Minnum á upphitunina fyrir leik morgundagsins hér að neðan, og svo að sjálfsögðu á leikinn á morgun. Annars heldur jóladagatalið áfram að rúlla.
The Outcasts FC
Fram til þessa hef ég í þessu jóladagatali einbeitt mér að því að finna tengingar við hvern dag fyrir sig. Sumar nokkuð hreinar og beinar, líkt og afmælisdagar, dagar sem leikmaður skrifaði undir samning eða spilaði fyrsta leik. Aðrar voru töluvert langsóttari, t.d. leikir sem viðkomandi spilaði fyrir félagið sem hann lék með á undan United og fleira. En það var vissulega alltaf hugmyndin að hafa tengingarnar langsóttar og það hefur verið ansi skemmtilegt verkefni að púsla þessu svona saman. En hér eftir verður aðeins öðruvísi snið á þessu dagatali. Eins og alþjóð veit byrja íslensku jólasveinarnir senn að koma til byggða, sá fyrsti mætir á svæðið næstu nótt og svo koma þeir einn af öðrum næstu þrettán daga. Síðustu 13 gluggarnir á jóladagatalinu verða helgaðir þeim. Tengingarnar á hverjum degi verða ekki við viðkomandi dagsetningu heldur við þann jólasvein sem var að koma til byggða. Samt verða tengingarnar áfram langsóttar, jafnvel út í hött. Líklega mun ég setja inn einhverjar tengingar við desember og jólin. Mögulega set ég jafnvel inn tengingu við dagsetninguna en það verður þá að öllum líkindum tilviljun.
Það er ekki úr vegi að hita upp fyrir komu jólasveinana með því að tala um The Outcasts FC. Langflestir stuðningsmenn Manchester United ættu að þekkja sögu félagsins nægilega vel til að vita að þegar það var stofnað þá var það ekki undir nafninu Manchester United Football Club heldur Newton Heath LYR Football Club. Það var vegna þess að félagið var stofnað innan deildar hjá Lancashire and Yorkshire Railway lestarfyrirtækinu, þessi deild var staðsett í Newton Heath sem er úthverfi Manchester borgar. Árið 1902 var tengingin við félagið og hverfið orðin lítil og þegar liðið skipti um eigendur ákvað það líka að skipta um nafn og einkennisliti. Í stað hins gula og græna Newton Heath varð til hið rauðklædda Manchester United lið sem við þekkjum enn í dag.
En það vita kannski færri að liðið á eitt nafn til viðbótar sem það gekk undir, þótt vissulega hafi það verið í skamman tíma. Það er The Outcasts FC.
Fram til ársins 1901 gátu knattspyrnufélög ráðið sinni launastefnu algjörlega sjálf. Þau höfðu frjálsræði til að greiða þau laun sem þeim fannst við hæfi til leikmanna sinna. Þannig hafði það verið frá árinu 1885 þegar knattspyrnusambandið á Englandi leyfði fyrst atvinnumennsku í fótbolta. Fram að því hafði fótboltinn opinberlega verið áhugamennska en þó voru félög strax þá byrjuð að greiða bestu leikmönnunum til að lokka þá til sín.
Árið 1901 voru sett lög í enskri deildarkeppni um launaþak á leikmenn félaga. Til að byrja með máttu leikmenn fá 4 pund á viku í það mesta. Það takmarkaði mjög tækifæri leikmanna til að lifa á knattspyrnunni og oft þurftu leikmenn að vinna í öðrum störfum meðfram knattspyrnuferlinum.
Í kjölfarið fóru leikmenn að viðra þá hugmynd að mynda með sér stéttarfélag leikmanna, félag sem myndi beita sér fyrir réttindum leikmanna. Áður hafði verið reynt að stofna slíkt félag, árið 1898 höfðu leikmenn stofnað AFU, Association Footballers Union. En hvori enska deildarkeppnin né enska knattspyrnusambandið viðurkenndi félagið. Það liðaðist í sundur fljótlega vegna dræmrar þátttöku leikmanna.
Í desember (hey, tenging!) árið 1907 var haldinn stofnfundur fyrir Associaton of Football Players’ and Trainers’ Union, sem oftast var einfaldlega stytt í The Players’ Union. Stofnfundurinn var haldinn á Imperial hótelinu í Manchester og forsvarsmenn fundarins og félagsins voru tveir leikmenn Manchester United, annars vegar Billy Meredith og hins vegar fyrirliðinn Charlie Roberts. Þeir höfðu báðir verið virkir meðlimir í AFU áður og þótti mikilvægt að hafa svona vettvang til mótvægis við knattspyrnusambandið og félögin. Til að byrja með viðurkenndi enska knattspyrnusambandið The Players’ Union.
