Annað kvöld byrjar ballið aftur hjá okkar mönnum, eftir tveggja vikna landsleikjahlé, þegar United skutlar sér í tveggja tíma rútuferð til West Bromwich í úthverfi Birmingham. Þar mæta þeir heimamönnum í West Bromwich Albion á The Hawthorns vellinum. Leikurinn byrjar klukkan 19:00 og verður Mike Dean á flautunni.
Oft hefur maður nú fundist þessi landsleikjahlé frekar leiðinleg en íslenska landsliðið hefur svo sannarlega breytt því viðhorfi með árangri sínum undanfarið. Það er vonandi að United standi sig jafn vel og drengirnir okkar í landsliðinu því það er gríðarlega mikilvægt að vinna leikinn á morgun ef United ætlar að halda sér meðal þeirra bestu. Dagskráin framundan er ansi erfið því eftir leikinn á morgun á liðið leik við Chelsea (H), Man City (Ú), Crystal Palace (H) og svo Arsenal (Ú). Þó svo farið sé í hvern leik til að sigra hann, má alveg gera ráð fyrir einhverjum töpuðum stigum í þessum viðureignum, það er því mikilvægt að misstíga sig ekki gegn liðum eins og WBA og Crystal Palace.
Í síðustu sex leikjum sem United hefur spilað gegn WBA þá hafa okkar menn landað 4 sigrum, eitt (frægt 5:5) jafntefli og eitt tap. WBA eru þó hættulegir, þeir unnu Tottenham fyrr í haust og Liverpool átti í basli með að brjóta þá aftur í síðustu umferð. Af okkar mönnum eru þó að berast betri fréttir, menn eru hægt og rólega að koma aftur úr meiðslum. Herrera, Smalling, Young, Jones og Carrick verða víst allir klárir fyrir morgundaginn, ólíklegt er þó að þeir detti beint inn í byrjunarliðið, nema þá helst Jones og Herrera. Aftur á móti eru Evans, McNair, Lingard og Valencia enn meiddir og svo er Rooney auðvitað ennþá í banni.
Hérna kemur mín spá um byrjunarliðið:
Held að Jones og Herrera komi aftur beint inn í liðið, spurning er hvort Herrera verði í holunni og Mata út á kanti, finnst það þó ólíklegt þar sem Mata hefur staðið sig vel í 10-unni. Van Gaal getur varla horft framhjá því. Ef þetta verður uppstillingin á morgun þá er ég svolítið spenntur að sjá hvernig vörnin stendur sig, því þetta er sú vörn sem ég persónulega vil sjá slípast saman í vetur.
Að lokum þá er hér smá athyglisverð tölfræði sem ég rakst á:
- Manchester United hefur notað 30 mismunandi leikmenn það sem af er þessu tímabili, fleiri en nokkur annar klúbbur. Það er jafn mikið og Moyes notaði allt síðasta tímabil og aðeins tvisvar sinnum hefur United notaði fleiri leikmenn, tímabilin 2008/2009 (33) og 2011/2012 (31).
- Robin van Persie hefur skorað 4 mörk og gefið 2 stoðsendingar í síðustu 7 leikjum gegn WBA.
- Angel Di Maria hefur, í fyrstu 5 leikjunum sínum á Englandi, átt þátt í 6 mörkum (3 mörk og 3 stoðsendingar).
- Manchester United hefur aðeins unnið einn mánudagsleik af síðustu fimm í ensku deildinni (W1 D1 L3).
- United hefur skorað fleiri mörk í fyrri hálfleik en nokkur annar klúbbur í deildinni á þessari leiktíð. (9).
ÁFRAM MANCHESTER UNTIED!
Egill says
„Manchester United hefur aðeins unnið einn mánudagsleik af síðustu fimm í ensku deildinni (W1 D1 L3).“
Úff ekki er þetta árangur til að monta sig yfir, en það er eitthvað sem segir mér að Moyes eigi þessa 5 leiki, eða allavega megnið af þeim.
Þetta er gríðarlega mikilvægur leikur fyrir okkur, það er lykilatriði að byggja upp sjálfstraust fyrir komandi leiki og þá er númer 1, 2 og 3 að klára lið eins og W.B.A.
Mata hefur klárlega unnið fyrir byrjunarliðssætinu, en hann er bara svo slappur varnarlega að það er alls ekki útilokað að hann missi sæti sitt, og það útskýrir eflaust allt slúðrið um að LVG vilji selja hann.
lampamaðurinn says
Djöfull er maður orðinn pepp fyrir þetta. Finnst að James Wilson eigi að fá séns í þessum leik og jafnvel byrja bara.
Halldór Marteinsson says
Sá tilvitnun sem eignuð var umboðsmanni Januzaj þar sem kom fram að Januzaj myndi líklega byrja leikinn. Sá það samt á Twitter svo ég tek því með fyrirvara en guttinn er allavega búinn að vera í stuði með varaliðinu að undanförnu, væri gaman að sjá hann detta meira inn í aðalliðið.
Hjörvar Ingi Haraldsson says
Við verðum bara að vinna og helst að Falcao skori til að koma honum almennilega í gang. Verðum að fara með sjálfstraust í leikina gegn Chelsea og City
Rauðhaus says
Líklegt að byrjunarliðið sé rétt að ofan.
Ég væri hins vegar líka til í að sjá það svona:
—————DDG————–
Rafael—Jones–Rojo–Shaw
——–Herrera-Blind———
—————Mata—————
Januzaj—————-Di Maria
————–Falcao————–
siggi utd maður says
100% sammála Rauðhaus.
Sigurjón says
@ Halldór Marteinsson:
Rétt Halldór, ég sá það einmitt líka, gleymdi algjörlega að minnast á það. Væri sko ekki á móti því að sjá Januzaj byrja inn á.
@ Rauðhaus:
Mjög gott byrjunarlið sem hentar þó líklega betur gegn liðum eins og Chelsea og Man City!
Hjörvar Ingi Haraldsson says
http://youtu.be/N1OzPbS0Sdg
Mikið er gaman að hafa svona menn hjá United.