Gluggi dagsins í jóladagatalinu er ekki af verri gerðinni!
George Best
Annar jólasveinninn til að mæta til byggða er sjálfur grallarinn hann Giljagaur.
Giljagaur var annar,
með gráa hausinn sinn.
Hann skreið ofan úr gili
og skaust í fjósið inn.
Hann faldi sig í básunum
og froðunni stal,
meðan fjósakonan átti
við fjósamanninn tal.
Forliðurinn Gilja- í nafni jólasveinsins á þarna við um gilin sem kappinn átti það til að fela sig í á meðan hann beið eftir tækifæri til að skjótast í fjósið. En orðið gilja getur verið fleira en eignafall fleirtölu af hvorugkynsnafnorðinu gil, það getur líka verið sagnorð, slangurorð yfir ákveðnar holdlegar athafnir milli tveggja (eða fleiri) manneskja. Og þar var George Best á heimavelli, í það minnsta meira á heimavelli þar er ofan í einhverjum giljum. Best var fyrsta stórstjarna knattspyrnuheimsins, sá fyrsti sem blandaði saman knattspyrnulegum vinsældum við stjörnulíf rokkara og poppara. Hæfileikar hans á knattspyrnuvellinum voru einstakir og hæfileikar hans á djammsviðinu komust nokkuð nálægt þeim. Hann var heillandi, svalur og líflegur. Í það minnsta til að byrja með. Hann var líka vinsæll meðað kvenfólksins og elskaði það. Því hefur verið haldið fram að fyrir árið 1969 hafi Best verið búinn að sænga hjá 1.000 konum. Blaðamaður spurði eitt sinn vin Best hvort það væri eitthvað til í þessari tölu. Vinurinn sagði að líklega væri þetta varlega áætlað og að öllum líkindum væri talan töluvert hærri.
Eftir því sem aldurinn færðist yfir George, þegar knattspyrnuferilinn var að baki en drykkjuferillinn enn í fullum gangi, varð hann sífellt grárri. Bæði varð hárið og skeggið grátt með tímanum en einnig varð yfirbragð hans meira grátt eftir því sem drykkjunum fjölgaði. Enda fór það svo á endanum að hann tapaði baráttunni við drykkjuna. Þá var glamúrinn löngu farinn af líferninu.
Jólasveinninn Giljagaur var mikið fyrir að stela froðunni í fjósinu. Þar er átt við froðuna sem kom af mjólkinni, kannski hefur Giljagaur verið svona mikið fyrir gott kaffi latté. George Best hefur mögulega fundist mjólkurfroðan frábær en það er önnur froða sem honum fannst alveg án vafa góð, það er bjórfroðan. Eins og allir bjóráhugamenn vita þá er solid hlutfall af góðri bjórfroðu nauðsynlegur með bjórnum. Tala nú ekki um fyrir þann sem kemur frá Norður-Írlandi, þar sem Guinness er drykkur allra drykkja. Í fáum drykkjum skiptir froðan meira máli en í hinum rjómamjúka Guinness, hvít froðan ofan á dökkum stout-bjórnum setur tóninn fyrir alla upplifunina. Þótt Best hafi líklega ekki þurft að stela sér þessari froðu þá gæti maður alveg trúað honum til þess að hafa gert það einhvern tímann.
Best var líka þokkalegasta jólabarn. Honum leiddist ekki að spila góðan fótboltaleik í desember. Þegar hann var 17 ára fékk hann fyrst tækifæri með Manchester United. Hann spilaði sinn fyrsta leik fyrir félagið gegn WBA í september 1963. Næsti leikur kappans kom svo í desember, þann 28. desember spilaði hann með united gegn Burnley í deildinni. Best var aðeins 17 ára og 7 mánaða gamall en, merkilegt nokk, var samt ekki yngsti leikmaður Manchester United í þeim leik. William John „Willie“ Anderson spilaði leikinn en hann var þá 16 ára gamall, varð svo 17 ára þarna stuttu á eftir, þann 24. janúar. Willie var þarna að spila sinn fyrsta leik fyrir Manchester United. Seinna átti hann svo eftir að komast í sögubækurnar með því að verða fyrsti leikmaðurinn sem kom inn á sem varamaður í leik hjá United. Það gerðist í leik um góðgerðarskjöldinn í ágúst 1965, þá kom Willie inn á fyrir George Best.
Manchester United komi inn í þennan leik gegn Burnley í 6. sæti deildarinnar, 5 stigum frá toppliði Tottenham. Liðið hafði tapað síðustu 2 leikjum á undan, gegn Everton og Burnley yfir jólin. United og Burnley voru þarna með jafn mörg stig, en Burnley reyndar búið að spila einum leik meira.
Leikurinn byrjaði vel fyrir Manchester United, eftir aðeins 11 mínútna leik var David Herd búinn að koma United yfir. Leikurinn var spilaður fyrir framan 47.834 áhorfendur á Old Trafford. Þeir fengu aftur tækifæri til að fagna á 25. mínútu þegar Graham Moore kom United í 2-0. Heimamenn voru hvergi nærri hættir og stuttu fyrir hálfleik var komið að hinum unga George Best. Hann skoraði sitt fyrsta mark fyrir Manchester United á 38. mínútu og þetta var farið að líta ansi vel út fyrir þá rauðklæddu. Í seinni hálfleik bættu Graham Moore og David Herd við mörkum áður en Andy Lochhead minnkaði muninn fyrir Burnley í lokinn. Lokastaðan í leiknum var 5-1 fyrir United, sem færðist við það upp í 5. sætið. Liðið endaði að lokum í 2. sæti deildarinnar ásamt því að komast í undanúrslit bikarsins og í 8-liða úrslit í Evrópukeppni bikarhafa. Best spilaði 26 leiki á þessu fyrsta tímabili sínu og skoraði í þeim 6 mörk.
