Það er stutt á milli stóru leikjanna hjá okkar mönnum. Eftir að hafa gengið frá Tottenham og Liverpool á undanförnum vikum er komið að einum stærsta leik tímabilsins. Manchester City er að koma í heimsókn á Old Trafford.
Af augljósum ástæðum eru leikirnir gegn Liverpool alltaf þeir stærstu á tímabilinu, að minnsta kosti fyrir okkur hérna uppi á Fróni. Sigur gegn Liverpool veitir manni #bantz-réttindi næstu mánuðina gagnvart vinnufélögum, ættingjum, skólafélögum og vinum. Það er þó athyglisvert að þrátt fyrir að Liverpool og Manchester United séu sigursælustu liðin á Englandi hafa þau afar sjaldan verið að keppa innbyrðis að einhverju viti um titlana eins og rakið er í þessari ágætu grein frá Michael Cox. Liverpool er þó sögulegur andstæðingur Manchester og það mun ekkert breytast, þetta eru stærstu leikirnir sem þessi lið spila á hverju tímabili.
Manchester-borgarslagurinn hefur þó verið að vaxa í mikilvægi. Á meðan Glazer-feðgarnir soguðu allt mögulegt fjármagn út úr United pumpuðu furstarnir pening í City eins og þeir pumpa olíu úr jörðinni. Undanfarin tímabil hafa þessi lið því barist innbyrðist um titilinn og mæst í undanúrslitum í báðum bikarkeppnum. Þetta litla krúttlega klúðursfélag sem City hefur yfirleitt verið hefur farið úr því að vera háværi pirrandi nágranninn yfir í það að vera helvítis fíflið sem á allt nýrra og betra en maður sjálfur.
Þetta hefur gert Manchester-borgarslaginn að alvöru viðureign sem skiptir verulegu máli. Undanfarin tímabil hafa þessir leikir verið hreint út sagt rosalegir og oftar en ekki hafa úrslitin ráðist á síðustu mínútum leiksins.
Hver man ekki eftir þessu marki frá Michael Owen, þessu marki frá Wayne Rooney, þessu marki frá Robin van Persie, þessu marki frá Paul Scholes eða þessu marki frá Nani? Allt saman mörk sem komu á lokamínútum sem tryggðu okkur sigurinn á dramatískan hátt.
En við höfum einnig fengið að kenna á því. Vincent Kompany tók risastórt skref í átt að titlinum 2012 með þessu marki. Yaya Toure skaut þeim áfram í úrslit FA-bikarsins með þessu marki og ég vil helst ekki þurfa að rifja þennan leik upp.
Staðreyndin er sú að undanfarin tímabil hafa City-menn haft yfirhöndina í leikjum liðanna. Frá tímabilinu 2011/2012 hefur City unnið 6 af 9 viðureignum þessara liða. Okkur virðist ganga betur gegn City á útivelli því að þessir þrír sigurleikir okkar hafa komið á Etihad og Wembley. City-mönnum virðist hinsvegar líða vel á Old Trafford og þar hafa þeir ekki tapað síðan að Wayne Rooney gerði þetta:
Það er því augljóslega löngu kominn tími á það að United-menn mæti til leiks á Old Trafford gegn City-mönnum og hirði öll þrjú stigin.
City vann fyrri viðureign þessara liða í byrjun nóvember. Staðan í deildinni var ekkert sérstaklega falleg eftir þann leik. Við sátum í 10. sæti með 13 stig. Ekki byrjunin sem við vorum að vonast eftir undir stjórn Louis van Gaal. Þrátt fyrir tapið sá maður þó ýmis merki um að hlutirnir myndu lagast fyrir rest. Liðið lenti í talsverðu mótlæti í leiknum. De Gea var í góðu formi og Smalling fékk afskaplega heimskulegt og óþarft rautt spjald. Brenndur eftir síðasta tímabil bjóst maður við því að leikur liðsins myndi hrynja en menn girtu sig í brók og voru þegar uppi var staðið óheppnir að hafa ekki í það minnsta landað jafntefli. Óverðskuldað tap í þessum leik ætti því að vera gott veganesti fyrir leikinn sem er framundan.
