Billy Meredith
Þriðjudagurinn 6. maí 2014. Manchester United spilar sinn síðasta heimaleik á ansi viðburðarríku tímabili, því fyrsta eftir að Sir Alex Ferguson lagði stjóratyggjóið á hilluna. Moyes hafði komið og farið og Ryan nokkur Giggs var þarna tekinn við liðinu. Í hans fyrsta leik við stjórn vann United Norwich á heimavelli með 4 mörkum gegn engu. Í þeim næsta tapaði United gegn Sunderland, aftur á heimavelli, með 1 marki gegn engu. United hafði í sjálfu sér ekki að neinu að keppa, þegar Giggs tók við var þegar ljóst að United væri búið að missa af meistaradeildarsæti.
Í þessum síðasta heimaleik ákvað Giggs að hafa létta stemningu yfir leiknum. Mótherjarnir voru Hull City með hinn vinalega og kunnuglega Steve Bruce við stjórnina. Steve Bruce er enn afskaplega hlýtt til Manchester United og reynir alltaf eins og hann getur að koma færandi hendi með fullar hendur stiga þegar hann kemur aftur í heimsókn á gamlar slóðir til Old Trafford. Ryan Giggs gaf í þessum leik tveimur ungum leikmönnum sína fyrstu leiki með Manchester United. Ekki nóg með það heldur setti hann þá í byrjunarliðið. Það voru þeir James Wilson, sem skoraði síðan tvö mörk í leiknum, og Thomas Morris „Tom“ Lawrence. Wilson fór síðan útaf rétt eftir seinna markið sitt fyrir Van Persie, sem skoraði þriðja mark United í 3-1 sigri, og Lawrence fór út af stuttu síðar fyrir Ryan Giggs. Ryan Giggs varð þar með annar spilandi stjóri Manchester United í sögu félagsins. Hinn fyrri var Clarence „Lal“ Hilditch. Sá byrjaði að spila með Manchester United árið 1916, var fyrirliði liðsins frá 1919-1922 (þangað til Frank Barson tók við bandinu) og tók svo við sem stjóri árið 1926 eftir að þáverandi stjóri félagsins, John Chapman, var sendur í bann af knattspyrnusambandinu fyrir óviðeigandi framkomu. Það var ekkert verið að hafa fyrir því að útskýra nánar hvaða framkomu um ræddi. Hilditch stýrði liðinu í 30 leikjum, vann 9 þeirra, gerði 7 jafntefli og tapaði 14. Eftir það tók Herbert Bamlett við liðinu en Hilditch spilaði áfram með United til ársins 1932.
Ryan Giggs spilaði hins vegar ekki meira. Hann kláraði síðustu 20 mínúturnar í þessum leik og það voru hans síðustu mínútur á vellinum fyrir Manchester United. En hann fór nú ekki langt og er enn hjá félaginu, bara í aðeins öðruvísi hlutverki núna. Þarna gaf hann landa sínum Lawrence tækifæri. Tom Lawrence varð þar með 43. leikmaðurinn frá Wales til að spila fyrir Manchester United. Ryan Giggs var sjálfur Walesverji númer 40. Sá fyrsti sem kom frá Wales til að spila fyrir Manchester United var John „Jack“ Powell. Powell kom frá velska bænum Ffrwd (aha, það er í alvöru til orð í velskri tungu sem er „ffrwd“… orðið þýðir lítill lækur og nei, ég hef ekki minnstu hugmynd um hvernig það er borið fram) og spilaði fyrir Newton Heath á árunum 1886-1891, var meðal annars fyrirliði liðsins um tíma. Það má því segja að United (og Heath) hafi átt í góðu sambandi við velska knattspyrnumenn í um það bil 130 ár. Eins og gefur að skilja hafa þeir reynst misvel og mislengi. En margir þeirra hafa gert frábæra hluti fyrir félagið. Þannig var það til dæmis um þann 13. í röðinni.
