Á morgun mætir góðvinur Louis van Gaal, Ronald Koeman með Southampton-liðið sitt á Old Trafford á morgun. Frá því að Southampton-liðið tryggði sér sæti í Úrvalsdeildinni árið 2012 hafa viðureignir þessara liða verið hin besta skemmtun og vonandi verður engin breyting þar á morgun.
En áður en ég fjalla um viðureignina á morgun verð ég að fá að snerta aðeins á sögusögnum sem fóru á fullt á Twitter í gær.
Fundaði United með Pep?
Þetta flaug út um allt á Twitter í gær eftir að franskur blaðamaður að nafni Thierry Merchand lét það flakka að forráðamenn United hefðu hitt Pep á Hotel Bristol í París, væntanlega til að ræða það hvort að hann væri til í að taka við sem knattspyrnustjóri United. [footnote]Með Woodward við stjórnvölinn er þó ekki útilokað að forráðamenn United hafi hitt Pep til þess að ræða hvort hann væri ekki til í að kaupa auglýsingu á Old Trafford.[/footnote]
Staða Louis van Gaal er náttúrulega enn frekar völt þrátt fyrir að liðið hafi rétt úr kútnum að undanförnu og því hefur velt upp hvort að hann muni hætta með liðið í sumar. Pep Guardiola er líklega draumakandídat flesta í starfið enda virðist allt sem hann snertir vinna titla.
Það vill svo skemmtilega til að hann er á lausu eftir tímabilið en hann ætlar að hætta með Bayern. Flestir telja líklegast að hann endi hjá City enda hafa menn þar á bæ unnið leynt og ljóst að því undanfarin ár að lokka hann til sín, m.a. með því að ráða samstarfsmenn Pep frá Barcelona í æðstu stöður hjá City.
Ef rétt er að þessi fundur á milli United hafi átt sér stað er frábært að sjá að forráðamenn United eru að taka þau skref sem þarf til þess að koma United aftur á toppinn. Að ráða Pep yrði RISASTÓRT skref í þá átt.
Pep Guardiola meets with Manchester United – what you should make of last night’s claims from L’Équipe du Soir https://t.co/S0ko31QSeE
— Get French Football (@GFN_France) January 22, 2016
Auðvitað ber að taka fréttum af þessum fundi með fyrirvörum. Jafnvel þó að vel upplýstur blaðamaður France Football haldi því fram þarf það auðvitað ekki að þýða að fundurinn hafi átt sér stað. Einnig er ekki erfitt að gera sér í hugarlund að jafnvel þó að fundurinn hafi átt sér stað hafi Pep einfaldlega sagt United að hann hafi valið City, hver veit?
Við hér hjá á Rauðu djöflunum er hinsvegar bjartsýnismenn og vonum auðvitað að United sé að gera allt sem þarf til þess að tryggja það að Pep Guardiola verði næsti stjóri Manchester United.
Forráðamenn United hafa að sjálfsögðu neitað því að þessi fundur hafi átt sér stað og komið þeim skilaboðum áleiðis til flestra miðla í Bretlandi. Það eitt og sér þýðir akkúrat ekki neitt enda myndi United alltaf neita því að hafa fundað með Pep. Skemmst er að minnast þess að United neitaði því að hafa fundað með Louis van Gaal vorið 2014.
Við vitum öll hvernig það endaði.
En aftur að aðalmálinu
Southampton er að koma á Old Trafford.
Eins og ég sagði áðan hafa viðureignir þessara liða frá því að Southampton kom upp verið hin besta skemmtun. Hver man ekki eftir því þegar Robin van Persie skoraði þrennu til að tryggja United glæsilegan comeback-sigur á St. Mary’s haustið 2013?
Hver man ekki eftir því þegar Robin van Persie stal fullkomlega óverðskulduðum þremur stigum á St. Mary’s veturinn 2014?
Fyrri viðureign þessara liða á tímabilinu í september var einnig góð og að mínu mati með betri leikjum United á tímabilinu. Southampton komst yfir en United sýndi seiglu með því að komast í 1-3 með mörkum frá Martial og Mata. Í þeim sýndi United flotta spilamennsku og maður vonaði og hélt mögulega að liðið væri komið í gírinn. Markið frá Mata var t.d. skólabókardæmi um það hvernig Louis van Gaal vill hafa sóknarleikinn.
En, því miður klúðraðist þetta tímabilið nánast alfarið í nóvember og desember þegar liðið galt afhroð í leik eftir leik eftir leik. Sem betur fer er deildin að spilast á afskaplega skringilegan hátt þetta tímabilið og því á United á óskiljanlegan hátt ennþá séns á því að gera eitthvað.
Til þess þarf liðið að fara á góða sigurhrinu og ná í einhverja 4-5 sigurleiki í röð. Nú þegar eru komnir tveir góðir gegn Swansea og Liverpool. Southampton má gjarnan vera þriðja liðið á þessum lista.
Það hefur þó reynst United þrautinni þyngri að leggja Southampton á heimavelli þrátt fyrir að árangurinn á St. Mary’s hafi verið góður.
