Steve Bruce
Þá er komin Þorláksmessa. Skötudagurinn. Eitt sinn var hann líka panikverslunardagurinn fyrir þá sem föttuðu að þeir ættu eftir að kaupa jólagjöf/gjafir en þar sem sífellt fleiri verslanir eru með opið frameftir á aðfangadag hefur dreifst aðeins úr álaginu á þá sem eru á síðustu stundu með gjafainnkaupin. Þetta er dagurinn þar sem hátíðleiki jólana svífur í loftinu. Jólakveðjurnar eru lesnar á Rás 1, Bubbi heldur Þorláksmessutónleikana sína, miðbærinn í Reykjavík fyllist af fólki sem flest er í jólaskapi þótt alltaf séu stressboltar inn á milli. Þorláksmessan er svona eins og stefið á undan leik í meistaradeildinni, gefur tóninn og keyrir tilhlökkunina upp í 11.
Manchester United hefur spilað 16 leiki á Þorláksmessu í gegnum tíðina. 6 þeirra hafa verið heimaleikir og 10 útileikir. 4 leikjanna voru í úrvalsdeildinni, 7 í gömlu fyrstu deildinni, 4 í gömlu 2. deildinni og einn var í deildarbikarnum. United hefur unnið 5 þessara leikja, gert 6 jafntefli og tapað 5. Það er þó ósigrað í síðustu 7 Þorláksmessuleikjum. Sá síðasti var leikur gegn Swansea árið 2012, sá leikur endaði með jafntefli. Evra skoraði mark United en Michu jafnaði fyrir Swansea. Síðasti tapleikur á Þorláksmessu kom í eina deildarbikarleiknum á deginum, gegn Aston Villa árið 1970. Fyrsti leikur félagsins á þessum degi kom árið 1893, útileikur gegn Preston North End. Þá var Newton Heath á sínu öðru tímabili í deildarkeppni og átti um vorið eftir að lenda í neðsta sæti deildarinnar, annað árið í röð. Þegar kom að þessum leik hafði liðið tapað 5 leikjum í röð. Sá sjötti bættist við þegar Preston North End vann leikinn 2-0 og á endanum varð taphrinan að 11 leikjum í röð, frá nóvember og fram í miðjan mars. Í leikjunum 16 hefur United skorað 21 mark og fengið 17 á sig. Liðinu mistókst að skora í 3 leikjum af 16 en hélt hreinu í 5 leikjanna.
Þennan dag arkar líka til byggða á Íslandi jólasveinn sem heitir Ketkrókur. Þrátt fyrir að hann hafi fengið úthlutað Þorláksmessu þá er hann hreint enginn skötukall. Hann vill kjötið, helst vel reykt og útilátið hangikjötslæri.
Ketkrókur, sá tólfti,
kunni á ýmsu lag.
Hann þrammaði í sveitina
á Þorláksmessudag.
Hann krækti sér í tutlu,
þegar kostur var á.
En stundum reyndist stuttur
stauturinn hans þá.
Tólfti maðurinn í jólasveinasveitinni. Tólfan. Tólfan kemur á Þorláksmessu. Okkur leiðist það ekki. Hann hafði alltaf með sér góðan krók sem hann notaði til að veiða hangikjötslæri sem hengd voru við strompinn. Þá borgaði sig nú að hafa krókinn nógu langan.
Ketkrókur er afar mikið fyrir góðan mat, mikill matgæðingur. Það á hann sameiginlegt með fyrrum hetju Manchester United, Stephen „Steve“ Roger Bruce. Steve Bruce á það reyndar líka sameiginlegt með Ketkróki að vera mikill jólakall. Desember hefur oftar en ekki verið ansi merkilegur mánuður fyrir kallinn, ekki síst það sem snýr að Manchester United.
Steve Bruce fæddist í Corbridge í Northumberland 31. desember 1960, á 19 ára afmælisdegi Alex Ferguson. Faðir hans kom frá Corbridge en móðir hans var frá Norður-Írlandi. Bruce byrjaði að æfa fótbolta eins og fleiri strákar og varð efnilegur miðjumaður þegar hann spilaði með Wallsend Boys Club. Á unglingsárum fór hann að reyna að finna sér atvinnumannalið til að komast í unglingastarf einhvers staðar. Lið eins og Newcastle United, Sunderland, Derby County og Southport höfnuðu honum öll, þeim þótti hann of lítill. Hann var við það að gefast upp á fótboltanum og hafði ráðið sig sem nema hjá pípara þegar þriðjudeildarliðið Gillingham bauð honum að koma til þeirra á reynslu. Hann gerði það og gekk í kjölfarið til liðs við unglingaakademíuna þeirra. Þegar hann hafði svo aldur til gerði hann atvinnumannasamning við liðið. Áður en það gerðist hafði hann samt verið færður úr stöðu miðjumanns og í miðvarðarhlutverkið. Hann spilaði rúmlega 200 leiki fyrir Gillingham og fór þaðan til Norwich City árið 1984. Þar varð hann fyrirliði og var meðal annars valinn leikmaður ársins hjá félaginu.
