Það er ALDREI leiðinlegt að sigra Liverpool hvort sem það er í u-14 leik, deildarleik, bikarleik eða leik á undirbúningstímabilinu. Verkefnið í nótt var úrslitaleikurinn í THE INTERNATIONAL CHALLENGE CUP, afar vel heppnuðu undirbúningsmóti fyrir tímabilið. Louis van Gaal stillti liðinu upp svona til að byrja með:
de Gea
Smalling Jones Evans
Valencia Fletcher Herrera Young
Mata
Rooney Chicharito
og Liverpool-liðið var svona:
Mignolet
Kelly Sakho Skrtel Johnson
Henderson Gerrard Allen
Coutinho Lambert Sterling
Þetta voru tvo bestu lið mótsins, sigurvegarar riðlanna sinna, bæði með tvo sigra og einn vítósigur. 8 stig. Það er eitthvað alrangt við það að mæta Liverpool í Bandaríkjunum á undirbúningstímabilinu á mánudegi á miðnætti. Markaðsmenn mótsins og ensku úrvalsdeildarinnar hafa þó líklega verið alveg slétt sama um það. Erkifjendur að mætast í úrslitaleik THE INTERNATIONAL CHAMPIONS CUP. Það gerist ekki einu sinni í Meistaradeildinni.
Það er hefð fyrir því að United-menn mæti óstyrkir til leiks gegn Liverpool, það skiptir einhvernveginn engu máli hvernig gengi liðsins er fyrir leiki gegn Liverpool, það fýkur allt út um gluggann þegar dómarinn flautar til leiks. Það var engin breyting á því. Fyrir utan eina laglega sókn í upphafi leiks þar sem leikmenn liðsins spiluðu boltanum frábærlega á milli sín upp allan völlinn sem endaði í dauðafæri fyrir Hernandez voru menn frekar slappir í fyrri hálfleik.
Liverpool-menn pressuðu okkar menn og það var ákveðinn hálfkæringur yfir öllum aðgerðum liðsins. Menn voru að gefa lélegar sendingar, að taka illa á móti boltanum. Darren Fletcher og öftustu þrír varnarmennirnir okkar voru oft svolítið út á túni í hálfleiknum og Liverpool gekk á lagið með nokkrum hröðum sóknum. Það var úr einni slíkri sem fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós. Raheem Sterling, sprækasti leikmaður Liverpool átti góðan sprett inn í teiginn þar sem Phil Jones fór í klaufalega tæklingu gegn honum. Jones snerti vissulega boltann en fór duglega í Sterling og vítaspyrna dæmd. Gerrard steig á punktinn og skoraði af öryggi. 0-1.
Eftir markið settust Liverpool-menn aðeins aftar á völlinn og við héldum boltanum betur. Það gekk þó lítið að sækja á markið og aðalhættan kom frá fyrirgjöfum fyrir mark Liverpool enda áttu bakverðir þeirra frekar dapran dag. Miðverðirnir voru þó klárir í slaginn og skölluðu allt í burtu. Þetta var frekar Moyes-legt allt saman og ekki vænlegt til árangurs. Staðan var því 0-1 í hálfleik Liverpool í vil.
Það er ekki erfitt að ímynda sér að Louis van Gaal hafi grafið upp hárþurrkuna góðu í hálfleik. Liðið var að spila sinn langslakasta hálfleik á undirbúningstímabilinu. Hvað sem hann sagði í hálfleik svínvirkaði. Cleverley og Blackett komu inn á fyrir Fletcher og Evans. Leikur liðsins snarbatnaði í seinni hálfleik og okkar menn voru ekki lengi að því að jafna metin. Ander Herrera gerði afar vel í að standast pressu Liverpool-manna á miðjunni, kom boltanum á Chicharito, sem hafði annars hægt um sig í leiknum, hann átti þrusufyrirgjöf sem fór beint á Rooney sem sneiddi hann laglega framhjá Mignolet. Þrælfínt mark.
