United vann gríðarlega mikilvægan sigur á Crystal Palace á útivelli í dag, 1-2 urðu lokatölur eftir nokkuð strembinn leik. Fyrir leik bárust þau tíðindi að Angel Di Maria hefði meiðst á æfingu í vikunni og Robin van Persie hefði orðið fórnarlamb hálsbólgunnar sem var að ganga hjá United í vikunni. Það var því ekki mikið svigrúm fyrir breytingar og var eftirfarandi liði stillt upp:
United
Bekkur: Valdes, Evans (Shaw 45′), McNair (Smalling 84′), Pereira, Januzaj, Falcao (Rooney 45′), Wilson.
Palace stillti upp eins og við var að búast:
Palace
Bekkur: Hennessey, Kelly, Puncheon, Mutch, Lee, Chamakh, Campbell.
Fyrri hálfleikur
Leikurinn byrjaði eins og flestir leikir United undanfarið. Við héldum boltanum á meðan andstæðingurinn sat til baka. Í raun bjóst maður við því að þetta yrði ‘business as usual‘ í 90 mínútur, vörn gegn sókn. Sú reyndist raunin ekki. Palace-menn voru að því er virtist tilbúnari til að sækja meira á United en t.d. Chelsea og WBA gerðu enda er liðið með afskaplega skeinuhætta kantmenn. Leikurinn var því nokkuð jafn framan af og fengu bæði lið þokkaleg færi.
Á 19. mínútu komst United hinsvegar yfir þegar frábær dómari leiksins, Michael Oliver, dæmdi víti á Palace. Ashley Young labbaði framhjá tveimur leikmönnum Palace á kantinum, sneri laglega sendingu inn í teiginn þar sem Scott Dann var óheppinn að handleika knöttinn, endursýningar sýndu að um klárt víti væri um að ræða. Vítanýting United á þessu tímabili hefur ekki verið góð og því var maður mjög stressaður þegar Juan Mata steig á punktinn. Hann er þó svo mikill fyrirmyndardrengur að hann olli manni engum vonbrigðum. 0-1 og 306 mínútna markaþurrð United lokið.
Markið blés krafti í brjóst United-manna og virtust þeir ætla að taka öll völd í leiknum eftir markið. Það verður þó að telja Palace-mönnum það til tekna að þeir náðu að vinna sig aftur inn í leikinn og enn og aftur voru það kantmenn þeirra, Zaha og Bolasie sem voru drifkraftarnir á bak við það. Fellaini var þó oft drjúgur í að vinna til baka og hjálpa vörninni í að glíma við fyrirgjafirnar. Leikur United riðlaðist um undir lok fyrri hálfleiks þegar Luke Shaw fékk höfuðhögg og var hann tekinn af velli eftir nokkura reikistefnu, menn hafa augljóslega ekki viljað taka neina sénsa. Um svipað leyti sá maður að Rooney var farinn að haltra en hann harkaði af sér fram að hálfleik. Jonny Evans kom inn fyrir Shaw og Jones færði sig í bakvörðinn.
Staðan var 0-1 í hálfleik í nokkuð fjörugum leik. Í hálfleik kom í ljós að Rooney gæti ekki haldið áfram og því kom Falcao inn fyrir hann.
Seinni hálfleikur
Þetta hefur farið eitthvað öfugt í menn því að Palace-menn byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti. Puncheon kom inn fyrir Ledley, Pardew breytti í 4-3-3 og við yfirtóku Palace-menn leikinn. Það var títtnefndur Puncheon sem jafnaði leikinn fyrir Palace í upphafi fyrri hálfleiks en það mark lá í loftinu. Smalling beytti ólöglegum glímutökum, Palace fékk aukaspyrnu á hættulegum stað og Puncheon klíndi boltanum í markið. 1-1. Veggurinn hefði klárlega átt að gera betur, Daley Blind virtist hafa meiri áhyggjur af því að hárgreiðslan sín myndi ruglast en að Palace myndu skora, boltinn hafði viðkomu í höfðinu á honum sem gerði það erfiðara fyrir De Gea að verja boltann. Ef Hollendingurinn hefði hoppað 5 cm í loftið hefði boltinn ekki farið að marki.
Palace-menn héldu áfram að sækja eftir markið og það ríkti algjört skipulagsleysi hjá United á þessum tíma. Vörnin sat djúpt sem skapaði pláss á milli miðju og varnar United. Palace-menn nýttu sér þetta óspart og ef ekki hefði verið fyrir snilli David de Gea hefðu þeir komist yfir, hann varði í tvígang úr dauðafærum frá Glenn Murray og hélt okkur inn í þessum leik.
