Maður er farinn að huga að næsta tímabili og góðar frammistöður undanfarið eru farnar að gera mann ansi bjartsýnan fyrir framhaldið. Hvað svo sem mönnum finnst um Chelsea og þá leikaðferð sem Mourinho grípur til þegar hann þarf á sigri að halda er ekki hægt að neita því að liðið hans hefur verið besta liðið á tímabilinu. Vissulega hafa þeir hikstað undanfarið og þurft að treysta á markverði andstæðingana í undanförnum leikjum til þess að koma sér yfir línuna en heilt yfir á Chelsea skilið Englandsmeistaratitilinn í ár. Þannig er það bara, þeir kláruðu mótið í haust.
Það sem er að koma í veg fyrir það að við séum ekki að ná að keppa við Chelsea um titilinn fram á síðustu mínútu mótsins er ósköp einfalt og það gæti verið gagnlegt að horfa til Chelsea þegar við skoðum hvernig United á að fara að því að vinna Englandsmeistaratitilinn á næsta ári.
Menn hafa kannski tekið eftir því að í deildinni eru 20 lið og henni má skipta upp í þrjá hluta:
- 1-7. sæti
- 8-13. sæti
- 14-20. sæti
Árangur United gegn efsta þriðjungnum og neðsta þriðjungnum eru í ágætu lagi. Eins og við höfum farið yfir er United með bestan árangur allra liða í deildinni gegn liðunum sem sitja í efsta hlutanum, tapið gegn Chelsea á laugardag breytir því ekki. Árangur United gegn neðsta þriðjungnum gæti vissulega verið betri en er þó ekki nema 4 stigum lakari en hjá Arsenal sem státar af besta árangnum. Gengið gegn toppliðunum jafnar út jafnteflið gegn Burnley og tapið gegn Leicester.
Það er hinsvegar gegn liðunum um miðja deild, liðum eins og Swansea, þar sem United er að tapa stigum og það er gengi liðsins gegn þessum liðum sem gerir það að verkum að við erum ekki að veita Chelsea alvöru samkeppni núna á lokametrunum. Gegn liðunum í 8-13. sæti er Chelsea með 15 stiga forskot á United! Það munar um minna.
Þetta er svipuð saga og Chelsea skrifaði á síðasta tímabili þegar liðið klúðraði titlinum. Þeir voru með bestan árangur allra liða gegn liðunum í efsta þriðjungnum og 1 og 2 stigum lakari árangur en City og Liverpool gegn liðunum í mið-þriðjungnum. Gegn botnliðunum fór allt til fjandans. Töp gegn Sunderland, Crystal Palace og Aston Villa gerðu það að verkum að eftirminnilegur sigur Chelsea á Liverpool undir lok síðasta tímabils skipti engu máli.
Það er erfitt að vorkenna Mourinho fyrir að hafa tapað titlinum en þetta var þó bærilegur árangur. Það hafði verið rót á Chelsea-liðinu eftir ör þjálfaraskipti og Mourinho var á fyrsta tímabili endurkomu sinnar. Hópurinn hjá Chelsea var vissulega í ágætu lagi en það vantaði þó ýmislegt upp á. Það var enginn afgerandi framherji, breiddin í vörninni var ekki í lagi og miðjan hefði mátt vera meira skapandi.
Mourinho vissi þetta og sumarið fór í að laga þetta. Chelsea-menn voru ekkert að grínast með leikmannakaup í sumar, þau voru fumlaus. Þann 16. júlí voru Diego Costa, Filipe Luis og Cesc Fabregas allir búnir að ganga til liðs við Chelsea:
- Afgerandi framherji ✓
- Breidd í vörnina ✓
- Skapandi miðjumaður ✓
Þetta var það sem þurfti til að breyta þessu mjög fína Chelsea-lið í Englandsmeistara. Þetta var herslumunurinn og viti menn: Frá fyrsta leikdegi hefur þetta Chelsea lið verið í sérflokki.
Þetta er nákvæmlega það sem Manchester United þarf að gera til þess að fara úr því að vera mjög fínt lið yfir í meistaralið. Í dag erum við með góðan grunn. Líkt og hjá Chelsea í fyrra hafa leikmenn okkar verið að læra á aðferðirnar hjá nýjum stjóra og líkt og hjá Chelsea í fyrra hefur það skilað ágætis árangri. Líkt og hjá Chelsea í fyrra er það samt ekki nóg. Það vantar meiri gæði til þess að yfirstíga þær hindranir sem Chelsea í fyrra og United núna hafa ekki tekist að fara yfir.
Sumarið hjá Chelsea gerði það að verkum að menn gátu byrjað af krafri. Grunnurinn að sigri Chelsea á þessu tímabili var lagður fyrstu mánuði mótsins á meðan við vorum ennþá að reyna að muna hvort að Blind héti Danny eða Daley.
Þetta er lexían sem Chelsea getur kennt okkur. Þetta er það sem United þarf að gera í sumar og það þarf að gerast sem fyrst. Það þarf ekki að kaupa helling af nýjum leikmönnum á 200 milljónir eins og fyrir þetta tímabil. Það þarf aðeins að bæta við gæðin svo að við getum klárað Swansea og Aston Villa eftir erfiða Evrópuleiki. Það þarf að bæta við gæðin svo að við hikstum ekki á leiðinni gegn litlu liðunum eins og Chelsea gerði á síðasta tímabili og við höfum gert á þessu tímabili.
Blessunarlega benda fregnir til þess að þetta sé nákvæmlega það sem LvG og félagar hans í stjórnarherberginu ætli sér að gera.
Ef þeir ná því geta aðstandendur annarra liða farið að huga að þarnæsta tímabili því að þá kemur titilinn heim á Old Trafford á næsta tímabili.
Sigurjón Arthur Friðjónsson says
Virkilega góðar/áhugaverðar mánudagspælingar !
Valdi Á. says
Flottar pælingar eins og alltaf.
Atlas says
Gaman að þessum pælingum. Við fáum inn klassa hafsent, trúlega Hummels. Fáum vonandi Depay. Gæti alveg trúað að við fengjum líka sterkan senter, þurfum að auka breiddina þar. Þó svo að Rooney sé traustur, þá verðum við í vanda ef hann meiðist. Wilson er ekki tilbúinn, vitum ekki hvort við höfum van Persie og þá í hvaða standi hann verður. Bara vonandi að leikmannakaup sumarsins verði kláruð snemma.
Halldór Marteinsson says
Góður mánudagspistill eins og alltaf. Framtíðin er spennandi, bæði verður mjög gaman að fylgjast með sumarglugganum og svo enn skemmtilegra þegar næsta tímabil byrjar. Mikið verður nú gott að fá Evrópukepp i inn aftur!
Breiddin mun skipta miklu máli. Skortur á henni hefur að einhverju leyti verið að há Chelsea, sérstaklega þar sem Móri er duglegastur af toppstjórunum við að keyra duglega á sömu leikmönnunum. Það gæti vel þýtt harkalega brotlendingu í leikformi hjá eldri leikmönnum eins og t.d. Terry sem gæti klárað tankinn sinn snögglega að hætti Gerrard (það má alltaf vona).