Við höldum áfram að birta jóladagatalið hans Halldórs.
Harry Stafford og Major
Þann 3. desember ‘98 voru okkar menn mættir til Lundúna til að keppa við Arsenal. Ekki þó á Highbury heldur á Manor Ground og ekki gegn Arsenal FC heldur hét félagið þá Woolwich Arsenal. Því þarna er ekki átt við árið 1998 heldur árið 1898 og okkar menn hétu á þeim tíma Newton Heath.
En þetta var þó knattspyrnuleikur á laugardegi. Sumt breytist seint. Þetta var leikur í 2. deildinni þar sem Newton Heath var að spila á sínu 7. tímabili en Woolwich Arsenal að eiga sitt 5. tímabil. Jimmy Collinson skoraði mark fyrir Newton Heath í þessum leik. Collinson spilaði aðallega sem bakvörður á ferli sínum með Newton Heath en í þessum leik spilaði hann sem innherji hægra megin. En þetta eina mark sem hann skoraði dugði skammt því Woolwich Arsenal skoraði 5 mörk í leiknum. Merkilegt nokk var þetta 3. leikurinn í röð milli þessara liða sem endaði 5-1. Alltaf var það heimaliðið sem vann, Arsenal tvisvar og Newton Heath 1 sinni.
Fyrirliði The Heathens í þessum leik var Harry Stafford. Stafford hafði spilað fyrir Newton Heath frá árinu 1896, varð fyrirliði árið eftir og hélt þeirri stöðu út ferilinn með liðinu. Hann spilaði sem hægri bakvörður og hafði mjög mikla ástríðu fyrir klúbbnum.
Harry Stafford spilaði 200 leiki fyrir félagið. Það er 2 leikjum meira en Jonny Evans en 5 leikjum minna en Ji-Sung Park. Af þeim 890 leikmönnum sem hafa spilað fyrir United þá er Stafford í 93. sæti yfir leikjahæstu leikmennina. Þessir 200 leikir dreifðust yfir 8 tímabil, 17 þeirra komu í bikarnum og restin í deildinni. Ekki þó í efstu deild, Harry Stafford spilaði ekki einn leik í efstu deild fyrir klúbbinn. Þrátt fyrir það er hann einn af bestu fyrirliðum sem félagið hefur átt og einn mikilvægasti leikmaðurinn í sögu þess.
Stafford þótti mikill smekkmaður og var ávallt fínn í tauinu. Hann var til dæmis mjög hrifinn af hvítum höttum og litríkum vestum. Hann átti líka stóran St. Bernards hund sem hét Major. Major átti það til að fylgja húsbónda sínum á viðburði tengda Newton Heath. Það átti eftir að reynast mikið gæfuspor fyrir félagið.
Þennan desembermánuð árið 1898 spilaði Newton Heath 6 knattspyrnuleiki. 3 þeirra voru á útivelli og töpuðust allir en 3 þeirra voru á heimavelli og þá vann Newton Heath. Einn sigurleikjanna var 9-0 jólarúst á Darwen á aðfangadegi jóla. Markatalan í þessum 6 leikjum var 19-12 svo það er ljóst að skemmtanagildið hefur verið töluvert fyrir áhorfendur.
Úrslit þessa desembermánuðar lýsa ágætlega hvernig Newton Heath var á þessum árum. Afskaplega sveiflukenndur árangur, fóru til dæmis úr því að vinna 9-0 yfir í að tapa 0-4 og svo í að vinna 6-1, allt á einni viku. Gengið á heimavelli og útivelli var líka gjörólíkt, liðið fór í gegnum þetta tímabil og tapaði einungis 1 heimaleik (gegn New Brighton Tower en Newton Heath vann útileikinn) en á útivelli töpuðu þeir 9 af 17 leikjum. Newton Heath endaði tímabilið í 4. sæti, 9 stigum á eftir sigurvegurunum í 2. deild, Manchester City, en 3 stigum frá Glossop North End sem fór með City upp í efstu deild. Glossop er enn þann dag í dag minnsti bær á Englandi sem hefur átt knattspyrnulið í efstu deild. Núna búa þar um 33.000 manns en á þeim tíma voru íbúarnir rétt rúmlega 21.000. Þetta er eina skiptið sem Glossop North End hefur unnið sig upp í efstu deildina og liðið entist aðeins í eitt tímabil áður en það féll aftur niður í aðra deild.
