Flokkast kannski ekki sem okkar besti leikur en þrjú mörk, þrjú stig og þriðja sætið skora samt ansi hátt á ánægjuskalanum mínum. Fyrri hálfleikurinn var samt umtalsvert betri en sá síðari. Shaw fékk loksins að sjá nafnið sitt í byrjunarliðinu sem og Januzaj og spilaði Mark Schwarzer, sem er nýkominn frá Chelsea, sinn fyrsta deildarleik fyrir Leicester. Á föstudag fengum við svo þær fréttir að Carrick hafi meiðst og verður frá í amk fjórar vikur sem er svo sannarlega skarð fyrir skildi.
Leikurinn
Svona stillti Van Gaal upp liðinu:
Á bekknum voru svo Valdes, Mata, Smalling, Herrera, Fellaini, McNair og Wilson. Van Gaal ákvað að spila ekki þetta blessaða 3-5-2 kerfi og sáum við því loksins fjögurra manna varnarlínu hjá United. Blind var svo fenginn til að leysa af Carrick á miðjunni.
Fyrri hálfleikur byrjaði ekki vel fyrir United að því leiti að liðið leit hrikalega flatt út, mikið af dúttl sendingum sem skiluðu engu og svo þegar United var loks komið í ágætis sóknir þá kom einhver misheppnuð aula sending sem klúðraði öllu. Tók ég sérstaklega eftir slöppum sendingum hjá Di Maria og Rooney.
Maður var byrjaður að hugsa með sér, „æ þetta verður svona dagur hjá okkur“ um þetta leyti. En Blind og Van Persie náðu að breyta öllu um miðjan fyrri hálfleik (27’mín). Van Persie náði að skora fyrsta mark leiksins, og sitt fyrsta mark í rúman mánuð, er hann tók á móti flottri chip-sendingu frá Daley Blind og kom boltanum svona laglega framhjá Schwarzer í marki Leicester. Það verður nú að taka fram að leikmenn Leicester voru ansi ósáttir (réttilega) við að markið skyldi látið standa því Van Persie virtist nú vera rangstæður: (Vídeó)
En Van Persie var slétt sama enda afskaplega fallegt mark hjá kappanum. Eftir þetta opnaðist leikurinn þónokkuð og var liðið byrjaði að spila betur saman sem stuttu síðar (32′ mín) skilaði marki. United kemst í skyndisókn. Van Persie gefur á Di Maria vinstra megin sem á fínt skot á markið sem Schwarzer ver vel en boltinn dettur til Falcao sem fylgir svona vel á eftir og rennir sér á eftir boltanum og kemur honum í markið. (Vídeó)
Liðið var með með pakkfullt sjálfstraust á þessum tímapunkti enda komnir með tvö mörk og Leicester lítið sem ekkert að fá boltann né ógna United að einhverju leyti. Mínútu fyrir lok fyrri hálfleiks fær United horn sem Rooney tekur. Blind nær að skalla boltann í átt að markinu þar sem Wes Morgan, varnarmaður Leicester, skallar hann inn í eigið mark. Algjört klaufamark hjá kallinum en við stuðningsmenn United brostum breitt. (Vídeó)
Seinni hálfleikurinn var voðalega tíðindalítill að mestu leyti, United frekar flatt og lítið að skapa sér eitthvað sérstakt. Eins og var nefnt áður þá ógnuðu Leicester en eins og trendið hefur verið síðustu tvö tímabil þá vill United nú helst gefa andstæðingnum eitt mark og var þessi leikur engin undantekning. Á 80′ mínútu skoraði varnarmaðurinn Marcin Wasilewski eina mark Leicester í leiknum með skalla eftir fyrirgjöf frá Marc Albrighton.