Árið 1905 var alls ekki gott fyrir Manchester City. Eftir tímabilið komu fram ásakanir þess efnis að leikmenn liðsins hefðu reynt að múta leikmönnum Aston Villa til að tapa lokaleiknum í deildinni, City þurfti að sigra þann leik til að eiga nokkurn séns á að vinna deildina. Fyrirliðið City, Walesverjinn William Henry „Billy“ Meredith átti að hafa boðið fyrirliða Villa, Alexander „Alex“ Leake, 10 pund ef lið hans myndi leyfa City að vinna. Málið fór fyrir knattspyrnusambandið og þar hélt Billy fram sakleysi sínu. Hann var engu að síður dæmdur í 18 mánaða keppnisbann. Hann var alls ekki sáttur, sérstaklega ekki við félagið sitt sem honum fannst hafa sýnt sér lítinn sem engan stuðning. Hann lét því knattspyrnusambandið vita af því að Manchester City hefði verið að greiða leikmönnum liðsins laun umfram launaþakið alræmda sem var til staðar á þeim tíma. Knattspyrnusambandið brást við því með því að sekta félagið um háar fjárhæðir og dæma ýmsa stjórnarmenn og leikmenn liðsins í ævilöng bönn frá aðkomu að knattspyrnu. Manchester City neyddist því til að selja nokkra af sínum bestu leikmönnum.
Manchester United var á þessum tíma í uppsveiflu. Aðeins nokkrum árum áður höfðu þeir Harry Stafford og Major bjargað félaginu með því að finna fjárfestinn John Henry Davies (sjá 3. desember). Þá var nafni félagsins líka breytt í Manchester United. Sama ár, 1903, hafði Davies líka ráðið nýjan stjóra þegar Ernest Mangnall kom frá Burnley. Félagið stefndi hátt og vorið 1906 endaði það í 2. sæti 2. deildar sem þýddi pláss í 1. deildinni. Þá fór félagið þegar í stað að leita að leikmönnum sem gætu styrkt hópinn fyrir komandi átök í deildinni. Markmiðið var ekki einfaldlega að halda sér uppi, markmiðið var stærra og flottara en það.
Manchester City hafði unnið enska bikarinn vorið 1904. Það hafði á að skipa mörgum prýðilegum leikmönnum, sérstaklega í framlínunni. Billy Meredith var þeirra skærasta stjarna fyrir hneykslið. Hann var mjög leikinn hægri útherji og vinsæll meðal áhorfenda. Árið 1904 stóð enskt knattspyrnutímarit fyrir viðamikilli könnun til að komast að því hver væri vinsælasti leikmaðurinn í ensku deildinni. Billy vann það og má segja að hann hafi verið fyrsta almennilega knattspyrnustjarnan í boltanum. Hann var sannur skemmtikraftur og nýtti knattspyrnuhæfileikana í bland við afburðargott líkamlegt form til að spila leiftrandi hraðan og hugmyndaríkan fótbolta. Áhorfendur voru farnir að mæta á völlinn bara til að sjá hann spila.
Í maí 1906 samdi Billy Meredith við Manchester United, þrátt fyrir að vera ennþá að taka út leikbann. Ásamt honum komu einnig innherjarnir Sandy Turnbull og Jimmy Bannister ásamt varnarmanninum Herbert Burgess frá City til United. Á þessum tíma var Billy Meredith að verða 32 ára gamall svo það hefði líklega verið nokkuð eðlilegt að áætla sem svo að Billy ætti kannski 2-3 ár eftir en gæti mögulega nýtt reynsluna í að hjálpa United á einhvern hátt. Hafi einhver hugsað svoleiðis þá var það vægast sagt mjög varlega áætlað.