Næstu tímabil á eftir voru hins vegar ekki góð fyrir Newton Heath. Árangurinn inni á vellinum var ekkert til að hrópa húrra fyrir og miðasalan leið fyrir það þegar sífellt færri lögðu leið sína á völlinn til að horfa á knattspyrnuleiki með liðinu. Tímabilið 1900-1901 endaði liðið í 10. sæti, eftir að hafa átt fleiri tapleiki en sigurleiki. Lífið í 2. deildinni fór ekki vel með klúbbinn og skuldirnar voru farnar að safnast upp í ansi vígalega tölu. Tímabilið 1901-02 fór ágætlega af stað en eftir því sem leið að áramótum varð staðan æ tvísýnni. Það fór að hafa áhrif á spilamennskuna. Liðið átti í vandræðum með að skora og tapaði sífellt fleiri leikjum. Desembermánuður 1901 hófst á leik við Preston North End þann 7. desember, sá leikur tapaðist 1-5. Alls spilaði félagið fjóra leiki í desember, tapaði 3 þeirra og vann einn, 1-0 sigur á Port Vale.
Þegar þarna var komið til sögu voru skuldir félagsins 2.670 pund. Upp úr áramótum fóru lánadrottnar félagsins að vera með múður og neituðu að sætta sig lengur við að eiga pening inni hjá Newton Heath. Einn þeirra var framkvæmdastjóri félagsins, William Healey. Fimmtudaginn 9. janúar 1902 fór hann fram á það við dómstóla að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta því hann sagði það skulda sér 242 sterlingspund, 17 skildinga og 10 pens. Greinilega klassagaur þar á ferð. Dómstólar lýstu félagið gjaldþrota og heimavellinum Bank Street var lokað. 11. janúar var laugardagur og þá átti Newton Heath að spila knattspyrnuleik en hann gat ekki farið fram vegna ástandsins. Framtíðarhorfur félagsins voru slæmar og í Manchester Guardian (sem heitir núna einfaldlega The Guardian) birtist frétt á mánudeginum þar sem blaðamaður sagðist hafa heyrt orðróm þess efnis að einhverjir aðstandendur Newton Heath hyggðust reyna að stofna nýtt félag úr rústum hins gamla.
Það voru ekki margir sem höfðu trú á að hægt væri að redda málunum á þeim stutta tíma sem var til stefnu. En Harry Stafford hafði sannarlega trú. Hann hélt áfram að blása samherjum sínum baráttuanda í brjóst líkt og hann hafði svo oft gert inni á vellinum, það kom ekki til greina að hann gæfist upp baráttulaust. Til þess þótti honum alltof vænt um þetta félag. Hann skipulagði fjögurra daga fjáröflunarbasar þar sem safna átti pening, vonandi nóg til að greiða niður skuldir félagsins svo það gæti haldið áfram rekstri og haldið áfram að spila knattspyrnu.