Eftir það stjórnuðu okkar menn leiknum og það var eiginlega einkennilegt að sjá muninn á Liverpool í seinni hálfleik, þeir voru mun slakari. Við gengum á lagið og komumst yfir fljótlega eftir mark Rooney. Luke Shaw kom boltanum á Mata sem átti bylmingsskot fyrir utan teiginn. Skotið hafði viðkomu í Sakho og fór þaðan í netið. 2-1 og allt í bullandi gangi.
Í kjölfar þessa marks stjórnuðu okkar menn leiknum að mestu og skoruðu ansi skrautlegt mark sem fékk þó ekki að standa. Ashley Young átti skot/fyrirgjöf langt utan af velli sem hafnaði í burðarvirki marksins og þaðan barst boltinn aftur inn á völlinn til Rooney sem potaði honum í markið. Upphaflega fékk markið að standa enda við fyrstu sýn leit það út fyrir að boltinn hefði farið í slánna. Dómarinn gat þó séð það á stórum skjá að boltinn fór ekki í slánna og dæmdi því markið af, réttilega.Louis van Gaal skipti svo Nani, Kagawa og Lingard inn á fyrir Mata, Chicharito og Herrera. Lingard fékk tækifæri á miðjunni aldrei þessu vant og stóð sig vel þar, hann náði meira að segja að tryggja sigurinn endanlega á lokamínútum leiksins þegar hann setti boltann inn með laglegu skoti eftir fyrirgjöf Ashley Young sem átt enn einn stjörnuleikinn og augljóst að hann er búinn að spila sig inn í hópinn hjá Louis van Gaal fyrir tímabilið.
United stendur því uppi sem sigurvegari The International Champions Cup 2014 og fékk fyrir vikið frekar laglegan bikar og 1 million dollars.
FT: United 3 Liverpool 1. #mufc are ICC champions after goals from Wayne Rooney, Juan Mata and Jesse Lingard. #mutour pic.twitter.com/RH50KUBYox
— Manchester United (@ManUtd) August 5, 2014
Manchester United: ICC champions! #mutour pic.twitter.com/y3t9ykOo36
— Manchester United (@ManUtd) August 5, 2014
Liðið spilaði 5 leiki í Bandaríkjunum, skoraði 16 mörk og fékk aðeins á sig fjögur mörk, þrjú úr vítum og hitt markið var af 50 metra færi. Það eru jákvæðir punktar. Louis van Gaal getur verið ánægður með stóran hluta hópsins og nokkuð ljóst að hann hefur fengið góða mynd af því hverjir verði áfram hjá félaginu og hverjir fari. Næsta skref framundan er tiltekt á hópnum þar sem við munum væntanlega sjá 3-4 leikmenn fara og vonandi náum við að bæta við 2-3 gæðaleikmönnum við hópinn.
Næsti leikur er svo gegn Valencia á Old Trafford þann 12. ágúst. Svo hefst ballið fyrir alvöru. Endum þetta á nokkrum myndur úr fagnaðarlátunum:
Steinar says
Ánægður með að sja Hernandez þarna
Andri Haukstein Oddsson says
Alveg sama þó þetta sé æfingaleikur, maður vill alltaf sjá United vinna Liverpool. Úrslitin í þessum leik gæti einnig haft eitthvað að segja er varðar sjálfstraust leikmanna fyrir komandi tímabil. Áfram United!
Andri Haukstein Oddsson says
Vantar ekki annars Yong í uppstillinguna? Ég sé bara 10 leikmenn á vellinum :)
Hjörvar Ingi Haraldsson says
Sterkt lið, get ekki litið á þetta sem æfingarleik. Vil sigur :D
Hinrik says
Andri Haukstein Oddsson skrifaði:
Þú ert að djóka er það ekki 0.o?
