Jaap Stam
Nú er bara rétt ein vinnuvika til jóla. Það er ekki mikið. Eiginlega alveg rosalega lítið. Nú fer að detta í endasprettinn í jólagjafainnkaupum, jólahreingerningum og öðrum jólaundirbúningi og um að gera að njóta þess með jólalögin í botni, jólagleðina í hjarta og jólaöl & piparkökur í munni.
En það er líka bara hægt að fá sér skyr. Jólaskyr eða hversdagslegt skyr, bragðbætt skyr eða hrært skyr, skyrdrykki eða hvers konar búst. Þetta er allt í boði. Og getur alveg verið ljómandi jólalegt þegar rétt er með farið. Það er til dæmis hægt að mylja piparkökur og jólastafi út í skyrið eða hræra jólaöl saman við ef fólk vill vera frumlegt. Svo má nú henda í eins og eina skyrköku líka, þær geta verið alveg frábærar. Vefsíðan gottimatinn.is lumar til að mynda á einni sem kölluð er „krydduð jólaskyrkaka“.
Krydduð jólaskyrkaka
Botn:
1 pakki Lu Bagstone kanil kex
150 g smjör
Skyrkaka:
500 g hreint skyr
1/4 l rjómi
2 msk flórsykur
1 1/2 tsk kanill
1 tsk múskat
1/2 tsk engifer
1 tsk vanilludropar
Aðferðin:
1) Fínmalið kanilkexið í matvinnsluvél.
2) Bræðið smjör og hellið saman við kexið, hrærið vel saman.
3) Hellið blöndunni í hringlaga form (um 22 cm), þrýstið vel niður í botn og hliðar.
4) Setjið form inn í ísskáp á meðan restin er kláruð.
5) Þeytið rjóma, hrærið saman við skyrið ásamt flórsykri, kanil, múskati, engifer og vanilludropum. Hrærið þar til allt blandast vel saman.
6) Hellið skyrblöndunni yfir kexbotninn og sléttið úr með sleif. Eða þvöru ef þið eigið.
Þetta er ljómandi fínt að gera fyrir jólin, hægt að bera fram með rjóma eða jólabjór og um að gera að geyma kökuna í kæli þar til hún er borin fram.
Ef það er einhver jólasveinn sem hefði verið sérstaklega hrifinn af þessari köku þá væri það að öllum líkindum Skyrgámur. Stundum reyndar kallaður Skyrjarmur en þó er gámurinn algengara nafn á honum. Sá kunni nú vel að meta skyrið sitt, enda vel skiljanlegt.
Skyrjarmur, sá áttundi,
var skelfilegt naut.
Hann hlemminn o’n af sánum
með hnefanum braut.
Svo hámaði hann í sig
og yfir matnum gein,
uns stóð hann á blístri
og stundi og hrein.
Skyrgámur var kraftakallinn í jólasveinahópnum. Hann var greinilega stór og vígalegur í útliti, minnti helst á naut. Og þurfti sitt prótein, ekki furða að hann elskaði skyrið. Í gamla daga var skyrið geymt í trétunnum með loki. Skyrgámur lét sig ekki muna um það að mölbrjóta lokið með hnefunum berum til þess að komast að veigunum. Hann gat líka slafrað í sig heilu tunnunum af skyri, hann hefur væntanlega nýtt jólin í að byggja sig upp.
Einn sá allra vígalegasti á velli af leikmönnum í sögu Manchester United var Hollendingurinn Jakob „Jaap“ Stam. Stam kemur frá Kampen, 35.000 manna borg í Overijssel í miðausturhluta Hollands. Hann var til að byrja með miðjumaður áður en hann var færður aftar á völlinn í hlutverk varnarmanns. Hann spilaði með FC Zwolle, SC Cambuur, Willem II og PSV Eindhoven í Hollandi áður en hann fór til Manchester United í júlí árið 1998. Hann varð við það fjórði Hollendingurinn til að spila fyrir rauðu djöflana, hann varð dýrasti hollenski leikmaðurinn og dýrasti varnarmaður heims þegar United greiddi 10,6 milljónir punda fyrir hann.