Á þessum tímapunkti gekk ekkert upp hjá United en þegar korter var eftir af leiknum náðu okkar menn smá tökum á honum, þeir náðu að tengja fleiri en 2-3 sendingar saman og fóru að skapa hálffæri. Ashley Young var mjög sprækur á kantinum og það var auðvitað hann sem lagði upp sigurmark United. Við höfum séð þetta milljón sinnum á tímabilinu. Hann fékk boltann á vinstri kantinum, færði boltann yfir á hægri, negldi boltanum inn í fjærstöng þar sem Fellaini beið og skallaði boltann í autt markið eftir slappt úthlaup Speroni í markinu. 1-2. Gríðarlega mikilvægt mark á gríðarlega mikilvægum tímapunkti.
Eftir markið var United líklegara til að bæta við marki en Palace að jafna en þó þurfti Smalling að víkja af velli vegna krampa og kom Paddy McNair inn í staðinn fyrir hann á lokamínútunum. Leikurinn endaði 1-2 og gríðarlega mikilvægur sigur staðreynd.
Svona er staðan í efsta hluta deildarinnar eftir leiki dagsins:
Eftir úrslit dagsins er ljóst að United getur ekki endað neðar en í 5. sæti og því er sæti í Evrópudeildinni tryggt. Við höfum þó engan áhuga á því og Liverpool er eina liðið sem gæti mögulega náð 4. sætinu af okkur. Sigurinn gegn Palace þýðir að það er nánast óvinnandi verk. Vegna betri markahlutfalls okkar verður Liverpool einfaldlega að vinna þá leiki sem eftir eru og treysta á að við náum að hámarki aðeins einu stigi úr þeim leikjum sem eftir eru. Jafntefli eða tap hjá Liverpool gegn Chelsea á morgun þýðir einfaldlega að Manchester United snýr aftur í Meistaradeildina á næsta tímabili!
Nokkrir punktar:
- Enn og aftur eru gríðarleg meiðsli í hópnum, bæði fyrir leik og einnig í miðjum leik. Áður en seinni hálfleikur hefst þarf Louis van Gaal að gera tveir breytingar og færa til leikmenn í vörninni. Þetta hefur án efa haft sitt að segja um það hversu vel Palace-menn spiluðu framan af seinni hálfleik. Það er þó gott að heyra að þeir leikmenn sem fóru útaf í leiknum í dag séu ekki að glíma við alvarleg meiðsli og ættu að vera klárir fyrir næstu helgi skv. Louis van Gaal.
- Í raun má segja að þessi leikur hafi verið þverskurður af tímabilinu. Gríðarleg meiðsli, David de Gea alveg frábær og leikmenn sem áttu erfitt uppdráttar á síðasta leiktímabili að stíga upp og sigla þessu heim fyrir okkur.
- Við erum við það að ná markmiði tímabilsins sem var ósköp einfalt: Meistaradeildarsæti. Við höfum reyndar gert okkur þetta óþarflega erfitt að undanförnu en höfnin er að nálgast. Í sögulegu samhengi er þetta frekar dapurt tímabil en sé þetta sett í samhengi við síðustu tvö ár er ljóst að Louis van Gaal er á réttri leið með þetta lið. Í fyrsta sinn síðan 2012 fær liðið óáreitt sumar með nógum tíma fyrir undirbúning og skipulag. Á næsta tímabili setjum við markið hærra en 4. sæti, það er á hreinu.
Menn leiksins
Það koma aðeins tveir til greina. David de Gea varði úr tveimur dauðafærum í stöðunni 1-1. Menn geta farið að troða þessu kjaftæði um að hann vinni aldrei nein stig fyrir félagið eitthvert þar sem sólin á erfitt með að ná til. Hann var einnig öruggur í flestum aðgerðum og það er alltaf jafn magnað að sjá hvað hann er öruggur í að grípa háar sendingar í teignum miðað við hvernig hann var þegar hann kom fyrst.
Ashley Young átti einnig mjög góðan leik, sérstaklega þegar haft er í huga að hann æfði lítið sem ekkert í vikunni vegna meiðsla. Í tví- eða þrígang fór hann svo illa með Ward, hægri bakvörð Palace, að hann átti einskis annars völ en að setjast á rassinn. Young skapaði bæði mörk United og var sá eini sem var ekki að spila með hjartað í buxunum þegar Palace-menn sóttu sem mest. Það var krafturinn í honum sem gerði það að verkum að United náði að koma sér aftur inn í leikinn í seinni hálfleik sem leiddi til sigurmarksins. Allir voru búnir að afskrifa þennan leikmann en hann hefur heldur betur afsannað það og sannað gildi sitt fyrir liðið. Hann á allt hrós skilið fyrir það.
