Komið þið sæl og blessuð og verið öll hjartanlega velkomin í „Spáum í spilin“, þar sem tvö lið eru tekin fyrir og greind í frumeindir. Eins og þið hafið eflaust tekið eftir þá erum við ekki oft á dagskrá, síðasti þáttur fór síðast í loftið apríl 2013 en við státum okkur af því að setja ávallt áhorfandamet í hvert sinn sem þáttur fer í loftið og er fastlega búist við því að það haldi áfram í dag.
Með ykkur eins og alltaf er ég Elvar, eða „ellioman“ og í dag ætlum við að taka fyrir leik Manchester United gegn Watford sem spilaður verður á Vicarage Road, heimavelli Watford, næstkomandi laugardag. Eins og áður þá tökum við fyrir hvort lið fyrir sig og svo færum við okkur yfir í leikinn sjálfan.
Við skulum byrja á að fræða ykkur aðeins um Watford FC. Ekki fara langt því fjörið hefst hér eftir stuttar auglýsingar…
Velkomin aftur í „Spáum í spilin“, við hefjum þetta á smá yfirferð á Watford FC.
Watford FC
Watford eru á fínu róli, sitja í ellefta sæti með 16 stig aðeins einu stigi á eftir Liverpool liðunum tveim. Liðið hefur náð að dreifa úrslitunum nokkuð vel þessa fyrstu tólf leiki, fjórir sigrar, fjögur jafntefli og fjögur töp. Skemmtilegt líka að þeir dreifa þessu einnig jafnt á milli heima- og útileikja. Það má vel hrósa Quique Sánchez Flores og leikmönnum hans fyrir varnarvinnu liðsins þar sem einungis fjögur lið hafa fengið færri mörk á sig í deildinni. Það sem þeir glíma hinsvegar við er skortur á skoruðum mörkum (Hljómar kunnuglega?), ellefu mörk eftir tólf leiki og einungis þrjú lið (Villa, Stoke og WBA) með færri skoruð mörk.
Ef maður skoðar aðeins nánar deildarárangur Watford á þessu tímabili, tekur maður fljótt eftir að tapleikir liðsins komu allir gegn liðum í efri hluta deildarinnar (City, Palace, Arsenal og Leicester). Hinsvegar, ef við höldum áfram að bera þá saman við topp 8, þá náðu þeir sigri gegn West Ham og jafntefli gegn Southampton sem sitja í sjötta og sjöunda sæti deildarinnar. Þá eru aðeins eftir United og Tottenham. Ekki slæmt fyrir lið sem var bara að komast aftur inn í úrvalsdeildina á þessu tímabili.
Watford eru svo í feikigóðum málum hvað varðar leikmannameiðsli. Einungis tveir leikmenn skráðir þar, Jurado Marin og J Ekstrand og samkvæmt Physioroom gæti Marin spilað gegn United.
Manchester United
Flest vitum við stöðuna á United þessa dagana en það er ávallt gott að núllstilla sig reglulega og líta yfir árangur liðsins. Fjórðungur búinn af tímabilinu eða tólf leikir af þrjátíu og átta, liðið í fjórða sæti með 24 stig og aðeins tveimur stigum frá toppsætinu. Svo í þokkabót geta Van Gaal og leikmenn United montað sig af því að hafa besta varnarárangur deildarinnar. Vörnin er búin að vera það góð að liðið er að nálgast níu klukkustundir af spilatíma án þess að fá á sig mark. Getur maður ekki verið ágætlega sáttur við þennan árangur? Sérstaklega þegar maður hugsar til þess að það eru áberandi vandamál sem þarf að leysa. Merkilegast finnst mér að þessi árangur er að nást án þess að liðið hafi keypt miðvörð í sumar, eitthvað sem allir voru að öskra eftir. Miðað við frammistöðu Mike Smalling, þá má alveg nota klisjuna um að United hafi í raun fengið inn nýjan heimsklassa leikmann inn í liðið (Geri mér grein fyrir því að hann er búinn að spila vel síðan hann fékk rauða spjaldið gegn City, vildi bara nota klisjuna).
Þrátt fyrir frábæra varnarframmistöðu stöndum við fyrir að aðalmerki United, sóknarleikur, er orðið að stærsta vandamáli liðsins. Það gengur afskaplega illa að koma boltanum í netið hjá andstæðingum. Síðan að liðið tapaði skelfilega gegn Arsenal í byrjun október hefur liðið spilað sjö leiki í öllum keppnum og í þeim leikjum unnið þrjá (Everton, CSKA og WBA), gert fjögur jafntefli (CSKA, City, Middledborough og Palace) og tapað í vítaspyrnukeppni. Í þessum sjö leikjum náði United að skora sjö mörk. Hér er auðvitað helsta gagnrýnin sem stuðningsmenn hafa verið að koma með á Van Gaal, hans ofurtrú á að halda boltanum, halda aga og taka fáar áhættur sem veldur því að færri mörk eru skoruð.
Nú var enn einu landsleikjabreiki að ljúka og eins og við höfum svo oft þurft að venjast þá gekk það að sjálfsögðu ekki áfallalaust fyrir Manchester United. Michael Carrick, Mike Smalling og Anthony Martial meiddust allir með sínum landsliðum. Samkvæmt Physioroom gæti Smalling spilað gegn Watford, Carrick þarf líklega nokkrar vikur, Fellaini er að glíma við meiðsli og ekki er vitað hversu alvarleg meiðsli eru hjá Martial. Þar að auki er Rooney að glíma við veikindi og mun því ekki spila. Það munar nú um minna ef liðið getur ekki teflt sínum bestu
varnar- og sóknarmönnum gegn varnarsinnuðu Watford liði. Pollýannan vill samt nefna það að United státar af fínum árangri eftir þessi landsleikjafrí á þessu tímabili, fyrst kom 3-1 sigur á Liverpool á Old Trafford í september og svo 3-0 sigur á Everton í síðasta mánuði. Vonandi heldur sú sigurganga áfram og að markaskorunin verði á þessum nótum.