Við töpuðum til að mynda gegn Southampton á Old Trafford á síðasta tímabili á ansi svekkjandi hátt þegar Dusan Tadic stal sigrinum undir lokin en United var í því að klúðra dauðafærum í þessum leik [footnote]Hljómar kunnuglega.[/footnote]. Mig minnir að þessi leikur hafi að mörgu leytið markað endalok 3-5-2 kerfisins sem fór svo í taugarnar hjá mörgum stuðningsmönnum United.
Sögulega séð hefur þó United ágætt tak á Southampton en í síðustu 22 viðureignum í öllum keppnum hefur United unnið 16 sinnum, þrisvar hafa liðin gert jafntefli og þrisvar hefur Southampton unnið.
Þetta Southampton-lið er þó sögulega mjög sterkt miðað við eldri lið og Ronald Koemen hefur byggt ágætlega ofan á góða vinnu forvera síns Mauricio Pochettino. Southampton var Leiceister síðasta tímabils og var lengi vel í efsta hluta deildarinnar áður en þeim fataðist örlítið flugið í restina.
Þetta tímabil hefur ekki gengið alveg jafn vel eins og ef til vill við var að búast. Þeir leikmenn sem liðið keypti í fyrra og stóðu sig gríðarlega vel hafa ekki verið jafn öflugir í ár. Pelle, Tadic og Mané eru enn burðarásar liðsins og leiða liðið í markaskorun og stoðsendingum en þessir leikmenn voru sjóðandi heitir á síðasta tímabili.
Ef til vill munar þó mest um þá félaga Toby Alderweireld og Morgan Schneiderlin sem héldu á nýjar slóðir í sumar. Þessir menn voru lykilmenn í varnarleik liðsins á síðasta tímabili. Liðið var ótrúlega öflugt varnarlega, fékk aðeins á sig 33 mörk í deildinni og hélt hreinu 15 sinnum en aðeins meistarar Chelsea voru með betri árangur varnarlega. Það gengur ekki jafn vel þetta tímabilið en það er aðeins kominn janúar og liðið er búið að fá á sig 24 mörk. Það munar um minna.
En þrátt fyrir að vörnin sé veik geta Pelle, Tadic og Mane alveg gert United skráveifur og það er alveg ljóst að Ronald Koeman leggur allt í sölurnar til þess að vinna Louis van Gaal enda er þeim ekkert sérstaklega vel til vina eins og skjalfest hefur verið. Southampton er á mini-siglingu í deildinni eins og við og taplaust í tveimur síðustu leikjum gegn WBA og Watford.
Það stefnir því allt í hörkuleik á morgun
Okkar menn
Louis van Gaal hélt blaðamannafund fyrr í dag og var í nokkuð góðu formi, lét blaðamenn aðeins heyra það og svona. Hann kom þó einnig með ansi slæmar fréttir en Ashley Young er meiddur í nára og verður frá í langan tíma en hann þarf á aðgerð að halda.
Bakvarðabölvunin heldur áfram og liðið er orðið ansi þunnskipað í þeirri stöðu. Louis van Gaal staðfesti að United væri að leita sér að bakverði í janúarglugganum en það væri erfitt vegna þess að lið væru ekkert sérstaklega tilbúin til þess að selja leikmenn á þessum tímapunkti tímabilsins.
Phil Jones og Bastian Schweinsteiger eru einnig frá ásamt langtímameiðslapésunum okkar. Van Gaal staðfesti að Adnan Januzaj kæmi líklegast inn í hópinn en hann átti frábæran leik með u-21 liðinu gegn Southampton í vikunin þar sem hann skoraði og lagði upp mörk eins og honum væri borgað fyrir það.
Það ætti að vera létt yfir okkar mönnum eftir sigurinn gegn Liverpool og ágætt gengi frá áramótum. Ég hef ekki trú á öðru en að menn hafi nýtt vikuna vel í að undirbúa liðið gegn Southampton. Liðið þarf að fara að setja saman sigurhrinu og það má ekki mistakast gegn Southampton enda ljóst að United má ekki við því að tapa mikið fleiri stigum á tímabilinu og þá sérstaklega ekki á heimavelli.
Mér finnst líklegt að Mata komi inn fyrir Lingard sem átti ekkert sérstakan leik gegn Liverpool. Á miðjunni er spurning hvort að Carrick sé orðinn heill af sínum meiðslum en annars má reikna með að Schneiderlin og Fellaini verði á miðjunni. Stærsta spurningarmerkið er auðvitað bakvarðarstaðan. Líklega má gera ráð fyrir að Darmian verði í hægri bakverði og að Cameron Borthwick-Jackson spili vinstra megin en hann átti ágæta innkomu gegn Liverpool. Hver veit nema að það verði bara fjórir varnarmenn í vörn United á morgun?
Engar fregnir hafa borist af Rojo en sé hann góður af meiðslum er hann líklega ekk með nógu mikið ‘match rythm’ til að taka þátt, annars gæti hann komi inn í þessa stöðu.
Líklegt byrjunarlið
Leikurinn er á morgun, klukkan 15.00.
Skildu eftir svar