Jóladagatalið heldur áfram. Annars minnum við á upphitunina fyrir leik morgundagsins hér að neðan.
Johnny Carey
Föstudagurinn 4. desember 1936 lagðist misjafnlega vel í fólk. Íslensk dagblöð fóru mikinn í umfjöllun um bresku konungsfjölskylduna en þar var allt í upplausn vegna þess að konungur Bretlands, Játvarður VIII, hugðist kvænast tvífráskilinni, bandarískri konu af borgaraættum. Breska stjórnin var mjög andvíg þeim ráðahag og sögðu blöðin að jafnvel gæti farið svo að Játvarður þyrfti að leggja niður konungdóm. Þeir sem hafa séð kvikmyndina The King’s Speech vita hvernig sú saga endaði. Einnig voru í blöðunum fréttir af borgarastríðinu á Spáni þar sem Franco hershöfðingi stóð fyrir heilmiklum loftárásum á Madridarborg. En það voru ekki bara neikvæðar fréttir, búðir auglýstu nýjar sendingar af gómsætum og ferskum sítrónum. Fátt sem segir „fössari“ jafn vel og ilmandi fín sítróna.
Í Manchester var líklega mikið verið að ræða málefni konungsfjölskyldunnar. En á æfingasvæði Manchester United voru menn að hugsa um annað og einbeita sér að undirbúningi fyrir leik daginn eftir. Ekki veitti af þar sem tímabilið hafði ekki gengið vel hjá United fram að þessu. Þeir voru nýliðiar í efstu deild eftir að hafa unnið 2. deildina tímabilið á undan. En á þessum tímapunkti hafði United spilað 16 leiki á tímabilinu, unnið 3 þeirra, gert 4 jafntefli og tapað 9, markatalan í leikjunum 16 var 22-38. Liðið var í neðsta sæti deildarinnar með einungis 10 stig og nauðsynlegt að blása nýju lífi í leik liðsins ef ekki átti illa að fara. United hafði tapað síðustu 3 leikjum, gegn Grimsby Town, Liverpool og Leeds United, framundan var leikur gegn Birmingham á heimavelli.
Stjóri liðsins, Skotinn Scott Duncan, hefur væntanlega reynt að peppa upp strákana sína, keyrt á einhverjar góðar æfingar til að reyna að hressa liðið við og sett heilann í yfirdrif til að reyna að finna einhverja fótboltalega herkænsku til að sjá við leikmönnum Birmingham City.
En allt kom fyrir ekki. Leikurinn byrjaði og eftir korter var Birmingham búið að skora 2 mörk. Fréttamaður frá The Manchester Guardian skrifaði eftir leikinn að veðrið hefði verið grimmt og hræðilegt, það komu þrumur og eldingar, stormur, rigning, haglél og rétt um 2 mínútum eftir að leik lauk brast á þessi líka rosalegi snjóbylur. Framherjinn George Mutch náði að minnka muninn fyrir Manchester United en fleiri mörk voru ekki skoruð í leiknum og lokastaðan því 2-1 fyrir Birmingham og United áfram í neðsta sætinu.
United spilaði 6 knattspyrnuleiki í desember 1936. 3 þeirra töpuðust en United fékk nettan jólabónus með tveimur góðum sigrum á Bolton Wanderers, þann fyrri á jóladag. En það dugði skammt og tímabilið hélt áfram að vera dapurt. Að vísu náðu þeir að rífa sig úr botnsætinu en strönduðu fastir í næst neðsta sætinu og þar var liðið þegar tímabilinu lauk. Fall aftur í 2. deild staðreynd.
Þetta var ekki besti tíminn hjá United. Nokkru fyrr, á lokadegi tímabilsins 1933-34, hafði United rétt náð að bjarga sér frá falli í 3. deildina með sigri í lokaleik sínum þegar jafntefli eða tap hefði þýtt fall. Og núna entust þeir bara eitt tímabil í deild þeirra bestu. En það var þó eitthvað í loftinu.