Við hlið Stafford í gegnum söfnunarátakið stóð hans tryggi hundur, Major. Major var mjög vinsæll á samkomum sem þessum og nýtti Stafford vinsældir Major með því að setja söfnunarbauk um háls hundsins. Major ráfaði svo um svæðið og fólk laumaði klinki í baukinn. Hann var vanur slíkum söfnunaraðferðum því hann var oftar en ekki látinn ganga um áhorfendastúkuna á leikdegi í sama tilgangi. En söfnunin gekk ekki nógu vel í þetta skiptið og það virtist ætla að verða vonlaust verk að safna nægum pening fyrir skuldunum. Þá blandaði Major sér í málið fyrir alvöru. Hvort hann hafi fundið á sér að félagið þyrfti á honum og kraftaverki að halda eða hvort honum hafi einfaldlega leiðst þessi samkoma svona mikið er erfitt að segja en það kemur út á eitt. Það sem gerðist var að Major ráfaði í burt og týndist. Harry var ekki skemmt, ekki nóg með að félagið hans væri korteri frá því að verða ekkert meira en neðanmálsgrein í enskri knattspyrnusögu heldur var flotti hundurinn hans nú týndur í þokkabót. Hann hóf að leita að honum. Sögum ber ekki alveg saman um það sem gerðist næst, skemmtilegasta útgáfan er þó að Harry hafi endað á bar og fundið hundinn þar inni. Hundurinn hafði þar vakið athygli manns sem hét John Henry Davis. Davis þessi var ekki af ríkum ættum en hafði unnið sig upp til vegs og virðingar og efnast vel í leiðinni. Hann átti meðal annars brugghúsið Manchester Brewery Company og var auk þess mikill fasteignamógúll. Hann varð þegar í stað mjög hrifinn af hundinum og hann nálgaðist Stafford með það í huga að kaupa hundinn handa dóttur sinni. Þeir fóru að spjalla og urðu strax góðir vinir sem endaði með því að Stafford sannfærði Davis um að fjárfesta í Newton Heath. Davis gerði gott betur en það, hann lagði sjálfur fram pening og fann þar að auki þrjá aðra auðkýfinga sem voru til í að fjármagna klúbbinn. Það varð úr að félaginu varð bjargað og það gat spilað sinn næsta leik laugardaginn 18. janúar.
Í kjölfarið tók Davis við sem forstjóri Newton Heath. Hann hóf að endurskipuleggja reksturinn og lagði fram frekari fjármuni í það sem þurfti að gera, svo sem leikmannamál og almennan rekstur. Tímabilið var erfitt en það kláraðist og Newton Heath endaði í 15. sæti af 18 félögum. En Davis lagði fleira til rekstursins í byrjun en peninginn og viðskiptavitið. Að hans frumkvæði skipti félagið um nafn um leið og tímabilinu lauk. Bæði hafði það ekki lengur beina tengingu við Newton Heath og svo var þetta líka prýðileg leið til að byrja upp á nýtt með stæl. Eftir að hafa íhugað nöfnin Manchester Celtic og Manchester Central ákváðu nýju eigendurnir að velja félaginu nafnið Manchester United Football Club. Í leiðinni voru gömlu aðallitirnir sem mynduðu búning Newton Heat, gulur og grænn, lagðir niður og í staðinn kom rauða treyjan og hvítu stuttbuxurnar sem við þekkjum í dag. Verandi smekkmaður mikill með tískuvit þá væri auðvelt að draga þá ályktun að Harry Stafford sjálfur hafi mögulega haft eitthvað með þessa snilldarlitasamsetningu að gera.
Um sumarið var fjárfest í nýjum leikmönnum og tónninn gefinn fyrir það sem koma skyldi hjá félaginu. Enda kom Manchester United af krafti inn í nýtt tímabil undir nýju nafni og í nýjum litum. Liðið fór úr 15. sætinu upp í það 5. Það jók stigafjöldann sinn um 10 stig milli tímabila (á þeim tíma voru 2 stig fyrir sigur), skoruðum mörkum fjölgaði um 15 mörk, mörk fengin á sig fækkaði um 19 og almennt var miklu meira partý í kringum félagið.
En Harry Stafford var kominn á endastöð á sínum leikmannaferli með Manchester United. Eftir 7 tímabil sem leikmaður Newton Heath náði hann einu tímabili með Manchester United. Hann spilaði 10 leiki í deildinni það tímabil og 2 bikarleiki. Síðasti sigurleikur hans með United var 2-1 heimasigur gegn Liverpool í bikarkeppninni þann 7. febrúar 1903.