Maður leiksins var án efa Daley Blind að mínu mati. Hann var svo sannarlega frábær kaup hjá Van Gaal og ef hann spilar svona vel í næstu leikjum þá er ég viss um að United muni spjara sig vel þrátt fyrir að hafa ekki Carrick. Januzaj verður að fá hrós líka, held ég sé kominn á sömu skoðun og Tryggvi með að United sé vísvitandi búið að vera vinna með drenginn á bakvið tjöldin og að það sé ástæðan af hverju við höfum ekki séð hann spila marga leiki á þessu tímabili.
Vonbrigði leiksins voru Di Maria og Rooney. Þeir geta svo miklu betur en þeir sýndu í þessum leik og fara þeir því í skammarkrókinn.
Nokkrir punktar
1. Hvað gerði Herrera eiginlega við konuna hans Van Gaal? Af hverju fær drengurinn ekki að spila fyrir liðið? Það er eins og Van Gaal hafi bara verið svo móðgaður við spurningar um Herrera að hann ákveði bara að vera þrjóskur og leyfi honum alls ekki að spila. Það hafa nákvæmlega allir stuðningsmenn United séð hvað liðið spilar betur þegar hann er á vellinum. Held að besta samlíkingin sem ég get komið með er Hazard hjá Chelsea. Þessir tveir leikmenn eru sífellt að reyna búa eitthvað til sóknarlega. Taka boltann, fara með hann áfram í þeim tilgangi að skapa færi sem er einmitt það sem United þarf og við stuðningsmennirnir viljum sjá!
2. Í framhaldi af nr.1, getum við hætt þessu Rooney á miðjunni bulli? Já, hann er fjölhæfur leikmaður sem getur leyst ansi margar stöður fyrir okkur (sem hann hefur nú ótalmörgum sinnum verið beðinn um að gera) en United er ekki að spila sinn besta bolta þegar leikmennirnir eru ekki í sínum bestu stöðum. Það er bara svo einfalt. Herrera er betri miðjumaður en Rooney. Rooney er betri framherji en Di Maria. Di Maria er betri vængmaður en… o.s.frv. ARG! Maður fær soldið á tilfinninguna að þegar Rooney spilar á miðjunni, að hann sé að reyna vera jafn góður og Scholes með því að gefa stundum svona ‘fancy’ sendingar hingað og þangað. Í leiknum í dag klukkuðu þær amk tvisvar og sköpuðu það hættuleg færi fyrir Leicester.
3. Þó maður hafi verið ansi kátur með að sjá loksins Shaw í byrjunarliðinu þá sást snemma hversu ryðgaður hann er. Hann var dálítið ragur með að fara fram sem skapaði stundum rugling á milli Di Maria og hans. Hann átti samt fínan leik og mikið vona ég að United haldi áfram að spila með fjóra í vörninni og Shaw sem LB.
4. Þetta þótti mér hrikalega fyndið og vel gert hjá Mata.
5. United hefur bara tapað einum leik í síðustu fimmtán! Það er helvíti flott staðreynd þó að jafnteflin séu allt of mörg. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir liðið að halda dampi því eins og staðan er núna þá erum við með jafn mörg stig og Southampton, höfum einungis eitt stig á Southampton og Arsenal í fjórða & fimmta sæti, þrjú stig á Tottenham í sjötta og fimm stig á Liverpool í sjöunda. Megum því ekki við neinum mistökum ef við ætlum að næla okkur í meistaradeildarsæti.
Næsti leikur er svo Cambridge á Old Trafford 3.feb í FA bikarnum og næsti deildarleikur er svo gegn West Ham á Upton Park.
Hjörvar says
Fellaini klónaður? Bæði á bekk og byrjunarliðu
ellioman says
Heyrðu já, gerði smá feil þarna. Tók eftir því að livescore.com var að plata mig (Eru búnir að lagfæra núna). Leitaði aðeins betur og þá kom í ljós að Januzaj er víst í byrjunarliðinu og Fellaini á bekknum.
https://twitter.com/MikeKeegan_DM/status/561526604531499008
Edit:
Okay, Livescore er bara alls ekki treystandi. Þurfti að breyta fjórum nöfnum í Leicester byrjunarliðinu. T.d. er Schwarzer í byrjunarliðinu að spila sinn fyrsta deildarleik fyrir liðið.