Einn þeirra sem var mættur til United á þessum kalda degi í desember var ungur gutti sem þá var nýkominn til Englands frá sínu heimalandi, Írlandi. Alveg frá árinu 1892 hefur Manchester United (og Newton Heath) átt í góðu sambandi við Írland og írska leikmenn og þetta varð engin undantekning þar á. Þessi leikmaður var hinn 17 ára gamli John James „Johnny“ Carey. Hann kom til United í nóvember 1936 þegar félagið keypti hann á 250 pund frá St. James’s Gate í Dublin (sem heitir eftir St. James’s Gate brugghúsinu sem er heimavöllur þess frábæra drykks Guinness). Á þessum tíma var það metfé sem greitt hafði verið fyrir leikmann úr írsku deildinni.
Johnny Carey spilaði þó ekki leik á þessu tímabili en kom sterkur inn tímabilið á eftir. Hann spilaði sinn fyrsta leik fyrir United í september 1937 og varð strax áberandi í leik liðsins. Þetta tímabil var hann sóknarmaður, spilaði oftast sem innherji og hjálpaði liðinu að tryggja sér strax aftur sæti í efstu deild með því að enda í 2. sæti í 2. deild vorið 1938. Carey spilaði svo 32 leiki og skoraði 6 mörk tímabilið 1938-39 þegar United náði að halda sér í efstu deild. Carey og félagar ætluðu svo sannarlega að tryggja það að United færi hvergi og hætti þessum jójó-töktum á milli deilda.
En þá braust út stríð. Ekki bara eitthvað stríð heldur heil heimsstyrjöld. Þegar aðeins 3 leikir voru búnir af tímabilinu 1939-40 var enska deildin sett á pásu vegna stríðsins. United var á þeim tíma í 10. sæti deildarinnar eftir einn sigur, eitt jafntefli og eitt tap. Á meðan seinni heimsstyrjöldin var í gangi var ekki hefðbundin deildarkeppni í fótbolta á Englandi heldur sérstakar keppnir sem kallaðar voru Wartime League og Football League War Cup. Margir leikmenn þurftu að fara til að berjast í stríðinu en þeir sem eftir voru spiluðu flestir í þessum keppnum.
Johnny Carey spilaði mikið fyrir United á þessum tíma. Hann kom frá Írlandi, sem var hlutlaust í stríðinu, og hafði því engar sérstakar stríðsskyldur. En hann spilaði fyrir United auk þess að taka svokallaða gestaleiki með öðrum liðum, eins og algent var á þeim tíma. Meðal liða sem hann spilaði gestahlutverk hjá voru Cardiff City, Shamrock Rovers, Manchester City, Middlesbrough og Everton. Hann spilaði einnig með úrvalsliði írsku deildarinnar gegn úrvalsliði skosku deildarinnar.
En honum rann blóðið til skyldunnar og þrátt fyrir að vera frá þjóð sem var hlutlaus í stríðinu þá ákvað hann að hann þyrfti að leggja sitt af mörkum í stríðinu. Hann gekk í herinn og var sendur til Egyptalands og Ítalíu. Á meðan hann dvaldist á Ítalíu spilaði hann fótbolta þar með nokkrum ítölskum liðum og gekk þar undir viðurnefninu Cario.
Þegar stríðinu lauk var margt breytt í Englandi. Ótalmargir ungir menn höfðu týnt lífinu í þessum átökum og á mörgum stöðum í Bretlandi mátti sjá merki stríðsins á rústum sem einu sinni voru byggingar. Þeir sem sneru aftur til Manchester fundu þar Old Trafford sem ekki var hægt að spila á vegna sprengjuskemmda. Það var sorg í þjóðinni vegna allra lífanna sem höfðu tapast og fjölskyldna sem höfðu sundrast. En samt líka ákveðin von, stríðinu var jú lokið og vondi kallinn hafði verið sigraður.
