Minnum á jóladagalið fyrir gærdaginn sem kom inn rétt í þessu hér að neðan, greinina um Evrópudeildardráttinn og podkastið sem var tekið upp á sunnudaginn, einnig hér að neðan.
Nick Culkin
Þriðji jólasveinninn sem kemur til byggða er Stúfur. Hann hefur að vísu ekki eingöngu gengið undir því nafni, hann hefur líka verið kallaður Pönnuskefill eða Pönnuskuggi. Hann er aðallega þekktur fyrir tvennt, hann er stuttur og hann vill hirða agnir.
Stúfur hét sjá þriðji,
stubburinn sá.
Hann krækti sér í pönnu,
þegar kostur var á.
Hann hljóp með hana í burtu
og hirti agnirnar,
sem brunnu stundum fastar
við barminn hér og þar.
Ein leið til að tækla þetta í Manchester United tengdu jóladagatali væri að finna minnsta stubbinn sem hefur spilað fyrir Manchester United. Juan Mata er til dæmis minnsti leikmaðurinn í hópnum í dag, hann er 170 cm á hæð. Það eru alveg góðar líkur á að í allri sögu félagsins sé hægt að finna minni leikmann. Í gamla daga voru nánast allir dvergar hvort sem er. En ég ætla ekki að fara þá leiðina í þetta skiptið. Kannski næst…
United leikmaðurinn sem ég ætla að tengja við Stúf var ekki stuttur. Hann er 188 cm á hæð. En ferillinn hans var ansi stuttur, það mætti segja að hann hafi hirt agnirnar þegar kom að Manchester United.
Árið 71 stofnuðu Rómverjar virki, eða borg, á því svæði sem nú heitir Norður-Jórvíkurskíri, eða North Yorkshire. Borgina kölluðu Rómverjarnir Eboracum. Ekki er vitað með vissu hvað það þýddi en talið er að það hafi verið dregið af því tungumáli sem töluð var á staðnum á þeim tíma, keltnestkt tungumál sem fræðimenn kalla Common Brythonic. Tungumálið er talið hafa verið ekki ósvipað nútíma velsku, það er talið að orðið Eboracum hafi þýtt „staður ýviðartrjánna“ (e. Place of the Yew Trees). Ýviður (Taxus baccata) er barrtré með dökkgrænar, mjúkar, gljáandi og eitraðar nálar. Hann er seinvaxinn en getur orðið allt að 1000 ára gamall. Borgin varð höfuðborg rómverska hluta Bretlands, sem þá kallaðist Britannia Inferior. Hún var höfuðborg þessa ríkis allt þar til Rómarveldi dróst saman og Rómverjar gáfu eftir völd sín á Bretlandi. Á 5. öld tóku Englar við svæðinu, það þróaðist yfir í konungsríkið Norðymbraland en áfram var borgin höfuðborg ríkisins. Nafnið þróaðist hins vegar úr Eboracum yfir í Eoforwic. Þegar danskir víkingar réðust svo inn í landið árið 866, undir forystu þeirra Ívars og Hálfdans Ragnarssona loðbrókar, þróaðist nafnið áfram yfir í Jórvík. Á 10. öld lagðist víkingaveldið af og breska konungsveldið fór að byggjast upp. Nafnið hélt áfram að taka smávegis breytingum og þróaðist með tímanum. Á 14. öldinni var það orðið Yerk, á 16. öld var það orðið að Yorke, á 17. öld Yarke og svo þróðaðist það að lokum út í York, sem er nafnið sem borgin ber núna. Borgin York er í 112,4 km fjarlægð við Manchester í norðausturátt.
Þótt borgin sé ekki lengur höfuðborg konungsríkis hafa margir kóngarnir komið þaðan í gegnum tíðina. Meðal þeirra sem voru kóngar þarna má nefna Eirík blóðöxi og Játmund 1. Englandskonung. 6. júlí 1978 fæddist svo annar kóngur þegar Nicholas James „Nick“ Culkin kom í heiminn. Snemma á sinni lífsleið fékk hann köllunina um hvert hans hlutverk í lífinu ætti að vera. Rétt eins og virkið sem lagði grunninn að borginni York varði í gegnum tíðina Rómarverja og víkinga, konunga og almúgafólk, þannig skyldi hann verja mörk sinna knattspyrnufélaga frá árásum andstæðinganna. Hann var fæddur til að verða markvörður.