Þegar ljóst varð að Stam væri á leið til United fór hann í viðtal við breskan blaðamann sem vildi forvitnast um þennan hollenska leikmann sem aðeins þremur árum áður hafði verið að spila í hollensku 2. deildinni. Blaðamaðurinn byrjaði á að segja að hann hefði heyrt einhvern líkja Stam við Franco Baresi og spurði Stam hvort það væri eitthvað til í þeim samanburði.
„Nei, ég er töluvert sneggri,“ svaraði þá Stam.
„En hvað með Frank Rijkaard?“ spurði þá blaðamaðurinn.
„Jú, við erum svipaðir, en ég er fljótari.“
„Ertu harðjaxl á vellinum?“ spurði blaðamaðurinn.
„Nýlega kom leikmaður upp að mér og reyndi að skalla mig. Ég greip hann í hálstak… hann var orðinn nokkuð blár þegar ég sleppti honum,“ svaraði Stam rólegur.
„Arsenal vann nýlega ensku úrvalsdeildina, hvernig munt þú stöðva Dennis Bergkamp og Marc Overmars?“
„Ég hef mínar aðferðir… Ég get stöðvað þá.“
„Hvernig tókstu á við [brasilíska] Ronaldo þegar þú mættir honum á vellinum?“
„Hann olli mér engum vandræðum.“
Það var morgunljóst strax af þessu fyrsta viðtali að þarna færi leikmaður sem ætti ekki í neinum vandræðum með sjálfstraustið. Þessi stóri og mikli leikmaður, 191 sentímetri á hæð, mætti til Manchester með sterkbyggðan brjóstkassann útþaninn, tilbúinn í hvaða átök sem væri. Til að halda sér í góðu formi var hann duglegur í lyftingarsalnum og hefur eflaust þambað ófáan prótensjeikinn í gegnum tíðina. Ef hann hefði komist í skyrið er ekkert vafamál um að þar hefðu heilu tunnurnar horfið ofan í Hollendinginn.
Hann var líka ógnvænlegur á vellinum. Mikil ósköp! Bæði var hann gríðarlega snöggur og með nógu góðan leikskilning til að vera nánast alltaf rétt staðsettur svo hann þurfti yfirleitt ekki að stóla á kraftana eða henda sér í tæklingar. En á kraftana gat hann sannarlega stólað. Andstæðingarnir vildu helst ekkert mikið vera að þvælast fyrir honum, sérstaklega ekki þegar hann datt í virkilegan ham.
Það segir kannski mest um hann að hann spilaði 3 tímabil með Manchester United í Englandi og vann ensku deildina öll tímabilin. Ég hugsa að leikmenn annarra liða hafi einfaldlega ekki þorað öðru en að sjá til þess að United myndi vinna deildina. Samherjar Jaap Stam hjá United vildu í það minnsta ekki bregðast honum. Held það segi ýmislegt um Stam að á þessum tíma hafi Roy Keane ekki verið mest ógnvekjandi leikmaðurinn í liðinu.
En hann var miklu meira en bara ógnvekjandi harðhaus og kraftakarl. Hann var afskaplega góður knattspyrnumaður og flinkari en orðsporið gefur mynd af. Hann mætti í liðið og kom með aukakraft og aukainnblástur sem liðið þurfti til að fara upp á næsta stig, ekki ósvipað því sem Eric Cantona hafði gert nokkrum árum fyrr. Fyrsta tímabilið sem Stam spilaði fyrir United vann það þrennuna. Það vann Evrópukeppnina í fyrsta skipti síðan 1968.
Hann fékk líka slatta af einstaklingsviðurkenningum á meðan hann spilaði fyrir United. Hann var valinn í lið ársins í úrvalsdeildinni öll 3 tímabilin sín, var valinn í lið Evrópukeppninnar tímabilið 1998-99 og var valinn besti varnarmaður í Evrópu bæði 1999 og 2000.
Stam hafði líka mikið dálæti á því að spila desemberleiki fyrir United. Svo mikill jólastemningskall var hann að hann tapaði ekki leik í desember meðan hann var hjá United. Hann spilaði alls 10 leiki fyrir United. 4 af þeim vann liðið, 6 sinnum gerði það jafntefli og tapaði engum. Markatalan í þessum 10 leikjum var líka ágæt, 23-10 United í vil. Á þessum 3 tímabilum þurfti United 10 sinnum að spila fótboltaleiki í desember án þess að geta stólað á Jaap Stam. 3 þeirra töpuðust, 2 jafntefli og 5 sigrar, þar var markatalan 17-11.