Trausti says
Pínu furðulegt lið. Rooney mun örugglega spila á miðjunni.
Hjörvar Ingi Haraldsson says
Þetta er svo sterkt lið á pappír, ef þeir næðu bara saman sem lið að þá væri þetta geggjað
Hjörtur says
Ekki er hægt að segja að þetta sé spennandi, maður er við það að sofna. jú jú Utd mikið með boltann en ekkert meira en það, hann gengur manna á milli en lítið meir en það, sendingar út á kantana og svo fyrirgjafir fyrir markið, pass ekkert úr því. Staðan 3-1 og til allra lukku styttist í lokin, svo þetta fari ekki eins og fyrri leikurinn. Ég verð bara að segja eins og er, að leikmenn Utd er þeir mestu klaufar upp við mörk anstæðingana sem ég hef séð til, því miður.
Bósi says
Blind maður leiksins að mínu mati.
Svo var frábært að sja hvað Januzaj og Falcao eru bunir að styrkja sig, fannst þér halda boltanum vel og skila honum frá sér vel.
Þó að krossarnir hans Januzaj mættu rada a samherja aðeins oftar…. :)
Bjarni Ellertsson says
Dapurt, dapurt en 3 stig sem er gott. Svona verður þetta út árið og vonandi náum við meistaradeildarsæti í lok tímabilsins. Menn eru enn að fatta hvern annan og það kemur með tímanum. Blind ávallt góður aðrir undir sínu pari. Liðið ávallt sterkt á pappírnum og á að geta meira en þetta. Fékk leið á Barcelona með tiki taka vaka vaka svefnmeðali og mér sýnist stefna í svipað hjá okkur. Og enn situr LVG sem fastast, vil sjá hann koma á hliðarlínuna og gefa skipanir, ef ekki hann hver þá.
Rauðhaus says
Hvaða væl er í gangi hérna?
Liðið spilaði bara ágætis leik og þó að úrslitin hafi ekki verið 10-0 er óþarfi að kvarta.
Staðreyndin er sú að sigurinn í dag var mjög sannfærandi og fyrir margar sakir afar góður fyrir framhaldið:
1. Blind var mjög góður í hlutverki Carrick. Gott fyrir næstu leiki enda verður þetta hans hlutverk næstu 4 vikurnar amk.
2. Bæði RvP og Falcao skoruðu. Alltaf jákvætt þegar framherjarnir skora, veit bar aá gott fyrir sjálfstraust o.s.frv. RvP átti líka mj stóran þátt í markinu hans Falcao.
3. Januzaj spilaði allan leikinn og átti fínar rispur. Gleymum því ekki að þetta er bara gutti sem er 19 ára gamall (verður 20 eftir nokkra daga). Hann á framtíðina algjörlega fyrir sér og mun verða topp leikmaður með tímanum.
4. Undir lok leiks vorum við með fjóra 19 ára stráka inná, nánast helming liðsins (Shaw, Januzaj, Wilson, McNair). Svo voru menn endalaust (og eru jafnvel enn) að hrauna yfir LvG og stjórnendur klúbbsins fyrir að ganga gegn sögu klúbbins með of miklum kaupum, virða hefð klúbbsins að vettugi o.s.frv. LvG er augljósleg adrullusama hvað þú heitir, hversu gamall þú ert o.s.frv., ef þú bara hefur eitthvað fram að færa fyrir liðið þá færðu að spila. Ég persónulega elska þá stefnu algjörlega, en tek þó fram að ég vil sjá verulega styrkingu á liðinu í nokkrum stöðum.
