Jæja.
Á morgun heimsækir lið United Sunderland heim í stórleik helgarinnar. Það hefur staðið nokkur styr um Sunderland í vikunni enda var Adam Johnson, leikmaður liðsins, sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn barni og var hann í kjölfarið hreinlega rekinn frá liðinu.
Einn af betri leikmönnum Sunderland og við fyrstu sýn lítur því út fyrir að allt sé í rugli hjá liðinu sem er í 19. sæti og án sigurs í heilan mánuð.
Eða hvað?
Fyrir algjöra tilviljun hef ég horft á tvö síðustu leiki Sunderland, gegn City og Liverpool. Sunderland tapaði naumlega fyrir City og skrapaði saman í jafntefli gegn Liverpool á síðustu stundu.
Í báðum þessum leikjum, og þá sérstaklega á heimavelli gegn City, átti liðið ef til vill meira skilið. Nágrannar United í City voru t.d. mjög heppnir að sleppa með þrjú stig frá Stadium of Light þar sem heimamenn fengu fullt af fínum færum og voru betri en City á öllum sviðum leiksins nema því eina sem skiptir í rauna og veru máli.
Svo virðist sem að Big Sam hafi keypt vel í janúarglugganum. Hann fékk til sín varnarmennina Jan Kirchoff, Lamina Kone og miðjumanninn Wahbi Kazri. Þetta eru sannarlega engir kettir í neinum sekk því þeir hafa allir skotist upp á topp 10 í einkunnagjöf leikmanna Sunderland hjá tölfræðisíðunni WhoScored.
Big Sam er búinn að breyta liðinu í alveg klassískt Big Sam lið og ég skal alveg lofa ykkur því að hann mun láta liðið sitt liggja vel til baka sem eru alveg frábærar fréttir fyrir okkar menn.
Allardyce stýrði West Ham á síðasta tímabili og eftir jafntefli liðanna á Upton Park fyrir rétt rúmu ári stóðst hann ekki freistinguna og skaut aðeins á taktíkina hjá Louis van Gaal eftir leik. Long Ball Louis. Kaldhæðnin…
Okkar maður tók það auðvitað ekki í mál og lét útbúa skýringarmyndir við mikla lukku þar sem hann fór yfir afhverju United væri ekki háloftaboltalið. Hvernig er hægt að gleyma þessu?
Það er því smá saga á milli þessara stjóra.
Eins og ég sagði áðan mun Sunderland án efa liggja til baka, sérstaklega ef Jermaine Defoe verður ekki með en hann er tæpur vegna meiðsla. Hann er þeirra helsti markaskorari og líklega ástæðan fyrir því að liðið er í 19. sæti, fremur en því 20. Hann er búinn að skora 10 af 15 mörkum liðsins í Úrvalsdeildinni það sem af er.
En engu að síður, þetta verður erfiður leikur á morgun enda er leikstíll liðanna hans Sam Allardyce kryptónít liða Louis van Gaal.
United
Frá áramótum hefur United aðeins lyft sér upp eftir hörmulegt gengi um og fyrir jól. Það er hægt að kalla þetta mini-endurreisn en jafnteflið gegn Chelsea var samt mikil vonbrigði. Fyrir leik var Louis van Gaal eitthvað að tala um að liðið gæti komið sér aftur í titilbaráttuna með sigri en áttum okkur bara á því að sú barátta er löngu búinn að sigla framhjá Manchester United.
Liðið er 12 stigum frá toppliði Leicester og 6 stigum frá fjórða sætinu og aðeins 13 leikir eftir. Ef liðið ætlar sér að klifra upp í efsta hluta deildarinnar verða menn einfaldega að fara að setja saman 5-6 leikja sigurhrinu.
Þrátt fyrir að leikur liðsins hafi batnað að undanförnu er gengi liðsins alltof stöpult eins og sjá má á þessari mynd.
Maður afrekar nákvæmlega ekki neitt í þessari deild með því að vinna annan hvern leik og það er nákvæmlega ástæðan fyrir því að Jose Mourinho er sterklega orðaður við United, hvort sem Louis van Gaal líkar það betur eða verr.
Van Gaal virðist reyndar vera sammála mér um þörfina á því að vinna marga leiki í röð en þetta sagði hann á blaðamannafundi áðan:
LVG said @ManUtd could cope with the pressure of fighting for top four but that "we have to win a lot of matches in a row".
— Simon Stone (@sistoney67) February 12, 2016
Jones, Januzaj og Varela eru meiddir eftir leiki með u21 að undanförnu. Bastian Schweinsteiger er enn meiddur en það styttist víst óðum í þá félaga Rojo og Valencia.
Mér finnst ólíklegt að Van Gaal geri miklar breytingar á liðinu enda stóð það sig að mörgu leyti vel gegn Chelsea. Ég held raunar að það verði óbreytt, þriðja leikinn í röð.
Þetta er hádegisleikurinn á morgun, kl. 12.45.
Big Sam vs. Louis van Gaal, ekki missa af þessu.
Runar says
Ef við vinnum þennan leik ekki aftur á morgun.. þá vil ég Ella aftur í „Upphitun“!!! :P
Heiðar says
Það er erfitt að horfa ekki á leikinn í dag með þokkalega björtum augum. Þrátt fyrir ágætis frammistöður Sunderland í síðustu leikjum er liðið í rugli í heildina og rak sinn besta leikmann í vikunni sem leið. Á sama tíma hefur United liðið sýnt eitthvað meira og mun betra í síðustu þremur leikjum í deild og bikar heldur en við höfum séð til margra mánaða. Nú er bara að láta kné fylgja kviði og rúlla yfir svörtu kettina. Þetta verður þó pottþétt erfitt en ég ætla að leyfa mér að spá 0-2 sigri. Rooney og Martial með mörkin.