Seint á árinu 1987 var hann töluvert í fréttum þar sem sagt var frá að ýmsir klúbbar vildu fá hann til sín. Meðal félaga voru Tottenham Hotspur, Chelsea og Glasgow Rangers. Manchester United vildi líka fá hann og þegar hann sjálfur lýsti því yfir opinberlega að hann langaði mest af öllu að fara til United varð eftirleikurinn ljós. Það var einmitt í desember 1987 sem hann fór yfir til United. 17. desember voru félagaskiptin kláruð og 19. desember spilaði Bruce sinn fyrsta leik fyrir félagið í 2-1 sigurleik gegn Portsmouth. Bryan og Brian skoruðu mörk United í leiknum. Bruce varð strax lykilleikmaður hjá United og algjör klettur í vörninni. Ekki síst þegar hann fékk félaga sinn Gary Pallister með sér í lið árið 1989. Saman voru þeir Dolly og Daisy eitt besta miðvarðapar sem United hefur séð og lögðu grunninn að því liði sem vann svo ensku deildina í fyrsta skipti í 26 ár.
Bruce spilaði einn Þorláksmessuleik fyrir Manchester United. Það var á tímabilinu 1989-90 og var útileikur gegn Liverpool. Þegar sá leikur fór fram hafði United ekki unnið síðustu 4 leiki á undan, þar af tapað 3 í röð. Leikurinn á Anfield endaði 0-0 og United þurfti að bíða fram að 10. febrúar eftir næsta sigri. Í þessari 11 leikja hrinu gerði United 5 jafntefli og tapaði 6 leikjum. Þarna gustaði heldur betur um Ferguson og hann þótti alls ekki öruggur í starfi. Að lokum endaði liðið í 13. sæti deildarinnar. En það gekk betur í bikarnum þar sem United fór alla leið og vann bikarinn.
Alls var Bruce 9 tímabil hjá Manchester United. Á þeim tíma spilaði hann 414 leiki fyrir félagið. Það þýðir að hann er í 23. sæti yfir leikjahæstu leikmenn Manchester United (Pally er í 20. sætinu með 437 leiki). Þorláksmessa er einmitt 23. desember. Tilviljun? Kannski. Kannski ekki. Af þessum 414 leikjum sem Bruce spilaði fyrir félagið voru 44 þeirra spilaðir í desember. Af desemberleikjum Steve Bruce vann United 19 þeirra, gerði 15 jafntefli og tapaði 10. Markatalan í þessum leikjum var 84-54.
Bruce fannst alltaf gaman að skora mörk. Hann skoraði 51 mark fyrir félagið, mörg þeirra ansi mikilvæg. Frægustu mörk hans eru líklega skallamörkin 2 sem hann skoraði í leiknum gegn Sheffield Wednesday 10. apríl 1993. Fyrir þann leik var liðið í 2. sæti deildarinnar og Wednesday komst yfir í leiknum. En með viðsnúningnum frá Bruce í lokin komst liðið upp í efsta sæti deildarinnar. Þrátt fyrir að 5 leikir væru eftir þá hélt liðið því sæti til loka tímabils og það var langþráð stund hjá United aðdáendum þegar Bruce og Robson lyftu dollunni í næst síðustu umferðinni eftir leik gegn Blackburn á heimavelli.
Tímabilið 1990-91 fann Bruce mark andstæðingana óvenju oft. Hann var markahæsti leikmaður liðsins í deildinni með 13 mörk, ásamt Brian McClair. Í öllum keppnum var hann með 19 mörk. Hann skoraði til dæmis 3 mörk í desember þetta tímabilið, öll úr vítum.
Hann var mjög sigursæll hjá Manchester United. Hann varð 3 sinnum deildarmeistari, 3 sinnum bikarmeistari, 1 sinni varð hann Evrópumeistari bikarhafa, 1 sinni sigurvegari í evrópska ofurbikarnum, 1 sinni enskur deildarbikarmeistari og 3 sinnum vann hann góðgerðarskjöldinn. Hann varð fyrsti Englendingurinn á 20. öldinni til að vera fyrirliði liðs sem vann tvennuna, deild og bikar. Hann fór frá United til Birmingham árið 1996 og spilaði 2 tímabil þar áður en hann kláraði fótboltaferilinn með 1 tímabili hjá Sheffield United 1998-99. Alls spilaði hann 926 knattspyrnuleiki á ferlinum og skoraði í þeim 113 mörk.