Næst fyrsti keppnisleikur George Best fyrir Manchester United var í desember, milli jóla og nýárs. Áratug síðar spilaði George Best sinn næst síðasta leik fyrir félagið og sá leikur kom einnig milli jóla og nýárs. Laugardaginn 29. desember 1973 mættust Manchester United og Ipswich Town á Old Trafford. Þá var Ipswich Town í 4. sæti deildarinnar en United var í 20. sæti af 22 liðum og í alvarlegri fallbaráttu.
Meðal þeirra sem stjóri United á þeim tíma, Tommy Docherty, stillti upp í liðinu voru markvörðuinn Alex Stepney, Lou Macari, Sammy McIlroy, Clive Griffiths auk George Best. Þetta var síðasti leikurinn sem Clive Griffiths lék fyrir liðið áður en hann hélt á vit ævintýranna í Bandaríkjunum og samdi við Chicago Sting. En það var nú ekki stórkostlegur missir fyrir félagið þar sem þessi Walesverji spilaði aðeins 7 leiki fyrir klúbbinn. Af þessum 7 leikjum sem hann spilaði með United tapaði liðið 3 leikjum og gerði 3 jafntefli.
En þessi leikur vannst. Hann var strembinn og mikil barátta hjá báðum liðum en að lokum náði United að taka seiglusigur með mörkum frá Sammy McIlroy og Lou Macari á 77. og 80. mínútu. Tímabilið hélt þó áfram að ganga illa hjá Manchester United og á endanum lenti liðið í 21. sætinu og féll niður í 2. deild. Það er líklega lýsandi fyrir hversu illa gekk hjá liðinu að markahæsti leikmaður liðsins í deildinni var Sammy McIlroy, með 6 mörk. Í öllum keppnum voru Sammy McIlroy og Lou Macari markahæstir hjá liðinu, báðir með 6 mörk.
George Best spilaði 12 leiki á tímabilinu og náði bara að skora 2 mörk í þeim. Þarna var hann orðinn afskaplega pirraður á gengi félagsins. Liðið sem virtist á toppi tilverunnar þegar það varð Evrópumeistari 1968, virtist hafa alla heimsins möguleika fyrir framan sig og stefndi á enn frekari sigra í Englandi og Evrópu hafði ekki náð að fylgja því nægilega vel eftir. Erfiðlega gekk að fylla skarð þeirra lykilmanna sem hættu og nýir leikmenn stóðu sig ekki jafn vel og vonir stóðu til. Að sama skapi hafði drykkjan náð sterkari tökum á Best og hegðun hans varð sífellt erfiðari.
Þessi leikur, 29. desember 1973, varð síðasti leikur hans fyrir United á Old Trafford. 2 dögum síðar, á nýársdag 1974, kom svo lokaleikurinn hans. United fór þá til London og spilaði við QPR á Loftus Road. Daniel Joseph „Don“ Givens, fyrrum leikmaður Manchester United, sem hafði komið upp í gegnum unglingastarfið þar, skoraði fyrsta markið fyrir QPR. Stan Bowles bætti svo við 2 mörkum og leikurinn endaði 3-0 fyrir QPR.
Þremur dögum síðar mætti Best ekki á æfingu hjá félaginu og var þegar í stað settur úr liðinu af Docherty. Í kjölfarið var Best meðal annars handtekinn fyrir að stela skinnkápu, vegabréfi og ávísanahefti af bandarísku leikkonunni Marjorie Wallace. Wallace þessi hafði árið áður orðið fyrsta konan frá Bandaríkjunum til að verða krýnd ungfrú alheimur.
Um sumarið var samningi Best hjá United rift. Hann fór á flakk um heiminn og spilaði mislengi og mismarga leiki fyrir mismunandi félög. Hann átti það enn til að sýna gömlu töfrana, sýna hvers vegna hann var um tíma besti leikmaður í heiminum. En aðaltilþrifin á þessum tíma voru oftar en ekki í djamminu, frekar en á vellinum.
Hann spilaði 470 leiki fyrir Manchester United á 11 tímabilum. Hann var aðeins 28 ára þegar hann yfirgaf Manchester United, það hefði átt að vera hans besti tími sem fótboltamaður, toppurinn á hæfileikunum. Hann er í 14. sæti yfir leikjahæstu leikmenn í sögu Manchester United og skoraði 179 mörk. Ásamt Dennis Viollet er hann í 5.-6. sætinu yfir markahæstu leikmenn félagsins.
George Best var sannkallaður gleðigjafi upp á sitt besta. Rauðklæddur, lífsglaður kall, ekki ósjaldan skeggjaður, sem kom og færði United stuðningsmönnum gjafir í líki marka og töfrandi fótboltahæfileika. Hann hafði sýnar myrku hliðar, upp á sitt versta gat hann minnt á allar verstu sögurnar sem sagðar voru af gömlu, íslensku jólasveinunum. Hann gat þá verið brögðóttur og lævís hrekkjalómur. En þessar myrku hliðar munu aldrei breyta öllu því frábæra sem hann gerði fyrir Manchester United. Best var bestur.
Aukaefni
Þetta var Best:
Heimildarmynd um Best:
https://www.youtube.com/watch?v=LtPOBK74KCU
Jólamynd dagsins
Jólamynd dagsins er Trapped in Paradise
Jólalag dagsins
Árið 1968 vann United Evrópukeppnina og George Best var valinn besti leikmaður heims, sá yngsti til að hljóta þau verðlaun. Þá kom líka út jólaplatan Snowfall með Tony Bennett. Hún er mjög skemmtileg. Eitt af jólalögunum heitir Christmasland og er jólalag dagsins
Skildu eftir svar