Laugardagurinn 4. desember 1948. Margt hafði breyst á þeim 12 árum frá því þessi saga byrjaði. Strax og stríðinu lauk hafði United ráðið til sín nýjan stjóra, Skotann Alexander Matthew „Matt“ Busby, og eitt það fyrsta sem hann gerði þegar hann kom til United var að gera okkar mann, Johnny Carey, að fyrirliða liðsins. Hann tók líka þennan flinka leikmann, sem spilað hafði að mestu frammi, og gerði hann að varnarmanni. Það reyndist afskaplega góð ákvörðun. Tímabilið á undan hafði United unnið FA bikarinn í fyrsta skiptið í 39 ár með því að vinna Blackpool 4-2 í úrslitum. Carey var fyrirliði í þeim leik og fyrsti írski leikmaðurinn til að vinna titil með United. Á þessum laugardegi, 4. desember 1948, var United í fjórða sæti deildarinnar þegar þeir fengu Newcastle United (3. sæti) í heimsókn. Að sjálfsögðu var Carey fyrirliði í leiknum. Enn var Old Trafford ekki tilbúinn eftir stríðsskemmdirnar svo United lék sína heimaleiki á þessum tíma á Maine Road. Leikurinn var lengi vel í járnum og hart barist. George Stobbart virtist hafa tryggt Newcastle bæði stigin með marki á 81. mínútu en Charlie Mitten, sem hafði einnig komið til United 1936 og spilaði í unglingaliðinu með Carey, jafnaði leikinn undir lokin.
Manchester United seig hægt upp töfluna á tímabilinu og endaði að lokum í 2. sæti, 5 stigum á eftir Portsmouth. Eftir þetta tímabil var Johnny Carey útnefndur besti leikmaður tímabilsins (FWA Footballer of the Year). Þetta var í annað skipti sem þau verðlaun voru veitt, árið áður hafði goðsögnin Stanley Matthews hlotið þau. Leikmaður Manchester United vann ekki þessi verðlaun aftur fyrr en Bobby Charlton fékk þau 17 árum seinna.
Manchester United í 2. sæti var ekki óalgeng sjón á þessum tíma. Alls gerðist það 4 sinnum á 5 ára tímabili frá 1947-51. En tímabilið 1951-52 gekk þetta svo loksins upp hjá Manchester United. Liðið vann 23 leiki, gerði 11 jafntefli og tapaði 8 leikjum, skoraði 95 mörk (Carey með 3 mörk í 38 leikjum) og endaði með 57 stig sem tryggði þeim efsta sætið og Englandsmeistaratitilinn í fyrsta skipti í 41 ár. Carey lyfti dollunni og varð þar með orðinn fyrsti leikmaður utan Bretlands til að leiða lið til sigurs í ensku deildinni og í enska bikarnum.
Tímabilið 1952-53 var svo hans síðasta tímabil sem leikmaður Manchester United. Hann hóf það tímabil á því að leiða United til sigurs í samfélagsskildinum þar sem liðið vann Newcastle 4-2. Hann spilaði 32 leiki í deildinni þetta tímabil og skoraði 1 mark. United endaði tímabilið í 8. sætinu og komst í 5. umferð enska bikarsins. Að loknu tímabili lagði Carey skóna á hilluna. Alls spilaði hann 344 leiki fyrir United á þeim 16 árum sem hann var hjá félaginu. Þá er bara talað um opinbera leiki, hann spilaði einnig vel yfir 100 leiki á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar fyrir United.
Johnny Carey var sérstakur leikmaður. Ekki bara leiðtogi innan vallar sem utan (Matt Busby leit á hann sem fulltrúa sinn inná vellinum, ekki ósvipað því sem Fergie sagði seinna um annan írskan fyrirliða), hann var líka framúrskarandi hæfileikaríkur leikmaður. Flinkur með boltann, með frábæran leikskilning og góða tækni sem hentaði vel fyrir sóknarþenkjandi leikmann. Sú staðreynd að Matt Busby ákvað að skella honum í vörnina var langt á undan sínum tíma. En allir hæfileikar Carey nýttust mjög vel í vörninni. Leikskilningur hans og útsjónarsemi þýddi að hann þurfti nánast aldrei að stóla á krafta eða ruddalegar tæklingar, hans tæklingar voru hreinar og tærar sem nýfallinn morgunsnjór. Sendingargeta hans og yfirsýn þýddi líka að hann gat hafið margar álitlegar sóknir úr öftustu línu, eitthvað sem var nánast óþekkt á þessum tíma.
