Þó það sé mikilvægur leikur í Meistaradeildinni í kvöld þá heldur Jóladagatalið áfram.
Brian McClair
Sunnudaginn 8. desember 1963 var lagið I Want to Hold Your Hand með Bítlunum í toppsæti vinsældarlistans í Bretlandi. Lagið hafði komið út í lok nóvember og náði svo toppsætinu af öðru Bítlalagi, She Loves You, en það var söluhæsta smáskífa ársins og fyrsta smáskífa Bítlana til að seljast í yfir milljón eintökum. Tveimur dögum fyrr, föstudaginn 6. desember, höfðu Bítlarnir gefið út sína fyrstu jólasmáskífu. Þessar jólasmáskífur voru ekki opinberar útgáfur heldur voru þetta plötur sem meðlimir Bítlana tóku upp sérstaklega til að senda meðlimum í aðdáendaklúbbi sínum. Á þessum plötum tóku þeir upp einföld skilaboð til aðdáenda, grínuðust og sprelluðu ásamt því að taka hráar útgáfur af jólalögum, oft í miklu gríni, misvel gert og með afbakaða texta. Á þessari plötu var til dæmis lagið Rudolph the Red-Nosed Ringo. Þeir félagar gerðu alls sjö svona jólasmáskífur.
Þessi dagur var því góður dagur fyrir Bítlana en hann var ekki eins góður fyrir Frank Sinatra og fjölskyldu. Að vísu hafði Frank Sinatra gefið út plötuna The Concert Sinatra það ár, ansi magnaða plötu þar sem hann var með 73 manna hljómsveit með sér. En þennan dag var syni Frank Sinatra, Frank Sinatra Jr., rænt af mannræningjum af hótelherbergi sínu á Harrah’s Lake Tahoe hótelinu í Stateline, Nevada. Sinatra Jr. var 19 ára gamall á þeim tíma og var í haldi mannræningjanna í 2 daga. Faðir hans var á þeim tíma að taka upp kvikmyndina Robin and the 7 Hoods ásamt vini sínum úr The Rat Pack. Samskiptin við mannræningjana gengu svona upp og ofan. Ræningjarnir heimtuðu að öll samskipti færu í gegnum almenningssíma og það olli Frank miklum kvíða um að hann hefði ekki næga smámynt á sér. Eftir að Frank eldri greiddi lausnargjald upp á 240.000 dollara var syninum sleppt úr haldi. Sinatra gekk upp frá því alltaf með rúllu af 10 centa peningum á sér til að vera við öllu búinn.
Í Manchester var hresst yfir United stuðningsmönnum. Daginn áður hafði liðið spilað deildarleik á Old Trafford gegn Stoke City. Sá leikur gekk vægast sagt vel og United vann þann leik 5-2 þar sem Denis Law, þarna á sínu 2. tímabili með United, skoraði 4 mörk. David Herd hafði skoraði fyrsta mark United en þeir John Ritchie og Peter Dobing klóruðu í bakkann fyrir Stoke. Eftir leikinn var United á ágætis róli í 5. sæti. Framundan var næsti leikur, þriðjudagsleikur í Evrópukeppni. Það var seinni leikurinn í 2. umferð Evrópukeppni bikarhafa. Sá leikur fór fram á heimavelli og var gegn Tottenham Hotspur, sem þá voru í efsta sæti deildarinnar. Fyrri leikinn hafði Tottenham unnið 2-0 svo það hallaði á United. En United átti eftir að vinna þann leik 4-0 með 2 mörkum frá Bobby Charlton og 2 frá Herd. Annað sem var merkilegt við þetta tímabil var að þetta var tímabilið þar sem ungur Norður-Íri steig sín fyrstu skref með Manchester United. Þar var á ferðinni George Best.
Þessi dagur var líka merkilegur fyrir Manchester United á annan hátt. Bellshill í North Lanarkshire tilheyrir núna stór Glasgow svæðinu en fyrir 1996 var það sérstakur smábær útaf fyrir sig. Frá þessum bæ hafa nokkur þekkt nöfn innan knattspyrnunnar komið, þetta var til dæmis fæðingarbær Sir Matt Busby. Og 8. desember 1963 bættist í þann hóp þegar Brian John McClair fæddist þar.