5. Loksins spiluð önnur taktík en 3-5-2. Það útaf fyrir sig er algjörlega frábært, ekki síst þar sem Di Maria var ekki fremstur :)
Hannes says
Getur ekki einhver annar á síðunni skrifað leikskýrsluna ? Langaði virkilega að lesa hvað síðunni þótti um þennan leik. Ég er brjálaður með að tapa seinni hálfleiknum 0-1 gegn Leicester á heimavelli. Fínt að fá 3 stig en ég vil bara fara sjá liðið spila góðan leik í 90 min, það hefur gerst þrisvar á þessari leiktíð og það er ekki boðlegt. Svo fattaði eg ekki hugmyndina við að setja neðrideildarleikmanninn Paddy McNair inná fyrir RVP í 3-0 stöðu. McNair er alveg rosalega dapur leikmaður, það er bara þannig og ég skil ekki hvernig Evans, Blackett og Mcnair eru ennþá að fá leiki hjá Man Utd, þetta eru Npower league 2 leikmenn. Januzaj hefði þurft að komast á lán hjá einhverju öðru liði í EPL, efnilegur en ekki nógu góður fyrir byrjunarlið United.
Atli Þór Rósinkarsson says
^ vá…
Hjörvar Ingi Haraldsson says
Er bara ánægður eftir þetta :)
Líka er ég ánægður að sjá úrvalsdeildarleikmanninn Paddy McNair fá meiri reynslu þegar leikurinn er unnin og þá á sama tíma fínt að hvíla RvP.
Runólfur Trausti says
Ótrúlegt en satt þá voru allir meðlimir síðunnar uppteknir í gær.
Annars verður að segjast að 3-1 eru fín úrslit og sérstaklega hversu margir guttar fengu að spila en það er samt óafsakanlegt að tapa seinni hálfleiknum – menn áttu bara að halda fætinum á bensíngjöfinni og valta yfir Leicester. Kannski vildi Van Gaal samt halda mönnum ferskum þar sem hann ætlar sér að spila sterku liði gegn Cambridge núna í miðri viku.
Kv. RTÞ
Audunn Sigurdsson says
Hannes,
Hvorki Giggs, Scholes eða Ferdinand voru full mótaðir knattspyrnumenn 19 ára ekki frekar en Blackett og Mcnair.
Þeir verða að fá leiki og reynslu eins og aðrir.
Ég er mjög ánægður með að sjá að Van Gaal skulu hafa trú á ungum leikmönnum liðsins og gefi þeim séns og ég vil sjá meira af því.
Það væri sorglegt og ekki í anda Manchester United að gefa ungum leikmönnum ekki sénsinn
Tryggvi Páll says
Fínn sigur og við vinnum því innbyrðis viðureignina við Leicester á þessu tímabili á útivallarmörkum. Þetta minnkaði aðeins pirringinn yfir tapinu í september. Daley Blind spilaði frábærlega og það er ótrúlega fínt að hafa þennan leikmann sem getur leyst margar stöður vel í leikmannahópnum. Fannst Januzaj sprækur og um að gera að leyfa honum að fá nokkra leiki í röð núna í byrjunarliðinu.
Næstu 5 leikir eru gríðarlega mikilvægir eins og ég talaði um í upphituninni. Spurs, Arsenal og Liverpool eru öll á fínni siglingu um þessar mundir. Arsenal alveg sérstaklega og Liverpool-menn virðast vera búnir að finna fjölina sína eftir brösuga byrjun. Endurkoma Sturridge styrkir þá svo mjög vel svo lengi sem hann haldist heill. Við þurfum því að stíga upp um gír ef tímabilið á ekki að enda í vonbrigðum.
Sigur gegn West Ham næstu helgi yrði geysilega vel þeginn. Þá getum við kúplað West Ham úr þessari baráttu auk þess að Arsenal spilar við Spurs og Liverpool á útileik gegn Everton. Kjörið tækifæri til þess að búa til smá svigrúm og byggja upp sjálfstraust fyrir næstu 4 leiki.