Næstu tímabil voru góð fyrir Manchester United. Liðið varð enskur deildarmeistari árið 1908, í fyrsta skipti, og tímabilið 1908-09 vann það enska bikarinn í fyrsta sinn. Félagið stimplaði sig inn sem eitt af stærri félögum á Englandi og leikmenn þess voru vel þekktir.
Á fyrsta ársfundi leikmannafélagsins var samþykkt af félagsmönnum að félagið lýsti því yfir að markmið þess væru að berjast fyrir afnámi launaþaksins, fyrir réttindum leikmanna að flytjast milli félaga og að leikmenn ættu að fá hluta af kaupverði sínu. Það ætti einnig að vera réttur hvers leikmanns að koma að eigin félagsskiptum í stað þess að félögin gætu einfaldlega samið hvert við annað án aðkomu leikmannsins.
Þetta fór ekki vel í enska knattspyrnusambandið. Það vildi halda öllum völdum fyrir sig og ekki þurfa að púkka eitthvað upp á hvað leikmennirnir vildu. Vorið 1909 dró knattspyrnusambandið til baka viðurkenningu sína á félaginu og krafðist þess að leikmenn ensku deildarinnar segðu sig úr félaginu. Það setti þrýsting á félög að setja það beinlínis í samninga leikmanna að þeir mættu ekki vera hluti af leikmannafélaginu. Af hræðslu við að styggja yfirvaldið, við að fá ekki lengur launin sem þeir þó fengu, samþykktu flestir leikmenn þessar kröfur. En ekki leikmenn Manchester United, þeir stóðu harðir á sínu og neituðu bæði að segja sig úr félaginu og að skrifa undir samning sem bannaði þeim það. Knattspyrnusambandið brást við því með því að setja allt liðið í leikbann um óákveðinn tíma. Liðið frétti af því á sama tíma og aðrir, með því að lesa það í blöðunum. Þegar leikmennirnir mættu á Bank Street, þáverandi heimavöll félagsins, var knattspyrnusambandið búið að láta loka staðnum. Þeir gátu ekki einu sinni æft þar lengur.
Á meðan á banninu stóð æfðu leikmennirnir á Fallowfield vellinum, sem var hinum megin í borginni. Sá völlur hafði verið notaður undir úrslitaleikinn í ensku bikarkeppninni árið 1893 þar sem Wolverhampton Wanderers vann Everton með 1 marki gegn engu. Þá mættu 45.000 áhorfendur þrátt fyrir að völlurinn tæki bara 15.000 manns. Völlurinn var seinna keyptur af háskólanum í Manchester og rifinn til að hægt væri að byggja íbúðarblokkir þar.
Það var á einni slíkri æfingu þar sem ljósmyndari mætti á svæðið til að taka myndir af þessum uppreisnarseggjum. Fyrirliðinn Charlie Roberts sá þarna tækifæri til að koma með kraftmikla yfirlýsingu svo hann bjó til skilti sem á stóð „The Outcasts F.C.“ Einfalt en samt svo áhrifaríkt. Með þessari mynd varð Manchester United liðið tákngervingur stéttarbaráttu leikmanna.
En það eru ekki bara Manchester United leikmenn á þessari mynd. Charlie Roberts er leikmaðurinn sem situr beint fyrir aftan skiltið góða. Hægra megin við hann á myndinni situr leikmaður sem hét Tim Coleman. Hann spilaði fyrir Everton en sá hversu mikilvæg baráttan var sem leikmenn Manchester United stóðu í svo hann stóð með þeim í baráttunni þegar flestir aðrir gáfu undan kröfum knattspyrnusambandsins. Það var mjög mikilvægt. Hann náði að sannfæra samherja sína hjá Everton um að ganga til liðs við baráttuna og neita að segja sig úr leikmannafélaginu. Smátt og smátt fóru fleiri að taka þátt, leikmenn frá Middlesbrough, Newcastle, Sunderland og Liverpool auk leikmanna úr fleiri liðum um allt land stóðu með The Outcasts. Á endanum sá knattspyrnusambandið sér ekki fært annað en að láta undan. Deildarkeppnin 1909-10 nálgaðist og knattspyrnusambandið sá fram á að þetta gæti valdið verulegri röskun á þeirri keppni.
