur City tóku því frekar illa og ráku Roberto Mancini, því miður verðu ég að segja, því mér var alltaf frekar vel við hvað hann var oft mistækur í stjórn liðsins. Í stað hans er kominn Sílemaðurinn Manuel Pellegrini, ferskur frá afrekum með Málaga, en blessunarlega tók hann ekki Isco með sér.
Pellegrini styrkti samt hóp City verulega í sumar, þeir Jesús Navas, Fernandinho, Steven Jovetic, Álvaro Negredo og Martín Demicheles komu til liðsins fyrir litlar 100 kúlur. Hópurinn hefur þannig breikkað verulega, en það þótti ljóst að það var helsta vandamál City að bekkmennirnir voru ekki á sama kaliberi og byrjunarliðið. Þetta á fyrst og fremst um miðjuna. Sóknin hlýtur að veikjast eitthvað við að Tevéz heldur á braut, en Álvaro Negredo er þegar búinn að skora tvö mörk í fjórum leikjum í deildinni og ætti að vera aðeins rólegri utan vallar að auki. Svo virðist sem Edin Džeko sé að rifja upp hvernig er að skora. Hvorugt lofar góðu.
Vörnin var hins vegar áhyggjuefni í fyrstu leikjunum, Demichelis átti að styrkja vörnina í fjarveru Kompany, en meiddist strax og verður frá í einhverjar vikur. Því miður verður Kompany hins vegar klár í slaginn á morgun og má því ekki búast við of miklum gjöfum úr þeirri áttinni.
City eru eins og við með 7 stig eftir fjóra leiki, töpuðu fyrir Cardiff og gerðu jafntefli við Stoke um síðustu helgi, en unnu svo léttan sigur á Victoria Plzen 0-3 sem ætti að létta þeim lund fyrir leikinn
Vikan hefur verið góð fyrir okkur. Tveir auðveldir sigrar eru gott vegarnesti inn í erfiðan leik og ekki spillir að eftir að Moyes las bloggið okkar stillti hann upp liði eins og við höfðum lagt til í uppstillingargreininni góðu. Sú stilling held ég þó að sé eins og stendur ekki vænleg til árangurs gegn betra liði en Bayer Leverkusen, það sáust veikleikar á vinstri kantinum þegar Evra sótti fram og Fellaini var ekki alltaf á réttum stað til að detta í vinstri bakvörðinn. Jesús Navas verður á hægri kantinum og er nógu skeinuhættur til að gera okkur skráveifu.
Ég býst því við að þó liðið verði líkt þá muni sókndirfska Evra aðeins tamin. Ég ætla að spá að það gerist með þessum hætti
De Gea
Smalling Vidic Evans Evra
Carrick Fellaini
Valencia Rooney Nani
Van Persie
Já, það verður Nani sem sinnir kantstörfum á morgun og Kagawa stuðningsmenn þurfa að bíða þess að sjá hann aftur. Einnig tel ég að vörnin fái smá uppstokkun. Rio vitum við að er orðinn helst til gamall fyrir tvo leiki í viku og hann var eilítið mistækur á þriðjudag þannig að Evans ætti að koma sterkur inn.
Meiddir eru bara þeir Welbeck, Jones og Rafael og þeir æfðu allir í gær. Býst fastlega við að a.m.k. Rafael verði á bekknum.
Þetta verður hörkumarkaleikur. Heilinn segir 2-2 og ég vonast loksins til að við séum komnir með stál á miðjuna sem getur gert eitthvað í því að stöðva Yaya Touré. Og þess vegna segir hjartað mér að þetta fari 1-3 og Rooney og Van Persie haldi áfram markaskoruninni sem þeir eru byrjaðir á.
Ingi Rúnar says
Hef litlar áhyggjur af þessum leik, Manu slátra þessum leik, sannfærður um það.
Hef vonandi rétt fyrir mér.
ellioman says
Þetta verður svakalegur leikur. Miðað við formið á Rooney og Persie þá trúi ég ekki öðru en að við neglum inn nokkrum mörkum. Vonandi verður það nóg til fara heim með öll þrjú stigin.
diddiutd says
Lingard með fernu í fyrsta leik með birmingham, gott stöff það…