Á 17 ára afmælisdag Brian McClair var John Lennon myrtur í New York. Þá var McClair hjá Aston Villa eftir að hafa hætt í skóla og samið við félagið. En það gekk ekki vel að komast í liðið. Þetta tímabil, 1980-81, spilaði Villa á einungis 14 leikmönnum. 7 leikmenn liðsins spiluðu hverja einustu mínútu mótsins. Af þessum 14 voru 2 í nokkuð litlu hlutverki, spiluðu 9 leiki hvor (af 42), annars var þetta allt á herðum 12 leikmanna. Og það gekk vel hjá þeim, Villa endaði tímabilið sem deildarmeistari, 4 stigum á undan Ipswich Town. Manchester United endaði í 8. sæti það tímabil og stjórinn Dave Sexton var rekinn í kjölfarið. McClair leiddist hins vegar þófið hjá Villa og ákvað að halda aftur heim til Skotlands. Þar spilaði hann með Motherwell frá 1981-83 og Glasgow Celtic frá 1983-87.
Í Skotlandi vann McClair bæði deild og bikar með Celtic auk þess að vera tvisvar markahæsti leikmaður deildarinnar, vera valinn besti leikmaður tímabilsins af leikmönnum og vera tilnefndur besti leikmaður ársins af íþróttablaðamönnum. Hann var því, eðlilega, eftirsóttur af stærri félögum. Í júlí 1987 samdi hann svo við Manchester United. Það var reyndar smá vesen í kringum þau kaup. Celtic vildi fá 2 milljón punda fyrir hann, sem hefði gert hann að dýrasta leikmanni allra tíma innan Bretlands. Manchester United vildi hins vegar einungis borga 400.000 pund fyrir hann. Að lokum fór málið fyrir félagsskiptadómsstóla sem úrskurðuðu að verðið skyldi vera 850.000 pund. Miðað við það sem koma skyldi þá fékk Manchester United þar ansi góðan díl.
McClair spilaði sinn fyrsta leik fyrir United 15. ágúst 1987 í 2-2 jafntefli gegn Southampton. Norman Whiteside skoraði bæði mörk United en Danny Wallace, sem seinna átti eftir að spila með United, skoraði bæði mörk Southampton. Líkt og Eric Cantona gerði 5 árum síðar þá skoraði Brian McClair í sínum þriðja leik fyrir félagið, í 2-0 sigurleik gegn Watford. Og alveg eins og Cantona þá skoraði hann einnig í næstu 2 leikjum á eftir. Hann hélt áfram að skora og skora þetta fyrsta tímabil sitt, hann endaði sem markahæsti leikmaður United og skoraði 24 mörk. Það var 2 mörkum minna en John Aldridge sem var markakóngur deildarinnar. United endaði tímabilið í 2. sætinu, 9 stigum frá toppnum. Brian McClair varð þarna fyrsti leikmaður United í 20 ár til að skora yfir 20 mörk á sama tímabilinu. Það hafði ekki gerst síðan tímabilið 1967-68 þegar George Best skoraði 28 mörk í deildinni og 32 mörk í öllum keppnum.
Þetta fyrsta tímabil hans mætti United Arsenal í 5. umferð FA bikarsins. McClair brenndi af vítaspyrnu og Arsenal vann leikinn. Nigel Winterburn hæddist að vítaklúðrinu sem var ekki vinsælt hjá Brian McClair eða öðrum United mönnum. 3 tímabilum síðar, í október 1990, var United ríkjandi bikarmeistari og tók þá á móti Arsenal í heimsókn í deildinni. Arsenal komst yfir í leiknum og almennt reyndi mikið á þolrif United manna, eins og Arsenal átti það til að gera allan þann áratug. Ekkert gekk að jafna leikinn og pirringur United manna jókst eftir því sem leið á leikinn. Þegar Nigel Winterburn fór svo í glórulausa tæklingu var Brian nóg boðið og gaf liggjandi Winterburn eins og 1-2 fastar ristarspyrnur. Það fór ekki vel í Arsenalmennina og í kjölfarið upphófust ryskingar sem 21 leikmaður á vellinum tók þátt í (bara David Seaman hélt sig til hlés). Dómarinn var ekkert að stressa sig alltof mikið á þessu, smellti bara 1 gulu korti á hvort lið og lét leikinn halda áfram. En eftir leikinn var 1 stig dregið af United og 2 af Arsenal. Sú refsing kom þó ekki í veg fyrir að Arsenal ynni deildina þá um vorið. Sama ár var fyrri leikurinn sem McClair spilaði á afmælisdaginn sinn fyrir Manchester United. Sá leikur var í deildinni gegn Leeds United. Neil Webb kom United yfir á 49. mínútu en Mel Sterland jafnaði 5 mínútum síðar og þar við sat. Afmælisbarnið McClair spilaði allan leikinn. Um vorið varð United svo Evrópumeistari bikarhafa.