Knattspyrnusambandið dró því bönnin til baka og viðurkenndi aftur samtök leikmanna. Deildarkeppnin gat því byrjað á réttum tíma og barátta Manchester United leikmannanna hafði skilað tilætluðum árangri. Í fyrsta leik tímabilsins, heimaleik gegn Bradford City þann 1. september 1909, spiluðu leikmenn Manchester United með sérstök AFPU armbönd. Manchester vann leikinn, 1-0. Tímabilið gekk ágætlega hjá United en engir titlar komu í hús, liðið endaði í 5. sæti deildarinnar og var slegið úr ensku bikarkeppninni í fyrstu umferð af Burnley. En tímabilið var merkilegt fyrir aðra ástæðu, á miðju tímabili sagði United skilið við sinn gamla heimavöll á Bank Street og flutti yfir á Old Trafford.
Flutningurinn hafði verið samþykktur árið 1908 og í kjölfarið gefin út yfirlýsing um áætlanirnar í mars 1909. Old Trafford var svo tilbúinn um áramótin 1909-10. Síðasti leikurinn sem Manchester United spilaði á Ban Street var 5-0 sigur gegn Tottenham þann 22. janúar 1910. Nokkrum dögum síðar gekk mikill stormur yfir svæðið sem olli því að ein stúkan á Bank Street hrundi. Það má því segja að liðið hafi valið réttan tíma til að flytja. Fyrsti leikurinn á Old Trafford fór fram 19. febrúar.
Leikmannafélagið hélt áfram að stækka. Knattspyrnusambandið hafði samþykkt að félög gætu greitt ákveðnar bónusgreiðslur til að koma til móts við launaþakið. En í raun var þessi sigur mestmegnis táknrænn því það var áfram stíft launaþak á leikmenn liða í ensku deildarkeppninni. Það hélt áfram að vera til staðar allt til ársins 1961. Á þeim tíma gátu leikmenn mest fengið 20 pund á viku fyrir sín störf, það var svipuð upphæð og meðallaun bresks verkamanns á þeim tíma. Það breyttist í janúar 1961 þegar Jimmy Hill, formaður leikmannasamtakanna, hótaði því að félagsmenn þess myndu fara í verkfall ef þessu yrði ekki breytt. Í kjölfarið var launaþakið afnumið.
Aðeins nokkrum dögum eftir að launaþakið var afnumið varð Johnny Haynes, leikmaður Fulham, fyrsti knattspyrnumaðurinn til að fá 100 pund í vikulaun. Áratug síðar var George Best launahæsti leikmaður ensku knattspyrnunnar þegar hann var með 1.000 pund í vikulaun.
Leikmannasamtökin eru ennþá í gangi. Núna heita þau Professional Footballers’ Association, eða PFA. Þau halda áfram að berjast fyrir réttindum félagsmanna sinna og bættum kjörum en auk þess sjá þau um að veita ýmsar viðurkenningar í kjölfar tímabila. Þar má til dæmis nefna PFA Players’ Player of the Year, Young Player of the Year, Team of the Year, Fans’ Player of the Year auk þess að veita sérstaka viðurkenningu fyrir framlag til íþróttarinnar (PFA Merit Award).
Það er athyglisvert að pæla í því hvernig landslagið í boltanum væri núna ef það væri ennþá launaþak innan deildarkeppninnar á Englandi. Hefði boltinn orðið jafn vinsæll og hann varð síðar? Væru knattspyrnumenn jafn miklar stjörnur og þær eru núna? Væri fótboltinn kannski betri, kannski skemmtilegri, ef peningar og laun væru ekki að þvælast jafn mikið fyrir? Það er erfitt að segja.
En í öllu falli má segja það að Manchester United hafi á þessum tíma ekki verið sérstaklega vinsælt hjá enska knattspyrnusambandinu. Og mögulega er sambandið ennþá að erfa það við félagið. Árið 1909 voru nokkrir leikmenn hjá Manchester United til vandræða, sannkallaðir óþekktargemlingar og uppreisnarseggir. Ekki ósvipað okkar íslensku jólasveinum.
Aukaefni
100 ára afmæli Old Trafford:
Jólamynd dagsins
Jólamynd dagsins er Lethal Weapon. Lögga sem berst fyrir réttindum þeirra sem minna mega sín og er alltaf að lenda í vandræðum gagnvart yfirvaldinu.
Jólalag dagsins
Jólalag dagsins er Player’s Ball með OutKast. Auðvitað.
Skildu eftir svar