United liðið er komið á suðurströnd Englands þar sem þeir mæta liðið Southampton á morgun. Ásamt með West Ham sem tyllti sér í 3ja sætið tímabundið í dag er lið Southampton spútniklið haustsins. Eftir sölur sumarsins kom Southampton út í 35m punda hagnaði, seldu menn fyrir 93m en keyptu á móti fyrir 58 milljónir.
Flestir bjuggust við döpru gengi Southampton eftir að margir bestu leikmenn liðsins höfðu verið seldir en það hefur sannarlega ekki komið á daginn. Nýr framkvæmdastjóri liðsins, Ronald Koeman, hefur sett saman þrælskemmtilegt lið þar sem þessar 57 milljónir hafa nýst vel og nýju mennirnir Dušan Tadić, Graziano Pellè, Shane Long og markvörðurinn Fraser Forster hafa allir komið sterkir inn. Vörn Southampton hefur verið sú þéttasta í vetur og augljóst að Dejan Lovren var ekki ómissandi. Gamli jaxlinn José Fonte er nú lykilmaður þar.
Það var þó vitað að Southampton hafði lengi framan af hausti ekki þurfti að spila móti sterkustu liðunum. Nú er hins vegar komið að því og síðustu tveir leikir þeirra hafa verið á móti Manchester City og Arsenal og hafa báðir tapast, 0-3 og 0-1. Að auki hefur meiðsladraugurinn gert vart við sig svo um munar og þá reynir á lítinn hóp. Dušan Tadić verður reyndar með á morgun eftir að hafa farið af velli gegn Arsenal, og miklar líkur á að varnarmaðurinn Toby Alderweireld verði líka með eftir af að hafa meiðst í sama leik. Miðjumennirnir James Ward-Prowse, Jack Cork og Morgan Schneiderlin eru hins vegar allir meiddir. Graziano Pellè, sem skoraði og skoraði í haust hefur ekki skorað frá í lok október en Shane Long og Sadio Mané geta alveg skorað líka. Southampton verður því ágætlega mannað.
Meiðslavandræði United eru aðeins að minnka. Wayne Rooney verður með á morgun, og Jonny Evans án efa í hóp. Rafael fór með liðinu suðreftir, verður svo að koma í ljós hvort hann er í hóp eða ekki. Falcao hlýtur svo að vera treyst fyrir byrjunarleik núna.
Ég ætla því að spá nær óbreyttu liði frá Stoke leiknum nema frammi. Sókndjarft lið en þetta er leikur sem við viljum vinna.
Flest liðin sem við megum búast við að verði í meistaradeildarbaráttunni í vor töpuðu stigum í gær og nú setur sigur okkur í þriðja sætið. Annars sitjum við áfram í því fimmta en Southampton hoppar í þriðja. Sigur væri líka fullkomið veganesti fyrir stórleikinn gegn Liverpool um næstu helgi.
Það er vel þess virði að líta aðeins á stjóra liðanna annað kvöld. Þeir Louis van Gaal og Ronald Koeman þekkjast vel frá fyrri tíð.
Þessir félagar áttu svo eftir að eiga góðar stundir saman þegar Koeman var í þjálfarateymi Van Gaal hjá Barcelona, en þegar Van Gaal var ráðinn yfirmaður knattspyrnumála hjá Ajax árið 2004 kom í ljós að þeir áttu ekki skap saman, deildu ekki leikspekiviðhorfum og svo fór að leiðir skildu í illu þegar Ajax stóð með Koeman og Van Gaal hætti.
Líkur eru á að hlakkað hafi í Van Gaal þegar Koeman tók við nýbökuðum Hollandsmeisturum AZ Alkmaar af Van Gaal en var rekinn eftir sex mánuði.
En þíða komst í samskipti þeirra þegar Van Gaal tók við hollenska landsliðinu og þurfti að fara að nota leikmenn frá Feyenoord undir stjórn Koeman og í dag segir Koeman hann ekki bera kala til Van Gaal, en vinir verði þeir ekki. Allt er þetta nánar rakið í grein Independent.
Koeman og Van Gaal eru fimmtu og sjöttu Hollendingarnir til að taka við liði í úrvalsdeildinni. Engu að síður er þetta í fyrsta sinn sem hollenskir þjálfarar mætast í leik í deildinni enda voru þeir Ruud Gullit, Guus Hiddink, Martin Jol og René Meulensteen vinur okkar aldrei samtíða.
