Það er ekki mikið andrými þessa dagana og afskaplega lítill tími til þess að velta sér upp úr spilamennsku liðsins undanfarnar vikur. Liðið spilar á 3-4 daga fresti og ég efast meira að segja um að leikmenn liðsins hafi almennilegan tíma til að æfa eða hvíla sig á milli leikja.
The show must go on og á morgun tekur United á móti CSKA í fjórðu umferð Meistaradeildarinnar. Eftir tapið gegn PSV og jafnteflið í fyrri leiknum gegn CSKA er þetta hreinlega ekkert annað en must-win leikur og framherjar okkar þurfa að finna þessa blessuðu markaskó sína ansi fljótt ætli menn sér ekki að spila í Evrópudeildinni eftir áramót.
Eftir ágætan byrjun á tímabilinu hefur svolítið verið að fjara undan þessu hjá okkar mönnum. Vont tap gegn Arsenal, tap í vító gegn Boro í deildarkeppninni og þrír 0-0 leikir í röð hafa gert það að verkum að óþolinmæðin er farin að láta kræla á sér á nýjan leik. Það er svo sem skiljanlegt enda er sóknarleikur liðsins alveg afskaplega dapur og hugmyndasnauður um þessar mundir. Auðvitað er gott og blessað hvað varnarleikur liðsins er orðinn þéttur en þegar það gerir það að verkum að liðið getur varla sótt að marki andstæðingsins er of langt gengið.
Það þarf að finna þetta fræga jafnvægi og á næstu vikum munum við sjá hvort að þetta dapra form United er bara tímabundið, ég meina…ekkert lið fer í gegnum heilt tímabil spilandi einhvern sirkusbolta í hverjum einasta leik, eða hvort ástæður spilamennsku liðsins risti eitthvað dýpra og hvort að við þurfum að fara að hafa verulegar áhyggjur af gangi máli.
Það kemur allt í ljós og fyrsta skrefið er CSKA á morgun.
Andstæðingurinn
Verandi með lið sem á í vandræðum með að skora er CSKA líklega síðasti andstæðingurinn sem maður vildi mæta. Við sáum það fyrir nokkrum vikum hvað þetta rússneska lið er afskaplega vel skipulagt varnarlega. Þeir gefa ekkert færi á sér að óþörfu. Leikmennirnir og þjálfararnir hafa verið lengi saman, allir þekkja sitt hlutverk og sóknarleikur verður ekki eitthvað sem lögð verður áhersla á að hálfu andstæðingsins á morgun.
Liðið hefur haldið uppteknum hætti frá jafnteflinu gegn United. Það hefur spilað þrjá leiki, unnið tvo og gert eitt jafntefli. Liðið er því enn taplaust í deildinni og er það með 9 stiga forystu eftir 14 leiki.
Í B-riðlinum okkar er allt galopið eftir þrjár umferðir og ennþá eru öll lið í séns á að næla sér í sæti í næstu umferð. Jafntefli fyrir CSKA á morgun yrði því frábær úrslit og því má fastlega, mjög fastlega, gera ráð fyrir að þeir stilli upp í jafnteflið en reyni auðvitað að stela sigrinum, fái einn af þessum snöggu leikmönnum þeirra færi á góðri skyndisókn.
Það er ekki mikið um meiðsl hjá CSKA, Vasili Berezutski er meiddur og verður ekki með. Tvíburabróðir hans Aleksei er einnig tæpur ásamt Eremenko. Þetta eru allt saman reyndir byrjunarliðsmenn og því munar um minna fyrir CSKA.
Síðasti leikur liðanna snerist nánast eingöngu um varnarleik CSKA og þeir gerðu ekki mikið fram á við nema í þetta eina skipti sem Martial handlék knöttinn inn í teig. Það verður því afslaplega mikilvægt að vera vakandi og gera engin klaufamistök sem leiða til marks frá CSKA. Það síðasta sem við viljum er að leyfa þeim að komast yfir svo þeir geti pakkað saman í vörn það sem eftir er.
United
Byrjum á meiðslum. Memphis er meiddur og spilar ekki og Antonio Valencia er einnig tæpur. Aðrir fastamenn í hópnum eru heilir fyrir utan auðvitað Luke Shaw. Paddy McNair er svo allur að skríða saman eftir meiðsli. Morgan Schneiderlin æfði reyndar ekki í morgun en það var vegna persónulegra ástæða og fékk hann frí en gæti spilað með á morgun.