Hann var mjög fjölhæfur leikmaður. Hugsið ykkur John O’Shea ef hann væri nógu góður til að vera fyrirliði United og nógu hæfileikaríkur til að vera byrjunarliðsmaður í flestum stöðum. Carey spilaði líka í 10 mismunandi stöðum fyrir United á sínum ferli. Eina staðan sem vantaði upp á var kanturinn (hægra eða vinstra megin, eftir því hvaða heimildir eru lesnar). Hann tók m.a.s. heilan leik í marki eitt skipti þegar markvörður liðsins varð veikur í rútunni á leið á völlinn. Sonur Carey rifjaði þessa sögu upp og skv. honum var þetta leikur gegn Arsenal sem endaði 1-1.
Carey var líka heiðursmaður bæði innan vallar sem utan. Hann fékk viðurnefnið Gentleman John sem segir ýmislegt. Hann spilaði landsleiki fyrir bæði Írland og Norður-Írland og náði á erfiðum tímum í írskri pólitík oft að verða diplómatískur milliliður. Hann gat líka verið sannur leiðtogi þegar á þurfti að halda. Í hálfleik úrslitaleiks enska bikarsins 1948 var Blackpool 2-1 yfir. Á þeim tíma fór Stanley Matthews fyrir sterku Blackpool liði. En þá steig Carey fram og hélt einhverja rosalegustu hálfleiksræðu sem heyrst hefur, fyllti lið sitt af innblæstri og sjálfstrú, við erum að tala um einhverja Al Pacino snilld. Það virkaði, United liðið hljóp hungrað inn á völlinn og tók seinni hálfleikinn 3-0 og vann bikarinn.
Eftir að knattspyrnuferlinum lauk var honum þakkað sérstaklega fyrir sitt framlag af stjórn United og boðin þjálfarastaða hjá félaginu. Hann ákvað að skella sér frekar út í að stýra félagi og næstu árin á eftir stýrði hann Blackburn Rovers, Everton, Leyton Orient og Nottingham Forest auk þess að stýra írska landsliðinu um 12 ára skeið meðfram öðrum störfum. Sem þjálfari var hann hæglátur og rólegur, átti það til að vera mikill vinur leikmanna sinna og ekki alltaf eins harður og hann hefði þurft að vera. Yfir leikjum mátti sjá hann þungt hugsi á varamannabekk liðsins reykjandi pípu. Það eina sem mátti sjá á honum var að ef illa gekk þá reykti hann pípuna örar og oftar en þegar vel gekk þá reykti hann hægt og rólega.
Bestum árangri sem stjóri náði hann með Nottingham Forest. Þeim kom hann í undanúrslit enska bikarsins árið 1967 og sama ár enduðu þeir í 2. sæti deildarinnar á eftir Manchester United. Frægasta sagan af stjóraferli hans er þó líklega þegar hann var rekinn frá Everton árið 1961. Það gerðist í aftursæti leigubíls og er ástæðan fyrir því að enn í dag er upphrópunin „Taxi for [nafn stjóra]“ notuð í bresku pressunni þegar stjóri missir starfið sitt.
Á áttunda áratugnum endurnýjaði Carey tengsl sín við Manchester United þegar hann hóf að vinna sem njósnari fyrir klúbbinn. Hann lést árið 1995 og í útför hans mættu Alex Ferguson og nokkrir leikmanna liðsins. Ösku hans var síðan dreift í markið hjá Stretford End stúkunni á Old Trafford.
Aukaefni:
Heimsókn á æfingu til Manchester United árið 1936:
Úrslitaleikur FA Cup 1948:
Manchester United spilar vináttuleik við Tottenham á Yankee Stadium í New York árið 1952:
Manchester United mætir Yeovil í bikarnum 1949:
Jólamynd dagsins:
Jólamynd dagsins er Love Actually. Virkilega góð feel-good jólamynd. Þarna eru á ferðinni stjörnuleikarar í öllum hlutverkum en fyrirliðinn er írski snillingurinn Liam Neeson. Liam Neeson er fjölhæfur leikari sem getur brugðið sér í ýmis hlutverk, hann keyrir þarna söguna áfram úr vörninni, ekki ósvipað því sem Gentleman Johnny Carey gerði á fótboltavellinum á sínum tíma.
Jólalag dagsins:
I Saw Mommy Kissing Santa Claus kom út árið 1952 í útgáfu Spike Jones and his City Slickers. Skemmtileg, gömul útgáfa frá árinu sem Carey varð Englandsmeistari með Manchester United.
Skildu eftir svar