Sá sigur þýddi að United spilaði við Red Star Belgrade í evrópska ofurbikarnum. Þar skoraði Brian McClair sigurmarkið. Þegar United spilaði úrslitaleik við Nottingham Forest um deildarbikarinn vorið 1992 skoraði McClair aftur sigurmarkið. Þegar Cantona kom til United seinna það ár breyttist hlutverk McClair og hann færðist aftar á völlinn, á miðjuna. Þar spilaði hann samt lykilhlutverk út tímabilið þegar United vann deildina. Um sumarið kom síðan Roy Keane til liðsins og þá var Brian McClair ekki lengur aðalmaðurinn en þó mikilvægur squadplayer.
Mörkunum fækkaði þegar hlutverk hans varð annað en hann hélt þó áfram að spila töluvert. Hann spilaði til dæmis 38 leiki tímabilið 1993-94 þegar United vann deild og bikar, 53 leiki tímabilið á eftir þegar Cantona fékk langa bannið sitt, 23 leiki tímabilið 1995-96 þegar United vann aftur deild og bikar og 27 leiki ‘96-’97 þegar United vann deildina.
Á því tímabili kom seinni leikurinn sem McClair spilaði á afmælisdaginn sinn. 8. desember 1996 spilaði Manchester United á Boleyn Ground gegn West Ham í deildinni. Ole Gunnar Solskjaer hafði komið til United þá um sumarið og hann kom United yfir í leiknum. Þegar korter var eftir skoraði David Beckham annað mark United og allt virtist stefna í góða afmælisgjöf fyrir Chocco (sem er rímslangurgælunafn fyrir Brian McClair, nafnið hans rímar við chocolate eclair). En Florin Raducioiu minnkaði muninn fyrir West Ham áður en Julian Dicks jafnaði metin úr vítaspyrnu. Annar jafnteflisleikurinn á afmælisdegi McClair staðreynd. McClair fékk þó síðbúna afmælisgjöf frá United eftir að leikmannaferlinum lauk. Árið 1999 vann United Valencia á þessum degi í meistaradeildinni 3-0. Þá hefur liðið unnið síðustu 3 leiki sem hafa verið spilaðir á þessum degi. Árið 2007 kom Derby County í heimsókn í deildarleik. United vann þann leik 4-1 með 2 mörkum frá Carlos Tevez auk marka frá Ryan Giggs og Cristiano Ronaldo. 2009 vann liðið Wolfsburg í Þýskalandi með þrennu frá Michael Owen. 2014 heimsótti United Southampton og vann 2-1 sigur með mörkum frá Robin Van Persie. Með þeim sigri komst United í 3. sætið en þá hafði United ekki verið hærra á töflunni síðan Ferguson hætti.
Tímabilið 1997-98 var síðasta tímabil McClair hjá United. Hann spilaði 20 leiki á því tímabili þar sem United endaði í 2. sæti deildarinnar. Síðasti leikur hans fyrir United var gegn Leeds United í deildinni 4. maí 1998. Þá kom hann inn á sem varamaður fyrir Teddy Sheringham á 60. mínútu. United vann leikinn 3-0. Ryan Giggs, Denis Irwin (víti) og David Beckham skoruðu mörk United í leiknum. Vorið áður, 15. apríl 1997, hafði McClair fengið heiðursleik á Old Trafford þar sem United spilaði gegn hans gamla félagi Glasgow Celtic. 44.000 áhorfendur mættu á þann leik, þar af um 10.000 Celtic aðdáendur. Sumarið 1998 fékk hann frjálsa sölu frá United og fór til Motherwell þar sem hann spilaði í hálft ár áður en hann lagði skóna á hilluna.