Þegar hann var yngri lá beinast við að velja lið heimaborgarinnar og hóf hann sinn knattspyrnuferil með liði York City. Þar fór hann upp í gegnum barna- og unglingaflokkana allt þar til hann var 17 ára gamall. Þá fékk hann tilboð frá Manchester United um að koma og verða hluti af unglingastarfinu þar. Hann skrifaði undir samning við United í september 1995 og kostaði á þeim tíma 100.000 pund.
Á meðan hann var í unglingaakademíunni gat hann fylgst með hinum frábæra Peter Schmeichel fara á kostum með aðalliðinu. Það er engin spurning að Nick litli Culkin fylgdist með Dananum stóra með stjörnur í augunum, reyndi að drekka í sig allan lærdóm sem hann gat af frammistöðum hans og einsetti sér að verða jafngóður.
Fyrir hið stórskemmtilega tímabil 1998-99 fór Manchester United í æfingaferðalag til Skandinavíu. Nick fór með í það ferðalag og í hálfleik í leik liðsins 4. ágúst 1998, gegn norska liðinu SK Brann frá Bergen, kom hann inn á fyrir Peter Schmeichel. Daninn hafði haldið markinu hreinu í fyrri hálfleik og United hafði unnið þann hálfleik 2-0. Nick ákvað að vera ekkert að flækja þetta heldur jafna bara árangur Schmeichel. Hann fékk ekki á sig mark og aftur vann United hálfleikinn 2-0. Denis Irwin skoraði þrennu í leiknum, þar af tvö mörk úr vítum. Andy Cole skoraði svo síðasta mark liðsins. Tímabilið gekk annars vel hjá liðinu. Þótt Nick fengi ekkert að spila með liðinu á því tímabili þá fékk hann nýjan, tveggja ára samning við United í maí árið 1999.
Þá um sumarið ákvað Peter Schmeichel að segja skilið við United og skella sér í meiri sól með því að ganga til liðs við Sporting CP í Portúgal. Þarna hugsaði Nick sér gott til glóðarinnar, nú fengi hann eflaust tækifæri til að sanna sig með liðinu og sýna að hann væri maðurinn til að taka markmannsstöðu númer 1 hjá United.
Það virtist þó ekki ætla að verða alveg á næstunni þegar United samdi við Ástralann Mark Bosnich um sumarið 1999. Bosnich hafði verið hjá United sem ungur markmaður og spilað 3 leiki á árunum 1990-91. Hann fékk það vandasama verk að fylla upp í skarðið risastóra sem Peter Schmeichel skildi eftir sig. Honum til halds og trausts var varamarkvörðurinn hollenski Raimond van der Gouw sem hafði verið hjá félaginu síðan 1996. Bosnich byrjaði á að spila í leik um góðgerðarskjöldinn 1. ágúst, leik sem Arsenal vann 2-1. Deildin byrjaði svo viku seinna. United byrjaði á að gera 1-1 jafntefli við Everton, Dwight Yorke með mark United en Jaap Stam skoraði sjálfsmark sem jafnaði leikinn fyrir Everton. Eftir það fylgdu tveir sigurleikir, 4-0 rúst á Sheffield Wednesday (Scholes, Yorke, Cole og Solskjaer með mörkin) og 2-0 sigur á Leeds þann 14. ágúst. Leikurinn gegn Leeds var þó ekki eintóm gleði, í þeim leik meiddist Bosnich eftir 22 mínútna leik svo Raimond van der Gouw þurfti að koma inn á í staðinn. Á þeim tímapunkti hafði hann spilað 20 leiki fyrir félagið á tímabilunum 3 á undan. Hann hélt samt hreinu í þessum leik og virtist tilbúinn til að standa vaktina meðan Bosnich væri meiddur.
Næsti leikur eftir þetta var útileikur gegn Arsenal, 22. ágúst 1999. Á þessum tíma spilaði Arsenal ennþá á Highbury. 38.147 áhorfendur mættu og voru tilbúnir í sýningu. Það var alltaf hægt að ganga að því vísu að hart yrði barist þegar þessi lið mættust á þeim tíma. Merkilega nokk voru aðalmarkmenn beggja liða meiddir þegar kom að þessum leik. Í stað David Seaman mætti Austurríkismaðurinn Alex Manninger í mark Arsenal og van der Gouw var á sínum stað í marki United.