Billy spilaði sinn fyrsta leik fyrir United á nýársdag 1907 og hélt upp á nýja árið með því að leggja upp mark fyrir Sandy Turnbull. United endaði tímabilið í 8. sæti. Tímabilið eftir það spilaði United svo mjög vel. Mangnall hafði styrkt liðið skynsamlega með því að fá inn sóknarmanninn Jimmy Turnbull. United endaði á að vinna deildina með töluverðum yfirburðum, að lokum munaði 9 stigum á United og Aston Villa, sem lenti í 2. sæti. Á þeim tíma voru gefin 2 stig fyrir sigra. Sá sigur þýddi að United spilaði um góðgerðarskjöldinn í fyrsta skiptið sem spilað var um hann, árið 1908. Þar mætti United QPR og vann leikinn 4-0. Tímabilið eftir það endaði United í 13. sæti. Billy missti af öllum janúarmánuði með liðinu þar sem hann fór í bann eftir að hafa sparkað í leikmann Brighton & Hove Albion í bikarleik. Það spark hefur kannski virkað hvetjandi á liðsfélaga Billy því United fór alla leið í bikarnum það árið og vann Bristol City í úrslitaleiknum.
Í kjölfarið fylgdi ýmislegt skemmtilegt. Billy var í forgrunni stéttarbaráttu knattspyrnumanna sem endaði með verkfalli og The Outcasts FC (sjá 11. desember), Manchester United flutti yfir á Old Trafford og tímabilið 1910-11 var liðið aftur komið í toppbaráttu. Í þetta skiptið stakk United þó ekki af með titilinn. Í lokaumferðinni kom Manchester United inn í leik gegn Sunderland vitandi það að þeir þurftu sigur og ekkert annað, eftir að hafa tapað næst síðasta leiknum gegn aðalkeppinautunum í Aston Villa. Aston Villa mátti jafnframt ekki vinna sinn leik í lokaumferðinni, gegn Liverpool. Útlitið virtist ekkert alltof gott þegar Sunderland komst yfir í leiknum. En Billy leiddi sína menn áfram og átti frábæra fyrirgjöf utan af hægri kantinum á Enoch West sem skallaði inn jöfnunarmarkið. United gekk á lagið og skoraði 4 mörk í viðbót. Á meðan náði Villa ekki að vinna sinn leik og United því meistarar aftur. Í kjölfarið vann United sinn annan góðgerðarskjöld, í þetta skiptið með því að vinna Swindon Town 8-4. Þetta er enn í dag markahæsti leikur um góðgerðarskjöldinn í sögunni. Framherjinn Harold Halse setti met þann dag með því að skora 6 mörk. Það er metfjöldi marka í góðgerðarskildinum og metfjöldi marka sem leikmaður Manchester United hefur skorað í einum leik. Það met var ekki jafnað fyrr en árið 1970 þegar George Best skoraði 6 mörk í leik gegn Northampton Town.
Mangnall yfirgaf svo United árið 1912 og fór til nágrannanna í City. Eftir það gekk ekki eins vel hjá United. Liðið var mikið í miðjumoði og tímabilið 1914-15 náði það rétt svo að bjarga sér frá falli með því að vinna Liverpool í lokaumferðinni. Í kjölfarið á þeim leik kom reyndar fram annað mútumál þar sem leikmenn United mútuðu leikmönnum Liverpool til að tapa þeim leik. Í þetta skiptið kom Billy hins vegar ekki nálægt málinu, honum þótti hins vegar grunsamlegt hvernig hans eigin leikmenn neituðu algjörlega að gefa á hann í leiknum. Í kjölfarið voru 7 leikmenn, 3 frá United og 4 frá Liverpool, dæmdir í ævilöng keppnisbönn vegna þessa máls. En þegar þarna kom við sögu hafði fyrri heimsstyrjöldin brotist út og því var engin formleg fótboltadeild í gangi næstu 4 árin. Á þessum tíma var Billy Meredith kominn í deilur við United vegna þess að illa gekk hjá United að greiða Billy pening sem hann átti að fá vegna heiðursleiks sem spilaður var árið 1912. Í stríðsdeildinni sem var í gangi þarna spilaði Billy meðal annars gegn United sem gestaleikmaður með Port Vale. Hann spilaði einnig sem gestaleikmaður fyrir Manchester City og heimtaði að fá frjálsa sölu frá félagin vegna brots á samningum. Manchester United neitaði og það jók enn á hörku Billy í að berjast fyrir réttindum leikmanna í eigin samningsmálum og félagaskiptum.