Hjá Sheffield United varð hann spilandi stjóri liðsins árið 1998. Frá þeim tíma hefur hann verið með stöðu knattspyrnustjóra svo gott sem allan tímann. Hann var eitt tímabil hjá Sheffield United áður en hann færði sig yfir til Huddersfield Town. Þá tók við stuttur kafli hjá Wigan og annar stuttur hjá Crystal Palace áður en hann fór til Birmingham City í desember 2001. Þar var hann í tæp 6 ár áður en hann fór aftur til Wigan. Árið 2009 færði hann sig yfir til Sunderland og tók svo við Hull í júní 2012 þar sem hann hefur verið síðan. Á þessum tíma hefur hann mætt Manchester United 22 sinnum. Hann hefur ekki enn unnið leik gegn sínu gamla félagi, er greinilega enn með forgangsröðunina á réttum stað. Árangur hans gegn United er 0 sigrar, 5 jafntefli og 17 töp. Á móti hefur hann náð í 1 sigur og 5 jafntefli gegn Chelsea, 2 sigra og 5 jafntefli gegn Arsenal, 4 sigra og 5 jafntefli gegn Manchester City og 6 sigra og 9 jafntefli gegn Liverpool.
Jólagjafir eru hjá flestum á Íslandi hluti af jólahaldinu. Fjölskylda og vinir skiptast á gjöfum til að gleðja, það er hugurinn sem skiptir mestu máli. Bækur eru alltaf vinsælar í jólapakkann og jólabókaflóðið hvert ár er heill iðnaður útaf fyrir sig. Í desember fara bækurnar að flæða um bókabúðir jafnt sem matvöruverslanir. Enda er ansi ljúft að eyða aðfangadagskvöldi og lunganu úr jóladegi í algjörri afslöppun með góða bók til að skemmta manni.
Þetta veit Steve Bruce. Tímabilið 1999-2000 var fyrsta tímabilið eftir að hann lagði skóna á hilluna. Hann var hættur hjá Sheffield United og tekinn við stjórahlutverkinu hjá Huddersfield Town. En hann fann að það vantaði eitthvað í líf sitt, hann fann hjá sér einhverja löngun, einhverja þörf, einhverja köllun. Svo hann skrifaði bók.
Í desember 1999 kom út fyrsta skáldsagan eftir Steve Bruce. Það var harðsoðinn reyfari, ein af þessum glæpasögum sem gerast innan knattspyrnuheimsins. Bókin heitir Striker! (jújú, með upphrópunarmerki) og fjallar um fyrrverandi atvinnumann í knattspyrnu sem heitir Steve Barnes. Þegar bókin byrjar er Steve Bruce, ég meina Steve Barnes, að stýra knattspyrnuliðinu Leddersford Town (einnig stundum skrifað í bókinni sem Leddersfield Town) en þarf að stóla á rannsóknarlögregluhæfileika sína þegar ungur sóknarmaður liðsins finnst myrtur og grunur fellur á Barnes. Hann þarf að hreinsa eigið mannorð, finna hinn rétta morðingja og undirbúa lið sitt undir mikilvægan leik í baráttunni um að komast upp um deild. Og allt þetta þarf hann að gera á aðeins 5 dögum! Hljómar eins og uppskrift að hinni fullkomnu afþreyingarbók.
Það læðist að manni sá grunur að Steve Bruce hafi séð dálítið af sjálfum sér í aðalkarakternum. Steve Bruce, framkvæmdastjóri Huddersfield Town varð að Steve Barnes, framkvæmdastjóra Leddersford/Leddersfield Town. Í bókinni talar Barnes um það hvernig hann vann ensku deildina og ýmsa fleiri titla með því fræga liði Mulcaster United. Þessi bók er 128 blaðsíðna rússíbanareið. Held það sé nokkuð ljóst að maður þarf að redda sér þessari bók. Það gæti hins vegar reynst heldur erfitt þar sem hún er svo gott sem ófáanleg núna og þegar það detta inn notuð eintök á Amazon eða sambærilegar vefsíður þá er verðið ekki það lægsta. Enda um stórmerkilegan safngrip að ræða. Og sem smá bónus-trivia þá kom bókin út 17. desember 1999, nákvæmlega 12 árum, upp á dag, eftir að Bruce skrifaði undir samning við Manchester United.