Þessi leikur hafði að öðru leyti helstu uppskriftir að góðum slag milli þessara liða. Roy Keane og Patrick Viera settu tóninn með baráttunni á miðjunni. Arsenalmegin voru leikmenn eins og Lee Dixon, Martin Keown og Ray Parlour til að hjálpa til við baráttuna en United hafði Jaap Stam, Phil Neville og fleiri góða. Freddie Ljungberg kom Arsenal yfir á 41. mínútu og fóru heimamenn kátir inn í klefann í hálfleik. En Roy Keane hafði ekki nokkurn einasta áhuga á að fara að tapa fyrir þessu liði, ekki séns! Á 58. mínútu jafnaði hann leikinn. Og hann var ekki hættur, stuttu fyrir leikslok skoraði hann sigurmark liðsins og festi liðið enn betur í sessi í efsta sætinu.
En dramað í leiknum var ekki búið. Í uppbótartímanum stuttu eftir mark Keane fékk Arsenal aukaspyrnu og freistaði þess að jafna. Boltinn kemur inn í teig þar sem Matthew Upson á góðan skalla á markið en van der Gouw ver boltann niður á marklínuna. Hann fellur sjálfur og nær að halda boltanum réttu megin við línuna með annarri hendi. Þar sem hann liggur í grasinu sér hann hvar Martin Keown kemur æðandi í átt að boltanum, tilbúinn að koma honum síðustu sentimetrana yfir marklínuna. Fljótur að hugsa og bregðast við skellir hann hinni hendinni á boltann líka og rétt nær því áður en Keown straujar bæði boltann og manninn. Þar sem van der Gouw hafði náð að koma báðum höndum á boltann var markið réttilega dæmt af og aukaspyrna dæmd á Keown. En van der Gouw lá meiddur eftir og gat ekki haldið áfram. Kom þá til sögunnar fyrrnefndur Nick Culkin. Þarna þurfti að kalla í Jórvíkurkonunginn til að redda málunum. Hann lét ekki segja sér það tvisvar, smellti á sig hönskunum, reimaði skóna og hljóp rakleitt í markið. Þarna var komið að því, stóra stundin var runnin upp! Nokkurn tíma tók áður en búið var að leysa úr þessu öllu en þegar það var allt komið var hægt að hefja leikinn aftur. United átti aukaspyrnu alveg upp við sitt mark. Nick Culkin fékk það mikilvæga hlutverk að taka aukaspyrnuna. Hann hefur líklega íhugað það vandlega hvernig hann ætti að taka spyrnuna. Erum við að tala um einfalda markspyrnu? Er kannski málið að senda bara stutt, á næsta varnarmann? Hvar er Roy Keane, kannski væri best að miða á hann? Ætti að splæsa í einfaldan innanfótarbolta, taka stælinn á þetta með nettri utanfótar eða bara lúðra fram einni fastri ristarspyrnu? Þetta voru mikilvægar spurningar á ögurstundu. Á endanum stillti Culkin boltanum upp eins og um markspyrnu væri að ræða og ákvað að taka eina sleggju, bara dúndra eins langt fram og hann gat. Hann tók gott tilhlaup og hratt áður en hann lét vaða með vinstri, boltinn flaug áfram eins og raketta og einmitt þegar hann flaug af stað flautaði dómarinn til loka leiks. Culkin kom inn á til að taka þessa einu spyrnu og gerði það fullkomnlega.
Í leiðinni setti hann líka met. Met sem ennþá stendur en það er stysta frumraun nokkurs leikmanns í ensku úrvalsdeildinni. En þetta reyndist líka vera eini leikurinn sem Culkin spilaði fyrir United á ferlinum. Sumir gætu haldið að þetta væri kannski heldur slakur ferill, jafnvel lélegur. En það er langt í frá. Hann er með 100% record. Hann hélt hreinu allan sinn feril með United. Geri aðrir betur!
Þetta var reyndar óvenjulegt tímabil hjá United hvað markmenn snerti. Alls tóku 5 markmenn einhvern þátt í leikjum liðsins á tímabilinu. Í lok ágúst keypti United ítalska markmanninn Massimo Taibi. Þegar tímabilið var búið hafði Mark Bosnich spilað 35 leiki, Raimond van der Gouw spilaði 23, Taibi spilaði 4, Nick Culkin þennan eina og Paul Rachubka spilaði líka einn. Rachubka hélt reyndar hreinu í þeim leik, átti svo eftir að spila 2 aðra leiki tímabilið á eftir og halda hreinu í þeim báðum líka. Hann spilaði því 3 leiki fyrir félagið og hélt hreinu í þeim öllum. Það er alveg frekar gott.