Næstu leikir
United þarf 2 stig af 6 mögulegum til að gulltryggja Meistaradeildarsætið en við gerum kröfu um það að báðir leikir vinnist. Það er kannski langsótt að ætla sér að ná í 3. sætið en það væri gríðarlegur kostur að sleppa við undankeppni Meistaradeildarinnar. Við getum í það minnsta sett pressu á Arsenal og City og svo er mikilvægt að enda tímabilið á háu nótunum. Það vill svo til að næsti leikur er gegn Arsenal, við viljum öll stigin þar, takk fyrir.
Hjörvar Ingi Haraldsson says
Ekkert helvítis bull, veit að CP hafa verið góðir eftir að þeir skiptu um stjóra en það skiptir engu máli, ég vil sjá 0-3 sigur þar sem Rooney, Mata og DeGea skora (giska að það verði samt ekki rétt hjá mér með markaskorara, en ég hef hvort sem er aldrei rétt fyrir mér með það)
Andri H. Oddsson says
Sælir, er einhver með gott stream á leikinn ?
Hjörvar Ingi says
Jæja, Mata búin að skora og þá bara koma með eitt í viðbót sem fyrst
Rúnar Þór says
2 punktar
1. Af hverju hoppar ekki andskotans veggurinn!!! til hvers að vera með vegg ef hann gerir ekkert?
2. Falcao. amk. 2x í dag var hann kominn í dauðafærisstöðu en sendingin kom ekki. Sá umfjöllun um hann þar sem tekin voru brot frá chelsea leiknum og fleiri þar sem hann var kominn á nærstöng með fullt af svæði en oftast þegar menn eru komnir að endalínu þá senda þeir út í teig eða í innkast hinum megin. Ef þeir myndu bara renna á Falcao=mark
Þetta var mjög góð umfjöllun með myndum og túss þar sem þetta kom bersýnilega fram
Mæli með að þið skoðið staðsetninguna á Falcao næst þegar United er komið í álitlega sendingarstöðu. T.d. í dag sást þegar hann fékk ekki sendinguna á frábærri stöðu þá varð hann pirraður og niðurbrotinn. Ef menn myndu taka sendingarnar þá væri Falcao með ca 10-15 mörk
Sorglegt en satt
eeeeinar says
Risastór sigur. Ef Chelski vinnur liverpool á morgun er meistaradeildin í höfn!
Fellaini, þvílíkt leiktímabil og ‘endurkoma’ miðað við það fyrra.
De Gae er ómennskur – þetta verður mikill missir ef hann fer. Ég vona að Ed Woodward grípi samningstilboðið til hans og bæti einu núlli aftan við töluna.. besti markvörður deildarinnar og þó víðar væri leitað.
Karl Garðars says
Mörk hafa komið undir veggi og þá fer allt á límingunum yfir að menn hafi ekki staðið í lappirnar.
Ekkert bjútí það sem ég sá af leiknum en kærkomnir 3 punktar. Góð run hjá Young og Fellaini vel staðsettur.
DDG er maður tímabilsins hjá okkur og það væri hræðilegt að missa hann.
Ási says
Chris Smalling…Úff! Verðum að fá hafsent sem að getur gefið meira en 5m sendingu. Tæknin hans er hrikalega slöpp, fyrsta touch-ið ekkert spes.
En annars fínn baráttusigur, leiðinlegt með Shaw samt sem áður.
Barði Páll Júlíusson says
Einar… ég vona að De Gea fái ekki 2 milljónir punda í laun ef þú hendir einu 0 í viðbót við þessi 200.000 pund sem er búið að vera slúður um að nýr samningur hljóði uppá.
eeeeinar says
@Barði Páll
Þú getur andað léttar fyrir hönd fjármáladeildar Man. Utd. – ég hef engin ítök þar né samband við Ed Woodard. Þessu með að bæta núlli fyrir aftan upphæðina á samningnum var einungis sett fram til að gefa til kynna mikilvægi hans, algjörlega ótengt eitthverjum umræddum launum – auðvitað er hann aldrei að fara fá 2m punda á viku :D
Cantona no 7 says
Frábær sigur.
En betur má ef duga skal.
Okkur vantar nokkra sterka menn í sumar.
G G M U
Alltaf
Björn Friðgeir says
Sunday Times segir að United sé komið í viðræður við Southampton um Clyne. Fínt ef satt er,
McNissi says
Ekki tengt leiknum.
Eruði nokkuð til í að bæta við takka, sem tekur mann inná commentin við fréttirnar, og hafa einn líka efst einhversstaðar hjá fyrirsögninni.
Ég og eflaust fleiri skoða þessa síðu bara í símanum og það tekur svo mörg puttascroll að fara alltaf neðst í frétt sem maður hefur lesið og vill bara checka hvort komin séu ný comment. Annars er þetta frábær síða en alltaf má bæta góða hluti :)
Tryggvi Páll says
Skarplega athugað, við setjum deildarstjóra vefdeildar í málið.