Billy spilaði 2 tímabil í viðbót með United eftir að fótboltinn fór aftur í gang í kjölfar stríðsins. Það sem virtust aðeins ætla að verða nokkur ár urðu að 11 tímabilum á 15 árum. 7. maí 1921 spilaði hann síðasta leik sinn fyrir United, 46 ára og 281 dags gamall. Hann er enn í dag elsti leikmaður sem hefur spilað fyrir Manchester United. Og hann var ekki einu sinni hættur. Eftir að hann hætti að spila með United fór hann aftur yfir til Manchester City. Þar spilaði hann í 3 tímabil til viðbótar. Árið 1924 spilaði hann síðasta leikinn fyrir City, bikarleik gegn Newcastle. Þá var hann 49 ára og 245 daga gamall. Það er einnig ennþá met yfir elsta leikmann City til að spila leik. Á undan þessu hafði hann reyndar einnig náð að setja sambærilegt met með landsliðið Wales sem enn stendur, 45 ára og 229 daga gamall. Hann spilaði 27 tímabil í ensku knattspyrnunni, þrátt fyrir að hafa misst af 4 tímabilum vegna stríðs og rúmlega 1 tímabili vegna banns.
Helsta ástæðan fyrir þessari rosalegu endingu í knattspyrnunni var að hann var í afburðargóðu líkamlegu formi, sérstaklega miðað við þennan tíma. Hann hafði alist upp á námusvæði og vann á unglingsárum í námunum. Þar byggði hann upp krafta og þrek. Hann passaði líka alltaf vel upp á heilsuna, hugaði mikið um hvað hann lét ofan í sig og forðaðist til að mynda áfengi algjörlega. Hann hafði einstakt jafnvægi fyrir fótboltamann og var nógu fimur til að víkja sér undan harkalegum og klaufalegum tæklingum sem gátu verið ansi algengar á þeim tíma. Þannig náði hann að forðast meiðsli allan sinn feril. Þegar kom að boltatækni og -leikni var hann á undan sínum tíma, hann gat nýtt sér alla sína líkamlegu kosti auk hraðans og leikskilningsins sem hann hafði til að taka menn grimmt á. Auk þess hafði hann fyrirgjafir sem sáust varla nokkurs staðar, slík voru gæðin. Ef fyrirgjafirnar komu hins vegar vinstra megin frá þá átti hann það til að koma vaðandi inn af hægri kantinum til að mæta boltanum tilbúinn að taka hann á lofti af krafti, oftar en ekki með góðum árangri.
Framan af ferli átti Billy það til að tyggja munntóbak í gríð og erg í leikjum. Hann neyddist þó til að hætta því þegar þeir sem sáu um að þrífa búninga voru farnir að neita að þrífa tóbaksklesstar treyjurnar. Seinna tók hann upp á því að naga tannstöngla í leikjum. Hann sagði að það hjálpaði sér að halda einbeitingu. Það þarf ákveðið level af töffaraskap til að púlla það að naga tannstöngul í fótboltaleikjum, þessi gaur var með svoleiðis í gámavís. Hann átti það líka til að spjalla við áhorfendur úti á hliðarlínunni ef boltinn var annars staðar á vellinum.
Billy var alltaf fullur sjálfstrausts. Hann vissi að hann var bestur og var óhræddur við að segja það. Hann hafði sterkar skoðanir á hlutunum og sagði hiklaust það sem honum fannst, sama hvort það kom honum í vandræði eða ekki. Hann var mikill baráttumaður, hann barðist fyrir rétti annarra leikmanna til að þurfa ekki að búa við launaþak og rétti þeirra til að hafa eitthvað að segja um eigin félagaskipti. Honum fannst líka sjálfsagt mál að hann ætti skilið að fá hærri laun, að þeir leikmenn sem væru bestir ættu að fá laun í samræmi. Að þeir leikmenn sem leggðu mest á sig til að sinna sinni vinnu, knattspyrnunni, sem best, ættu ekki að búa við það að fá sömu hámarkslaun og þeir leikmenn sem höfðu ekki sama aga og metnað eða vilja og nennu. Billy æfði líka alltaf mikið. Og sú æfing skilaði sér. Þegar hann var ungur leikmaður var ein æfingin sem hann gerði mikið af að fá félaga sinn til að setja vasaklút á mismunandi staði innan vítateigsins til að Billy gæti æft sig að taka hornspyrnur. Slík var nákvæmnin í spyrnum hans að hann var farinn að hitta klútinn í hvert einasta skipti.
