Vá, þessi heimsmeistarakeppni er að byrja svo vel og er strax orðin mun betri en Vuvuzela-leiðindin frá árinu 2010. Veislan er rétt að byrja.
Einhver skemmtilegasti leikur sem ég hef horft á í sögu HM fór fram í gær þegar okkar menn, Robin van Persie og Louis van Gaal pökkuðu gjörsamlega saman ríkjandi heimsmeisturum Spánar í opnunarleik B-riðils. Það var hrein unun að fylgjast með útpældu leikkerfi Hollendinga gjörsamlega núlla út allt sem Spánverjar reyndu að gera. Er einhver sem getur ekki beðið eftir að sjá Louis van Gaal spreyta sig með Manchester United eftir þennan leik?
Spánverjar voru með hverja stórstjörnuna á fætur annari í byrjunarlið og á bekk á meðan hollenska liðið var stútfullt af minni spámönnum. Pælið í muninum á þessum byrjunarliðum:
Casillas
Azpilicueta Ramos Pique Alba
Xabi Alonso Busquets Xavi
Iniésta Costa Silva
Cillesen
Martins Indi Vlaar de Vrij
Blind de Jong de Guzmán Jaanmat
Sneijder
van Persie Robben
Það voru líklega einungis 30 manns í öllum heiminum sem trúðu því að Holland væri að fara að vinna Spánverja í gær. Leikmannahópur Hollands á HM, þjálfararnir og aðstoðarmennirnir í kring. Sigurinn í gær þýðir að Hollendingar ættu að eiga nokkuð greiða leið að 8-liða úrslitunum og sleppa að öllum líkindum við að mæta Brasilíumönnum í 16-liða úrslitum. Þetta var því risasigur fyrir Hollendinga og nokkuð ljóst að Louis van Gaal er ekkert að fara að mæta til vinnu strax. Það er kannski ekki alveg það besta fyrir United en ef það þýðir að við fáum hann stútfullan af sjálfstrausti eftir gott mót með Hollendingum ætla ég ekki að kvarta. Ég veit að stuðningsmenn annara liða í enska boltanum svitnuðu grimmt yfir leiknum í gær og tilhugsunini um að þessi maður sé að fara að stýra Manchester United á næsta tímabili.
Við munum öll hvað Robin van Persie var glaður þegar hann vissi greinilega, á undan öllum öðrum, hver myndi taka við af Þeim-Sem-Ekki-Má-Nefna-Á-Nafn:
Það er alveg morgunljóst að Louis van Gaal og Robin van Persie eru nokkurn veginn eins og ristað brauð og smjör. Fullkomið par. Van Persie kann ágætlega að spila undir stjórn Louis van Gaal enda var hann markahæsti leikmaður evrópsku undankeppninnar og Louis van Gaal kann ágætlega við Robin van Persie enda gerði hann van Persie að fyrirliða hollenska landsliðsins.
Robin van Persie spilaði í gær á þann hátt sem maður sá aldrei glitta í á síðasta tímabili. Ef Louis van Gaal getur kveikt svona rosalega í þessum manni eins og hann er að gera með hollenska liðinu verður næsta tímabil svo skemmtilegt. Ég meina, hvaða rugl er þetta eiginlega:
Þetta er hið fullkomna sending, hinn fullkomni skalli á hinum fullkomna tíma. Eins og rennblautur sokkur í andlitið á Spánverjunum. Þetta mark verður bara betra eftir því sem maður horfir oftar á það. Það var vinstri bakvörður Hollendinga, Daley Blind sem átti þessa sendingu. Ég treysti því að Louis van Gaal mæti með hann á svæðið ásamt svona 5-6 öðrum leikmönnum hollenska liðsins. Fjandinn hafi það, komdu bara með þá alla. Þeir geta ekki verið mikið verri en það sem er nú til staðar hjá Manchester United.
Allir hinir
Það eru víst fleiri lið á HM en Holland og fleiri United-menn en van Gaal og van Persie. Í gær var Javier Hernandez fyrsti leikmaður United til að spila á þessari heimsmeistarakeppni þegar hann kom inn á í 1-0 sigri Mexíkóa á Kamerúnum. Hann fékk einhverjar 10 mínútur og stimplaði sig rækilega inn með því að dúndra yfir af tveggja metra færi.
David de Gea og Juan Mata sátu á bekknum gegn Hollandi og gátu lítið gert annað að horfa upp á glænýjan stjóra sinn niðurlægja landslið sitt. Þeir hljóta að vera spenntir fyrir komandi tímabili. Vicente del Bosque gæti get margt vitlausara en að skipta út Casillas fyrir de Gea í komandi leikjum enda átti sá fyrrnefni alveg hroðalegan leik í gær.
Wayne Rooney, Danny Welbeck, Phil Jones, Chris Smalling mæta til til leiks í kvöld gegn Ítalíu klukkan 22. Shinji Kagawa spilar fyrir Japan gegn Fílabeinaströndinni klukkan 1 í nótt og á morgun sjáum við líklega Patrice Evra spila gegn Bosníu og Antonio Valencia leiða sína menn gegn Sviss. áá mánudaginn sjáum við Nani gegn Þýskalandi og á þriðjudaginn spila svo Belgar gegn Alsír-mönnum og þar verða Adnan Januzaj og Marouane Fellaini í sviðsljósinu.
Elías Kristjánsson says
Samkvæmt ofanrituðu þá eru 13 leikmanna MU á HM. Það er ekki slæmt. En hversu margir þeirra verða áfram í herbúðum MU á næstu leiktíð.?
Mín spá;
Fellaini, Nani, Evra, Valencia, Kagawa ÚT auk nokkurra annarra. Louis van Gaal verður svo ekki í neinum vandræðum með að fylla upp í skörðin. Verður líklega þegar upp verður staðið auðveldara nú en áður hjá Fergusson að fá toppleikmenn til lags við klúbbinn.
N.k. leiktíð verður bara hamingja.
Bkv.
Elías Kr.
KPE says
Okei þessi high-five hjá Gaal og Persie er eitthvað það nettasta sem ég hef séð!! Fokkin spenntur fyrir næsta tímabíli!