United-ferill Nick Culkin var kannski stuttur, óttalegur stúfur gæti maður sagt, en hann greip agnirnar sem hann fékk og gerði það besta úr því. Hann fékk tvær medalíur meðan hann var hjá félaginu. Að vísu voru þær báðar silfur, hann fékk þær fyrir að vera varamaður í leikjunum um góðgerðarskjöldinn 1998 og 1999. Kannski hefði liturinn á medalíunum verið annar ef Nick Culkin hefði fengið að byrja inn á. Hver veit?
Eftir að hafa farið þrisvar á lán frá United, til Hull City, Bristol Rovers og Livingston, fór hann á endanum til Queens Park Rangers árið 2002. Þar var hann í 3 tímabil og spilaði 22 deildarleiki. Árið 2005 þurfti hann að leggja skóna á hilluna vegna erfiðra hnjámeiðsla. Þá hafði hann spilað 93 deildarleiki í heildina, 3 leiki í bikarnum og 7 deildarbikarleiki.
Eftir þetta flutti hann aftur til Manchester og stofnaði sitt eigið fyrirtæki sem sá um viðhald á görðum. Hann kunni alltaf vel við sig úti undir beru lofti, sérstaklega ef hann gat verið á grænu grasi einhvers staðar. Það var bara í blóðinu. Árið 2010 var það farið að kitla hann að spila meiri bolta og hnéð virtist hafa jafnað sig nokkuð vel. Þegar hann fékk hvatningu frá elsta syni sínum ákvað hann að kýla á það og hafði samband við Radcliffe Borough F.C. til að athuga hvort hann mætti koma og spila fyrir liðið. Þeir héldu það nú. Þarna var liðið í Northern Premier League Division One North, ætli það myndi ekki útleggjast sem áttunda deild. Hann var hjá liðinu til 2012 og varð strax mjög vinsæll. Hann var til dæmis valinn í úrvalslið deildarinnar tímabilið 2011-12, lenti í öðru sæti sem leikmaður ársins meðal stuðningsmanna en leikmenn völdu hann leikmann ársins. Árið 2012 færði hann sig yfir til Prescot Cables, það er lið sem er í eigu stuðningsmanna og spilar í sömu deild og Radcliffe. Í mars 2014 fór hann yfir til FC United of Manchester.
Það er vissulega áhugavert að Culkin sé þarna kominn til félagsins sem varð til við það að stuðningsmenn Manchester United urðu ósáttir við Glazer-fjölskylduna og ákváðu að stofna sitt eigið fótboltafélag sem ætti að reka af meiri hugsjón.
Culkin spilaði 2 leiki á síðasta tímabili. Þá vann liðið Northern Premier League Premier Division og komst upp í National League North. Það myndi vera sjötta deildin í enska boltanum. Eins og staðan er núna er liðið í 14. sæti deildarinnar, af 22 liðum. Culkin hefur þó ekki spilað deildarleik á þessu tímabili. Aðalmarkmaður liðsins, David Carnell, hefur séð um þá alla. En 27. október spilaði Culkin þó leik með FC United. Það var leikur í Manchester Premier Cup, bikarleikur gegn Glossop North End. Eftir venjulegan leiktíma var staðan 2-2 svo það þurfti vítaspyrnukeppni til að fá úr því skorið hvort liðið færi áfram. Þar varði Culkin eina spyrnu og FC United komst áfram. Í næstu umferð á eftir mætti liðið Stalybridge Celtic. Þá var Carnell kominn í markið í stað Culkin og það var ekki að því að spyrja, liðið féll úr leik eftir 3-4 tap.
Aukaefni
Rúmlega 25 mínútna samantekt á leiknum sem Nick Culkin spilaði fyrir Manchester United:
https://www.youtube.com/watch?v=ZDKK11idEAc“>https://www.youtube.com/watch?v=ZDKK11idEAc
Jólamynd dagsins
Þeir Nick og Macaulay Culkin eru ekki skyldir. En vegna þess að þeir bera sama nafn er Home Alone jólamynd dagsins
Jólalag dagsins
Fyrir Home Alone 2 samdi rokkarinn og mafíósaleikarinn Steve Van Zandt jólalagið All Alone on Christmas. Það var svo flutt af Darlene Love ásamt meðlimum úr The E Street Band og The Miami Horns. Það er jólalag dagsins:
https://www.youtube.com/watch?v=5kkZ2jBQ454
Skildu eftir svar