Loksins, loksins. Það er oft talað um að enginn viti hvað hann/hún eigi fyrr en glatað hefur. Í tilfelli Manchester United og stuðningsmanna liðsins er það Meistaradeild Evrópu. Síðasta tímabil var það fyrsta í ca. 20 ár sem að United var ekki neinni Evrópukeppni hvað þá meistaradeild.
Manchester United
Fyrsta umferðin fór eins illa og getað hefði. United missir Shaw í langan tíma og fær ekki einu sinni vítaspyrnuna sem réttilega hefði átt að vera dæmd. Þetta atvik sló leikmenn liðsins alveg útaf laginu og kom því kannski ekki mikið á óvart að svo fór sem fór.
Sem betur fer hefur United haldið dampi í deildinni og er eitt á toppnum að loknum 7 umferðum.
En að leiknum annað kvöld þá verður Michael Carrick fjarri góðu gamni. Ander Herrera og Antonio Valencia munu einnig vera tæpir. Marcos Rojo er svo líka meiddur.
Líklegt byrjunarlið:
Vfl Wolfsburg
VfL Wolfsburg er að keppa í annað skipti í sinni sögu í Meistaradeild Evrópu. Síðast voru þeir einmitt líka í riðli með CSKA Moskvu og Manchester United. Glöggir stuðningsmenn muna kannski eftir þrennu Michael „zzz“ Owen gegn þeim.
Wolfsburg voru næstbesta lið Bundesligunnar á síðasta tímabili og segir það kannski ekki mikið enda er einokun Bayern á titlinum farin að minna á Celtic í Skotlandi. Þeir hafa farið ágætlega af stað í deildinni og meira að segja bara nokkuð vel. Þeir töpuðu reyndar ansi illa gegn Bayern (ótrúlegt, ekki satt?) þar sem hinn magnaði Robert Lewandowski kom inná og gerði sér lítið fyrir og skoraði „fimmu“. Hann jafnaði gamalt met Atla Eðvaldssonar yfir fimm mörk skoruð með stuttu millibili.
Lið Wolfsburg hefur tekið nokkrum breytingu frá því á síðasta tímabili og frægast dæmið er Kevin de Bruyne sem var seldur á metfé til Man City. Einnig voru Ivan Perisic og Aaron Hunt seldir. Perisic til Inter í Mílanó og Hunt til Hamburger SV. Reyndar hafa þeir fengið nokkra sterka leikmenn í staðinn. Bera þar hæst Julian Draxler frá Schalke 04, Max Kruse frá Mönchengladbach og Dante frá Bayern München.
Líklegt byrjunarlið:
Bjarni Ellertsson says
Enginn skal vanmeta Þjóðverjana, fyrirfram verður þetta erfiður leikur ekki síst þar sem við töpuðum fyrsta leiknum á móti PSV. Ensk lið byrja ekki vel í keppninni og vona ég að við náum að halda dampi og vinnum í kvöld, en það þarf að hafa fyrir því, það er víst. Ef þetta er ekki vettvangur fyrir leikmenn sem hafa ekki náð fullum hæðum að sýna lit þá verð ég illa svikinn. Vil sjá liðið á fullu gasi allan leikinn, yfirkeyra andstæðinginn með kraftmiklu spili og stanslausum sóknum, það er ein leiðin til að yfirbuga þýskudísel vélina sem er löskuð þessa dagana. Þetta þekkir Bastian mæta vel og hann mun stjórna öllum aðgerðum frá miðsvæðinu og menn þurfa að vera með hausinn vakandi til að meðtaka það sem hann hefur fram að færa. Hef trú á sigri en samt af fenginni reynslu þá er árangur okkar á móti Þjóðverjum ekkert sérstakur og því gæti brugðið til beggja vona. Góða skemmtun í kvöld og megi betra liðið vinna :)
Ási says
Wolfsburg eru bara með mjög vel mannað lið, Kruse og Schurrle eiga líklega eftir að halda bakvörðum okkar uppteknum allan leikinn. Draxler er flinkur miðjumaður en ég held að Schweinsteiger og Schneiderlin höndli hann nú alveg. Erum heilt yfir með betra lið, en það er bannað að vanmeta þjóðverja
Cantona no 7 says
Godur sigur
G G M U
Runólfur Trausti says
Það var ekki fallegt.
Það var stressandi.
Það var mjög stressandi.
En það hafðist og það er fyrir öllu.
Þó að sumir sigrar liðsins séu ekki sannfærandi þá er liðið samt sem áður að vinna leiki. Það er einstaklega jákvætt.
Hvað varðar spilamennsku liðsins þá eru allir nema tveir leikmenn (að mínu mati) að spila vel þessa stundina. Ef til vill illa vegið að Antonio Valencia hér en vörnin er svona 100x brothættari með hann inn á vellinum. Mig grunar að hann endist ekkert mikið lengur en út þetta tímabil hjá United – nema hann verði gerður að kantmanni aftur (sem ég efa).
Svo er það umtalaður fyrirliði liðsins. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að liðið sé betra án hans en núna er ég einfaldlega 110% viss. Hann er svo afspyrnuslakur leik eftir leik að það nær engri átt. Ég held að maðurinn þurfi einfaldlega gott og langt frí til að endurhlaða batteríin.
Helsti gallinn er að ég veit ekkert hvern ég myndi setja í byrjunarliðið í staðinn.
PS. Hversu góður er Juan Mata eiginlega?