Á morgun fær Manchester United frábært tækifæri til sýna að liðið ætli sér toppslag í vetur og ekkert annað. Manchester City kemur á Old Trafford sem efsta lið deildarinnar en einungis 2 stigum á undan United.
Sigur á morgun kemur United í fyrsta eða annað sætið í deildinni, eftir því hvort Arsenal tapar stigum gegn Everton í eftirmiðdagsleiknum í dag eða ekki. Þetta eru leikirnir sem Manchester United á að snúast um og þetta eru leikirnir sem eiga að vinnast. Síðasti stórleikur fór illa þegar Arsenal snýtti okkar mönnum allhressilega og það er ekki bara ég sem lít á leikinn á morgun sem eins mikinn úrslitaleik og hægt er að tala um í október. Eftir leikinn á morgun taka við leikir sem topplið á að líta á sem skyldusigra og sigur á morgun myndi gefa liðinu byr undir báða vængi.
Sigurinn á Everton um síðustu helgi var sannfærandi og vel þeginn eftir útreiðina gegn Arsenal og erfiður leikur í Moskvu í miðri viku situr vonandi ekki of í okkar mönnum
Byrjum þetta á að skoða liðið sem byrjar á morgun
Þetta er liðið eins og það var gegn Everton með einni breytingu, Carrick kemur inn fyrir Schweinsteiger. Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að halda um það. Schneiderlin hefur verið að sýna betur og betur hvað í honum býr og helst vildi ég sjá Schweinsteiger frekar en Carrick en grunar að þrír leikir í byrjunarliði á viku sé of mikið fyrir bæjarfógetann. Það sem ég vil alls ekki sjá er að Carrick og Schweinsteiger byrji eins og þeir hafa verið að gera í stórleikjunum í haust. Sú samsetning er einfaldlega of hæg. Ég hef þó illan grun um að sú verði raunin
Að öðru leyti velur liðið sig sjálft. Þessi litli hópur sem Van Gaal er með og ítrekaði síðast í vikunni að væri það sem hann vildi hafa gerir að verkum að það er ekki mikil rótering. McNair er enn meiddur og Ashley Young er ekki tilbúinn í leik þó hann sé farinn að æfa.
En við ætlum ekki að hafa áhyggjur af þessu, þetta lið á að geta unnið Manchester City án nokkurs vafa.
Það er hins vegar ekki hægt að segja að Manchester City komi á Old Trafford með fullsterkt lið. Sergio Agüero og David Silva eru báðir meiddir og munar um minna, aðrir á meiðslalistanum eru Samir Nasri, Fabian Delph og Gaël Clichy. Á móti kemur hins vegar að stórkaupin þeirra í sumar, Kevin de Bruyne og Raheem Sterling hafa svo sannarlega verið að stimpla sig inn. Eftir töp gegn West Ham á Etihad og Spurs úti hafa komið tveri stórsigrar á Newcastle og Bournemouth.
Stóra spurningin er hvort Vincent Kompany eða Nicolás Otamendi byrji. Það fer eftir því hvort Pellegrini er búinn að taka hann í sátt eftir að Kompany spilaði fyrir Belgíu eftir að hafa veirð meiddur með City. Pellegrini segir að Otamendi og Mangala séu fullnógu góð samsetning og það er líklega líltið hægt að mæla móti því þó Otamendi hafi ekki byrjað vel í haust en Kompany þeim mun betur.
City hefur þó verið að fá á sig mörk undanfarið og mér liði mun betur að sjá Kompany á bekknum en inn á. Pablo Zabaleta hefur ekki verið jafn frábær í vetur og City hefur verið að rótera bakvörðum, móti Sevilla í vikunni spilaði Zabaleta hægra megin og Sagna úr stöðu vinstra megin. City mun án efa þurfa að hugsa um það hvern þeir ætla að láta taka á móti Martial á vinstri kantinum,
Miðjan er traust, Yaya Touré er að byrja þetta tímabil mun betur en hann lék á síðasta ári og er ástæðan fyrir að ég treysti ekki Carrick-Schweinsteiger sem pari. Að því sögðu vona ég að Fellaini verði ekki notaður nema sem plan B í besta falli til að taka á honum.
Frammi eru það hiklaust De Bruyne og Sterling sem skapa mesta hættu. Ég treysti Chris Smalling fullkomlega til að taka á Bony og þá er það hlutverk Jones og Darmian að vera tilbúnir í að taka hina tvo. Í stórsigrinum á Bournemouth um síðustu helgi byrjaði Sterling í holunni og De Bruyne á vistri kanti, en Sterling var í raun mun sókndjarfari en Bony og skoraði þrennu. Þetta má miðjan okkar ekki leyfa þeim að komast upp með. Vinstra megin er Rojo á móti Jesús Navas á hægri kanti City. Navas er enginn David Silva en hann er snöggur og það væri hálfgert glapræði að setja Blind þar.
Leikurinn í vor var fyrsti sigur United á City eftir fimm tapleiki í röð og það er engin ástæða til að leikurinn á morgun verði eitthvað afturhvarf til þess að City hafði kverkatak á okkur. En það má bóka spennandi leik, hvarvetna á vellinum má sjá leikmenn mætast sem hafa allt að sanna og öllu að tapa.
Það hafa verið skrifaðar ófáar setningarnar um frammistöðu fyrirliðans okkar í haust og hvað gæti verið betra en að sjá hann taka eitt svona og koma United upp fyrir City?
Evrópa færir klukkurnar sínar á vetrartíma í nótt og leikurinn hefst því stundvíslega klukkan 14:05 á morgun sunnudag en til að koma okkur enn frekar í gírinn verður okkar eini sanni @tryggvipall í útvarpsþætti Fótbolta.net á X-inu kl 13:00 í dag
Bjarni Ellertsson says
Erfiður leikur framundan en ekkert er til fyrirstöðu að vinna þennan leik, hef fyrirfram fulla trú á því en ef menn mæta dofnir og syfjaðir í leikinn þá fer illa, það er ljóst. Nú er tækifæri að vera með statement (taka Arsenal á þetta ) og berjast fyrir þessum þremur stigum, allt þarf að ganga upp, leikskipulagið, baráttan og innblásturinn en mér finnst hann oft hafa vantað í leikmenn í síðustu leikjum. Menn mega ekki detta í þann fúla pytt að passa stattið sitt því þá gleymist það af hverju menn klæðast rauðu treyjunni, það ætti að vera nóg að ganga um Old Trafford, drekka í sig söguna og finna fyrir stolti að spila fyrir Utd og sérstaklega okkur, dyggustu aðdáendurna. Um að gera að njóta augnabliksins því enginn veit hvað morgundagurinn ber í skauti sínu.
GGMU