Andri Haukstein Oddsson says
Heyrðu nei ég fór svo í Ipadinn og sá Yong þarna í liðinu. Veit ekki afhverju en hann það er eins og það vanti hluta af myndinni í heimatölvunni. En hvað um það, veit einhver um gott stream? :)
Magnús Þór says
@ Andri Haukstein Oddsson:
http://firstrows.biz/soccer/manchester-united-vs-liverpool-frsf5g48
Andri Haukstein Oddsson says
Frábært, takk fyrir þetta félagi
Andri Haukstein Oddsson says
Snilld! Það var þess virði að vaka yfir leiknum, alltaf gaman að vinna Liverpool. Nú get ég farið sáttur að sofa :)
Hjörvar Ingi Haraldsson says
Sjálfstraustið hjá leikmönnum að komast á réttan stað :)
Elvar says
Alltaf gaman af leikskýrslunum ykkar. Ég verð að viðurkenna að ég er skíthræddur um að fá ekki almennilegan miðvörð erum með 3 fína miðverði og 2 unga en það vantar einhvern leiðtoga sem getur stjórnað vörninni. Var alltaf smeykur þegar liverpool sótti á okkur eða þegar varnarmennirnir okkar reyndu að spila úr vörninni. Smalling er að mínu mati alltof mistækur og hafiði tekið eftir að maðurinn lítur út fyrir að hafa verið á djamminu í viku. Þessar 3 skyttur voru einnig mikið meiddar á síðasta tímabili sem ýtir enn frekar undir að það þurfi að auka breidd. Síðan vantar einn starter á miðjuna með Herrera vill ekki sja að Fletch,Felli eða Cleverley verði byrjunarliðsmenn hjá okkur. Síðan þarf að sjálfsögðu að losna við einhverja ég vill sjá ; nani( hann hefur engan áhuga að spila fyrir klúbbinn ennþá) og Fellaini, Zaha má fara á lán
Vill að sjálfsögðu halda mönnum eins og Kagawa og Hernandez en skil ef þeir vilji vera byrjunarliðsmenn annarsstaðar enda báðir hörku leikmenn.
Hjörvar Ingi Haraldsson says
Núna sáum við nokkra unga og spennandi leikmenn í USA leikjunum, einhver sem þið haldið að nái að vinna sig inní liðið á tímabilinu?
Magnús Þór says
Hjörvar Ingi Haraldsson skrifaði:
Ég væri til í að hafa Blackett eða Michael Keane í hópnum ásamt Reece James. Jesse Lingard er meira spurningamerki.
Tryggvi Páll says
Það kæmi mér ekki á óvart að Michael Keane yrði viðloðandi liðið í vetur sem varaskeifa fyrir þá miðverði sem fyrir eru og þann sem mun væntanlega bætast við. Ef van Gaal heldur sig við 3-5-2 þá þarf hann að 5 miðverði til taks ef einhver skyldi meiðast og miðað við síðustu leiktíðir er afskaplega líklegt að einhver þeirra félaga Evans/Smalling/Jones muni verða frá vegna meiðsla á tímabilinu.
Reece James var sprækur en Tyler Blackett kom mér skemmtilega á óvart. Hann er stór og sterkur en jafnframt nokkuð öruggur á boltanum. Hann spilaði bæði í wing back stöðunni og miðverðinum og leysti báðar stöðurnar mjög vel. Kannski fær hann að fara á lán en ef liðið kaupir ekki leikmann til þess að keppa við Luke Shaw væri athyglisvert að sjá hann fá tækifærið.
Jesse Lingaard er augljóslega hæfileikaríkur leikmaður og stóð sig vel þegar hann fékk sénsinn í Bandaríkjunum. Hann var á láni í 1. deildinni allt síðasta tímabil og stóð sig ágætlega þar. Uppáhaldsstaðan hans er fyrir aftan framherjann og þar er hann að keppa við Mata, Kagawa og Januzaj og hann mun væntanlega verða undir í þeirri samkeppni. Ef Kagawa fer gæti hann kannski orðið 3. kostur í þessa stöðu en það er líklega best fyrir alla ef hann fengi að fara á lán í úrvalsdeildina.
Ég reikna svo fastlega með því að James Wilson verði viðloðandi liðið í vetur. Hann átti að fara með til Bandaríkjanna en meiðsli komu í veg fyrir það.
