Þá er komið síðasta leik United á Old Trafford þetta tímabilið. Eftir nauðsynlega sigur gegn Palace og jafntefli Liverpool gegn Chelsea liði sem var varla á hálfum hraða þá hefur markmið tímabilsins náðst. En Það var einmitt að tryggja sæti í Meistaradeild Evrópu. Einhverjir voru farnir að gera sér vonir um 2.-3. sæti eftir frábæra sigurhrinu í vor sem heldur betur hikstaði hressilega frá Chelsea til WBA leikjanna. Ekkert United mark var skorað í þeim. Með sigri í þessum leik gegn Arsenal þá á United veika von um að hirða af þeim 3. sætið. Gallinn er að Arsenal á leik inni, gegn Sunderland.
Eins og sést á töflunni þá geta Arsenal mest náð 79 stigum ef þeir sigra á morgun en United getur mest náð 74 stigum. Þetta þýðir það að United verður að vinna Arsenal heima og Hull úti í lokaumferðinni og á sama tíma má Arsenal ekki fá meira en 3 stig úr sínum leikjum til að United nái 3.sætinu.
Fyrri viðureignir tímabilsins
Þegar United mætti á Emirates má segja að sá sigur hafi verið rán um hábjartan dag en liðið átti varla skot á markið en vann samt einhvern veginn 1:2.
Arsenal hefndu fyrir það með því að slá United úr bikarnum á Old Trafford einnig 1:2 þar sem Di María val t.d. rekinn útaf og Antonio Valencia átti magnaða stoðsendingu á Danny Welbeck sem skoraði sigurmark gestanna.
Manchester United
Michael Carrick, Wayne Rooney, Luke Shaw og Rafael eru allir frá vegna meiðsla. Einnig eru Marcos Rojo, Jonny Evans, Chris Smalling, Ángel Di María og Robin van Persie tæpir vegna meiðsla.
Liðinu spái ég svona
Arsenal
Arsenal hafa verið á rosalegri siglingu síðustu mánuði og hafa amk hingað til sloppið við hið árlega Arsenal-hrun. Bestu menn Arsenal á tímabilinu hafa klárlega verið Alexis Sánchez og Olivier Giroud en þeir hafa samanlagt skorað 31 mark í deildinni. Santi Cazorla ásamt Alexis hafa lagt upp 17 af 66 deildarmörkum Arsenal. Svo eru þeir einnig nálægt því að verja bikarmeistaratitilinn en þeir mæta einmitt Liverpool-bönunum Aston Villa í úrslitaleiknum.
United þarf virkilega að passa uppá Alexis Sánchez og Santi Cazorla í þessum leik því þeir eru stórhættulegir á síðasta þriðjungnum.
Frá 2-1 tapinu gegn Tottenham á White Hart Lane hafði Arsenal ekki tapað í 10 deildarleikjum í röð.
Gestirnir verða án Danny Welbeck sem mun því miður ekki skora fleiri mörk en Chris Smalling á þessu tímabili, einnig eru þeir Alex Oxlade-Chamberlain og Mathieu Debuchy frá vegna meiðsla.
Er framtíð David de Gea ráðin?
Nú keppast fjöldmiðlar við að segja frá því að David de Gea sé búinn að semja við Real Madrid um laun og nú eigi bara eftir að semja um kaupverð. Sumir segja að það sé ekki rétt og hann sé í raun óákveðinn.
Louis van Gaal segir framhaldið alfarið í höndum De Gea en að félagið sé með nokkur skotmörk sem geti komið í stað Spánverjans fari allt á versta veg.
Sveinbjörn says
Leiðinlegt að segja þetta, en það er líklega löngu búið að plana brottför De Gea til Real.
Þetta er sama sagan og með Ronaldo. Þetta verður að öllum líkindum staðfest í júní (líklega fyrri partinn).
Valdes hefur verið keyptur sem worst-case-scenario ef við myndum ekki fá neinn annan í markið í sumar. Hann fékk 18 mánaða samning sem þýðir að ef við fáum Lloris eða einhvern álíka þá getum við selt hann fyrir svipaða upphæð og við erum búnir að borga honum í laun, ef við fáum engan þá stendur hann í markinu í eitt ár og fer síðan á frjálsri sölu.
En það sem styður hvað mest við orðróminn um brottför De Gea er að síðan byrjað var að orða hann við Real þá hefur hann aldrei komið fram og sagst ætla að vera áfram hjá okkur eða talað neitt um þessi skipti.
Ef hann ætlaði að vera áfram hjá okkur þá væri hann löngu búinn að segja það.
Það versta af öllu er samt það að við erum með annan af tveimur bestu markmönnum í heimi þessa stundina og hann er að fara ódýrt. Eitt ár eftir af samningi sínum eins og Persie á sínum tíma. Ég efa að við fáum mikið meira en 20 milljónir punda fyrir hann.
Hvað myndi Neuer fara á?
Atlas says
Maður er ennþá að vonast eftir því að liðið sleppi við forkeppni meistaradeildarinnar.
Swansea hjálpaði til um síðustu helgi með því að vinna Arsenal. Ef við vinnum í dag er komin talsverð pressa á Arsenal.
Svo má ekki gleyma því að Swansea á heimaleik við Manchester City í dag og gætu alveg strítt þeim. Ef Swansea hirðir stig af City í dag þá eiga þeir erfiðan leik gegn Southampton í lokaumferðinni um næstu helgi.
Möguleiki okkar á því að hækka okkur í töflunni felst náttúrulega í því að við vinnum leikinn í dag og síðan Hull um næstu helgi.
Auðunn A Sigurðsson says
Er eiginlega að vona að Van Gaal setji De Gea á bekinn í þessum leik og gefi Valdes sénsinn.
Veit ekki með þennan leik,er ekkert voðalega bjartsýnn ef ég á að segja eins og er en vonum það besta.
panzer says
De Gea á auðvitað að spila þennan leik. Hann hefur staðið sig stórkostlega á tímabilinu og það yrði glórulaust að setja hann á bekinn. Hann er topp atvinnumaður og mun án efa leggja sig allan fram í þessum leik þó hann vilji (líklegast) halda á önnur mið í sumar. Það var ekki minni ‘óvissa’ um síðustu helgi þegar hann bjargaði leiknum á móti Crystal Palace.
Þessi kenning hjá Sveinbirni er ansi líkleg varðandi Valdés. Því miður virðist ekki gilda annað um De Gea og flesta góða spánverjana í ensku deildinni, þegar Real Madrid bankar dyrnar þá svara þeir kallinum. Því miður en þannig er það bara.
Það er ekki kjörstaða við samningaborðið á móti Real Madrid að hann eigi bara ár eftir af samningum, það þýðir þó ekki að United *verði* að selja núna. Verri fjárhagsleg glapræði hafa gerst en að missa De Gea á frjálsri sölu.
United langar í Bale og ég vona að það spili eitthverja rullu í þessu í sumar, allavega láta reyna á að pressa sölu á Bale á móti De Gea kaupunum.