Svona lítur annars meiðslataflan út hjá United:
Við tökum núna örstutt auglýsingahlé. Ekki fara langt því næst förum við yfir leik morgundagsins.
Velkomin aftur í „Spáum í spilin“, nú munum við líta aðeins nánar á leik United gegn Watford sem spilaður verður á morgun.
Leikurinn
Það er nú orðið nokkuð langt síðan við höfum séð þessi tvö lið spila gegn hvort öðru. Nánar tiltekið, á laugardag verða það 8 ár, 7 mánuðir og 7 dagar þau síðast mættust. Þá spiluðu liðin á Old Trafford í undanúrslitum FA bikarsins og lauk þeim leik með 4:1 sigri United með mörkum frá Rooney(2), Christiano Ronaldo og Keiran Richardson. Þetta verður svo tuttugasti og fimmti hittingur liðanna, fyrsta viðureign var árið 1950, og má segja það að sagan sé með United í þessari rimmu: fimmtán sigrar, fimm jafntefli og fjögur töp eða 62,5% vinningshlutfall.
Leikurinn mun hefja þréttándu umferð úrvalsdeildarinnar og með sigri getur United náð toppsætinu í a.m.k. smástund þar sem liðin þrjú fyrir ofan United munu hefja sína leiki stuttu eftir að dómarinn flautar af leikinn á Vicarage Road. Miðað við tölfræði Watford þá getum við búist við enn einum leiknum þar sem United hangir mikið með boltann og reynir hægt og rólega að skora mark þar til allt fer í panic síðustu 10 mínútur leiksins og „Plan-Fellaini“ fer í gang með misgóðum árangri. Vonum að maður hafi rangt fyrir sér og að landsleikjabreiks-lukkudísirnar styðji okkur aftur á morgun.
Það er erfitt að spá fyrir um liðið sem Van Gaal mun stilla upp þannig að ég ætla einfaldlega að sýna ykkur liðið mitt sem ég myndi stilla upp á morgun:
Ég stórlega efast um að við fáum að sjá þetta lið á morgun en maður getur vonað. Martial skil ég útundan út af meiðslunum sem hann varð fyrir, annars færi hann upp á topp í stað Wilson. Ég er á þeirri skoðun að LVG ætti að rótera Mata og Rooney reglulega sem tíum á meðan liðið spilaði með alvöru kantmenn á köntunum. En veikindi Rooney koma í veg fyrir það í þessum leik.
Síðast en ekki síst þá er hér kvót frá Van Gaal af fréttamannafundinum sem haldinn var í morgun:
I think that everybody knows Michael Carrick and Anthony Martial are injured, but also injured is Fellaini. That’s a surprise because I thought he was recovered after the international break, but still he is injured. And that’s a big blow because Rooney is ill, so we have a big problem, I think.
It’s not so heavy as everybody has written in the media, but Martial cannot play against Watford, Maybe PSV for Martial but it’s not certain, and I think Rooney shall also play then because illness is not something of many days. And Valencia, of course, has been operated on before the international break already, then Shaw, so we have five injured players, and that’s a lot.”
Við ljúkum á þessum orðum og við sjáumst svo á morgun góðir hlustendur.
Þangað til, lifið heil og sæl. Skál!
Runólfur Trausti says
Manni rís nánast hold við tilhugsunina um jafn sókndjarft lið og þú stingur upp á þarna.
Ég persónulega myndi örugglega spila Blind frekar en Schneiderlin þar sem mig grunar að hann gæti ennþá verið (og skiljanlega) verið annars hugar eftir atburðina sem áttu sér stað fyrir viku.
Eina sem maður getur sett út á er það að byrja með Young, Memphis og Wilson leiðir af sér að það eru engin sóknar option á bekknum. Það ætti allavega að vera forvitnilegt að sjá leikmanna hóp liðsins en ungu strákarnir Tuanzebe og og Borthwick Jackson ættu að vera í hóp (Já ég þurfti að Googla nöfn þeirra beggja til að skrifa þau rétt).
Spái 0-1 sigri í jú, bragðdaufum leik, en gegn liði eins og Watford er lítið annað í stöðunni. Ef liðið byrjar eins og Elli spáir þá spái ég 1-3 sigri – í talsvert skemmtilegri leik.
Helgi P says
við erum eftir að fá það í bakkið hvað við erum með þunnan hóp en við eigum að klára þennan leik ég spái 0 – 2 fyrir okkar mönum
Halldór Marteinsson says
Mjög skemmtilegur pistill :)
Finnst spennandi að sjá hvernig Van Gaal tæklar sóknina miðað við meiðslin. Verður líka áhugavert að sjá hvaða ungu guttar fá sæti á bekknum og jafnvel einhverjar mínútur.
Mér finnst 4-1-4-1 pælingin mjög áhugaverð, væri gaman að sjá einhverja slíka útfærslu.
Ég myndi samt helst vilja sjá Blind inná vellinum. Hann kemur með þetta option sóknarlega að gefa fáránlega góðar NFL-leikstjórnenda sendingar aftarlega af vellinum. Slík ógn getur bæði búið til eitthvað beint og skapað ákveðið rými þegar vörn andstæðinganna þarf að fara að gera ráð fyrir þessu. Myndi þá helst skella Blind í miðvörðinn en þá gæti verið betra að hafa tvo djúpa miðjumenn frekar en einn…