Og Brúsi kallinn var ekki einu sinni hættur. Þegar hann einu sinni byrjaði þá flæddi þetta úr honum. Rétt tveimur mánuðum eftir að Striker! kom út sendi hann frá sér aðra bók. Þessi bók heitir Sweeper! (aftur með upphrópunarmerki, þegar búið að negla niður nafnahefðina) og í henni er Barnes aftur lentur í hringiðu æsispennandi atburða. Í þetta skipti þarf Barnes að rannsaka morð á gömlum starfsmanni félagsins Leddersfield Town. Auk þess blandast mannræningjar og nasistaveiðarar einhvern veginn inn í líf Barnes þegar hann er í miðri undirbúningsvinnu fyrir annan mikilvægan knattspyrnuleik. Inn á milli hasarsins þarf Barnes því að vega og meta kosti þess að nota sweeper í 5-3-2 uppstillingu í leiknum sem framundan er. Sweeper! er því miður jafn erfitt að nálgast og Striker! Á Amazon.co.uk má þó nálgast notuð eintök á verði frá 137 pundum (um 26.700 ÍSK) og upp í 226,68 pund (43.865 ÍSK). Ef einhvern vantar hugmynd að veglegri og ógleymanlegri jólagjöf þá er hún hér komin.
Æstir aðdáendur bókaseríunnar þurftu ekki að bíða lengi eftir næstu viðbót. Aðeins tveimur mánuðum eftir að Sweeper! kom út kom þriðja bókin út. Hún heitir Defender! og í henni hverfur varnarmaður sporlaust rétt fyrir mjög mikilvægan leik. Var honum rænt eða var hann einfaldlega að skrópa? Gæti þetta jafnvel verið morð…? Eitt er víst, við getum treyst á að hetjan Steve Barnes gengur í málið. Hann munar ekkert um að leysa enn eina ráðgátuna á milli þess sem hann reynir að stýra liðinu upp í næstu deild fyrir ofan.
Framan af þessu 1999-2000 tímabili gekk Steve Bruce mjög vel að stýra Huddersfield. Liðið var til dæmis í efsta sætinu um jólin. En þá lenti liðið í alvarlegum meiðslavandræðum. Steve Bruce var auk þess bæði upptekinn í þessu bókastússi auk þess að vera á sama tíma að vinna hjá BBC við umfjöllun um þátttöku Manchester United í heimsmeistaramóti félagsliða. Gengi liðsins dalaði og á endanum hafnaði það í 8. sæti og rétt missti af sæti í umspili um að komast upp í úrvalsdeildina. Vinsældir Bruce döluðu í kjölfarið og hann hætti sem stjóri félagsins í október sama ár. Þetta er samt talið vera eitt af betri tímabilum félagsins í seinni tíð og það næsta sem félagið hefur komist því að komast í efstu deildina. Það þótti þó sérstaklega erfitt að kyngja því að í síðustu tveimur umferðunum tapaði Huddersfield mikilvægum leikjum gegn Stockport County á heimavelli og Fulham á útivelli. Sigur í öðrum hvorum leiknum hefði komið Huddersfield í umspilssæti.
Það leitar á mann sú hugsun að Steve Bruce hefði á þeim tímapunkti átt að staldra aðeins við og spyrja sjálfan sig:
Hvað myndi Steve Barnes gera?
Aukefni:
Manchester United gegn Sheffield Wednesday, 10. apríl 1993. Bruce to the rescue!
Steve Bruce með myndbandsdagbók árið 1993. Bak við tjöldin hjá honum og United (ca. hálftími)
Fyrirliðinn Steve Bruce
Jólamynd dagsins
Árið 1990 var gott ár fyrir Steve Bruce. Um jólin var hann á góðri leið með að verða markahæsti leikmaður ríkjandi bikarmeistara United í deildinni. Þá kom einnig út kvikmyndin Edward Scissorhands eftir Tim Burton. Hún er jólamynd dagsins
Jólalag dagsins
Alex Ferguson gaf þeim Bruce og Pallister gælunöfnin Dolly & Daisy. Þá er nú um að gera að velja eitthvað gott með köntrídrottningunni Dolly Parton. Hún gaf árið 1984 út jólaplötuna Once Upon a Christmas með Kenny Rogers. Virkilega skemmtileg plata. Lagið Christmas Without You var gefið út sem smáskífa, náði miklum vinsældum og er enn spilað reglulega yfir jólalagatímabilið. Þetta lag er jólalag dagsins
Skildu eftir svar