Manchester City
Tækifærið er klárlega til staðar því City-menn hafa dalað verulega að undaförnu. Framan af tímabili leit allt út fyrir að mennirnir hans Pellegrini væru þeir einu sem gæti veitt Chelsea alvöru samkeppni um titilinn. Frá áramótum hefur hinsvegar allt gengið á afturfótunum. Félagið datt út gegn Middlesbrough í 4.umferð FA-bikarsins og Barcelona tók liðið í kennslustund í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Það er hinsvegar í deildinni sem hlutirnir hafa verulega súrnað. Á nýársdegi var staðan svona:
Þetta hefði ekki getað verið jafnara, bókstaflega. Allt í járnum og þessu tvo lið með fína forystu á liðin fyrir neðan, 9 stig niður í United og heil 13 í Arsenal í 6. sætinu. Staðan er aðeins öðruvísi í dag:
City-mönnum hefur heldur betur fatast flugið og Chelsea hefur skilið þá eftir í rykinu. Okkar menn hafa unnið upp þessa 9 stiga forystu sem City hafði í janúar og Arsenal hefur þotið upp töfluna. Frá áramótum hafa City-menn tapað stórleikjum gegn Liverpool og Arsenal en jafnframt hafa þeir verið að tapa stigum í leikjum sem liðið á alltaf að vinna. Burnley og Crystal Palace hafa bæði unnið City á meðan að Hull og Everton hafa nælt sér í jafntefli. Það vekur samt athygli að það er afskaplega lítill munur á markatölu City og Chelsea, City hefur fengið á sig fjórum mörkum meira. Þetta eru rándýr 4 mörk.
Hvað veldur? Það er erfitt að segja.
Margir hafa bent fingrum að Manuel Pellegrini, knattspyrnustjóra liðsins. Honum hafi ekki tekist að halda sínum mönnum á tánnum, hann sé gamall hundur sem kunni bara eina leið til þess að setjast. Oftar en ekki hefur hann haldið sig við 4-4-2 sem hefur gert andstæðingum auðvelt að rúlla yfir miðju City. Pellegrini er á hálum ís um þessar mundir og það eru margir sem telja starf hans ansi ótryggt.
Lykilmenn liðsins hafa jafnframt ekki verið að standa sig. Vincent Kompany er skugginn af sjálfum sér og hefur átt afskaplega dapurt tímabil. Yaya Touré virðist ekki hafa sama kraft og hann hefur haft undanfarið, Paplo Zabaleta hefur ekki tekist að halda uppi sínum ofurmannlega standard. Agüero og Silva hafa dregið vagninn á tímabilinu en það er ekki nóg þegar aðrir lykilmenn eru að klikka. Á meðan hafa leikmenn á borð við Edin Dzeko og Samir Nasri ekki náð að stíga upp. Í síðustu leikjum hefur City-liðið einfaldlega minnt á United undir stjórn Moyes. Liðið er meira með boltann, stjórnar ferðinni en nær samt ekki að skapa sér hættuleg færi á meðan andstæðingurinn nær að nýta sér þetta eina færi sem hann fær í leiknum. Það er ákveðið andleysi sem ríkir yfir City í dag.
Margir hafa jafnframt bent á að það að liðið sé einfaldlega of gamalt. Hópurinn er sá elsti í úrvalsdeildinni að meðaltali og menn eins og Touré og Zabaleta, sem hafa keyrt liðið áfram undanfarin tímabil, eru báðir að nálgast tímabilið þar sem þeir fara til Ítalíu til að slappa af á síðustu metrunum. Ekki hefur tekist að endurnýja hópinn nógu vel enda er uppistaðan í liðinu sú sama og vann titilinn árið 2012 á meðan flest önnur lið í kringum City eru gjörbreytt. Leikmenn eins og Negredo, Mangala, Fernando, Jovetic, Nastasic, Navas og fleiri hafa ekki heillað og það er enginn furða yfir því að eigendur City hafi sett spurningamerki við yfirmenn knattspyrnumála hjá City sem eiga að sjá um þessi mál.
Það virðist því vera komin ákveðin þreyta og ójafnvægi í þetta lið eins og Gary Neville gat séð strax í september. Hann skrifaði jafnframt nýverið grein þar sem hann telur að það muni verða erfitt fyrir City að endurnýja hópinn vegna FFP. Vegna þess hve heftandi FFP er fyrir City muni Arsenal, Chelsea og United alltaf geta jafnað peninganna hjá City en jafnframt boðið upp á miklu meira en City eins og t.d. sögu, hefðir og fleira sem erfitt er að kaupa fyrir peninga.
Skyndilega er því City komið úr titilbaráttu nánast yfir í baráttu fyrir lífi sínu á toppnum. Liðið situr í 4. sæti og án Meistaradeildar á næsta ári er erfitt að sjá hvernig ballið á að halda áfram, peningalega séð. Hlutirnir eru fljótir að breytast í ensku Úrvalsdeildinni.
Þrátt fyrir þessa erfiðleika er City-liðið auðvitað hörkulið. Meðalaldur hópsins er vissulega í hærri kantinum en þó að leikmenn eins og Kompany, Silva og Nasri verði ekkert yngri er akkúrat ekkert að þeirra aldri í dag. Þeir ættu að vera á hápunkti ferils síns. Þessir leikmenn ásamt Agüero og Toure geta vel farið illa með okkur á sunnudaginn, þótt að form liðsins undanfarið bendi kannski ekki til þess.
