Á morgun kl. 10 verður dregið í forkeppni Meistaradeildarinnar. Þar sem ekkert má vera tilviljanakennt lengur í knattspyrnu þá getur United ekki mætt nema fimm liðum af þeim 19 sem eru með United í drættinum.
Við kíkjum aðeins þá þessa mótherja
Club Brugge
Urðu efstir í deildarkeppninni í Belgíu í fyrra, en þar fara efstu sex í úrslitadeild um meistaratitilinn og Brugge varð í öðru sæti á eftir Genk. Kepptu í Evrópudeildinni í fyrra, unnu sinn riðil móti Torino, HJK og FC Kaupmannahöfn, unnu síðan AaB og Beşiktaş áður en þeir töpuðu fyrir Dnipro í fjórðungsúrslitum. Komu inn í síðustu umferð Meistaradeildar undanrása og slógu út Panathinaikos 4-2 samanlagt.
Eiður Smári er farinn frá Club Brugge og því get ég sagt með öryggi að ég kannast ekki við einn einasta leikmann hjá þeim.
CSKA Moskva
Líkt og Brugge varð CSKA í öðru sæti í sinni deild í fyrra, 7 stigum á eftir Zenit. Rússneska deildin er byrjuð aftur og CSKA er búið að vinna alla þrjá leiki sína og eru komnir í form. Þeir unnu Sparta Prag 5-4 í þriðju umferð undanrásanna og eru því komnir í forkeppnina.
Leikmenn eru helstir markvörðurinn Igor Akinfeev, sem var nú ekki svo sjaldan orðaður við United hér í eina tíð, Svíinn Pontus Wernbloom og síðast en ekki síst fyrrum United leikmaðurinn Zoran Tošić.
S.S. Lazio
Lazio gekk vel í fyrra. Liðið varð í þriðja sæti í deildinni, stigi á eftir erkifjendunum í AS Roma en átján á eftir Juventus. Það skilaði liðinu beint inn í þessa forkeppni, líkt og United. Lazio tapaði svo fyrir Juventus í úrslitum bikarsins
Ítalska deildin er ekki byrjuð, fyrsti leikur Lazio á tímabilinu verður meistarakeppnin gegn Juventus nú um helgina,. Fyrsti deildarleikur er svo 23. ágúst, milli leikjanna í forkeppninni.
Af leikmönnum skal fyrstan telja Ravel Morrison sem okkur er vel kunnur. En lið Lazio er annars fullt af þekktum nöfnum og hlýtur að vera það lið sem við viljum síst lenda á móti.
AS Monaco
Eins og Lazio varð Monaco í þriðja sæti í sinni deild í fyrra. PSG vann með yfirburðum og Lyon varð í öðru sæti. Þeim gekk hins vegar vel í Meistaradeildinni, unnu sinn riðil, móti Leverkusen, Zenit og Benfica. Slógu síðan Arsenal út í 16 liða úrslitum en töpuðu fyrir Juventus í næstu umferð.
Monaco vann Young Boys frá Bern í undanrásunum, 7-1 samanlagt og fór nokkuð létt með. Leikmenn eru helstir Jérémy Toulalan, markvörðurinn Danjiel Subašić, og svo er Stephen El-Shaarawy kominn að láni frá Milan. Svo eru Ricardo Carvalho og João Moutinho þarna líka. (Dimitar Berbatov hvarf á braut í sumar þegar samningi hans lauk) Þokkalega sterkt lið en United á að vera sterkara . Franska deildin byrjar um helgina þannig þeir eru á svipuðum stað og United hvað það varðar.
Rapid Vín
Rapid varð í öðru sæti austurrísku deildarinnar, 6 stigum á eftir Red Bull Salzburg í vor. Evrópukeppnisþáttöku þeirra lauk í ágúst, þeir töpuðu fyrir HJK í forkeppni Evrópudeildarinnar.
Nú sló Rapid hins vegar út Ajax í þriðju umferð undanrásanna, 5-4 samanlagt og eru búnir að vinna tvo fyrstu leikina í deildinni og eru því komnir í góða æfingu. Leikmenn eru að langstærstum hluta austurrískir og enginn sem ég kannast við. Líklega lakasta liðið af þessum fimm.
Við vonumst því eftir að sleppa við Lazio, helst ekki fá Monaco, en hin liðin þrjú hljóta að flokkast undir skyldusigra.
Hannes says
Best væri að fá Rapid Wien eða C.Brugge. En United á samt að klára öll þessi lið.
Bjarni Ellertsson says
C. Brugge var það heillin, þetta ætti að vera komið, set kröfu á það.
GGMU