Leikurinn hefst kl. 8 annað kvöld en að lokum bendum við enn einu sinni á hlaðvarpið okkar frá í síðustu viku!
Tryggvi Páll says
Á því að þetta verði hörkuleikur. Southampton kemur inn í þennan leik með meidda lykilmenn og tvo töp í síðustu leikjum sínum, bæði gegn stærri liðum. Sigurjón benti á í síðasta þætti af Podcastinu okkar að Southampton hefði verið að næla í þessi stig sín gegn minni spámönnum deildarinnar en hefði t.d. tapað fyrir Liverpool, Tottenham, City og Arsenal. Ég sá alla þessa leiki nema Tottenham leikinn og Southampton-menn voru afskaplega óheppnir að næla sér ekki í eitthvað úr þessum leikjum. Þeir voru síst verri aðilinn í þessum leikjum, sérstaklega gegn Liverpool og Arsenal. Þannig að þó þeir séu ekki að ná stigum úr þessum stærri viðureignum verður erfitt að spila gegn þeim á morgun, sérstaklega á þessum heimavelli. St. Mary’s hefur verið vígið þeirra í vetur og þeir hafa aðeins fengið á sig fjögur mörk á heimavelli það sem af er, þar af þrjú gegn City.
Stór ástæða fyrir því er auðvitað sú að þeir eru með afskaplega sterka miðju en eins og Bjössi bendir á er hún nánast öll frá vegna meiðsla. Þeir hafa jafnframt þurft að rótera lítið í vörninni hingað til en mögulega þurfa þeir að færa varnarmann inn á miðjuna og fá nýjan mann inn í vörnina og þetta mun vonandi vinna með okkar mönnum. Þrátt fyrir þetta er Southampton með hörkuflott lið. Bakverðirnir þeirra eru ansi skeinuhættir ásamt Pellé og Tadic í framlínunni. Lykilatriði verður að stoppa bakverðina þeirra enda skapa þeir pláss fyrir Tadic sem hann getur athafnað sig í. Það hefur aðeins slokknað á honum og Pellé enda eru lið farin að kveikja á því að stoppa bakverðina þeirra í því að taka þátt í sókninni.
Leikmenn Southampton verða líklega æstir í að rétta af þetta slæma gengi í síðustu þremur leikjum og nota um leið tækifærið til þess að sýna fram á það að þeir geti náð í úrslit gegn stóru liðunum. Þetta verður því ekki auðvelt fyrir okkur en við erum í hörkufæri á að skemma fyrir tveimur liðum sem ætla má að verða í baráttunni um Meistaradeildarsæti þegar tímabilið er að enda. Þrjú stig á morgun væru því algjörlega frábært veganesti fyrir leikinn gegn Liverpool um næstu helgi.
Thorsteinn says
Mata verður í 10unni og RVP + Rooney frammi, því miður er það líklegast því að Falcao má alveg fá sénsinn í stað RVP. Mata er búinn að standa sig vel og mjög líklegt að hann fái að halda sínu sæti.
Rauðhaus says
Vona svo innilega að Mata byrji í holunni og Rooney og Falcao uppi á topp.
Hjörvar Ingi says
Tek undir með Rauðhaus, Mata, Rooney og Falcao frammi. Spái 1-3 sigri fyrir okkur. Rooney 1, Falcao 1 og Rojo 1
Runólfur Trausti says
Sammála Tryggva hér að ofan. Verður hörku leikur. Grunar að makeshift bakverðir okkar þurfi Extra hjálp í þessum leik. Bakverðir Southampton eru sókndjarfir og valda usla. Að fá Tadic og annan þeirra á sig er ekki öfundsvert. Ef Rafael er leikfær þá væri heillandi að setja hann í bakvörðinn og Valencia hægra megin í tígulinn (ef liðið spilar þá aðferð) til að hjálpa honum.
Varðandi liðsuppstillinguna þá held ég að Fellaini verði hvíldur. Hann sagði sjálfur að hann væri að finna fyrir álaginu og virðist hafa misst af æfingu í vikunni – svo er ekki vitlaust að eiga hann inni í geðveikina á móti Liverpool.
Byrjunarliðið fer svo rosalega mikið eftir því hvort United ætli að liggja til baka og beita skyndisóknum eða spila „toe to toe“ við Southampton varðandi áherslu á að halda boltanum. Ég persónulega er hrifnari af skyndisóknarleiknum og væri þá til í að sjá Wilson byrja leikinn einfaldlega svo hann geti nýtt sér svæðin sem Clyne og Bertrand skilja eftir sig þegar þeir sækja.
