Í síðustu viku vorum við eðlilega að velta fyrir okkur slæmu gengi liðsins í síðustu þrem leikjum.
Tryggvi skoðaði færasköpun og Fellaini á mánudaginn og í hlaðvarpinu á þriðjudaginn ræddum við það sem og mikilvægi Carrick fyrir liðið.
Leikurinn á laugardaginn var aðeins skárri en mörkin komu úr kunnuglegum áttum. Juan Mata skoraði sitt fjórða mark í deild á árinu, að þessu sinni úr víti, og leikmennirnir tveir sem sýnt hafa mestar framfarir í vetur bjuggu til seinna markið, Young gaf fyrir og Fellani skoraði líka sitt fjórða mark á árinu.
Og ótrúlegt en satt eru það einungis þeir tveir, ásamt Wayne Rooney, sem náð hafa að skora fjögur mörk í deild árið 2015.
Eitt stærsta vandamál líðsins er því krystaltært: Manchester United er því sem næst hætt að skora mörk.
Frá því að skora á bilinu 78-89 mörk í deildinn á árunum 2009-13 fækkaði mörkunum niður í 64 undir stjórn Moyes og nú þegar tveir leikir eru eftir af þessu tímabili er komið 61 mark.
Á þessum fjórum fyrstu árum sem við erum að skoða voru það allt að 21 leikmanni sem sáu um mörkin (að okkar ástkæra O.G. eða sjm., meðtöldum, heil 10 mörk í deild ’09-10!). Í fyrra voru þeir fimmtán og nú í vetur hafa ekki nema 10 leikmenn United slysað boltanum í netið. Fyrstu fjögur árin á grafinu skoraði alltaf einhver leikmaður 20 mörk eða meira, í fyrra náði Wayne Rooney 17 og núna er hann með 12.
Við sjáum svo að það sem er að gerast er að framherjarnir okkar allir eru því sem næst hættir að skora. Árið 2013 þökkuðum við Robin van Persie titilinn. Hann skoraði færri mörk en Rooney árið áður og senterarnir í heild færri. Síðan þá hefur mörkum Van Persie fækkað verulega (leikjum hans reyndar eitthvað en ekki jafn mikið)
Auðvitað þurfum við núna að taka með í reikninginn að stærstan hluta tímabilsins höfum við bara spilað með einn framherja í 4-5-1 uppstillingu og vissulega hafa miðjumennirnir lagt sitt af mörkum, Mata og Fellaini auk Herrera eru að sjá til þess að miðjumenn eru að skora næstum því jafn mörg mörk og miðjumennirnir okkar gerðu timabilin 2009-10 og 2010-11,
Ef við horfum á þetta markaleysi þá er ekki skrýtið að okkur finnist United ekki jafn skemmtilegt lið nú og áður. Leikirnir góðu gegn Tottenham, Liverpool og City sýndu að liðið getur skorað gegn liðum sem þora að sækja á okkur en eins sýndu síðustu þrír leikirnir að ef liðin spila upp á vörnina þá eigum við erfitt uppdráttar.
Sem stendur eigum við þrjá framherja og einn að láni. Fyrir næsta tímabil má telja líklegt að Falcao fari og Wilson fari á lán. Eftir stendur annars vegar Wayne Rooney sem vissulega getur skorað en er kannske ekki alveg sá refur í vítateignum sem þarf til að setja mörk úr þvögunni sem myndast þegar 10 varnarmenn andstæðingsins eru fyrir, og hins vegar Robin van Persie sem vissulega var þannig leikmaður, en hefur verið frekar heillum horfinn í vetur, m.a. vegna meiðsla.
Það er því alveg ljóst í minum huga að á löngum innkaupalista Louis van Gaal í sumar verður framherji. Hvort það verður maður á borð við Danny Ings, eða stærra nafn á borð við Harry Kane verður að koma í ljós. Ég velti mér uppúr því í febrúar hvað við myndum gera í framherjamálum og fátt nýtt hefur verið nefnt í þeim efnum utan að nafn Jackson Martinez er aftur komið upp á borðið.
Síðan verður gríðarlega fróðlegt að sjá hvort eitthvað verður úr þeim vangaveltum Van Gaal að gera Adnan Januzaj að framherja.
Þessum nýja framherja, eða framherjum jafnvel, þarf síðan að gefa betri sénsa, liðið þarf að herða sig í að brjóta niður varnarmúra andstæðinga sem þykjast hafa fundið leið til að stoppa United. Hluti af ástæðunni fyrir markaþurrðinni í vetur var afspyrnuvarkár afstaða Louis van Gaal lengi vetrar þegar hann var með brotna vörn í höndunum og lagði allt kapp á að liðið fengi ekki á sig mörk. Síðan þegar það var komið mátti fara að leggja upp meira spil. Önnur innkaup í sumar munu síðan vonandi búa til lið sem skapar betri og meira afgerandi færi fyrir senterana okkar, hvort sem það verður Rooney einn eða aðrir.
Heiðar says
Spurning hvort Chicarito verði fenginn aftur til liðsins úr láninu hjá Real Madrid. Finnst líklegra að þeir ætli að selja hann. Frammistöður hans með United á síðasta tímabili voru bara ekki nógu góðar til þess að hann teljist vera framherjinn sem þeim vantar!