Billy Meredith var fyrsta knattspyrnustjarnan, fyrsta knattspyrnuhetjan, fyrsta knattspyrnugoðsögnin. Bæði í ensku deildinni og hjá Manchester United. Hann hafði viðhorf, töffaraskap og sjálfstraust sambærilegt við Eric Cantona en með knattspyrnuhæfileika eins og George Best síns tíma. Það var því afskaplega viðeigandi að hann skildi vera hægri útherji. Á þeim tímum þegar leikmenn höfðu ekki föst númer þá fengu þeir númer eftir því hvaða stöðu þeir spiluðu á vellinum. Og hægri útherjar, hægri kantmenn mætti kalla þá í dag, spiluðu alltaf í treyjum númer 7. Auðvitað spilaði fyrsta alvöru knattspyrnustjarna United í treyju númer 7, það kom aldrei neitt annað til greina.
En Bjúgnakrækir, segiði? Bjúgnakrækir virðist ekki eiga vel við í fljótu bragði. Jafn heilsumeðvitaður maður og Billy Meredith var hefði líklega seint farið að gleypa í sig mikið af bjúgum. En það var fleira spunnið í Bjúgnakræki:
Níundi var Bjúgnakrækir,
brögðóttur og snar.
Hann hentist upp í rjáfrin
og hnuplaði þar.
Á eldhúsbita sat hann
í sóti og reyk
og át þar hangið bjúga,
sem engan sveik.
Það er margt í þessu sem má taka út þótt sjálf bjúgun eigi ekki beint við. Líkt og Bjúgnakrækir var Billy brögðóttur og snar. Hann hentist upp í rjáfur, eða hvert sem hann vildi, ef hann var að spila fótbolta. Hann hnuplaði boltum af andstæðingum og rændi af þeim ýmsu á knattspyrnuvellinum.
Á eldhúsbita sat hann í sóti og reyk, það er vísun í námuvinnuna frá Wales. Þrátt fyrir að hann hafi verið knattspyrnustjarna á heimsmælikvarða þá átti hann auðmjúkar verkamannarætur. Og hann gleymdi þeim aldrei nokkurn tímann. Eftir að United vann enska bikarinn árið 1909 fékk hann að fara með bikarinn í gamla heimabæinn sinn, Chirk í Wales. Lokavísunin í erindinu, um hangið bjúga sem engan sveik, er ansi mögnuð í samhengi við Billy. Henging þrátt fyrir að hafa engan svikið. Eins og leikbann fyrir ásakanir um svindl og svik sem áttu kannski ekki við rök að styðjast eftir allt saman…
Aukaefni:
Úrslitaleikurinn í bikarnum 1909 endurleikinn í eftirlíkingum af upphaflegu búningunum:
Manchester United mætir West Ham í bikarnum 1911:
Newcastle gegn Manchester City í bikarnum 1924. Síðasti leikur Billy Meredith, þarna er hann rétt tæplega fimmtugur:
Jólamynd dagsins
Billy Meredith fékk viðurnefnið The Welsh Wizard. Þá er um að gera að velja töfraþematengda jólamynd. Ein slík er myndin One Magic Christmas frá árinu 1985. Það er jólamynd dagsins:
Jólalag dagsins
Jólalagið Deck the Halls er upphaflega velskt, frá 16. öld. Enskur texti kom fyrst fram á 19. öldinni. Það er jólalag dagsins:
Bjarni Ellertsson says
Grjóthörð motta, það eru fáir í nútímabolta sem myndu púlla það að vera með mottu.
Halldór Marteinsson says
Hugsaðu þér þá einhvern með mottu og tannstöngul… Ekki séns að einhver myndi púlla það núna.