Þetta ætti allavega verða áhugaverður leikur tveggja nýrra þjálfara sem koma af „svipuðum skóla“. Maður óskar auðvitað eftir clean sheet og sigri þó svo að Fantasy liðið mætti alveg við því að Clyne leggji upp / skori 1-2 svo lengi sem United vinnur.
Tryggvi Páll says
Falcao verður á bekknum á morgun skv. þessu. Louis van Gaal segir að hann sé ekki í nógu góðu leikformi: http://www.theguardian.com/football/2014/dec/07/radamel-falcao-manchester-united-louis-van-gaal?CMP=twt_gu
Keane says
Nú reynir á, hef fulla trú á þessu og bara vona að þeir fari ekki í einhvern skyndisóknarpakka, þá er voðinn vís!
Sveinbjorn says
Ég er smeikur við þennan leik.. Eins og hefur komið fram er Southamton með bakið upp við vegg og verður að ná úrslitum, þó það sé ekki nema jafntefli til að detta ekki í þennan pakka rétt fyrir neðan. Við höfum unnið síðustu fjóra leiki, en þrír af þeim voru á heimavelli. Sá sem var á útivelli var gegn Arsenal, og mér finnst ennþá ótrúlegt að við höfum náð öllum þremur stigunum þar. Útivallarformið okkar hefur verið vægast sagt skelfilegt en við erum með sex stig í sex leikjum. Southamton er með 16 stig í sjö leikjum á heimavelli. Þannig ég bý mig undir það versta.
Varðandi Falcao þá hef ég litla trú á að hann komist í sitt fyrra form. Hann er farinn að eldast og er meiðslagjarn. Á síðastu 13 mánuðum, þá hefur hann einu sinni spilað heilar 90 mínútur í einu. Þetta er frábær framherji, en ég sé hann ekki fyrir mér vera byrjunarliðsmann hjá okkur í framtíðinni, því miður.
En vonum það besta og vonandi verðum við búnir að hífa okkur upp í þriðja sætið í kvöld!
Hjörvar Ingi Haraldsson says
Ég á von á United alveg brjáluðum í leikinn í kvöld, í staðinn fyrir að vera að berjast til að koma sér úr neðrihlutanum að þá erum við búnir að vinna seinustu fjóra og komumst í þriðja með sigri. Sjálfstraustið ætti í fyrsta sinn í langan tíma að vera í góðum málum í dag, reyndar eins og Sveinbjörn segir að þá er útivallarformið ÖMURLEGT en ég held að það muni ekki hafa áhrif núna, ÞAÐ VERÐUR SIGUR Í KVÖLD
Heiðar says
Mata er allan daginn að fara að byrja þennan leik. Hann á það skilið enda kemur hann nær alltaf að marki/mörkum í þeim leikjum sem hann byrjar. Líklega einn mest solid spyrnumaður sem við höfum. RvP og Rooney verða frammi.
Ég er sammála Sveinbirni hér að ofan varðandi Falcao. Maður er ekki að sjá að hann muni ná að líkjast því sem hann var fyrir þessi erfiðu meiðsli sem hann lenti í. 40 milljón punda verðmiði og 280 þúsund pund á viku er eitthvað sem auðvitað engann veginn er hægt að réttlæta eins og staðan er í dag. Við myndum þó alltaf þurfa að kaupa framherja því RvP er að eldast (og slakna) og Rooney er orðinn 29 ára. Hver viðkomandi framherji væri er hinsvegar annað mál. Persónulega sé ég Christian Benteke svolítið í hyllingum. Það væri gaman að sjá hvað hann myndi gera með betri meðspilara í kringum sig en eru hjá Aston Villa. Sé þetta svolítið fyrir mér eins og Dwight Yorke kaupin um árið. Benteke er hinsvegar aðeins 24 ára en Yorke var að mig minnir 27 eða 28 þegar hann var keyptur til Man.Utd.
Friðrik says
Þessi er gríðarlega mikilvægur í ljósi þess að öll toppliðin nema City misstígu sig um helgina. Sigur í kvöld gefur skýr skilaboð um að liðið ætlar að vera í toppbaráttu og ég hef fulla trú á því þó að City og Chelsea virðast vera í sérflokki. Tap eða jafntefli verður gífurlegt vonbrigði.