Pellegrini staðfesti á blaðamannafundi að Wilfried Bony væri meiddur og myndi ekki vera með en jafnframt að Vincent Kompany, fyrirliði liðsins væri tæpur fyrir leikinn. Hann hefur lítið æft í vikunni en ætti möguleika á að ná leiknum. Miðað við gengi hans á tímabilinu veit ég hreinlega ekki hvort að sé betra fyrir United að hann sé með eða ekki. Ef Mangala kemur í stað hans ætti það þó að sleppa. Ef Di Maria er rándýrt flopp, hvað er þá Mangala eiginlega?
Ef ég ætti að skjóta á byrjunarlið hjá City væri það einhvernveginn svona, gefið að Kompany sé meiddur:
Hvernig City-liðið mætir til leiks veltur svolítið á karakter leikmannana. Það verða hreingerningar í sumar hjá City, það er á hreinu. Eru leikmennirnir tilbúnir að berjast fyrir framtíð sinni hjá City eða eru menn eins og Touré og Zabaleta búnir að fá nóg? Verður Samir Nasri tilbúinn í baráttuna, er Pellegrini búinn að gefast upp? Er hugmyndin um að United nái fjögurra stiga forskoti á City nóg til að kveikja í þessum leikmönnum?
Það er spurningin…
Manchester United
Okkar menn gætu varla verið á meira flugi akkúrat núna. Stigalega séð möllum við áfram á svipuðum hraða og megnið af tímabilinu en frammistaðan undanfarið hefur verið gjörsamlega frábær. Maður var meira en lítið smeykur fyrir þessa ofurtörn sem liðið er í en hingað til hefur liðið staðist öll próf með glansi og meira til.
Við komum því inn í þennan leik á miklum hraða, í miklu stuði. Of hratt? Við verðum að bíða og sjá með það. Í liðsfréttum er það helst að Robin van Persie lýsti sjálfan sig reiðubúinn til þess að spila gegn City en Louis van Gaal tók fyrir það á blaðamannafundi og sagði að van Persie væri ekki klár í slaginn. Shaw og Smalling eru jafnframt tæpir og því er í raun eina spurningin hvort að Ashley Young haldi áfram að halda Di Maria út úr liðinu? Þetta er gjörsamlega galin spurning og ef ég hefði vitað það fyrir ári síðan að þetta væri eitthvað sem maður væri að velta fyrir sér hefði ég sagt framtíðarmér að halda kjafti.
Þó að spurningin sé galin er hún hinsvegar algjörlega lögmæt og Ashley Young hefur gert lítið til þess að verðskulda það að fara á bekkinn. Alan Hutton er enn að snúast í hringi eftir viðureign sína við Young um síðustu helgi. Di Maria til tekna er þó ekki hægt að segja annað en að hann hafi tekið þessari bekkjarsetu vel, hann hefur komið inn á í síðustu leikjum og lagt upp mörk gegn Liverpool og Villa. Ég hallast þó frekar að því að Young byrji leikinn. Hann og Blind eru öflugt tvíeyki á vinstri vængnum og virðast ná betur saman en Di Maria og Blind. Young er meiri ‘team-player‘ en Di Maria og það er liðsheildin sem gerir það að verkum að einstaklingarnir blómstra.
Að öðru leyti velur liðið sig alveg sjálft og verður að öllum líkindum svona:
Ef maður á að benda á einhverja sérstaklega veikleika sem United gæti nýtt sér í þessu City-liði er það helst að vinstri vængurinn hjá City á það til að vera galopinn. Gael Clichy er ekki agaðasti varnarmaðurinn í deildinni og hann fær oft á tíðum litla hjálp frá David Silva. Þetta er eitthvað sem Juan Mata, Ander Herrera og Antonio Valencia geta klárlega nýtt sér en samvinna þeirra á hægri kantinum er með eindæmum góð.
Mér til mikilla óþæginda er ég lítið stressaður fyrir þessum leik, það boðar yfirleitt ekkert gott. Þrátt fyrir þá vankanta sem þetta City-lið hefur sýnt á tímabilinu eru þetta auðvitað upp til hópa frábærir einstaklingar. Jafnvel þótt að liðið sé að spila illa getur leikmaður eins og Sergio Agüero gengið frá liðum einn síns liðs líkt og hann gerði við Bayern fyrr í vetur. Ég hef hinsvegar alla trú á okkar mönnum miðað við gengi og spilamennsku liðsins að undaförnu. Það virðist henta okkur vel að spila gegn liðum sem vilja sækja og City-liðið mun klárlega spila til sigurs enda ekkert annað í boði.