Brian McClair spilaði hjá United í 11 tímabil. Hann spilaði 471 leik fyrir liðið, 1 leik meira en George Best. Hann er í 13. sæti yfir leikjahæstu leikmenn Manchester United frá upphafi. Í þessum leikjum skoraði hann 127 mörk, hann er í 15. sæti yfir markahæstu leikmenn félagsins.
En hann skoraði ekki bara mörk, hann gat líka verið ansi lunkinn í því að leggja upp mörk. Næst síðasta tímabilið hans með United voru skoruð tvö mörk sem eru meðal eftirminnilegustu marka í sögu United og ensku úrvalsdeildarinnar. Fyrra markið kom 17. ágúst 1996, í fyrstu umferð deildarinnar, gegn Wimbledon. Brian McClair átti þá stoðsendingu á David Beckham þegar hann skoraði rétt fyrir aftan miðju. Alveg sæmilegasta bomba frá Becks en hann hefði lítið gert ef hann hefði ekki fengið þessa frábæru stoðsendingu frá Choccy.
Seinna markið kom í desember sama ár. Verandi ævinlega mikið jólabarn ákvað McClair að henda í eitthvað sérstakt til að halda upp á desember. 21. desember var liðið að spila við Sunderland. Solskjaer hafði komið United yfir á 35. mínútu og Eric Cantona bætt við öðru marki úr víti á 43. mínútu. McClair var þá á bekknum og fannst þetta rétta mómentið fyrir eitthvað sérsta, einhverja galdra. Þótt það sé alveg óstaðfest af nokkrum heimildum þá þykist ég viss um að kallinn hafi aðeins mútað Fergie á bekknum, laumað að honum tyggjópakka eða einhverju, því í hálfleik var Pallister kippt útaf fyrir McClair. Sú skipting svínvirkaði því fljótlega í seinni hálfleik bætti Solskjaer við öðru marki. Þetta var veisla. Nicky litli Butt skoraði svo fjórða markið þegar um klukkutími var búinn af leiknum. Enn beið McClair eftir rétta mómentinu. Þegar 10 mínútur voru eftir af leiknum sá McClair hvar Cantona vann boltann af Sunderland og geystist af stað í átt að marki Sunderland. „Nú er lag!“ hugsaði McClair með sér og kom sér í rétta stöðu fyrir framan vítateiginn. Cantona dansaði framhjá leikmönnum Sunderland og sá McClair. „Oui oui oui, oh là là!“ hugsaði Cantona þegar hann sá hvað McClair ætlaði sér. Hann gaf beint á Skotann en passaði sig á að halda hlaupinu áfram. McClair hikaði hvergi en sendi þessa líka stórkostlega frábæru sendingu aftur á Cantona. Cantona, innblásinn af snilldinni sem hann varð rétt í þessu vitni að, tók þessa sendingu, þessa gjöf, þennan jólapakka frá Choccy, og vippaði boltanum snyrtilega yfir aðvífandi markvörð Sunderland, í stöngina og inn í markið. Þegar í stað tók hann eitt sitt þekktasta fagn, þar sem hann sneri sér hægt í hring með kassann þaninn og horfði á konungsdæmi sitt. Eftir á hefur hann sennilega þakkað McClair fyrir þetta og eignað honum alfarið þetta mark. Mjög líklega (eða kannski ekki alveg).
Aukaefni:
Brian McClair 1987-88:
McClair og félagar láta Arsenal aðeins finna fyrir því 1990:
McClair með stoðsendingu á Beckham:
McClair með stoðsendingu á Cantona:
Brian McClair tribute:
Jólamynd dagsins:
Árið 1996 komu ekki bara tvær af bestu stoðsendingum allra tíma í knattspyrnusögunni, þá kom líka út jólamyndin Jingle All the Way með Arnold Schwarzenegger. Hún er jólamynd dagsins.
Jólalag dagsins
Árið 1963, sama ár og Brian McClair fæddist, kom út einhver rosalegasta jólaplata sem gerð hefur verið. Þar var á ferðinni jólaplatan A Christmas Gift for You from Philles Records. Maðurinn á bak við plötuna var Phil Spector sem þarna var búinn að henda nokkrum jólaslögurum í gegnum sína sérstöku Wall of Sound meðferð. Auk þess var á plötunni nýtt lag eftir Ellie Greenwich, Jeff Barry og Phil Spector. Það var lagið Christmas (Baby Please Come Home), þetta lag er jólalag dagsins. Njótið vel.
Skildu eftir svar