Stuttu eftir að Stafford hengdi United treyjuna upp í síðasta skipti var nýr stjóri ráðinn til að stýra liðinu. Það má segja að þeir hafi mæst, Stafford og Ernest Mangnall. Annar á leiðinni út eftir frábært starf fyrir klúbbinn og hinn á leiðinni inn til að færa liðið upp í nýjar hæðir.
En Stafford var svosem ekki alfarinn frá United. Eftir að hann hætti sem leikmaður var hann áfram viðloðandi klúbbinn. Meðal þess sem hann sinnti fyrir félagið á næstu árum var að vera stjórnarmeðlimur, vallarstjóri og njósnari. Auk þess rak hann hótel fyrir góðvin sinn John Henry Davis og á seinni árum rak hann hótel meðal annars í Wales og Kanada auk þess að eyða drjúgum tíma í Ástralíu.
En hvað varð um hundinn Major? Sumir segja að í stað þess að selja Davis hundinn hafi Stafford einfaldlega gefið honum hundinn sem þakklætisvott fyrir það að Davis hafi fjárfest í félaginu.
Stuðningsmenn Manchester United allt til dagsins í dag (og um ókomna framtíð) standa einnig í þakkarskuld við Davis en engu minni þakkarskuld við þá félaga Harry Stafford og Major. Harry Stafford var kletturinn sem félagið þurfti á að halda á einhverjum erfiðustu tímum sem það hefur gengið í gegnum. Hann hafði líka hreinræktaða ástríðu fyrir félaginu. Eitt af því sem hann gerði til að létta undir með félaginu var að heimta að hann fengi stöðu áhugamanns hjá félaginu í stað þess að vera atvinnumaður. Hann var svo sannarlega ekki í þessu fyrir peninginn.
Aukaefni:
Elsta myndband sem til er af Manchester United. Það er frá 6. desember 1902. Þarna voru bara nokkrir mánuðir frá því félagið tók upp Manchester United nafnið. Í þessum leik mætti það Burnley á Turf Moor. Stafford spilaði ekki með United í leiknum en Ernest Mangnall stýrði Burnley í þessum leik. United er í dekkri treyjum og vann leikinn með 2 mörkum gegn 0:
Svona leit Manchesterborg út árið 1901:
London árið 1898:
Jólamynd dagsins:
St. Bernardshundur sem bjargar málunum? Þá liggur auðvitað beint við að velja jólamyndina Beethoven’s Christmas Adventure. Þetta er sjöunda kvikmyndin af átta í seríunni um gáskafulla hundinn Beethoven og skrautleg uppátæki hans. Þetta er líka fimmta myndin í seríunni í röð sem er gerð eingöngu fyrir DVD markað. Hún er hins vegar eina Beethoven myndin sem er hreinræktuð jólamynd. Hún kom út árið 2011.
Jólalag dagsins:
Jólalag dagsins er Christmas is going to the dogs með Eels. Það kom upphaflega út í kvikmyndinni Dr. Seuss’ How the Grinch Stole Christmas árið 2000:
Bjarni Ellertsson says
Morgunlestrinum lokið, frábær saga og ætti að vera mönnum( og konum) hvatning í hinu daglega amstri. Það sést best á myndbandinu af leiknum við Burnley að fótboltinn hefur ekkert breyst. Fagurlimaðir hlaupa menn inn á völlinn, hoppa og kætast, dekkning fyrir aftan leikmenn í innköstum og hornspyrnum, barátta um völd á miðjunni, kanthlaup meðfram hliðarlínunni sem teygir og togar vörnina í sundur og menn gera áhlaup á boltann í boxinu til þess að skora og gleðja hina fjölmörgu áhorfendur sem leggja leið sína á völlinn. Peningahliðin er svo allt önnur Ella.
Bíð spenntur eftir sögu morgundagsins og næstu daga. Nú eru jólin hvern dag.
GGMU
Atli Þór says
Þetta er frábært. Bíð spenntur eftir næstu pistlum :)