Okkur býðst hér afskaplega gott færi til þess að gera tvennt. A) Að koma okkur enn nær markmiðum tímabilsins og B) Að senda þetta City-lið sem hefur verið svo böggandi undanfarin tímabil niður í baráttuna um Meistaradeildarsætið.
Að ná fjögurra stiga forskoti á City myndi minnka pressuna sem verður á okkur þegar við förum til Stamford Bridge í næstu umferð til muna. Þetta er dauðafæri til þess að skella hurðinni á City eins og við gerðum við Tottenham og Liverpool. Ég vil ekki sjá neitt annað en sigur.
Dómari leiksins er Mark Clattenburg. Leikurinn er á sunnudag og hefst klukkan 15.00.
Við í ritstjórn síðunnar ætlum að hittast á Hamborgarasmiðjunni á Grensásvegi til þess að horfa á leikinn. Allir velkomnir.
Tryggvi Páll says
Fyrir leikinn á Etihad tímabilið 2012/2013 safnaði ég saman nokkrum punktum úr sögu þessara félaga. Ef menn vilja slá um sig með algjörlega tilgangslausum staðreyndum í góðra vina hópi má finna hana hér: http://www.raududjoflarnir.is/2012/12/07/tilgangslausar-stadreyndir-fyrir-leik-helgarinnar/
Hjörvar Ingi says
Fyrir leikinn gegn Spurs voru flestir sérfræðingar að spá tapi hjá United
Fyrir leikinn gegn Liverpool voru flestir sérfræðingar að spá tapi hjá United
Fyrir leikinn gegn City eru flestie sérfræðingar að spá sigri hjá United. Held að það sé komin tími til að þessir sérfræðingar hafi rétt fyrir sér og við tökum þetta 3-1
Audunn Sigurdsson says
Ég verð bara að segja alveg eins og er að mér finnst stuðningsmenn United vera nánast of sigurvissir fyrir þennan leik og eins og komið var inn á þá boðar það oft ekki gott.
Liverpool menn voru mjög sigurvissir gegn United um daginn og við vitum hvernig það fór.
Ég er ekkert bjartsýnni á þennan leik en aðra stórleiki, en ekkert svartsýnn heldur.
Ég er smá hræddur við bakslag eftir góða frammistöðu í undanförnum leikjum en á móti kemur að við gætum varla mætt City á betri tíma.
Ég er mjög spenntur að sjá hvernig liðin mæta til leiks og það verður fróðlegt að sjá hvort United tekst að halda boltanum jafn vel innan liðsins eins og tókst td gegn Liverpool.
Ég spái því að City spili með þrjá menn inn á miðri miðjunni í þessum leik.
Þetta verður rosalegur leikur.
Robbi Mich says
Ég hef alltaf verið skíthræddur við City, löngu áður en olíuauðurinn kom, og það breytist ekkert í dag. Þetta verður barátta. 50/50 líkur.
eeeeinar says
Frábær upphitun og enn og aftur frábær síða!
50/50 leikur en maður er ansi stressaður. Man. City gírar sig alltaf upp í leiki á móti United þó þeir hafi ekki nennt að spila þennan leik við Palace um síðustu helgi. Með leikmenn einsog Aguero, Silva og Yaya Toure er flest allt mögulegt.
Liverpool á léttan leik við Newcastle og svo er ekki ólíklegt að Arsenal vinnin Burnley í dag svo það er mikil pressa að taka allavega stig og helst sigur út úr þessum leik – alls ekki tapa.
Lyktar af jafntefli en United-hjartað spáir sigri :)
Andri H. Oddsson says
Sælir félagar,
Veit einhver um gott stream á leikinn ? Ég þakka annnars fyrir frábæra upphitun. Þori ekki að spá fyrir um úrslit enda ekkert gefið fyrirfram í leik sem þessum.
Hjörvar Ingi Haraldsson says
Andri H.
Dominos sýnir leikinn opið:
http://dominoshelgin.dominos.is/
Andri H. Oddsson says
Heyrðu takk fyrir þetta vinur en ég er búsettur í Hollandi og get því ekki horft á leikinn í gegnum þá síðu.
Elias says
Ef þið eruð að nota Chrome þá er hægt að installa vpn add on sem heitir hola.
https://chrome.google.com/webstore/detail/hola-better-internet/gkojfkhlekighikafcpjkiklfbnlmeio?hl=en
installið þessu og stillið síðan frá hvaða landi þið viljið þykjast vera frá, þá ætti dominos helgin að virka
Andri H. Oddsson says
Snilld, takk fyrir þetta!
Hjörvar Ingi Haraldsson says
Bjóst aldrei við að sjá Hola notað til að þykjast vera frá Íslandi :D
Elias says
Nauðsynlegt fyrir landsleikina þar sem ruv eru alltaf með þessi leiðindi að loka útsendingunum fyrir alla utan íslands ;)