Kristjans says
Sá frétt áðan (týndi linknum) að Van Gaal hefði ekki lagt blessun sína á það að Ángelo Henríquez færi frá félaginu en hann átti víst að vera á leið aftur heim til Chile. Vildi fá hann til æfinga, meta hann sjálfur og ákveða svo framhaldið.
Vita menn stöðuna á fleiri leikmönnum sem hafa verið í varaliði og ungliðaliðum?
Hvað varð um Guillermo Varela?
Hægri bakvörður sem voru fyrstu formlegu kaup Moyes. Kaupin voru víst ákveðin áður en Moyes tók við félaginu.
Marnick Vermijl
Hægri bakvörður (að ég held) sem var á láni hjá NEC Nijmegen. Hefði ekki verið tilvalið að hann í þessari USA ferð þar sem Rafael er eiginlega alltaf meiddur.
Davide Petrucci
Átti þetta ekki að vera svaka efni? Hefur hann aldrei verið líklegur til að fá tækifæri með aðalliðinu?
Björn Friðgeir says
Það litla sem maður hefur heyrt af Henriques hefur ekkert verið sérstaklega uppörvandi, lán væri allt í lagi.
Varela var að bæta sig á síðasta tímabili, en enn stórt spurningamerki. Efast um að hann verði í hóp.
Síðan lítur virkilega út fyrir að Vermijl hafi misst af lestinni, sem og Petrucci. Vermijl kvartaði á samfélagsmiðlum þegar hann fór ekki með til USA og hann er orðinn 22ja ára þannig að hann þarf að hætta að vera efnilegur og fara að verða góður. Petrucci verður 23ja í október og sama á við um hann, meiðslin sem hann stóð í lengi hafa líklega komið í veg fyrir að hann meiki það
Annars skýt ég á að Michael Keane og Blackett fái séns í hóp, jafnvel James, og að sjálfsögðu James Wilson. Þætti ekkert verra ef hann tæki sæti Hernandez sem fjórði striker. Januzaj getur líka spilað frammi.
Mun dauðsjá eftir Jesse Lingard, en hann er með of marga á undan sér í 10 stöðuna og er ekki rétti maðurinn í kantvörðinn. Hann fer örugglega á lán og verður svo seldur. Og hann á eftir að standa sig þrusuvel annars staðar.
Að því öllu sögðu þá þurfum við amk einn haffsent, helst hægri bakvörð og miðjumann, og þá er hópurinn orðinn mjög stór. Það verða heilmiklar tilfærslur næstu fjórar vikurnar.
Þórhallur Helgason says
Tyler Blackett er framtíðar miðvörður í enska landsliðinu, lásuð það hér fyrst. Minnir mig eiginlega helst á Rio varðandi yfirvegun og, að því er virðist, leikskilning. Hef eiginlega sjaldan verið jafn spenntur fyrir leikmanni á síðustu árum og það miðverði í þokkabót. Á auðvitað ýmislegt eftir ólært en það var hinsvegar sláandi á þessum Ameríkutúr að hann var orðinn sá af miðvörðunum sem maður vildi helst sjá í liðinu og virkaði öruggastur á boltanum og í öðrum aðgerðum. Það er eiginlega dálítið magnað í ljósi þess að maður hafði nánast ekkert séð (eða heyrt) af honum fyrir ferðina!
Svo spillir auðvitað ekkert fyrir að hann sé örvfættur í þokkabót… ;)
úlli says
Já gaman að sjá hvað gerist í miðvarðarmálum. Ég hélt nú að Smalling væri næsti Ferdinand á sínum tíma en það mun líklega aldrei gerast. Sá bara smá brot úr leiknum gegn Liverpool þar sem hann tók á móti boltanum eins og steinveggur og átti svo sendingum sem flaug hátt út af í innkast.
Ég held að það sé ómögulegt að vinna ensku deildina án framúrskarandi miðvarðar eins og Ferdinand. City hefur Kompany, Chelsea tók sína titla með frábæran Terry, osfrv. Ég held það væri glaðræði að fara inn í tímabilið með Evans, Smalling og félaga sem miðverði.