Á morgun fer Manchester United til Wales og mætir þar Swansea í leik sem verður að vinnast. Ástæðan er sú að liðin fyrir aftan United í töflunni eru farin að nálgast óðfluga og það verður að segjast að við nennum ekki öðru tímabili þar sem það eru engir Evrópuleikir á þriðjudögum eða miðvikudögum (tek það fram að ég hef engan áhuga á Evrópuleikjum á fimmtudögum).
En að leiknum á morgun; United hefur aðeins tapað einum leik af síðustu 19 (jafnvel 20) leikjum en á móti kemur að þeir hafa gert slatta af jafnteflum. Af síðustu sex útileikjum í deildinni hafa fjórir endað með jafntefli! Það mætti því áætla að jafntefli væru líkleg niðurstaða á morgun, sérstaklega í ljósi þess að Swansea hefur gert tvö jafntefli í síðustu þremur heimaleikjum sínum, reyndar töpuðu þeir 0-5 gegn Chelsea á milli jafntefla svo við vonum að það sé komið að öðrum svoleiðis leik.
Það má þó reikna með því að Swansea liðið komi ferskt til leiks eftir 10 daga pásu sem og að liðið hefur endurheimt Strákinn okkar, Gylfa Þór Sigurðsson, úr leikbanni. Mörðurinn skoraði einmitt sigurmark Swansea á Old Trafford í ágúst. Hvort hann muni spila á miðri miðjunni með Ki eða í holunni er óvíst en Jonjo Shelvey hefur verið að spila ágætlega í fjarveru Gylfa. Það sem situr þó örugglega í þjálfara Swansea, Gary Monk, er það að síðast þegar hann stillti Gylfa upp á tveggja manna miðju þá tapaði liðið 0-5 fyrir Chelsea, svo það er alls óvíst hvar hann stillir Gylfa upp í þessum leik en ég þori að fullyrða að Gylfi byrji leikinn fyrir Swansea.
Swansea munu örugglega spila eins og flest lið gera gegn Manchester United, mjög þéttir til baka, verjast á mörgum mönnum og treysta á að skyndisóknir valdi usla en Swansea liðið er til að mynda með mjög fljóta kantmenn sem ættu að geta nýtt sér allt pláss sem myndast á bakvið bakverði United liðsins, sérstaklega ef Gylfi er þarna að dreifa boltanum frá miðsvæðinu.
Þökk sé einskærri tilviljun, eða á einhvern örlagaríkan hátt, verður Swansea alltaf tengt við stjóraskipti United síðastliðin tvö ár þar sem að bæði David Moyes og Louis Van Gaal mættu Swansea í sínum fyrsta Úrvalsdeildarleik við stjórnvölinn. Úrslitin voru þó svart og hvítt. David Moyes vann frábæran 4-1 útisigur í Wales á meðan Louis Van Gaal tapaði 2-1 á Old Trafford. Swansea hefndi sín reyndar á David Moyes þegar þeir spörkuðu honum, og Manchester United, úr bikarnum með 2-1 sigri á Old Trafford. Var það líklega einn af fyrstu nöglunum sem var negldur í kistuna hans David Moyes.Síðasti naglinn var svo þegar það var staðfest að liðið kæmist ekki í Meistaradeildina í ár.
Þó að Van Gaal hafi byrjað á þennan hátt þá var liðið langt því frá á sama stalli í þessum leik og það er í dag, í leiknum spilaði Jesse Lingaard sinn fyrsta og eina leik tímabilsins en hann meiddist á hné og hefur verið á meiðslalistanum síðan. Einnig var Darren Fletcher í byrjunarliðinu en hann er eins og allir vita farinn að vinna í járnbindingum hjá Tony Pulis í West Bromwich Albion.
Samkvæmt blaðamanna fundi Louis Van Gaal er Michael Carrick eini leikmaður liðsins sem á við meiðsli að stríða svo það má reikna með Phil Jones og Robin Van Persie í hóp á morgun. Carrick mun svo að öllum líkindum byrja að æfa í næstu viku. Van Gaal sagði einnig að sjálfstraustið í liðinu væri mjög gott og ef að síðustu 19-20 leikir væru skoðaðir þá væru þeir líklega besta lið deildarinnar yfir þann tíma. Að lokum tók hann fram að hann væri aldrei 100% ánægður, það væri alltaf hægt að spila betur en að sem stendur væri aðalatriðið að vinna leiki.
Þó að Phil Jones og Van Persie séu komnir til baka þá reiknar undirritaður með því að þeir komi í besta falli inn á bekkinn. Starting XI á morgun verður eitthvað þessu líkt;
Hins vegar ef Van Gaal vill fara í hefðbundnara 4-4-2 (eins og liðið gerði undir lokin gegn Preston) þá er líklegra að Januzaj byrji leikinn í stað Juan Mata og verði út á hægri vængnum og Angel Di Maria úti vinstra megin. Reyndar átti Ashley Young mjög fína innkomu gegn Preston svo að hann gæti vel komið inn í liðið á annan hvern vænginn. Verð að viðurkenna að mér dettur ekkert í hug hvað Van Gaal gerir, hann gerir oftast það sem enginn heldur að hann geri og því held ég að Juan Mata byrji leikinn (held samt að það eingöngu óbilandi ást mín á manninum sem orsaki þessa spá – innst inni veit maður alveg að hann verður límdur við tréverkið). Þá er bara að bíða spenntur eftir að byrjunarliðið detti inn eftir 24 tíma.
Góðar stundir. Kv. RTÞ.
Skildu eftir svar