Liðið spilaði erfiðan útileik á laugardaginn en fær núna tvo heimaleiki í röð auk þess sem að leikurinn á morgun er á þriðjudegi eins og glöggir hafa tekið eftir. Það þýðir einn auka dagur í hvíld/undirbúning fyrir leikinn gegn Watford um helgina. Það er ágætt en stóra spurningin er eins og undanfarnar vikur sú sama: Wayne Rooney?
Hversu lengi fær hann að hanga í byrjunarliði á forni frægð og fyrirliðabandinu einu saman? Eins og spilamennska hans hefur hann verið gæti United allt eins spilað einum manni færri inni á vellinum því að hann er ekki að bjóða upp á neitt sem tómir skór í vítateig andstæðingsins gætu ekki gert.
Ég skil svo sem ástæðuna fyrir því að hafa Martial á vinstri kantinum enda kemur hann með ákveðna tegund af ógn sem enginn af leikmönnum liðsins býr yfir akkúrat núna. Ef LvG vill endilega hafa hann þar þarf hann þó alvarlega að íhuga aðra kosti en Wayne Rooney í framlínunni. Ég veit ekki hvernig staðan á Wilson er en ég myndi sterklega skoða það að hafa hann frammi á morgun.
Ekki endilega af því að Wilson á það skilið heldur meira til þess að sparka í feita rassinn á Rooney. Hann er bestur þegar hann er pirraður og það þarf einhver að fara að hrista upp í þessu kósýheitalífi sem fyrirliðabandið hefur fært honum. Svo væri alltaf gaman að sjá Wilson spila og ég skal veðja við ykkur hattinum mínum og húsinu mínu að hann hefði klárað þetta færi hérna sem Rooney fékk gegn Palace um helgina.
Those saying „ball too quick“ it wasn’t at all. Rooney should be reaching it. Any slower, the defender intercepts. pic.twitter.com/11JIZEBi4b
— Iconic United (@IconicUnited) October 31, 2015
Rooney er samt alltaf að fara að byrja á morgun.
Hvað um það. Við verðum helst að vinna á morgun svo að pressan gegn PSV í næsta heimaleik verði ekki óbærileg. Liðið þarf einnig helst að skora nokkur mörk og snúa við þessu slæma gengi undanfarið. Það er ekkert leiðinlegra en 0-0 jafntefli og það mun eitthvað springa ef fjórða 0-0 jafnteflið lítur dagsins ljós á morgun.
Neibb, við nennum ekki svoleiðis rugli og þetta lið ætlar að valta yfir þetta CSKA lið á morgun.
Það er búið að breyta klukkunni út í hinum stóra heimi og því hefst leikurinn klukkan 19.45 en ekki 18.45 eins og í hinum umferðunum.
Bjarni Ellertsson says
Hvað varð um gamla frasann, sóknin er besta vörnin. Sóknarleikur liðsins mun ekki breytast á einni nóttu, og því á ég fyrirfram von á erfiðum leik. Ætla meira að segja að fórna tveimur tímum í leikinn og horfa á hann því ég lifi alltaf í voninni um að bjartari tímar séu framundan.
Runólfur Trausti says
Það er kannski kominn tími á að Van Gaal „hleypi hundunum út“ en þar sem þetta er Must Win leikur fyrir félagið þá efast maður um það.
Að því sögðu þá trúi ég í raun ekki öðru en liðið verði svipað og hér að ofan. Ég vonast þó persónulega eftir því að sjá Darmian í hægri bak, Young á vinstri vængnum og Martial frammi. Annað má vera eins fyrir mér. Ég væri þó einnig til í að sjá Blind í hafsentnum einfaldlega vegna sendingargetu hans sem á það til að opna upp varnir andstæðinganna.
Ég reikna þó ekki með því að það verði raunin, mig grunar að það verði tveir djúpir miðjumenn per usual á miðri miðjunni en það læðist að mér sá grunur að Rooney verði ekki fremstur, þá vonandi á bakvið Martial og það eitt og sér gæti verið nóg til að vinna þennan leik!
Ingvar says
Enn eitt steindauða jafnteflið framundan. CSKA menn eru mjög góðir að verja markið sitt og við afskaplega lélegir að opna svoleiðis lið. 0-0 eða 0-1