Jaap Stam hafði fullan hug á því að klára sinn feril með Manchester United. Þar leið honum vel, hann var vinsæll meðal leikmanna og stuðningsmanna og það gekk allt í haginn innan vallar sem utan. Það kom því mikið á óvart þegar hann var seldur til Lazio. Á síðasta tímabili sínu hafði hann misst út nokkra mánuði eftir að hafa meiðst á hásin og þurft að fara í aðgerð. Hann kom engu að síður sterkur inn seinni part tímabils og hjálpaði liðinu að landa þriðja deildartitlinum í röð. Ferguson sagði að sér hefði fundist hann hafa misst eitthvað eftir meiðslin, að hann hefði ekki lengur verið alveg sami leikmaður og því hefði verið rétt fyrir United að taka tilboði upp á 16,5 milljón pund frá ítalska liðinu (United tilkynnti reyndar á sínum tíma að verðið hefði verið 15,3 milljónir). Mörgum fannst þó líklegra að þar hefði Fergie einfaldlega verið að losa sig við leikmann sem olli sér óþægindum eftir að Stam sagði frá því í ævisögu sinni, sem kom einmitt út stuttu áður en Stam var seldur, að Ferguson og United hefðu kannski ekki farið alveg eftir lögum þegar þeir nálguðust Stam hjá PSV áður en hann var keyptur. Auk þess hélt hann því fram að Ferguson væri farinn að hvetja menn til að láta sig falla til að vinna vítaspyrnur. Ferguson hefur þó aldrei staðfest að það hafi verið ástæðan fyrir sölunni en hann hefur vissulega viðurkennt að salan á Stam hafi verið mistök. Enda fór það þannig að árið sem Stam fór þá endaði liðið í 3. sæti deildarinnar og vann engan bikar. Segir líklega allt sem segja þarf.
Tæplega ári síðar kom síðan Rio Ferdinand til liðsins. Það er ansi auðvelt að detta í dagdrauma um hversu hrikalega skemmtilegt það hefði verið að sjá þessa kappa saman í hjarta varnarinnar. Það hefði verið ljóðræn og epísk snilld.
Þrátt fyrir þennan snubbótta endi á ferlinum hjá Manchester United var Stam ekkert að erfa það við félagið eða Ferguson. Hann hætti að spila fótbolta árið 2007 og árið 2008 fór hann að vinna sem njósnari fyrir Manchester United. Hans hlutverk var að sjá um mest af Suður-Ameríku. Því starfi gegndi hann til ársins 2011. Haustið 2011 mætti hann í sínu fínasta pússi á heiðurssamkomu þar sem verið var að fagna 25 ára stjórnarafmæli Alex Ferguson hjá Manchester United. Hann var kátur það kvöld og sagði við blaðamenn að Old Trafford yrði alltaf staðurinn sem hann átti sínar bestu minningar frá.
Íþróttafréttamaðurinn Mike Ingham, sem í áratugi hefur starfað við knattspyrnuumfjöllun hjá BBC, lýsti því best þegar hann sagði: „Ef það hefði ekki verið fyrir Jaap Stam, þá væri Sir Alex ennþá bara Alex.“
Aukaefni:
Yip, Jaap Stam. Eitt besta stuðningsmanna lag allra tíma hjá United:
Eina markið sem Jaap Stam skoraði fyrir United:
Jaap Stam svarar spurningum stuðningsmanna:
Hefur engu tapað:
Jólamynd dagsins:
Árið 1998 kom Jaap Stam til Manchester United. Í desember það ár spilaði hann 5 leiki með Manchester United og gerði jafntefli í þeim öllum. Það sama ár kom jólamyndin Jack Frost út. Hún er jólamynd dagsins.
Jólalag dagsins:
Árið 1972 fæddist Skyrgámurinn Jaap Stam. Sama ár kom út jólaplatan The Johnny Cash Family Christmas. Á henni er meðal annars lagið Christmas With You sem Cash samdi og söng með konu sinni, June Carter. Það er jólalag dagsins.
Skildu eftir svar